Annað alþjóðastarf sem heyrir undir forseta Alþingis

Þátttaka í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna

Alþingi á fulltrúa í sendinefnd Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sem fram fer á tímabilinu september til desember ár hvert. Alls sækja fjórir alþingismenn allsherjarþingið árlega og eru þeir tilnefndir af þingflokkum. Fulltrúar Alþingis sitja þingið í tvær vikur að jafnaði í októbermánuði. Þingmenn fá með þátttöku sinni tækifæri til að fræðast um starfsemi Sameinuðu þjóðanna. Þeir fylgjast með störfum allsherjarþingsins og sækja fundi í einstökum nefndum. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna er einn helsti vettvangur ríkja heims til að koma skoðunum sínum á framfæri og þar hefur hvert ríki eitt atkvæði. Þótt allsherjarþingið hafi ekki bein völd og geti ekki framfylgt ályktunum sínum er það mikilvægur samráðsvettvangur. Það hefur siðferðilegt vægi í alþjóðamálum og hefur unnið að bindandi alþjóðalöggjöf fyrir aðildarríki sín. Ísland hefur átt aðild að Sameinuðu þjóðunum frá árinu 1946. Nánari upplýsingar um allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna eru á heimasíðu samtakanna á slóðinni http://www.un.org/.

Annað

Margvísleg boð berast árlega um þátttöku í ráðstefnum og fundum sem ekki falla undir verksvið alþjóðanefnda og ákveður forseti þá hverju sinni hvort og hvernig þátttöku Alþingis skuli háttað. Sem dæmi má nefna hina árlegu Eystrasaltsráðstefnu og ráðstefnur á vegum Sameinuðu þjóðanna.