Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 239. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 239  —  239. mál.
Tillaga til þingsályktunarum vernd samgönguminja.

Flm.: Þuríður Backman.    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að skipa þriggja manna nefnd til að kanna hvernig tryggja megi betur en nú er skráningu og vernd samgönguminja og undirbúa gerð samgönguminjaáætlunar. Nefndin verði skipuð einum fulltrúa tilnefndum af Vegagerðinni, öðrum tilnefndum af Fornleifavernd ríkisins og þeim þriðja tilnefndum af ráðherra og verði hann formaður nefndarinnar. Nefndin skili niðurstöðu sinni fyrir 1. október 2006.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var lögð fram á síðasta löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga og er nú lögð fram aftur.
    Víða um land er að finna merkar samgönguminjar sem liggja undir skemmdum, svo sem brýr, hlaðna vegi og hafnargarða, símamannvirki, sæluhús símamanna frá öndverðri 20. öld og vörður á gömlum þjóðleiðum. Þá eru ýmsar slíkar þjóðleiðir að leggjast af og falla í gleymsku svo að brýnt er að hefja skipulega vinnu við skráningu þeirra og kortlagningu. Samgönguminjum er vissulega víða sinnt og þeim safnað, bæði af opinberum aðilum og áhugasömum einstaklingum, en stjórnvöld hafa ekki markað ákveðna stefnu í þessum málaflokki. Ekki er hægt að ætlast til þess að áhugamenn sinni einir þessu mikilvæga varðveislu- og skráningarstarfi enda krefjast mörg verkefni á því sviði umtalsverðra fjármuna ef vel á að vera. Þar að auki hlýtur árangurinn í heild að vera undir því kominn að verkið sé unnið eftir einu samræmdu skipulagi sem byggist á góðri yfirsýn.
    Samgöngur og samgöngubætur hafa alla tíð verið geysilega mikilvægar fyrir fólk á Íslandi enda landið dreifbýlt og víða erfitt yfirferðar. Óhætt er að fullyrða að 20. öld, sem var öld vélvæðingar hér á landi, hafi verið tímabil meiri og hraðari breytinga í samgöngumálum en nokkurt annað skeið í sögu Íslands. Á slíkum framfaraskeiðum er eðlilega hvað hættast við því að minjar og minningar um samgönguhætti fyrri tíma lendi í glatkistunni og gildi þeirra verði ekki fyllilega ljóst fyrr en um seinan.
    Í ljósi þess hve saga samgangna er snar þáttur í Íslandssögunni er afar mikilvægt að vernd samgönguminja verði efld og skipulega að henni unnið. Þess vegna er hér lagt til að Alþingi feli ráðherra að skipa þriggja manna nefnd er kanni hvernig söfnun og vernd þessara minja verði best tryggð og undirbúi gerð samgönguminjaáætlunar.