Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 92. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 262  —  92. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra.

     1.      Er ástæða til að ætla að efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra sé undirmönnuð og anni ekki þeim málum sem henni berast til rannsóknar?
    Hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjórans eru rannsökuð hin flóknari og stærri fjármunabrot sem á annað borð koma til lögreglu, auk þess öll skattsvikamál og brot á löggjöf um fiskveiðar og stjórn fiskveiða, verðbréfaviðskipti og brot framin í atvinnustarfsemi sem ætla má að brjóti gegn löggjöf almennt. Þessar rannsóknir eru vandasamar og yfirleitt mjög tímafrekar. Auk þess veitir efnahagsbrotadeildin lögreglustjórum í landinu aðstoð við rannsókn alvarlegra og umfangsmikilla sakamála sem upp koma í umdæmum þeirra og ekki falla undir verkefni efnahagsbrotadeildar lögum samkvæmt.
    Með þeim mannafla sem nú vinnur við rannsókn og saksókn hjá efnahagsbrotadeild er leitast við að vinna að öllum þeim verkefnum sem berast, þannig að málsmeðferð þeirra sé eins hröð, örugg og skilvirk eins og kostur er.
    Deildin hefur aðeins haft mannafla til þess að vinna að rannsókn og meðferð þeirra mála sem berast henni með kærum. Til þess að hefja athugun og rannsókn að eigin frumkvæði er ekki nægur mannafli og efnahagsbrotadeild getur því ekki tekið upp mál að eigin frumkvæði. Það væri hins vegar æskilegt vegna eðlis mjög margra, ef ekki þá allra, málaflokka sem deildin á að fást við en í flestum tilvikum eru brotaþolar þannig settir að þeir eiga erfitt með að gæta sjálfir réttar síns. Þetta snertir ekki síst eigendur lítils hluta hlutafjár, aðila að lífeyrissjóði, skattgreiðendur og greiðendur að vörum og þjónustu sem ekki eru í aðstöðu til að hafa eftirlit með og gæta réttinda sinna, t.d. með því að vekja athygli yfirvalda og kæra til lögreglu.
    Hið sama á við um efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra og aðrar eftirlitsstofnanir, verkefni hennar aukast og verða margbrotnari með aukinni efnahagslegri umsýslu, fjölbreytni í viðskiptum og fjölgun og stækkun fyrirtækja. Kröfur varðandi starfsmenn efnahagsbrotadeildar lúta ekki aðeins að fjölda þeirra, heldur einnig menntun, reynslu og almennri þekkingu á hinum ólíku þáttum viðskiptalífsins hér á landi og erlendis.

     2.      Eru dæmi þess að dráttur á rannsókn mála hafi leitt til þess að refsingar séu mildaðar?
    Árið 2001 var niðurstaðan í tveim tilvikum í dómi við ákvörðun refsingar að ástæða þótti til að taka tillit til þess að meðferð málsins hefði tekið langan tíma af ástæðum sem hinn ákærði/dæmdi bar ekki ábyrgð á.
    Árið 2002 var niðurstaðan í þrem tilvikum í dómi við ákvörðun refsingar að ástæða þótti til að taka tillit til þess að meðferð málsins hefði tekið langan tíma af ástæðum sem hinn ákærði/dæmdi bar ekki ábyrgð á.
    Árið 2003 var niðurstaðan í einu tilviki í dómi við ákvörðun refsingar að ástæða þótti til að taka tillit til þess að meðferð málsins hefði tekið langan tíma af ástæðum sem hinn ákærði/dæmdi bæri ekki ábyrgð á.
    Fram kemur í árskýrslu ríkislögreglustjóra fyrir árið 2003 að efnahagsbrotadeild embættisins hefur á árunum 1998 til og með árinu 2003 ákært í 224 sakamálum vegna skatta- og efnahagsbrota. Í þeim málum sem dómur liggur fyrir í var sakfellt í 95 % tilvika.

     3.      Hvernig hefur fjöldi mála sem borist hafa efnahagsbrotadeildinni þróast sl. þrjú ár og hvernig skiptist málafjöldinn milli brotaflokka?
    Sjá eftirfarandi töflu.

Kærumál sem borist hafa efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra 2001–2003
og skipting þeirra eftir aðalflokkum brota.

