Evrópuráðs­þingið

Parliamentary Assembly of the Council of Europe, PACE

Alþjóðaritari

Bylgja Árnadóttir alþjóðastjórnmálafræðingur

Gagnleg vefföng

 

Markmið, uppbygging og starfsemi

Evrópuráðið var stofnað 5. maí árið 1949. Helstu stofnanir Evrópu­ráðsins eru ráðherranefndin og Evrópu­ráðs­þingið. Alþingi hefur átt aðild að Evrópu­ráðsþinginu síðan 1950. Stofnríki Evrópu­ráðsins voru 10 en upp úr lokum kalda stríðsins fjölgaði þeim verulega og um mitt ár 2007 voru aðildarríkin orðin 47. Í þessum ríkjum búa um 804 milljónir manna. Auk þeirra eiga þrjú ríki áheyrnaraðild með rúmlega 570 milljónir manna. Eitt ríki, Hvíta-Rússland, hefur stöðu sérstaks gests. Þá eiga tvö ríki, Palestína og Marokkó, í sérstöku lýðræðissamstarfi við Evrópuráðsþingið og senda þau fulltrúa sína á fundi þingsins.

Markmið Evrópu­ráðsins er að standa vörð um hugsjónir aðildar­ríkjanna um mannréttindi og lýðræði og stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum innan þeirra. Starfsemi Evrópu­ráðsins nær í reynd til allrar ríkjasamvinnu, að undanskildum öryggis- og varnarmálum í herfræðilegum skilningi. Skilyrði til inngöngu í Evrópu­ráðið er að viðkomandi ríki hafi fullgilt mann­réttinda­sáttmála Evrópu og er ráðið þannig viðmiðun fyrir þær þjóðir sem eru að stofna eða endurreisa lýðræði og réttarríki í sínu landi. Fulltrúar á þingi Evrópu­ráðsins samþykkja eða hafna inngöngu nýrra aðildarríkja í atkvæðagreiðslu.

Á Evrópuráðs­þinginu eiga 318 fulltrúar sæti og jafnmargir varamenn. Bæði aðal- og varamenn geta sótt þingfundi, en einungis aðalmenn hafa atkvæðisrétt. Í ráðherra­ráðinu hefur hvert ríki eitt atkvæði. Fjöldi fulltrúa í þinginu fer eftir stærð þjóðar. Þingið starfar í 8 málefnanefndum og 20 undirnefndum þeirra, en einnig starfa í þinginu fimm flokkahópar. Þá sitja forseti, 20 varaforsetar og fimm formenn flokkahópa og 10 formenn málefnanefnda í framkvæmdastjórn þingsins, sem hefur umsjón með innri málefnum þess. Sami hópur skipar stjórnarnefnd ásamt formönnum landsdeilda. Smærri ríki skiptast á sætum í framkvæmdastjórn sem kemur fram fyrir hönd þingsins á milli þingfunda. Loks sitja fulltrúar framkvæmda­stjórnar auk þeirra landsdeilda, sem eiga ekki sæti í henni hverju sinni (oftast formenn), í sameiginlegri nefnd með ráðherranefnd sem heldur ávallt fundi í tengslum við þingfundi. Þingið heldur fundi fjórum sinnum á ári, í janúar, apríl, júní og október, og stendur hver fundur yfir í eina viku í senn. Á þing­fundum eru skýrslur nefnda ræddar og um þær ályktað. Tilmælum og álitum er vísað til ráðherra­nefndarinnar sem fjallar um þær og annast framkvæmd þeirra ef þurfa þykir, t.d. með beinum aðgerðum, tilmælum eða með frumkvæði að lagasetningu í þjóðþingum. Nefndir þingsins hittast 4-8 sinnum á ári utan þingfunda.

Evrópuráðs­þingið á oft frumkvæði að samningu fjölþjóðlegra sáttmála sem eru lagalega bindandi fyrir þau aðildarríki sem undirrita þá. Mannréttinda­sáttmáli Evrópu og félagsmála­sáttmáli Evrópu eru dæmi um slíka sáttmála. Þá er Evrópuráðs­þingið umræðu­vettvangur um stjórnmál, efnahagsmál, félagsmál, mannréttindamál, umhverfismál, vísindi, menningar- og menntamál. Á þingfundum starfa þingmenn saman, bera saman bækur sínar og skiptast á hugmyndum, sem er nýfrjálsum lýðræðisríkjum Mið- og Austur-Evrópu ekki síst mikilvægt. Evrópuráðið hefur allt frá falli Berlínarmúrsins gegnt mikilvægu hlutverki í því að styðja þjóðir Mið- og Austur-Evrópu á leið til lýðræðis, m.a. með lögfræðilegri aðstoð, tækniaðstoð og kosningaeftirliti. Þá hafa sáttmálar ráðsins áhrif á aðrar fjölþjóðastofnanir. Virðing fyrir mannréttinda­sáttmála Evrópu var t.d. gerð að inngönguskilyrði í Evrópu­sambandið í Amsterdam­sáttmálanum. Loks má geta þess að fulltrúar á Evrópuráðs­þinginu kjósa dómara til setu í Mannréttinda­dómstól Evrópu.  

Nefndaseta Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins 

Stjórnarnefnd

Ólafur Þór Gunnarsson.

Stjórnmála- og lýðræðisnefnd

Ólafur Þór Gunnarsson.

Laga- og mannréttindanefnd

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.

Nefnd um félagsmál, heilbrigðismál og sjálfbæra þróun

Bergþór Ólason.

Nefnd um fólksflutninga og málefni flóttamanna

Ólafur Þór Gunnarsson.

Nefnd um menningar- og menntamál, fjölmiðla og vísindi

Bergþór Ólason.

Jafnréttisnefnd

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.

Nefnd um starfsreglur þingsins

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.

Eftirlitsnefnd

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Birgir Þórarinsson.

Vefur Evrópuráðsþingsins.