Árni Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Áður en ég fjalla nokkuð um frv. til laga um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna langar mig að ræða þetta mál í duggulítið víðara samhengi en hér hefur verið gert.
    Það er eftirtektarvert að þegar mál af þessu tagi kemur til umræðu hér á hinu háa Alþingi þá eru það að mjög verulegum hluta konur sem taka til máls. Það segir sína sögu um áhugann á jafnréttismálum að það eru nær eingöngu konur sem fjalla um þennan málaflokk og það eru nær eingöngu konur sem hafa setið undir þessari umræðu. Við getum spurt okkur þeirrar spurningar hvernig á þessu standi. Hefur áhugaleysi karla á jafnréttismálum karla og kvenna ekkert breyst? Ég hef tilhneigingu til þess að taka undir það sem kom fram hjá hv. 2. þm. Austurl. Hjörleifi Guttormssyni að jafnréttisbaráttan hafi orðið fyrir nokkrum skakkaföllum á síðustu missirum. Og að það hafi dregið úr árangri þeirrar baráttu sem háð hefur verið fyrir jöfnum rétti kvenna og karla. Ég á því láni að fagna að sitja í Jafnréttisráði. Þar hef ég fengið tækifæri til að fylgjast með þróun þessara mála nokkuð náið og ég hygg að það sé samhljóða álit allra fulltrúa í Jafnréttisráði að málum sem hafa komið til ráðsins að undanförnu, vegna þess að brotið er t.d. á konum í atvinnulífi, hefur síst farið fækkandi, miklu fremur hefur þeim fjölgað. Og af umsögnum og umræðum um þessi mál kemur í ljós að skilningur á jafnréttisbaráttunni hefur ekki aukist. Ég vil segja það sem mína skoðun að árangur þeirrar umræðu og þeirrar baráttu sem farið hefur fram er hvergi nærri sem skyldi.
    Ég hygg að meginástæðan fyrir þessu sé tiltölulega einföld. Hún er sú að karlmenn hafa ekki verið dregnir inn í þessa baráttu nægjanlega vel. Það hefur verið litið á þessa baráttu sem einkamál kvenna. Og kannski eiga konur nokkra sök á því. Ég vil benda á hvernig Jafnréttisráð er skipað. Af þeim fulltrúum
sem þar eru, aðalfulltrúum í ráðinu, er aðeins einn karlmaður. Ég hefði talið það nauðsynlegt að Jafnréttisráð væri skipað jafnmörgum körlum og konum. Það er í raun svolítið kyndugt að lögin um jafnan rétt karla og kvenna skuli ekki ná til Jafnréttisráðs. En ef þetta er svona í Jafnréttisráði hvernig er það þá úti í þjóðfélaginu? Ég hef oft velt þeirri spurningu fyrir mér hvort íslenskir karlmenn hafi gert sér almennt grein fyrir því, eða því verið komið nægjanlega vel til skila til þeirra, að jafnréttisbaráttan er ekki bara fyrir konur, hún er stórt og mikið hagsmunamál karla. Og ég hygg að í mjög náinni framtíð, þegar umræða vex um nýtt gildismat í íslensku samfélagi, þegar við kunnum að hverfa frá oftrú á tækniþjóðfélagið, á stöðugt aukna framleiðni og kannski stöðugt meiri vinnu, þá munum við, karlar upp til hópa, fara að hugleiða að það er okkar hagsmunamál að konur fái hærri laun, þær fái betri stöður og þær njóti jafnréttis á við okkur. Vegna þess að ég hygg að hugsunin á bak við jafnréttisbaráttuna hljóti að vera að hluta til sú að réttur karla og kvenna

t.d. til þess að annast börn, vera inni á heimili, eigi líka að vera jafn. Og einhver besta aðferðin til að koma þessu jafnrétti á gagnvart heimili, gagnvart uppeldi barna, gagnvart því að afla heimilistekna hljóti að vera að konur fái betri kjör. Mér finnst þessi þáttur umræðunnar ekki hafa komist nægjanlega vel til skila. Og ég harma það í raun vegna þess að ég hygg að það séu margir karlmenn sem hugsa miklu meira um þessi mál en þeir tala um þau. Og að það þurfi tiltölulega lítið til að koma þeim á sporið, auka skilning þeirra á þessum málaflokki og fá þá til að vera með í þessari baráttu sem við erum að ræða um.
