Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 85. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 85  —  85. mál.




Beiðni um skýrslu



frá félagsmálaráðherra um kjör einstæðra og forsjárlausra foreldra.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Össur Skarphéðinsson, Ásta R. Jóhannesdóttir,


Anna Kristín Gunnarsdóttir, Björgvin G. Sigurðsson, Einar Már Sigurðarson,
Guðrún Ögmundsdóttir, Helgi Hjörvar, Mörður Árnason,
Valdimar L. Friðriksson, Þórunn Sveinbjarnardóttir.


    Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að félagsmálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um kjör og aðbúnað einstæðra og forsjárlausra foreldra og barna þeirra þar sem fram komi upplýsingar um eftirtalin atriði:
     1.      Hver er fjöldi forsjárlausra foreldra annars vegar og einstæðra foreldra hins vegar, skipt eftir kyni, tekjum og fjölda barna?
     2.      Hve margir forsjárlausir foreldrar annars vegar og einstæðir foreldrar hins vegar, skipt eftir kyni þeirra og fjölda barna, búa
                  a.      í eigin húsnæði,
                  b.      í almennu leiguhúsnæði,
                  c.      í félagslegu leiguhúsnæði,
                  d.      í annars konar húsnæði, t.d. hjá foreldrum eða ættingjum?
        Hvað má ætla að meðalhúsnæðiskostnaður forsjárlausra foreldra og einstæðra foreldra á mánuði sé hár, annars vegar í leiguhúsnæði og hins vegar í eigin húsnæði?
     3.      Hve margir foreldrar, skipt eftir kyni, fjölda meðlagsgreiðslna og launatekjum
                  a.      greiða meðlag,
                  b.      fá greitt meðlag,
                  c.      bæði greiða meðlag og fá greitt meðlag?
     4.      Hvað má áætla að framfærslukostnaður forsjárlausra foreldra og einstæðra foreldra sé hár, skipt eftir barnafjölda og aldri barna?
     5.      Hve mörg börn einstæðra og forsjárlausra foreldra taka þátt í tómstundastarfi utan skóla, svo sem tónlistarnámi, íþróttum o.fl., skipt eftir aldri barnanna, og hve hátt hlutfall er það af heildarfjölda þátttakenda í tómstundastarfi barna?
     6.      Hverjar voru meðaltekjur og hvernig var eigna- og skuldastaða einstæðra foreldra annars vegar og forsjárlausra foreldra hins vegar á árinu 2005, skipt eftir kyni þeirra og fjölda barna? Hver var tekjuþróunin miðað við aðra hópa og hvernig skiptust skuldir í meðlagsskuldir, námslán og húsnæðislán?
     7.      Hverjar voru meðalráðstöfunartekjur einstæðra foreldra annars vegar og forsjárlausra hins vegar árið 2005 samanborið við aðra þjóðfélagshópa og hvernig skiptust ráðstöfunartekjurnar?
     8.      Hvað má áætla að meðlagsgreiðslur til einstæðra foreldra séu hátt hlutfall af áætluðum framfærslukostnaði barna 0–5, 6–15 og 16–18 ára?
     9.      Hve margir einstæðir foreldrar annars vegar og forsjárlausir hins vegar fengu árlega fjárhagsaðstoð hjá stærstu sveitarfélögunum á árunum 2000–2005 og hvernig var fjöldinn í samanburði við aðra hópa sem leitað hafa eftir fjárhagsaðstoð?
     10.      Hve margir og hve hátt hlutfall einstæðra foreldra annars vegar og forsjárlausra foreldra hins vegar, skipt eftir kyni, fá:
                  a.      barnabætur,
                  b.      húsaleigubætur,
                  c.      námslán,
                  d.      vaxtabætur,
                  e.      bætur frá Tryggingastofnun ríkisins og þá hverjar?
     11.      Hverjar voru meðalskattgreiðslur forsjárlausra foreldra annars vegar og einstæðra foreldra hins vegar árlega tekjuárin 2000–2005 og hve margir þeirra voru skattlausir?
     12.      Hve margir foreldrar fengu mæðra- og feðralaun árin 1995 og 2005 og hvaða breytingar hafa orðið á fjárhæð greiðslna á þessu tímabili?
     13.      Hvernig hefur samráði stjórnvalda verið háttað við Félag einstæðra foreldra og Félag ábyrgra feðra um hagsmunamál þeirra?
     14.      Eru uppi áform af hálfu ráðherra eða ríkisstjórnarinnar um að bæta kjör, aðbúnað eða stöðu einstæðra foreldra annars vegar og forsjárlausra foreldra hins vegar, sem og barna þeirra?

