Staða íslensks skipaiðnaðar
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Árni Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Sem stjórnarmaður Slippstöðvarinnar á Akureyri vil ég þakka fyrir þessa umræðu. Hún er þörf, hefði þurft að fara fram fyrr.
    Tíminn er allt of skammur til þess að gera jafnflóknu og viðamiklu efni nokkur skil. Ég vil hins vegar, vegna orða hæstv. fjmrh. um nýsmíði þá sem málið snýst um núna, láta það koma fram, þótt ég hafi ekki átt sæti í stjórn Slippstöðvarinnar þegar ákvörðun um hana var tekin, að hún mun hafa verið tekin þegar bæði verkefnaleysi blasti við stöðinni og fyrirsjáanlegt var að segja yrði upp miklum fjölda starfsmanna.
    Nú er staðan sú að hjá stöðinni eru engin verkefni fram undan eftir 1. febrúar n.k. Öllum starfsmönnum hefur verið sagt upp og er fyrirsjáanlegt að þetta mál á eftir að hafa mjög alvarleg áhrif á atvinnulíf á Akureyri og á Eyjafjarðarsvæðinu. Það er ekki bara alvarlegt vandamál fyrir þessi svæði ef Slippstöðin á Akureyri lokar. Það er alvarlegt mál fyrir þjóð sem hefur 70% tekna sinna af sjávarútvegi að geta ekki rekið eina skipasmíðastöð sómasamlega.
    Ég vil minna á þál. sem var samþykkt hér á síðasta þingi og hv. þm. Stefán Guðmundsson hafði frumkvæði um að flytja, um úttekt á stöðu skipasmíðaiðnaðar hér á landi og hvernig mætti koma til móts við hann til þess að tryggja honum sambærilega stöðu við samkeppnisiðnað í nágrannalöndunum. Það nær náttúrlega ekki nokkurri átt að á sama tíma og Slippstöðin á Akureyri er í þessum gífurlega vanda, þá sjáum við í sjónvarpinu dag eftir dag myndir af glæsilegum fiskiskipum sem smíðuð eru erlendis. Þetta verður að breytast. Það er heildarstefnan í skipasmíðum sem verður að taka breytingum og núverandi stjórnvöld verða að hafa forustu um það.