Leiðbeiningar um umsagnir um þingmál
Nefndir senda að jafnaði öll þingmál sem þær hafa til umfjöllunar til umsagnar þeim er málið varðar. Yfirleitt er umsagnaraðilum veittur tveggja til þriggja vikna frestur til að koma skriflegum athugasemdum á framfæri við nefnd. Þessi frestur getur þó verið styttri eða lengri eftir aðstæðum hverju sinni. Það fer eftir eðli og umfangi máls hve margir fá það til umsagnar.
Ákvörðun um hverjum skuli send þingmál til umsagnar er tekin á nefndarfundi. Venja er að verða við öllum óskum sem fram koma um umsagnaraðila frá nefndarmönnum. Rétt er að hafa í huga að þeim sem fá mál til umsagnar er ekki skylt að svara.
Öllum er frjálst að senda nefnd skriflega umsögn um þingmál að eigin frumkvæði og hefur slík umsögn sömu stöðu og þær sem berast samkvæmt beiðni nefndar.
Meginreglan er sú að aðgangur að erindum til nefnda er öllum heimill og eru þau birt á vef.
Sjá nánar í reglum sem forsætisnefnd hefur sett um meðferð erinda til þingnefnda.
Leiðbeiningar um ritun umsagna
Umsögn skal vera skýr og skipulega upp sett til að auðvelda þingnefnd yfirferð og mat á efni hennar. Eftirfarandi atriði skal hafa að leiðarljósi:
- Merkið umsögn greinilega með nafni sendanda, dagsetningu og númeri og heiti þingmáls.
- Ef engar athugasemdir eru þarf ekki að senda sérstaka tilkynningu þess efnis.
- Ef um er að ræða frumvarp er best að fylgja efnisröðun frumvarpsins, þó þannig að fyrst komi almennt álit um málið sé þess talin þörf. Þá skal gera athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins. Best er að fylgja einfaldlega uppsetningu frumvarpsins þannig að athugasemdir og hugleiðingar um efni einstakra greina komi fram undir númeri greinar.
- Óþarfi er að fjalla um aðrar greinar frumvarpsins en þær sem umsagnaraðili gerir athugasemdir við.
- Athugið að ekki er unnt að breyta texta í greinargerð með frumvarpinu eftir að mál hefur verið lagt fram á Alþingi. Það er texti lagafrumvarpsins sem Alþingi samþykkir sem lög en texti greinargerðar með frumvarpi hefur ekki lagagildi sem slíkur og er einungis til skýringar. Athugasemdir við framsetningu efnis í greinargerð gætu því komið fram í almennri umfjöllun um frumvarpið.
- Mikilvægt er að tillögur um breytt orðalag, viðbætur við einstakar greinar eða kafla, brottfellingar og þess háttar komi skýrt fram.
- Athugið að gera ekki aðeins athugasemd um að orðalag sé óljóst, tvírætt eða ónákvæmt, betra er að rökstyðja í kjölfarið hvað er óljóst við textann og hvernig umsagnaraðili leggur til að orðalagið verði.
- Sömu grundvallarreglur gilda um umsagnir um tillögur til þingsályktunar að breyttu breytanda.
- Fylgiskjöl mega fylgja umsögn en mælst er til þess að umfang þeirra sé takmarkað eftir megni.
Svör við umsagnarbeiðnum og athugasemdir um þingmál skal senda á rafrænu formi á netfangið nefndasvid@althingi.is.