Fjáraukalög 1988
Fimmtudaginn 08. mars 1990


     Árni Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Vegna orða síðasta hv. ræðumanns sé ég mig tilknúinn til þess að blanda mér inn í þessa umræðu sem mér kemur raunar á óvart að ég skuli þurfa að gera. En ástæðan er blaðaviðtal, segir hv. þm., sem við mig hafði verið haft í Degi norður á Akureyri fyrir líklega um það bil þremur árum. Þar greindi ég frá því að þáv. hæstv. fjmrh. hefði lofast til að beita sér fyrir því að fjárveitingar til Verkmenntaskólans á Akureyri yrðu hækkaðar. Ég hygg að þetta hafi verið sagt í fullvissu þess að þáv. hæstv. fjmrh. mundi gera þetta að tillögu sinni til hv. fjvn.
    Ég á hins vegar mjög bágt með að trúa því að hv. síðasti ræðumaður hafi aldrei leitað til sinna ráðherra um aukafjárveitingar til stofnana og framkvæmda í sínu kjördæmi. Þvílíkur áhugamaður um kjördæmismál og um framfarir í sínu kjördæmi er þess hv. þm. að ég þyrði næstum að segja að það væri haugalygi ef hann neitaði því að hann hefði reynt að knýja fram aukafjárveitingar af því tagi sem hann stendur hér hvítþveginn í framan og þykist vera að hneykslast yfir. Ég ætla að benda hv. þm. á að það er sáralítill munur á þessu sem hann er hér að ræða um og því sem nú er að gerast á hv. Alþingi þegar hann og flokksbróðir hans, hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson, ganga í lið með stjórnarandstöðunni við það að breyta stjórnarfrv. um ábyrgðadeild fiskeldisfyrirtækja til þess að skuldbinda ríkssjóð um miklu hærri ábyrgðir og peningaupphæðir en ríkissjóður treystir sér til að gera. ( Fjmrh.: Og án þess að setja þak á það.) Án þess að setja þak á það og annað sem því fylgir.
    Ég hygg að píslarganga hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar hér í ræðustól og sá kattarþvottur sem hann viðhafði minni á söguna um karlinn sem hélt að hann gæti gert við götin á sokkunum sínum með því að klippa þau af. Þessi umræða er með ólíkindum enda þótt ég geti tekið undir það sem hv. þm. segir um nauðsyn á fullkomnum aðskilnaði framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Og þar með þess valds sem þingið hefur inni í fjvn. og við ákvörðun á fjárlögum. Ræða hans var í raun og veru í beinu framhaldi af því sem var rætt á Alþingi í gær um fjárgreiðslur úr ríkissjóði. Ég skal taka undir það með honum hvenær sem er ef hann getur í hreinskilni og með góðri samvisku gagnrýnt verk annarra á þessum vettvangi sem hann telur að hafi verið mistök og þar sem hann ræðir um fyrrv. hæstv. fjmrh. sem ósannindamann. Hann sagði það berum orðum.
    Ég ætla ekki að dæma um það hversu margir fyrrv. fjármálaráðherrar hafa gert eitthvað í líkingu við þetta. En ekki er mér grunlaust um að þar sé engin undantekning. Þeir hafi allir á öllum tímum gert nákvæmlega þennan sama hlut enda eru aukafjárveitingar taldar í milljörðum kr. Ég veit ekki hvort hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson er í raun að gera að gamni sínu þegar hann flytur svona ræðu. Ég vona ekki vegna þess að málið er miklu alvarlegra en svo að hann hafi leyfi til þess. Hins vegar vil ég segja

honum að ég mun á hverjum tíma og ávallt og ævinlega taka undir það með honum að við eigum sem þingmenn að vinna að því að aðskilnaður framkvæmdarvalds og löggjafarvalds geti orðið sem mestur. Og ég tek undir með honum að það nær auðvitað ekki nokkurri átt ef ráðherrar gera sig seka um það í stórum stíl að veita aukafjárveitingar fram hjá Alþingi. En þetta hafa allir fjármálaráðherrar gert. Það er ekki bara sá hæstv. fjmrh., sem hv. þm. nefndi, sem er sekur. Þetta á við um alla fjármálaráðherra sem starfað hafa hér á landi.
    Varðandi það verkefni sem hv. þm. nefndi, þ.e. Verkmenntaskólann á Akureyri, vil ég geta þess að á það voru færðar nokkrar sönnur að fjvn. hefði í þessu tilviki svikist um að veita skólanum þau framlög til byggingarframkvæmda sem til stóð í áætlunum sem fyrir hendi voru um uppbyggingu skólans. Þannig að bara af því tilefni er fyrrv. fjmrh. nokkur vorkunn. Ég vil líka segja það og vona að það hafi ekki falist nein gagnrýni í því hjá hv. þm., enda hygg ég að hann hafi tekið það skýrt fram að hann væri ekki að gagnrýna uppbyggingu þessa tiltekna skóla norður á Akureyri. En mín skoðun er sú að þetta sé með merkari skólum hér á landi. Slíkan skóla hefur raunverulega vantað í skólakerfið, skóla sem elur upp fólk til þess að vinna að undirstöðuverkefnum í þessu þjóðfélagi. Úr þessum skóla útskrifast nefnilega ekki tómir embættismenn. Ég sem slíkur hef mjög góða samvisku af því að hafa barist fyrir auknum fjárveitingum til þessa skóla og ég skora nú á hv. þm. Ólaf Þ. Þórðarson að gera sér ferð norður til Akureyrar og skoða þennan skóla. ( ÓÞÞ: Ég hef skoðað hann.) Hann hefur skoðað hann. Þá skilur hann kannski hvers vegna ég barðist fyrir því að skólinn fengi meira fjármagn en honum var ætlað í tillögum fjvn.
    Virðulegi forseti. Ég hef ekki mikið meira um þetta mál að segja. Ég ætla ekki að fella dóma um góða eða vonda fjmrh. Það hvarflar ekki að mér. Mér finnst satt að segja sumir hv. þm. stundum taka dálítið stórt upp í sig þegar þeir eru að hneykslast á framferði annarra en gleyma stundum sjálfum sér. Dæmi ætla ég ekki að nefna. Ég er búinn að geta þess að hér inni í þingi er frv., sem ég hygg að hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson ætli sér að styðja, sem gengur á svig við stefnu núv. hæstv. ríkisstjórnar. Þetta er stjfrv. um frekari útgjöld
ríkisins, hikstalaust, ekki spurning. Mun meiri ábyrgðir en ríkisstjórnin telur sér fært að standa við. Engu að síður skal þetta keyrt í gegn. Og hver er nú munurinn á hv. þm. og þeim hæstv. fjmrh. sem hann var að gagnrýna?