Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 10. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 10  —  10. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um strandsiglingar.

Flm.: Jón Bjarnason, Þuríður Backman, Steingrímur J. Sigfússon,


Kolbrún Halldórsdóttir, Ögmundur Jónasson.


    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að hefja uppbyggingu strandsiglinga sem nauðsynlegs hluta af vöruflutninga- og samgöngukerfi landsins. Ráðherra undirbúi með gerð áætlana og framlagningu frumvarpa að ríkið geti í framtíðinni tryggt reglulegar strandsiglingar til allra landshluta með því að bjóða út siglingaleiðir. Ráðherra láti leggja mat á kostnað við að halda uppi reglulegum strandsiglingum um allt land og skiptingu siglingaleiða sem bjóða á út. Ráðherra skili niðurstöðum til Alþingis eigi síðar en 1. febrúar 2005.

Greinargerð.


    Á síðustu árum hafa strandsiglingar verið að leggjast af hér við land. Flutningsmenn telja að ekki verði við það unað enda má fullyrða að sjóflutningar meðfram strandlengjunni séu verulega vannýttur samgöngukostur. Því leggja þeir til að samgönguráðherra verði falið undirbúi að strandsiglingar verði hafnar á vegum ríkisins á grundvelli útboða.
    Á 128. löggjafarþingi lögðu flutningsmenn ásamt Árna Steinari Jóhannssyni fram tillögu til þingsályktunar um strandsiglingar. Þar var lagt til að samgönguráðherra yrði falið að skipa nefnd, strandsiglinganefnd, er léti gera úttekt á þjóðhagslegu gildi þess að hér við land séu öflugar strandsiglingar með sérstakri hliðsjón af umhverfis- og byggðaáhrifum, umferðaröryggi og öðru sem máli skiptir. Samgöngunefnd lagði til að þeirri tillögu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar. Í svari við fyrirspurn fyrsta flutningsmanns til samgönguráðherra á 130. löggjafarþingi um framgang þeirrar tillögu kom fram að ráðherra hafði ekki skipað strandsiglinganefnd en að ráðuneytið hafi í störfum sínum talið eðlilegt að stofnanir ráðuneytisins beindu athygli að strandsiglingum á grundvelli ábendinga og ágætra hugmynda í greinargerð með tillögunni. Ráðherra tók þá fram að hann teldi að tillagan frá 128. löggjafarþingi hafi verið þarft innlegg í umræðuna og að við endurskoðun á samgönguáætlun hlyti að verða litið til ákveðnna þátta í tillögunni.
    Tillagan sem nú er lögð fram gengur lengra en sú frá 128. löggjafarþingi að því leyti að í henni felst að hafinn verði klár undirbúningur að því að ríkið bjóði út strandsiglingar og tryggi þannig öllum landshlutum þessa mikilvægu þjónustu.
    Þess er vert að geta að framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna hefur fallist á aðstoðarkerfi sem Bretar hafa komið á til að færa flutninga af vegum og yfir í siglingar og að hóflegur styrkur ríkis til slíkra aðgerða brjóti ekki gegn samkeppnisreglum bandalagsins.
    Flutningsmenn telja mikilvægt að útboð á siglingaleiðum geti hafist eigi síðar en haustið 2005. Því er hér er lagt til að ráðherra skuli skila tillögum sínum sem allra fyrst og eigi síðar en 1. febrúar 2005.
    Með framangreindri tillögu til þingsályktunar um strandsiglingar frá 128. löggjafarþingi fylgdi ítarleg greinargerð og vísa flutningsmenn til hennar hvað varðar ýmis rök að baki mikilvægi þess að strandsiglingar við allt landið verði tryggðar, svo sem hvað varðar umhverfissjónarmið, byggðaáhrif og samkeppnisstöðu sjóflutninga gagnvart landflutningum.