    Kannski hefur árangurinn í þessari baráttu að hluta til hægt á sér vegna aukins atvinnuleysis í þjóðfélaginu. Það hefur bitnað meira á konum en körlum á vissum sviðum. Og ég hygg að það sé augljóst að þegar um atvinnuleysi er að ræða eigi karlmenn betri möguleika á því að fá atvinnu við hæfi, eins og það er kallað, en konur. Mér finnst þessi barátta að mörgu leyti hafa verið ótrúlega erfið enda þótt talsverður árangur hafi náðst. Ég segi það hreint út, þótt ég sé flokksbróðir hæstv. félmrh., að ég minnist þess ekki að annar félmrh. hafi tekið á þessum málaflokki af jafnmiklum krafti og núv. hæstv. félmrh., sem á miklar þakkir skildar fyrir áhuga sinn á málaflokknum.
    Virðulegi forseti. Ég vil ekki lengja þessa umræðu. Það eru örfá atriði í frv. sem ég hef athugasemdir við. Það er einkum 15. gr. sem ég vil tala um.
    Þá vil ég að það verði mjög vandlega skoðað í nefnd hvort 6. gr. frv. fær staðist. Í upphafi greinarinnar segir, með leyfi forseta: ,,Atvinnurekendum er óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um ...`` Síðan eru talin upp nokkur atriði en í lokin kemur þessi setning: ,,Ef einhver telur rétt á sér brotinn samkvæmt ákvæðum þessarar greinar skal atvinnurekandinn sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.`` Þetta er auðvitað mjög mikilvæg grein og kannski mikilvægari en við gerum okkur grein fyrir í skjótu bragði. Hins vegar er þarna verið að ákveða með lögum að sönnunarbyrði í tilteknum málum skuli falla á atvinnurekandann. Þessi þáttur í frv. er þess eðlis að ég tel að hann verði að skoða mjög vandlega bara út frá lögfræðilegum sjónarmiðum og það hvort hann
fái staðist. Ég veit að atvinnurekendur eru mjög mótfallnir þessu og telja þetta brot á öllum lagahefðum.
    Því næst vil ég koma að 15. gr. sem ég segi berum orðum að er mistök. Í henni erum við að herma eftir löggjöf annarra landa. Í því sambandi vil ég segja að það er ekki allt betra í útlöndum. Það er ekki allt betra sem Svíar ákveða að taka upp á félagslegu sviði. Við þurfum ekki að vera bogin og beygð yfir því þó löggjöf annarra landa sé eitthvað öðruvísi en okkar.
    Nú skal ég gera grein fyrir af hverju ég er á móti þessari grein eins og hún er upp sett. Ég er á móti henni vegna þess að ég tel að með þessu móti verði

ráðið allt of fjölmennt. Starfið innan ráðsins verði útþynnt. Ég tel að ráðið muni gjörbreytast frá því sem nú er. Og ég hygg að svo fjölmennt Jafnréttisráð með fulltrúum allra stjórnmálaflokka og þeirra aðila sem hér eru taldir upp, m.a. frá Vinnuveitendasambandi Íslands, Alþýðusambandinu, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Kvenréttindafélaginu og Kvenfélagasambandinu, verði nánast óstarfhæft. Ég dreg þessa ályktun af reynslu minni af störfum í núverandi Jafnréttisráði. Þess vegna hvet ég mjög eindregið til þess að þessi grein verði skoðuð mjög vandlega í hv. félmn. sem líklega fær þetta mál til skoðunar og að það verði hugleitt hvort ekki sé hægt að gera einhverja breytingu á henni og halda sig þá fremur við það form sem nú ríkir. Ég hygg að Jafnréttisráð, eins og það er nú skipað, sé að mörgu leyti miklu virkara en það ráð yrði sem gert er ráð fyrir að kæmi með þessari lagasetningu.
    Virðulegi forseti. Þá er í sjálfu sér ekki mikið meira um þetta að segja af minni hálfu, en ég endurtek athugasemdir mínar við skipan Jafnréttisráðs eins og frv. gerir ráð fyrir og vænti þess fastlega að þar verði gerð einhver breyting á.