Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 484. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 740  —  484. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um löggilta niðurjöfnunarmenn sjótjóns, nr. 74 11. júní 1938, og lögum um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa, nr. 99 9. júní 2004.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



1. gr.

    Við 2. gr. laga um löggilta niðurjöfnunarmenn sjótjóns, nr. 74 11. júní 1938, bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Skilyrði 1. tölul. 1. mgr. um lögheimili hér á landi gildir ekki um ríkisborgara annarra aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu.

2. gr.

    Við 2. gr. laga um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa, nr. 99 9. júní 2004, bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Skilyrði a-liðar 1. mgr. um lögheimili hér á landi gildir ekki um ríkisborgara annarra aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta sem samið er í dómsmálaráðuneytinu miðar að því að laga ákvæði laga um löggilta niðurjöfnunarmenn sjótjóns og laga um sölu fasteigna fyrirtækja og skipa að ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Frumvarpið á rætur að rekja til athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA um að skilyrði 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 74/1938 um að löggiltur niðurjöfnunarmaður sjótjóns skuli hafa lögheimili hér á landi og skilyrði a-liðar 1. mgr. 2. gr. laga nr. 99/2004 um að maður verði að hafa lögheimili hér á landi til að fá löggildingu ráðherra sem fasteignasali samræmist ekki ákvæðum EES-samningsins um staðfesturétt. Samkvæmt 31. gr. samningsins skulu engin höft vera á rétti ríkisborgara aðildarríkjanna til að setjast að og stofna til atvinnurekstrar hvar sem er á Evrópska efnahagssvæðinu. Litið hefur verið svo á að skilyrði um lögheimili til að mega stunda atvinnurekstur feli í sér höft og óbeina mismunun sem fái ekki án réttlætingar samrýmst 31. gr. samningsins um staðfesturétt. Með vísan til þessa er lagt til að lögum um löggilta niðurjöfnunarmenn sjótjóns og lögum um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa verði breytt þannig að skilyrði laganna um lögheimili hér á landi gildi ekki um ríkisborgara annarra aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Jafnframt er lagt til að skilyrðið gildi ekki um ríkisborgara aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og er þörf á þeirri breytingu vegna nýs stofnsamnings samtakanna, Vaduz-samningsins, sem tók gildi 1. júní 2002.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 74/1938,
um löggilta niðurjöfnunarmenn sjótjóns, og lögum nr. 99/2004,
um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa.

    Frumvarp þetta miðar að því að samræma ákvæði laga um löggilta niðurjöfnunarmenn sjótjóns og laga um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa við ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Lögfesting frumvarpsins hefur ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs.