Skrifstofa Alþingis

Hlutverk skrifstofu Alþingis er að styðja við starfsemi Alþingis svo að þingið og þingmenn geti sinnt hlutverkum sínum samkvæmt stjórnarskrá og lögum. Meginverkefni skrifstofunnar eru að vera forseta til aðstoðar, framfylgja ákvörðunum hans og forsætisnefndar auk ákvarðana á fundi forseta með þingflokksformönnum. Enn fremur að veita alþingismönnum, nefndum og þingflokkum faglega aðstoð og þjónustu, að hafa á hendi almennan rekstur þingsins og stjórnsýslu og að varðveita og miðla upplýsingum um hlutverk og starfsemi Alþingis.

Starfsfólk skrifstofunnar veitir þingmönnum aðstoð og ráðgjöf sem byggist á gögnum, staðreyndum og faglegu mati svo að þingmenn geti sinnt skyldum sínum sem þjóðkjörnir fulltrúar. Veitt er fagleg þjónusta þar sem gætt er að hlutleysi og áreiðanleika og gætir starfsfólk trúnaðar í störfum sínum.

Skrifstofa Alþingis annast margvíslega þjónustu við þingmenn og þau sem leita þurfa upplýsinga eða með erindi sín til þingsins. Gildi skrifstofu Alþingis eru fagmennska, virðing og framsækni.

Nýtt skipulag skrifstofunnar tók gildi 1. janúar 2023. Skrifstofan skiptist í sex svið og innan þeirra starfa deildir. Markmið skipulagsbreytingarinnar er að bæta þjónustu við þingmenn, forseta Alþingis og hina pólitísku forystu, sem og við almenning og samfélag. Lögð er áhersla á að ábyrgð á verkefnum og umboð til athafna sé skýrt og samvinna eigi sér stað þvert á einingar með markvissum og skipulögðum hætti. Skipulagið samræmist hlutverki skrifstofunnar og byggist á þverfaglegu starfi og teymisvinnu þar sem unnið er þvert á einingar skrifstofunnar eins og þörf krefur á hverjum tíma. Framkvæmdastjórn skrifstofunnar er skipuð sviðsstjórum allra sviða, auk skrifstofustjóra.

Laus störf á skrifstofu Alþingis eru auglýst með tilkynningum á vef Alþingis og á Starfatorgi.

 

Skipurit fyrir skrifstofu Alþingis

Hægt er að smella á heiti hverrar einingar á skipuritinu til að lesa meira.


Forseti Alþingis Skrifstofustjóri Alþingis Fjármála- og rekstrarsvið Mannauðs- og þróunarsvið Nefnda- og greiningarsvið Þingfunda- og útgáfusvið Samskipta- og alþjóðasvið Laga- og stjórnsýslusvið