Hagsmunaskráning

Reglur um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum alþingismanna og trúnaðarstörfum utan þings voru afgreiddar frá forsætisnefnd 16. mars 2009 og endanlega samþykktar í forsætisnefnd 23. mars. Reglurnar hafa þrívegis verið endurskoðaðar; 28. nóvember 2011, 14. janúar 2019 og 2. júní 2020, og eru þær birtar á vef Alþingis.

Skráning þessi er kjósendum til upplýsingar og er ætlað að auka gagnsæi í störfum Alþingis. Skráðir hagsmunir hafa engin formleg áhrif á störf alþingismanna umfram það sem þingmenn sjálfir kjósa, enda eru alþingismenn í störfum sínum eingöngu bundnir við sannfæringu sína, sbr. 48. gr. stjórnarskrár, og standa aðeins kjósendum skil gerða sinna í almennum kosningum. Þeir eru ekki bundnir af hæfisreglum hliðstæðum þeim sem gilda um stjórnsýsluna eða dómendur í störfum sínum að öðru leyti en því að skv. 3. mgr. 78. gr. þingskapa má enginn þingmaður greiða atkvæði með fjárveitingu til sjálfs sín.

Alþingismenn geta því tekið þátt í meðferð og afgreiðslu mála á þinginu óháð hagsmunatengslum. Það er ein af grundvallarreglum í stjórnmálum lýðræðisríkja að þingmenn taki ákvarðanir um hvaða hagsmuni á að taka fram yfir aðra. Séu þeir tengdir þeim persónulega er þeim í sjálfsvald sett að segja sig frá máli. Það er þeirra ákvörðun og á þeirra ábyrgð.