Forseti Alþingis
Meginhlutverk forseta Alþingis er að sjá um að ákvæði stjórnarskrár, sem varða Alþingi og þingsköp Alþingis, séu haldin. Forseti Alþingis er einn handhafa forsetavalds ásamt forsætisráðherra og forseta Hæstaréttar í fjarveru og forföllum forseta Íslands.
Forseti Alþingis er kjörinn sérstakri kosningu á fyrsta fundi fyrsta þings hvers kjörtímabils. Gildir kosningin fyrir allt kjörtímabilið. Einnig eru kjörnir sex varaforsetar og hafa þingflokkarnir jafnan komið sér saman um val þeirra fyrir fram. Forseti og varaforsetar skipa forsætisnefnd sem tekur ákvarðanir um margvísleg málefni sem varða Alþingi. Enn fremur á forseti samstarf við þingflokksformenn um skipulag þingstarfa.
Þingforseti stjórnar fundum Alþingis. Hann hefur rétt til að taka þátt í umræðum líkt og aðrir þingmenn og gegnir þá einhver varaforsetanna fundarstjórninni á meðan. Forseti Alþingis hefur atkvæðisrétt í þingsalnum.
Þingforsetinn stýrir störfum Alþingis. Oft þarf hann að sætta ólík sjónarmið og gæta hagsmuna margra aðila. Þannig getur þingforseti ekki látið sjónarmið eigin flokks ráða gerðum sínum heldur verður hann að gæta þess að tekið sé á erindum allra þingmanna af sanngirni og réttsýni.
Forseti Alþingis kemur víða fram fyrir hönd Alþingis og tekur þátt í alþjóðlegu samstarfi forseta þjóðþinga.
Að loknum alþingiskosningum gegnir störfum forseta sem ekki er endurkjörinn, sá varaforseti sem næst honum gengur í röð endurkjörinna varaforseta, frá kjördegi og fram til þingsetningar, skv. 2. mgr. 6. gr. þingskapa.
Birgir Ármannsson var kjörinn forseti Alþingis 1. desember 2021, við upphaf 152. löggjafarþings.
© Bragi Þór Jósefsson