Reglur um alþjóðanefndir Alþingis

1. gr.

Alþjóðanefndir Alþingis skulu skipaðar sem hér segir, sbr. 35. gr. þingskapa:

 1. Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins: Þremur þingmönnum og þremur til vara.
 2. Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins: Þremur þingmönnum og þremur til vara.
 3. Íslandsdeild NATO-þingsins: Þremur þingmönnum og þremur til vara.
 4. Íslandsdeild þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE-þingið): Þremur þingmönnum og þremur til vara.
 5. Íslandsdeild Þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál: Þremur þingmönnum og þremur til vara.
 6. Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES: Fimm þingmönnum og fimm til vara.
 7. Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins: Sex þingmönnum og sex til vara.
 8. Íslandsdeild Norðurlandaráðs: Sjö þingmönnum og sjö til vara.


2. gr.

Alþjóðanefndir skal kjósa á þingsetningarfundi Alþingis að loknum alþingiskosningum og gildir kosningin fyrir allt kjörtímabilið.

Þegar aðalmenn og varamenn í alþjóðanefndir eru kosnir á þingsetningarfundi samkvæmt tillögu formanna þingflokka boðar kosinn formaður fyrsta fund nefndarinnar að jafnaði innan viku frá kosningu.

Náist ekki samkomulag milli þingflokka um nefndaskipan eða formennsku í nefndum og kosið til nefndanna á þingsetningarfundi eftir reglum 14. gr. þingskapa skal sá boða til fyrsta fundar nefndar sem fyrstur var kosinn í nefndina, að jafnaði innan viku frá kosningu hennar. Á þeim fundi skal nefndin kjósa sér formann og varaformann. Forseta Alþingis skal tilkynnt um kjörið strax að loknum fundi.

3. gr.

Þingflokkum er heimilt að hafa mannaskipti í alþjóðanefndum, sbr. 16. gr. þingskapa.


4. gr.

Um starfsreglur alþjóðanefnda gilda sömu reglur og um fastanefndir, eftir því sem við á.

5. gr.

Hver alþjóðanefnd hefur alþjóðaritara sem er nefndinni til aðstoðar. Alþjóðaritari aðstoðar formann við að skipuleggja vinnu nefndarinnar. Hann undirbýr og situr alla fundi nefndarinnar, annast samskipti við þau alþjóðasamtök sem nefndin starfar innan og undirbýr þátttöku í fundum alþjóðasamtaka. Alþjóðaritari skal fylgja nefnd á fundi alþjóðasamtaka og vera nefndarmönnum til aðstoðar. Þá hefur alþjóðaritari á hendi önnur þau verkefni sem nefndin ákveður.

6. gr.

Alþjóðanefndir skulu halda rafræna gerðabók um það sem fram fer á fundum. Alþjóðaritari ritar fundargerð og skal fundargerð undirrituð af formanni og alþjóðaritara. Um fundargerðir alþjóðanefnda fer að öðru leyti skv. reglum um fundargerðir fastanefnda.

7. gr.

Forsætisnefnd tekur ákvörðun um árleg fjárframlög til alþjóðanefnda og taka þau tillit til umfangs þess starfs sem unnið er innan einstakra alþjóðasamtaka.

Þátttaka hverrar alþjóðanefndar í starfi alþjóðasamtaka skal að jafnaði vera bundin við aðalmenn og skal við það miðað að allir aðalmenn sæki þing eða samsvarandi fundi samtakanna. Í forföllum aðalmanns sækir varamaður úr sama flokki eða af sama lista slík þing eða fundi. Ef varamaður er einnig forfallaður er þingflokki aðalmanns heimilt að tilnefna annan þátttakanda ef reglur viðkomandi alþjóðsamtaka heimila slíkt.

Formaður alþjóðanefndar situr að jafnaði fyrir hennar hönd í stjórnarnefnd eða samsvarandi nefnd þeirra alþjóðasamtaka sem deildin sinnir. Í forföllum formanns situr varaformaður fundina eftir því sem við á. Þátttaka í öðrum nefndafundum, sem haldnir eru utan reglulegra þinga alþjóðasamtaka, skal að jafnaði bundin við aðalmenn og miðast við að unnt sé að sinna þeim skyldum sem í starfi nefndanna felast og fjárveitingar leyfa.

8. gr.

Sendinefnd, sem fer á þing eða samsvarandi fund á vegum alþjóðanefndar, skal að lokinni ferð gera grein fyrir ferðinni með stuttri frásögn um fundinn og helstu niðurstöðum hans. Frásögnin skal birt á vef Alþingis.

Þingmenn, sem sækja nefndafundi milli reglulegra þingfunda, skulu veita öðrum þingmönnum, sem sitja í sömu alþjóðanefnd, upplýsingar um helstu málefni og niðurstöður fundarins.

9. gr.

Alþjóðanefnd skal birta Alþingi árlega skýrslu um störf sín sbr. 5 gr. þingskapa. Í ársskýrslu alþjóðanefndar skal gefa yfirlit um starfsemi nefndarinnar, þar á meðal um fundi sem voru sóttir á vegum hennar, hverjir tóku þátt í þeim, fundarefni og niðurstöður.

Að jafnaði skal skipulag ársskýrslu vera eftirfarandi:

 1. Inngangur.
 2. Almennt um viðkomandi þingmannasamtök.
 3. Skipan Íslandsdeildar.
 4. Starfsemi Íslandsdeildar.
 5. Fundir sóttir á árinu.
 6. Listi tilmæla.

Ársskýrslur skal miða við almanaksár.

10. gr.


Eftir að ársskýrslum alþjóðanefnda hefur verið útbýtt tekur utanríkismálanefnd þær til umfjöllunar sbr. 55. gr. þingskapa. Við umfjöllun sína getur utanríkismálanefnd kallað formenn alþjóðanefnda á sinn fund. Utanríkismálanefnd getur lagt fram skýrslu um alþjóðastarf Alþingis, á grundvelli ársskýrslna alþjóðanefnda.

11. gr.

Óski alþjóðanefnd eftir að fá umræðu á Alþingi um tiltekið málefni, er varðar þau alþjóðasamtök sem hún sinnir, getur hún lagt fyrir þingið skýrslu um málið.

12. gr.

Reglur þessar eru settar á grundvelli 5. mgr. 35. gr. þingskapa.

(Samþykkt á fundi forsætisnefndar 17. maí 1999, breytt 12. mars 2012).