Kærumál – brotaflokkar (aðalflokkar mála): 2001 2002 2003
Fjárdráttur 7 21 11
Fjársvik 9 20 13
Umboðssvik 3 7 4
Skilasvik 4 4 5
Skjalafölsun – rangfærsla skjala 3 3 5
Skattalög (lög um tekju- og eignarskatt, lög um virðisaukaskatt, lög um staðgreiðslu opinberra gjalda)
24

28

36
Lög um stjórn fiskveiða – lög um umgengni um nytjastofna sjávar – lög um veiðar í fiskveiðilandhelginni
2

8

1
Tollalög 1 2 5
Samkeppnislög 2 1 1
Tölvubrot af ýmsu tagi, þ.m.t. varsla á barnaklámi, höfundalög, eignaspjöll, hótanir, hugverkaréttindi o.fl.
7

19

6
Lög um verðbréfaviðskipti 4 2 2
Rannsóknarbeiðnir – erlendar 1 2 4
Ýmis brot – t.d. ýmis auðgunarbrot (áður ótalin), brot í opinberu starfi, lög um hlutafélög, lög um hollustuhætti, peningafölsun, peningaþvætti, rangar sakargiftir, útvarpslög o.fl.

10


15


13
Heildarfjöldi kærumála á ári: 77 132 106
Rannsóknaraðstoð og úrvinnsla tilkynninga um ætlað peningaþvætti:
Rannsóknaraðstoð: 2001 2002 2003
Rannsóknaraðstoð við embætti ríkissaksóknara vegna kærumála á hendur lögreglumönnum í starfi*
25

13
Rannsóknaraðstoð við önnur lögregluembætti 16 24
Heildarfjöldi: 41 37
Tilkynnningar um ætlað peningaþvætti: 2001 2002 2003
Tilkynnningar sem borist hafa efnahagsbrotadeild um ætlað peningaþvætti
125

189

241
* Efnahagsbrotadeild tók við þessum málaflokkum í árslok 2001.

     4.      Hvaða fjárveitingar hafa runnið til efnahagsbrotadeildarinnar sundurliðað sl. þrjú ár og hve margir hafa starfsmenn verið á þessum sama tíma?
    Árið 2001 var varið 58.239.000 kr. til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, árið 2002 83.134.000 kr. og árið 2003 108.299.000 kr. Athuga ber við samanburð að frá árinu 2001 hafa orðið launabreytingar sem skýra mismun umfram kostnað af hverjum starfsmanni sem bæst hefur við.
    Árið 2001 voru starfsmenn efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra sem unnu við rannsóknir 10, árið 2002 voru þeir 11 og árið 2003 voru þeir 14.

     5.      Hve langur tími hefur að meðaltali farið í rannsókn mála hjá efnahagsbrotadeildinni skipt eftir málaflokkum og árum sl. þrjú ár?
    Ekki er unnt að svara þessari spurningu af mikilli nákvæmni nema leggja í mikla úttekt. Þó er unnt að segja að hinum smærri og smæstu málum megi ljúka á fáum vinnudögum, jafnvel klukkustundum. Að meðaltali tekur 500–1.500 klukkustundir að ljúka meðalstórum málum. Hin stærstu mál taka eitt ár eða jafnvel tvö til þrjú. Á hverju ári er þúsundum til tugþúsundum vinnustunda varið í slík mál, og samtals nokkrum tugum þúsunda stunda í heildarrannsóknartíma sem spannar tvö til þrjú ár og jafnvel meira. Svo umfangsmikil mál eru nokkur á hverjum tíma og hefur þeim fjölgað og umfangið vaxið síðastliðin fjögur ár. En fyrir þann tíma eru vart dæmi um að slík mál hafi komið til kasta lögreglu.
    Með framangreindum fyrirvara er eftirfarandi sundurliðun sett fram:

    Árið 2001 fóru 24.100 vinnustundir í rannsóknir mála.
    Í könnun og meðferð peningaþvættistilkynninga fóru 2.310 vinnustundir.
    Í rannsókn skattamála fóru 3.840 vinnustundir sem er lauslega áætlað 160 klukkustundir á hvert mál.
    Í rannsókn annarra mála var varið 17.950 vinnustundum.

    Árið 2002 fóru 26.410 vinnustundir í rannsóknir mála.
    Í könnun og meðferð peningaþvættistilkynninga fóru 2.310 vinnustundir.
    Í rannsókn skattamála fóru 4.480 vinnustundir sem er lauslega áætlað 160 klukkustundir á hvert mál.
    Í rannsókn annarra mála var varið 19.620 vinnustundum.

    Árið 2003 fóru 33.340 vinnustundir í rannsóknir mála.
    Í könnun og meðferð peningaþvættistilkynninga fóru 2.310 vinnustundir.
    Í rannsókn skattamála fóru 5.760 vinnustundir sem er lauslega áætlað 160 klukkustundir á hvert mál.
    Í rannsókn annarra mála var varið 25.270 vinnustundum.