Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 115. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 243  —  115. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um menningarkynningu í Frakklandi.

     1.      Hve mikil voru útgjöld ríkisins í tengslum við menningarkynningu sem nú stendur yfir í Frakklandi, skipt á forsætisráðuneyti, utanríkisráðuneyti, menntamálaráðuneyti, samgönguráðuneyti og aðra sem stóðu undir kostnaði af kynningunni?
    Bein útgjöld ríkisins samkvæmt kostnaðaráætlun menningarkynningarinnar í Frakklandi nema 51 millj. kr. Þar af greiðir menntamálaráðuneytið 40 millj. kr. til verkefnisins, samgönguráðuneytið greiðir 10 millj. kr. til kynningarþáttar verkefnisins og utanríkisráðuneytið 1 millj. kr. Framlag íslenskra fyrirtækja er metið á 40 millj. kr. eða sem svarar til um tæplega helmings af kostnaðaráætlun fyrir verkefnið í heild. Ekki liggur fyrir mat á kostnaði franska ríkisins og franskra stofnana, en gera má ráð fyrir að bein útgjöld þeirra, vegna aðstöðu, undirbúnings o.fl. megi meta til hærri fjárhæðar en þeirrar sem íslenskir aðilar leggja fram.

     2.      Fyrir hve marga embættismenn, stjórnmálamenn og aðra sem sóttu menningarkynninguna greiddi ríkið og hve mikið var greitt í ferðakostnað og dagpeninga?


Forsætisráðuneytið.
    Á vegum forsætisráðuneytis fóru ráðherra og ráðherrafrú, ráðuneytisstjóri og aðstoðarmaður ráðherra. Þá fór einn embættismaður á vegum stofnana ráðuneytisins. Ferðakostnaður ráðuneytisins var 1.428.347 kr., þar af voru dagpeningagreiðslur 326.726 kr.
    Ferð forsætisráðherra var jafnframt vegna fundar hans með forsætisráðherra Frakklands.

Menntamálaráðuneytið.
    Á vegum menntamálaráðuneytis fór ráðherra ásamt maka, aðstoðarmanni og ráðuneytisstjóra til að vera í Frakklandi fyrstu daga kynningarinnar. Auk þess voru þrír starfsmenn ráðuneytisins í Frakklandi við vinnu vegna kynningarinnar. Kostnaður ekki liggur fyrir en áætlað er að hann sé um 1,4 millj. kr. og þar af er rúmlega 1/ 3 vegna ferða.

Samgönguráðuneytið.
    Á vegum samgönguráðuneytis fóru ráðherra og ráðherrafrú, auk tveggja embættismanna. Þá fóru tveir embættismenn á vegum Ferðamálaráðs. Heildarkostnaður við ferðir og dagpeninga var 1.113.203 kr.

Utanríkisráðuneytið.
    Á vegum utanríkisráðuneytis fóru þrír embættismenn. Ferðakostnaður ráðuneytisins var 417.401 kr., þar af voru dagpeningagreiðslur 197.074 kr.

     3.      Var gerð kostnaðaráætlun fyrir menningarkynninguna og, ef svo er, hvernig hefur hún staðist?
    Gerð var kostnaðaráætlun fyrir menningarkynninguna. Ekkert bendir til annars en að hún hafi staðist. Lokauppgjöri er ólokið, en mun liggja fyrir innan nokkurra vikna.

     4.      Var gert ráð fyrir þessum fjármunum á fjárlögum og þarf að sækja um aukafjárveitingu vegna verkefnisins?
    Kostnaðaráætlun menningarkynningarinnar byggist á staðfestum fjárframlögum. Ekki eru horfur á að sækja þurfi um aukafjárveitingu vegna verkefnisins.

     5.      Voru skoðaðir aðrir kostir á sviði menningar og lista sem skilað gætu því sama til landkynningar og fjölgunar ferðamanna og var gert kostnaðarmat og samanburður í því sambandi?
    Markmið kynningarinnar voru ekki síst þau að koma á framfæri við Frakka upplýsingum um listir og menningu. Mikil athygli og umfjöllun um íslenska listamenn, vísindi og íslensk málefni bendir til þess að betri árangur hafi náðst en raunsætt var að vonast til. Ánægjulegt er að svo virðist sem þessi mikla kynning hafi aukið þannig áhuga á Íslandi að fleiri ferðamenn hyggist leggja leið sína hingað til lands en áður og er aukningin umtalsverð, samkvæmt upplýsingum Ferðamálaráðs Íslands. Fyrirkomulag kynningarinnar var ákveðið í samvinnu við frönsk stjórnvöld. Almennt var lögð á það áhersla að það væru íslenskir listamenn og franskir samstarfsaðilar þeirra sem stofnuðu til þeirra viðburða sem voru á dagskrá, fremur en að stjórnvöld, embættismenn eða aðrir tækju um það ákvarðanir.
    Fyrirkomulag menningarkynningarinnar þjónaði markmiðum hennar vel.