Gagnleg vefföng
Markmið, uppbygging og starfsemi
NATO-þingið var stofnað árið 1955 sem samstarfs- og samráðsvettvangur þingmanna aðildarríkja NATO. Í dag eiga 30 aðildarríki Atlantshafsbandalagsins sæti á NATO-þinginu og 11 ríki aukaaðild. Í Norður-Atlantshafssamningnum, stofnsamningi NATO, frá árinu 1949 er ekki gert ráð fyrir ráðgjafarsamkundu þingmanna. Smám saman áttuðu menn sig á því að skipulegt samstarf þjóðþinganna í tengslum við og til stuðnings bandalaginu væri nauðsynlegt. Þingið hefur þó enga formlega stöðu innan bandalagsins en með árunum hefur komist á náin og virk samvinna NATO-þingsins og NATO. Sem dæmi má nefna árlega fundi stjórnarnefndar þingsins (NATO PA Standing Committee) með Norður-Atlantshafsráðinu og framkvæmdastjóra NATO, ávarp framkvæmdastjórans á haustfundum þingsins og formleg svör við ályktunum og tillögum þingsins af hálfu framkvæmdastjórans fyrir hönd Norður-Atlantshafsráðsins. Fram til ársins 1999 hét þingið Norður-Atlantshafsþingið (North Atlantic Assembly).
Meginhlutverk NATO-þingsins er að upplýsa og efla samstöðu þjóðþinganna. Þingið er vettvangur þar sem þingmenn aðildarríkja NATO og aukaaðildarríkja geta fræðst um málefni bandalagsins, komið skoðunum sínum og áhyggjuefnum á framfæri og skipst á skoðunum um öryggis- og varnarmál. Þannig kynna þeir sín viðhorf og fræðast um leið um viðhorf annarra í Atlantshafsbandalaginu. Í seinni tíð hefur NATO-þingið ekki síst gegnt mikilvægu hlutverki í samskiptum bandalagsins og aðildarríkja þess við ríki Mið- og Austur-Evrópu.
Á NATO-þinginu eiga sæti 269 þingmenn frá aðildarríkjunum 30, auk þingmanna aukaaðildarríkja. Fjöldi fulltrúa frá hverju þjóðþingi er í hlutfalli við fólksfjölda í hverju ríki, og hefur Ísland þrjá fulltrúa eins og Eistland, Lettland, Lúxemborg og Slóvenía. Bandaríkin eiga 36 fulltrúa á þinginu, Bretland, Frakkland, Ítalía og Þýskaland 18 fulltrúa hvert, en önnur ríki færri. Auk fulltrúanna má hvert þjóðþing tilnefna jafnmarga varamenn og mega þeir taka fullan þátt í störfum þingsins en hafa ekki atkvæðisrétt. Formenn landsdeildanna, forseti þingsins, fimm varaforsetar, gjaldkeri og nefndaformenn mynda stjórnarnefnd sem fjallar um ýmis innri málefni þingsins. Auk hennar starfa fimm málefnanefndir og átta undirnefndir þeirra innan þingsins. Loks mynda forseti, varaforsetar og gjaldkeri framkvæmdastjórn þingsins. Þingið kemur saman tvisvar á ári, til vorfundar og ársfundar. Á vorfundum eru rædd drög að skýrslum og ályktunum nefndanna sem síðan eru afgreidd á ársfundum. Jafnframt hittist stjórnarnefnd árlega utan þingfunda og fjallar um innri málefni þingsins og jafnframt heldur hún fund með Norður-Atlantshafsráðinu. Loks heldur hver málefnanefnd þingsins nokkra fundi á ári. Á fundum þingsins eru ræddar skýrslur um einstök málefni og ályktað á grundvelli þeirra. Ályktunum og tillögum þingsins er ýmist beint til Norður-Atlantshafsráðsins, ríkisstjórna, þjóðþinga eða annarra fjölþjóðastofnana.
Nefndaseta Íslandsdeildar NATO-þingsins
Stjórnarnefnd
Njáll Trausti Friðbertsson.Stjórnmálanefnd
Njáll Trausti Friðbertsson.Varnar- og öryggismálanefnd
Stefán Vagn Stefánsson.Nefnd um lýðræði og öryggi
Andrés Ingi Jónsson.Efnahags- og öryggisnefnd
Andrés Ingi Jónsson.Vísinda- og tækninefnd
Njáll Trausti Friðbertsson.Vinnuhópur um Miðjarðarhafssvæðið
Stefán Vagn Stefánsson.Frekari upplýsingar um NATO-þingið, m.a. skýrslur, dagskrár og fréttir, má finna á vef NATO-þingsins.