Þjóðarbókhlaða og endurbætur menningarbygginga

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 11:28:12 (2939)

1999-12-15 11:28:12# 125. lþ. 46.3 fundur 270. mál: #A Þjóðarbókhlaða og endurbætur menningarbygginga# frv. 113/1999, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[11:28]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ekki ætla ég að lengja þessa umræðu mikið. Þó langar mig til að koma inn í umræðuna út frá öðru sjónarhorni.

Hér er um við að ræða um hvernig á að framkvæma lög sem afla fjár til að viðhalda menningarbyggingum. Það er alveg ljóst að þetta fé má ekki nota til annars en viðhalds. Það má ekki nota það til nýbygginga. Með öðrum orðum, þau lög stuðla að því að viðhalda menningararfleiðfinni en hún felst auðvitað í öðru en bara þeirri steypu sem menn hafa notað til þess að byggja yfir arfleifðina. Það hefur komið fram aftur og aftur á síðustu árum að undir skemmdum liggja mjög mikilvægir og dýrmætir hlutir í vörslu okkar sem þjóðar. Hér á ég við handrit sem er að finna í Þjóðarbókhlöðunni og hjá Árnastofnun. Það hefur komi fram m.a. í fjárln. og það hefur áður borið á góma í umræðu um nákvæmlega þau atriði sem við ræðum hér að nauðsynlegt sé með einhverju móti að tryggja að í framtíðinni verði hægt að afla fjár reglulega til að standa straum af endurbótum og viðgerðum á þessum hluta.

Rétt er að það komi fram að í framhaldi af umræðum sem hér urðu fyrir einum 3--4 árum greip hæstv. menntmrh. í taumana og sá til þess að komið var upp viðgerðarstofu á Þjóðarbókhlöðunni og síðan var ráðinn þangað maður. En fyrir liggur að við þurfum að eyða verulega miklum fjármunum á næstu árum og áratugum til að gera við skjöl af hvers konar tagi sem eru partur af ómetanlegri menningararfleifð. Þess vegna vil ég varpa því fram, herra forseti, fyrst í ljós kemur að ekki þarf allt þetta fjármagn sem af þessum skattstofni rennur til ríkisins í að viðhalda menningarbyggingum, hvort ekki sé rétt að menn íhugi það, ekki endilega núna en til framtíðar, að breyta lögunum á þann veg að þarna verði líka markaður fastur tekjustofn til að viðhalda þeirri ómetanlegu menningararfleifð. Ég held að það væri eitthvað sem þingið ætti að sameinast um á næstu árum og ekki síst hæstv. menntmrh. sem eins og ég gat um í tölu minni áðan hefur sýnt þessu máli lofsverðan áhuga.