Forsetar Alþingis
Í upphafi hins endurreista Alþingis árið 1845 voru forsetar þess tveir, forseti og varaforseti. Við deildaskiptingu Alþingis 1875 urðu forsetar sex, við bættust forseti og varaforseti í hvorri deild. Á Alþingi 1905 var samþykkt að bæta við einum varaforseta í hvorri deild og voru tveir varaforsetar í deildum fyrsta sinn kosnir í upphafi Alþingis 1907. Á Alþingi 1934 var samþykkt að bæta við varaforseta í sameinuðu þingi og var hann síðan kosinn á þinginu.
Við breytingu Alþingis í eina málstofu árið 1991 varð forseti þess einn, en varaforsetar fjórir. Árið 1992 var varaforsetum fjölgað í sex, en fækkað aftur í fjóra 1995. Árið 2007 var þingsköpum á ný breytt þannig að kjörnir skuli sex varaforsetar. Forseti Alþingis og varaforsetar mynda forsætisnefnd Alþingis.
Á Alþingi 1905 var tekið í þingsköp ákvæði um að kjósa milliþingaforseta, ef forsetar ættu búsetu fjarri Reykjavík utan þingtíma. Hélst sú heimild í þingsköpum fram á árið 1972. Var hún notuð nokkrum sinnum, fyrst árið 1912, síðast árið 1933. Áður hafði þrisvar, 1883, 1889 og 1901, verið kosinn af sömu ástæðum varaforseti í þinglok.
Þrisvar sinnum voru samþykkt í upphafi þings þau afbrigði frá þingsköpum að forsetar yrðu hinir sömu og á næsta þingi á undan. Það var á aukaþingi 1918 og tveimur aukaþingum 1941.
Allmörgum sinnum var forsetum veitt lausn á þingtíma og kjörnir forsetar í þeirra stað. Oftast var ástæðan sú að forseti varð ráðherra. Fyrstu tvö skiptin var lausn veitt með atkvæðagreiðslu, en síðar mun hafa verið veitt þegjandi samþykki án þess að leitað væri atkvæða. Aðrar ástæður voru til lausnarbeiðni og koma þær fram í skrá um aukakosningar forseta Alþingis.
Á Alþingi 1909 báðust báðir varaforsetar efri deildar lausnar. Ástæða þeirrar lausnarbeiðni var sú að forseti deildarinnar var kvaddur á fund konungs í Kaupmannahöfn. Við það missti staðgengill hans í forsetastól atkvæðisrétt, en þá urðu atkvæðisbærir stuðningsmenn stjórnar og andstæðingar hennar jafnmargir í deildinni. Synjað var um lausn eftir nokkrar umræður á fundi deildarinnar 10. mars. Níu deildarmenn vildu leyfa hana, en fjórir greiddu atkvæði gegn lausn, en þrjá fjórðu atkvæða þurfti til að veita forseta lausn.
Skrifstofa Alþingis: Byggt á Alþingismannatali 1996. Síðast breytt 4. maí 2010.