Sögulegt yfirlit

Fyrstu fastanefndirnar árið 1915

Árið 1915 var ákveðið í þingsköpum að kosnar skyldu 14 fastanefndir, en fram til þess tíma var venja að skipa nefnd um hvert mál. Þessar nefndir voru fjárhags­nefnd, fjárveitinga­nefnd, samgöngumála­nefnd, landbúnaðar­nefnd, sjávar­útvegs­nefnd, menntamála­nefnd og allsherjar­nefnd, allar bæði í efri og neðri deildum þingsins. Voru 5 menn í hverri nefnd að því undanskildu að 7 voru í fjárveitinga­nefnd neðri deildar.

Utanríkismálanefnd árið 1928

Árið 1928 bættist við ein nefnd, utanríkismálanefnd. Skyldi hún kosin í sameinuðu þingi og skipuð 7 mönnum. Árið 1936 var síðan með breytingu á þingsköpum ákveðið að auk 7 aðalmanna skyldu kosnir jafnmargir varamenn. Fram til ársins 2011 (140. löggjafarþings) var utanríkismála­nefnd eina nefndin sem í voru kjörnir varamenn.

Iðnaðarnefnd árið 1932

Með breytingu á þingsköpum árið 1932 bættist iðnaðar­nefnd í hóp þeirra nefnda sem kosnar voru í báðum deildum þingsins. Voru fasta­nefndir þingsins þá orðnar 17 talsins.

Fjárveitinganefnd kosin af sameinuðu þingi árið 1934

Árið 1934 var þingsköpum breytt á þann veg að fjárveitinganefnd skyldi kosin í sameinuðu Alþingi og yrði skipuð 9 mönnum. Fækkaði nefndum þingsins um eina við þessa breytingu þar sem fjárveitinga­nefndir lögðust af í deildum þingsins.

Allsherjarnefnd kosin af sameinuðu þingi árið 1938

Með breytingu á þingsköpum árið 1938 bættist við ný nefnd, allsherjar­nefnd, skipuð 7 mönnum, sem kosin skyldi í sameinuðu þingi. Eftir sem áður voru allsherjar­nefndir einnig kosnar í báðum deildum þingsins.

Nefndarmönnum í nefndum deilda fjölgað árið 1964

Árið 1964 var nefndarmönnum í hverri nefnd deildanna fjölgað úr 5 í 7. 

Nefndum fjölgað árið 1972

Árið 1972 var ákveðið að kosnar yrðu atvinnumála­nefnd, heilbrigðis- og trygginga­nefnd og félagsmála­nefnd. Skyldi kjósa heilbrigðis- og trygginga­nefnd og félagsmála­nefnd í báðum deildum þingsins en sameinað þing skyldi kjósa atvinnumála­nefnd sem skipuð yrði 7 mönnum. Var þeirri nefnd ætlað að fjalla um mál sem landbúnaðar-, sjávarútvegs- og iðnaðar­nefndir í deildum mundu fjalla um ef þau væru borin fram í frumvarps­formi. Eftir þessar breytingar voru nefndir sem skipa átti í deildum orðnar 18 talsins og nefndir sameinaðs þings fjórar, og því alls 22 nefndir í þinginu. Samtímis var nafni fjárhags­nefnda efri og neðri deildar breytt í fjárhags- og viðskipta­nefnd.

Breytingar á fjölda nefndarmanna í fjárveitinganefnd

Árið 1974 var nefndarmönnum í fjárveitinga­nefnd fjölgað úr 9 í 10. Árið 1978 var þeim fækkað í 9, en fjölgað aftur í 10 árið 1983. Árið 1985 var þeim síðan aftur fækkað í 9 og hélst sú skipan þar til þeim var fjölgað í 11 árið 1991.

Félagsmálanefnd í sameinuðu þingi árið 1985

Árið 1985 bættist félagsmálanefnd í hóp þeirra nefnda sem kosnar voru í sameinuðu þingi, en áfram voru þó kosnar félagsmála­nefndir í báðum deildum þingsins. Fjölgaði nefndum þingsins því í 23 við þessa breytingu.

Alþingi í einni málstofu árið 1991

Árið 1991 voru gerðar veigamiklar breytingar á þingsköpum þegar deildaskipting þingsins var lögð af. Fasta­nefndir þingsins urðu 12, allsherjar­nefnd, efnahags- og viðskipta­nefnd, félagsmála­nefnd, fjárlaga­nefnd, heilbrigðis- og trygginga­nefnd, iðnaðar­nefnd, landbúnaðar­nefnd, menntamála­nefnd, samgöngu­nefnd, sjávarútvegs­nefnd, umhverfis­nefnd og utanríkis­mála­nefnd. Hver nefnd var skipuð 9 þingmönnum að því undanskildu að 11 sátu í fjárlaga­nefnd en auk þess voru kosnir 9 varamenn í utanríkis­mála­nefnd.

Breytingar á nefndum árið 2007

Árið 2007 voru gerðar breytingar á þingsköpum í tengslum við breytingar á lögum um Stjórnar­ráð Íslands. Efnahags- og viðskipta­nefnd var skipt upp í tvær nefndir, efnahags- og skattanefnd annars vegar og viðskipta­nefnd hins vegar. Félagsmálanefnd breyttist í félags- og tryggingamála­nefnd og heilbrigðis- og trygginganefnd breyttist í heilbrigðisnefnd. Þá voru sjávarútvegs­nefnd og landbúnaðarnefnd sameinaðar undir heitinu sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.

Breytingar á nefndum árið 2011

Breytingar á þingsköpum þar sem fastanefndum Alþingis var fækkað úr tólf í átta tóku gildi 1. október 2011. Verkefni allsherjar­nefndar og menntamála­nefndar heyra nú að mestu leyti undir allsherjar- og menntamála­nefnd en að hluta til undir stjórn­skipunar- og eftirlits­nefnd. Verkefni efnahags- og skatta­nefndar og viðskiptanefndar heyra undir efnahags- og viðskipta­nefnd. Efnahags- og viðskipta­nefnd starfaði áður frá 114. til 134. þings en með breytingum sem gerðar voru á þingsköpum í tengslum við breytingar á stjórnarráðinu árið 2007 var málefnum nefndarinnar vísað annars vegar til efnahags- og skatta­nefndar og hins vegar til viðskipta­nefndar. Verkefni félags- og tryggingamála­nefndar og heilbrigðis­nefndar heyra undir velferðarnefnd. Verkefni iðnaðar­nefndar og sjávar­útvegs- og landbúnaðar­nefndar heyra undir atvinnu­veganefnd. Verkefni umhverfis­nefndar og samgöngu­nefndar heyra undir umhverfis- og samgöngu­nefnd.

Utanríkismálanefnd og fjárlaganefnd starfa áfram undir óbreyttum heitum en sú breyting var gerð að 9 nefndarmenn eru kjörnir í fjárlaganefnd í stað 11 áður.

Sérnefndir um stjórnarskrármál

Eftir breytingar á lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, með síðari breytingum, sem samþykktar voru á Alþingi 11. júní 2011, eru ekki lengur kosnar sérnefndir til að fjalla um stjórnarskrár­mál heldur fjallar stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um þau málefni.

Starfshópur utanríkismálanefndar um Evrópumál

Í júlí 2009 skipaði utanríkismálanefnd sérstakan starfshóp um Evrópumál í samræmi við nefndarálit meiri hluta nefndarinnar um tillögu til þings­ályktunar um aðildar­umsókn að Evrópu­sambandinu. Skipað var í starfshópinn á 138., 139., 140. og 141. þingi 2009-2013.