Fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Miðvikudaginn 07. mars 1990


     Forseti (Árni Gunnarsson):
    Vegna orða hv. 1. þm. Reykv. vill forseti geta þess að í morgun var haft samband við formenn allra þingflokka í hv. deild og þeim greint frá því að hér yrði rætt frv. fjvn. um fjárgreiðslur úr ríkissjóði. Til þess að greiða fyrir umræðunni og því að stjórnarandstöðufulltrúar fengju tækifæri til að taka þátt í umræðunni hér í þessari umferð í dag varð það að samkomulagi að þingflokksfundum yrði frestað til kl. 5 svo að klukkutími gæfist til viðbótar til þessarar umræðu og stjórnarandstaðan fengi tækifæri til þess að láta í ljós hug sinn gagnvart málinu.
    Þrisvar sinnum hefur verið rætt um að taka þetta frv. hér á dagskrá. Það er búið að liggja mjög lengi hér inni á þingi og forseta var kunnugt um að óþolinmæði væri farið að gæta hjá hv. fjvn. vegna þess að þetta frv. sem nefndin flytur öll hefur ekki verið tekið fyrir. Forseti vill einnig geta þess að frv. sem hv. 1. þm. Reykv. nefndi, um ábyrgðadeild fiskeldislána, verður væntanlega á dagskrá deildarinnar nk. þriðjudag. Það hefði verið freistandi fyrir forseta að halda fund nk. föstudag. Það er hins vegar ekki á þeirri dagskrá sem forsetar hafa gefið út að hafa fund á föstudaginn kemur enda er þingveisla á föstudagskvöld og forseti hyggur að það hefði ekki mælst vel fyrir.
    Forseti væntir þess að þessi svör nægi.