Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 223. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 258  —  223. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Örlygs Hnefils Jónssonar um göng undir Bakkaselsbrekku og hábungu Öxnadalsheiðar.

     1.      Væri hagkvæmt með tilliti til umferðaröryggis og þungaflutninga að gera göng undir Bakkaselsbrekku og hábungu Öxnadalsheiðar?
    Í jarðgangaskýrslu Vegagerðarinnar frá janúar 2000 til undirbúnings jarðgangaáætlunar voru jarðgöng á þessum stað tekin til lauslegrar skoðunar. Það er ljóst að jarðgöng þarna, eins og reyndar víða í vegakerfinu, mundu koma umferðinni til góða. Einkum á það við vetrarumferð og þá ekki síst þungaumferðina. Staðurinn sker sig ekki úr hvað varðar umferðaröryggi, þ.e. óhöpp eru ekki sérstaklega algeng. Fyrst og fremst yrði um að ræða meiri þægindi vegfarenda og meira öryggi varðandi það að komast leiðar sinnar að vetri til, því að vegurinn yrði væntanlega opinn og vel fær alla vetrardaga. Reyndar hefur heiðin ekki lokast vegna veðurs á síðustu árum nema þá stutta stund eða hluta úr degi í einu, bæði vegna aukinnar vetrarþjónustu og lítilla snjóa. Samantekið er því ekki hægt að segja að hagkvæmt sé eða sérstaklega brýnt að huga að jarðgöngum á þessum stað.

     2.      Hve löng þyrftu slík göng að vera til að tryggja greiðari og öruggari umferð en nú?

    Tveir jarðgangakostir hafa verið skoðaðir. Sá lengri er undir alla heiðina, úr botni Norðurárdals við Heiðarsporð að Bakkaseli. Sú leið er um 10,7 km. Hinn kosturinn, og sá raunhæfari, er frá neyðarskýli í 500 m y.s. nálægt mynni Eystri-Grjótárdals, að Bakkaseli í 360 m y.s. Þau jarðgöng yrðu um 3,7 km á lengd.

     3.      Hver væri kostnaðurinn við slík göng?

    Á núverandi verðlagi má áætla að kostnaðurinn við styttri jarðgangakostinn yrði 2,5 til 3 milljarðar kr.