Forsætisnefnd

Áheyrnarfulltrúar

Hlutverk forsætisnefndar

Þegar Alþingi kemur saman við þingsetningu á fyrsta fundi hvers kjörtímabils skal kosinn forseti og sex varaforsetar og skipa þeir forsætisnefnd. Varaþingmenn taka ekki sæti í forsætisnefnd í forföllum.

Forsaetisnefnd-13122021_Bragi-Thor
Forsætisnefnd 13. desember 2021.
Efri röð: Jódís Skúladóttir, 6. varaforseti, Líneik Anna Sævarsdóttir, 2. varaforseti,  og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir  áheyrnarfulltrúi.
Neðri röð: Diljá Mist Einarsdóttir, 4. varaforseti, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, 3. varaforseti, Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, Oddný G. Harðardóttir, 1. varaforseti, og Björn Leví Gunnarsson, 5. varaforseti.
Á myndina vantar Sigmund Davíð Gunnlaugsson áheyrnarfulltrúa.
©Bragi Þór Jósefsson

Forsætisnefnd skipuleggur þinghaldið, hefur umsjón með alþjóðasamstarfi, fjallar um fjárhagsáætlanir þingsins og setur almennar reglur um rekstur þingsins og stjórnsýslu. Auk þess fjallar nefndin um þau mál sem forseti leggur fyrir hana eða varaforsetar óska að ræða. 

Nánari grein er gerð fyrir verkefnum forsætisnefndar í 2. gr. reglna um störf og starfshætti forsætisnefndar.

Reglur settar af forsætisnefnd

Fundir forsætisnefndar

Forsætisnefnd fundar að jafnaði einu sinni í viku yfir þingtímann og er fastur fundartími nefndarinnar á mánudögum kl. 11.45. Aukafundir eru haldnir eftir þörfum. Auk forseta og varaforseta og eftir atvikum áheyrnarfulltrúa sitja fund nefndarinnar skrifstofustjóri Alþingis, varaskrifstofustjóri og fjármála- og rekstrarstjóri.

Ákvarðanir forsætisnefndar

Í lokamálslið 6. gr. reglna um störf og starfshætti forsætisnefndar Alþingis segir að birta skuli ákvarðanir úr staðfestum fundargerðum forsætisnefndar, sem upplýsingalög taka til, á vef Alþingis. Þar segir jafnframt að heimilt sé að birta aðrar ákvarðanir forsætisnefndar, svo sem um störf Alþingis og stofnanir þess, samkvæmt ákvörðun nefndarinnar hvert sinn. Allir liðir á dagskrá forsætisnefndar eru birtir og ákvarðanir birtar við þá liði sem við á.

Ákvarðanir forsætisnefndar eru birtar í tímaröð funda, þannig að sú nýjasta er efst. Miðast fyrsta birtingin, sem er neðst á listanum, við þann fund nefndarinnar þar sem reglurnar voru samþykktar, 17. mars 2020.

Ákvarðanir forsætisnefndar