Greinargerð.


    Í beiðninni er óskað eftir upplýsingum um stöðu einstæðra og forsjárlausra foreldra. Með einstæðum foreldrum er átt við foreldra sem eftir skilnað eða sambúðarslit teljast opinberlega búa einir með börnum sínum en hitt foreldrið býr annars staðar. Með forsjárlausum foreldrum er átt við foreldra sem ekki búa með börnum sínum samkvæmt opinberum gögnum og hafa ekki forsjá barns síns ellegar barnið hefur lögheimili annars staðar. Fólk í síðarnefnda hópnum fellur stundum jafnvel í hóp barnlausra af því að ekkert barn hefur lögheimili hjá því.
    Eftir lagabreytingu í júní 2006 skal forsjá vera sameiginleg við skilnað eða sambúðarslit nema foreldrar semji um annað eða úrskurður sé á annan veg. Þess vegna er tæpast lengur rétt að tala um forsjárlausa foreldra, en vegna venju hér á landi er í beiðni þessari notast við þetta orð. Engu að síður liggur fyrir að héðan í frá hljóta skilgreiningarnar að byggjast á lögheimili barnanna en ekki eru enn komin fram góð orð.
    Nauðsynlegt er að kanna stöðu þessara hópa en fjöldi fólks í þeim býr við afar bág kjör og lélega húsnæðisaðstöðu. Á 125. löggjafarþingi gaf félagsmálaráðherra Alþingi skýrslu um kjör einstæðra foreldra. Í þeirri skýrslu kom fram að framfærslukostnaður einstæðra foreldra væri verulega hár og að einungis um 58% einstæðra foreldra byggju í eigin íbúð en yfir 90% hjóna og sambýlisfólks. Framfærslukostnaður einstæðra foreldra er líka mjög hár. Í skýrslu Hagstofunnar um meðalneyslu einstæðra foreldra á árunum 2002–2004 (á meðalverðlagi 2004) kom fram að meðalneysluútgjöld þeirra væru tæplega 3,4 millj. kr. á ári eða 282 þús. kr. á mánuði. Ætla má að stór hluti einstæðra foreldra sé undir þeim viðmiðunarmörkum í tekjum. Einnig er líklegt að stór hluti forsjárlausra foreldra búi við bága stöðu en þeir eru æ stærra hlutfall þeirra sem leita eftir félagslegri þjónustu sveitarfélaganna samkvæmt upplýsingum frá þeim og almennri umræðu síðustu missiri. Sömuleiðis má draga ályktanir af því hve stór hópur meðlagsgreiðenda er í vanskilum eða 7000 af 12 þúsund meðlagsgreiðendum sem skulda 14 milljarða kr. Af þessum 7000 einstaklingum eru 4000 í alvarlegum vanskilum og skulda um 11 milljarða kr. Brýnt er orðið að gera heildarúttekt á stöðu þessa hóps og að stjórnvöld og Alþingi meti hvernig best er að bæta stöðu þeirra.
    Þær upplýsingar sem hér er beðið um ættu að gefa allgóða mynd af stöðu bæði einstæðra og forsjárlausra foreldra og gagnast vel til að fá samanburð á aðstöðu og kjörum þessara hópa. Af þeim væri líka hægt að fá glögga mynd af því til hvaða úrræða væri hægt að grípa til að bæta stöðu þeirra.