Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 294. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 307  —  294. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um afnám refsiákvæða vegna ærumeiðinga.

Flm.: Eiríkur Jónsson.



    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að vinna að endurskoðun XXV. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, og 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, er miði að því að refsingar vegna ærumeiðinga verði aflagðar. Markmið breytinganna verði að réttarúrræði vegna ærumeiðinga færist alfarið af sviði refsiréttar yfir á svið einkaréttar.

Greinargerð.


    Ákvæði XXV. kafla hegningarlaga, nr. 19/1940, um ærumeiðingar hafa staðið nánast óbreytt frá því að þau voru sett árið 1940. Á þessum rúmu 65 árum hafa orðið stórkostlegar breytingar á sviði mannréttinda sem og þjóðfélagsins almennt. Þar má nefna að Ísland hefur undirgengist Mannréttindasáttmála Evrópu og fjölmarga aðra alþjóðlega mannréttindasáttmála, auk þess sem mannréttindakafli íslensku stjórnarskrárinnar hefur verið endurskoðaður og vernd mannréttinda þar aukin. Meðal megineinkenna þessarar mannréttindaþróunar er sú verulega aukna vernd sem tjáningarfrelsið nýtur. Ákvæði XXV. kafla hegningarlaga um ærumeiðingar eru að ýmsu leyti í ósamræmi við þessi breyttu viðhorf og sum efnisatriði ákvæðanna fá tæpast staðist stjórnarskrána eða alþjóðlegar skuldbindingar Íslands á sviði mannréttinda. Telja verður eðlilegra að réttarúrræði vegna ærumeiðinga séu alfarið á sviði einkaréttar en ekki refsiréttar, enda vaxandi þrýstingur í alþjóðasamfélaginu á að refsingar við ærumeiðingum verði aflagðar. Því er lagt til að hafin verði vinna við að afnema ærumeiðingarákvæði hegningarlaga og flytja réttarúrræði æruverndar yfir á svið einkaréttarins, eftir atvikum með nánari útfærslu á 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993.

Ósamræmi XXV. kafla hegningarlaga og mannréttindaviðhorfa nútímans.

    Ýmis dæmi mætti nefna um efnisatriði XXV. kafla hegningarlaga sem tæplega eða engan veginn fást staðist nútímaleg mannréttindaviðhorf, sbr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.
    Skal hér í fyrsta lagi nefnt að ákvæðin mæla berum orðum fyrir um það að hægt sé að varpa einstaklingum í fangelsi fyrir ærumeiðingar. Þannig getur einföld móðgun varðað allt að eins árs fangelsi skv. 234. gr. hegningarlaga og sé um aðdróttun að ræða getur hún varðað tveggja ára fangelsi, sbr. 236. gr. Af 101. gr. hegningarlaga leiðir raunar að fangelsisvistin getur orðið allt að fjögur ár ef aðdróttunin beinist að forseta Íslands. Vart þarf að taka fram að þessi ákvæði eru í engu samræmi við nútímaviðhorf og mannréttindavernd, enda hafa alþjóðlegar stofnanir og samtök á sviði mannréttinda beitt sér mjög gegn fangelsisvist sem úrræði vegna ærumeiðinga og Mannréttindadómstóll Evrópu ítrekað kveðið upp áfellisdóma í málum þar sem einstaklingar hafa verið settir í fangelsi vegna ærumeiðinga.
    Ekki verður heldur annað séð en að það fyrirkomulag sem kveðið er á um í 234. og 235. gr., að refsa fyrir útbreiðslu ummæla sem sjálfstætt brot, lagt að jöfnu við frummeiðinguna, brjóti gegn dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu. Um þetta má m.a. vísa til máls Þorgeirs Þorgeirsonar gegn Íslandi frá 25. júní 1992, en þar var lögð áhersla á það í áfellisdómi yfir íslenska ríkinu að Þorgeir hefði í raun verið að skýra frá því sem aðrir sögðu um ofbeldi af hálfu lögreglu. Í nýlegum dómi, Salov gegn Úkraínu, frá 6. september 2005, kvað Mannréttindadómstóllinn raunar mjög fast að orði í þá veru að 10. gr. Mannréttindasáttmálans bannaði ekki dreifingu upplýsinga, jafnvel þótt fyrir lægi sterkur grunur um að upplýsingarnar væru ekki réttar.
    Því má einnig halda fram með góðum rökum að fyrirkomulag 237. gr., þ.e. að lýsa meiðandi ummæli refsiverð þótt sönnuð séu, fái ekki samræmst nútímaviðhorfum um tjáningarfrelsi. Eins og Páll Sigurðsson prófessor hefur bent á í riti sínu um fjölmiðlarétt má einnig færa að því rök að það fyrirkomulag 234. gr. að leggja refsingu við einföldum móðgunum sé andstætt stjórnarskránni og Mannréttindasáttmála Evrópu.
    Fleiri dæmi mætti nefna í þessa veruna en hér verður látið staðar numið. Kjarni málsins er sá að ákvæði hegningarlaga um ærumeiðingar eru úrelt og samrýmast að ýmsu leyti illa nútímaviðhorfum til mannréttinda. Þessi ákvæði þarf að endurskoða og þá vaknar sú spurning hvernig það skuli gert. Eins og nánar verður rakið er lagt til að endurskoðuðum ákvæðum verði skipað í skaðabótalög eða önnur lög á sviði einkaréttar, en ekki á sviði refsiréttarins.

Æruverndin á betur heima utan almennra hegningarlaga.
    Fullyrða má að á alþjóðasviðinu hafi sífellt aukinn þrýstingur myndast á að ríki leggi af refsingar vegna ærumeiðinga, en mæti ærumeiðingum frekar með skaðabótum eða öðrum einkaréttarlegum úrræðum. Þannig hafa ýmsar stofnanir og samtök á sviði mannréttinda barist mjög fyrir afnámi refsinga á þessu sviði. Í þessu samhengi mætti t.d. nefna sameiginlega yfirlýsingu fulltrúa Sameinuðu þjóðanna, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (OSCE) og Samtaka Ameríkuríkja 1 (OAS) frá 10. desember 2002 þar sem segir m.a.: “Criminal defamation is not a justifiable restriction on freedom of expression; all criminal defamation laws should be abolished and replaced, where necessary, with appropriate civil defamation laws.” Virðist Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu sem og tjáningarfrelsisfulltrúi Sameinuðu þjóðanna raunar hafa beitt sér mjög einarðlega í þessum efnum og ítrekað lýst yfir andstöðu sinni við refsingar vegna ærumeiðinga. Svipaðar yfirlýsingar hafa komið frá ýmsum öðrum svæðisbundnum stofnunum og samtökum á sviði mannréttinda, þar á meðal frá Mannréttindanefnd Afríku. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur ekki lýst því yfir að refsiákvæði vegna ærumeiðinga séu sem slík ósamþýðanleg Mannréttindasáttmála Evrópu, en virðist þó í auknum mæli gagnrýna notkun refsinga sem úrræðis á þessu sviði. Þing Evrópuráðsins hefur einnig lýst yfir áhyggjum af misnotkun slíkra úrræða og hvatt tiltekin ríki til að fella úr gildi eða endurskoða refsiákvæði sín um ærumeiðingar.
    Til samræmis við þessa kröfu ýmissa alþjóðasamtaka og stofnana hefur síaukinn fjöldi ríkja aflagt refsingar við ærumeiðingum. Til dæmis virðast eftirtalin lönd hafa afnumið þær að hluta eða öllu leyti á undanförnum árum: Albanía, Argentína, Bosnía og Hersegóvenía, El Salvador, Gana, Georgía, Hondúras, Ítalía, Kambódía (vinna við slíka breytingu stendur yfir), Króatía, Kýpur, Mið-Afríkulýðveldið, Moldavía, Perú, Rúmenía, Sri Lanka, Tógó, Úganda og Úkraína.
    Telja verður eðlilegt að Íslendingar taki ofangreinda þróun og kröfur mannréttindastofnana til alvarlegrar athugunar og er hér lagt til að Íslendingar gangi í hóp með þeim þjóðum sem afnumið hafa refsiákvæði vegna ærumeiðinga. Slík breyting yrði ekki eingöngu mikilvæg sem liður í því að Íslendingar leggi sig fram um að haga löggjöf sinni til samræmis við nútímamannréttindaviðhorf. Hún yrði einnig mikilvægt fordæmi í samfélagi þjóðanna. Refsingar vegna ærumeiðinga eru misnotaðar víða um heim af valdhöfum, m.a. til að þagga niður í pólitískum andstæðingum og loka þá inni. Því miður eru núgildandi ákvæði íslenskra laga notuð sem röksemd fyrir því að slíkar aðgerðir teljist í lagi. Þessu kynntist flutningsmaður tillögunnar nýverið af eigin raun þar sem hann vann að verkefni á þessu sviði í landi þar sem pólitískum andstæðingum stjórnarinnar hafði nýverið verið varpað í fangelsi. Rökstuðningur þeirra sem mæltu slíkum aðgerðum bót var áhugaverður, en þeir bentu á vestrænu lýðræðisríki þar sem slík refsiákvæði væru í gildi, þar á meðal á Ísland. Þar mætti refsa og fangelsa vegna ærumeiðinga.

Lokaorð.
    Á það skal lögð sérstök áhersla að hér er með engum hætti lagt til að vernd ærunnar verði aflögð. Enginn vafi er á því að æran er varin af 71. gr. stjórnarskrárinnar, sem og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Sú vernd er mikilvæg og við þá endurskoðun sem gerð er tillaga um þyrfti að sjálfsögðu að tryggja æru fólks þá vernd sem henni ber samkvæmt tilnefndum ákvæðum og eðlilegar teljast. Tillagan felur einfaldlega í sér að núgildandi ærumeiðingarákvæði verði endurskoðuð þannig að tryggt verði að þau uppfylli nútíma mannréttindakröfur um tjáningarfrelsi, og þau flutt að fullu úr hegningarlögum allsherjarréttarins yfir í skaðabótalög eða aðra löggjöf einkaréttarins.
    Það samrýmist einfaldlega hvorki nútímalegum mannréttindaviðhorfum né almennum viðhorfum í samfélaginu að lögin mæli berum orðum fyrir um að varpa megi borgurunum í fangelsi fyrir það eitt að móðga hver annan.
Neðanmálsgrein: 1
1Nánar tiltekið eru fulltrúarnir United Nations Special Rapporteur on Freedom of Opinion and Expression, OSCE Representative on Freedom of the Media og OAS Special Rapporteur on Freedom of Expression.