Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 571. máls.
Þskj. 849  —  571. mál.Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 127/2006, um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)
    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 127/2006 frá 22. september 2006, um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/56/EB frá 26. október 2005 um samruna hlutafélaga yfir landamæri.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 127/2006 frá 22. september 2006, um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/56/EB frá 26. október 2005 um samruna hlutafélaga yfir landamæri.
    Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES- nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni þeirrar gerðar sem hér um ræðir. Gerð þessi felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/56/EB frá 26. október 2005 um samruna hlutafélaga yfir landamæri.
    Tilskipun 2005/56/EB (10. félagaréttartilskipunin) snertir innri markaðinn og er ætlað að koma til móts við þörf hlutafélaga í mismunandi ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu til að hafa með sér samvinnu og sameinast, en lagalegir og stjórnsýslulegir erfiðleikar hafa haft áhrif á þessu sviði. Með tilskipuninni er hlutafélögum auðveldaður samruni milli landa, m.a. með tilliti til aðildar starfsmanna og í góðu samræmi við fyrra samkomulag á því sviði sem komið var á með reglugerð um Evrópufélög (evrópsk hlutafélög), þ.e. reglugerð ráðsins (EB) nr. 2157/2001 frá 8. október 2001, um samþykktir fyrir Evrópufélög (SE), og tilskipun ráðsins 2001/86/EB frá 8. október 2001, um viðbætur við samþykktir fyrir Evrópufélög að því er varðar aðild starfsmanna. Til að ákvæði tilskipunarinnar gildi þarf að koma til samruni hlutafélaga frá minnst tveimur EES-ríkjum, m.a. samlagshlutafélaga og jafnvel einkahlutafélaga. Ríkin geta ákveðið hvort tilskipunin nái einnig til samvinnufélaga. Þau geta og á grundvelli almannahagsmuna og með vissum skilyrðum lagst gegn samruna. Í tilskipuninni er m.a. að finna ákvæði um samrunaáætlun, rannsókn óháðs sérfræðings á henni, meirihluta atkvæða á hluthafafundum í samrunafélögum, verndarráðstafanir til handa lánardrottnum og skýrslu um áhrif samruna á starfsmenn.

3. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    EES-samningurinn er reglulega uppfærður með breytingum á viðaukum og bókunum við samninginn. Ákvarðanir um þessar breytingar eru teknar í sameiginlegu EES-nefndinni og með þær hefur ávallt verið farið sem hverja aðra þjóðréttarsamninga. Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda þær aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild í 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Að því er Ísland varðar hefur slíkur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að leita ber eftir samþykki Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt með viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun. Í seinni tíð hefur það verið viðtekinn háttur við staðfestingu þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem krefst lagabreytinga að innleiða, enda kemur hvortveggja til, að frestur til að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara er tiltölulega skammur, auk þess sem ekki er alltaf tímabært að innleiða ákvörðun um leið og hún er tekin.


Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 127/2006

frá 22. september 2006

um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir „samningurinn“, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        XXII. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 54/2006 frá 28. apríl 2006 ( 1 ).

2)        Fella ber inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/56/EB frá 26. október 2005 um samruna hlutafélaga yfir landamæri ( 2 ).

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.


Eftirfarandi liður bætist við á eftir lið 10d (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/25/EB) í XXII. viðauka við samninginn:

„10e.     32005 L 0056: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/56/EB frá 26. október 2005 um samruna hlutafélaga yfir landamæri (Stjtíð. ESB L 310, 25.11.2005, bls. 1).“

2. gr.


Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2005/56/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 23. september 2006 að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 22. september 2006.

     Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
    Formaður

    Oda Helen Sletnes


    Ritarar
    sameiginlegu EES-nefndarinnar

    Lilja Viðarsdóttir     Matthias Brinkmann


Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2005/56/EB
frá 26. október 2005
um samruna hlutafélaga yfir landamæri
(Texti sem varðar EES)


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 44. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 1 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 2 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Þörf er á samvinnu og sameiningu félaga með takmarkaðri ábyrgð frá mismunandi aðildarríkjum. Við samruna félaga með takmarkaðri ábyrgð yfir landamæri eiga þau þó við að etja margvíslega lagalega og stjórnsýslulega erfiðleika í Bandalaginu. Því er nauðsynlegt, með tilkomu og starfsemi innri markaðarins í huga, að mæla fyrir um ákvæði Bandalagsins til að auðvelda framkvæmd við samruna félaga með takmarkaðri ábyrgð yfir landamæri þegar um er að ræða félög með takmarkaðri ábyrgð sem eru af ólíkum toga og heyra undir löggjöf mismunandi aðildarríkja.
2)          Með þessari tilskipun er greitt fyrir samruna félaga með takmarkaðri ábyrgð yfir landamæri eins og hann er skilgreindur hér. Lög aðildarríkjanna skulu heimila samruna innlends félags með takmarkaðri ábyrgð og félags með takmarkaðri ábyrgð frá öðru aðildarríki yfir landamæri, að því tilskildu að innlend lög hlutaðeigandi aðildarríkja heimili samruna þess háttar félaga.
3)          Í því skyni að auðvelda framkvæmd samruna yfir landamæri skal mæla fyrir um, að því tilskildu að þessi tilskipun kveði ekki á um annað, að hvert félag, sem tekur þátt í samruna yfir landamæri, ásamt hlutaðeigandi þriðja aðila, heyri áfram undir þau ákvæði og formsatriði innlendra laga sem giltu við samruna innanlands. Ekki skal innleiða höft á staðfesturétt eða frjálsa fjármagnsflutninga með neinum ákvæðum eða formsatriðum innlendra laga, sem vísað er til í þessari tilskipun, nema unnt sé að sýna fram á að þau séu í samræmi við dómaframkvæmd dómstólsins, einkum við kröfur er varða almenna hagsmuni, og séu bæði nauðsynleg og í réttu hlutfalli til að uppfylla slíkar forgangskröfur.
4)          Semja skal sameiginlegu áætlunina um samruna yfir landamæri með sama orðalagi fyrir hvert hlutaðeigandi félag í aðildarríkjunum. Því ber að tilgreina lágmarksefni slíkra sameiginlegra samrunaáætlana en félögunum skal vera frjálst að semja um önnur atriði.
5)          Í því skyni að vernda hagsmuni félagsmanna og annarra skal birta áætlanirnar um samruna yfir landamæri og framkvæmd samruna yfir landamæri fyrir hvert samrunafélag með færslu í viðeigandi opinbera skrá.
6)          Í lögum allra aðildarríkjanna skal kveðið á um að einn eða fleiri sérfræðingar geri skýrslu, á innlendum vettvangi, um sameiginlega áætlun um samruna yfir landamæri, fyrir hönd hvers samrunafélags. Í því skyni að draga úr kostnaði vegna sérfræðinga í tengslum við samruna yfir landamæri skal gefa kost á því að gera eina skýrslu fyrir alla félagsmenn sem taka þátt í framkvæmd samruna yfir landamæri. Samþykkja skal áætlun um samruna yfir landamæri á hluthafafundi hvers þessara félaga.
7)          Í því skyni að auðvelda framkvæmd samruna yfir landamæri skal kveða á um að innlent yfirvald, sem fer með lögsögu yfir þessum félögum, skuli hafa eftirlit með framkvæmd og lögmæti ákvarðanatöku hvers samrunafélags en innlent yfirvald, sem fer með lögsögu yfir félaginu, sem verður til við samrunann, skal hafa eftirlit með framkvæmd og lögmæti samruna yfir landamæri. Viðkomandi innlent yfirvald getur verið dómstóll, lögbókandi eða annað lögbært yfirvald sem viðkomandi aðildarríki tilnefnir. Einnig skal tilgreina þau innlendu lög sem ákvarða hvaða dag samruni yfir landamæri tekur gildi, þ.e. lögin sem félagið, sem verður til við samrunann, heyrir undir.
8)          Í því skyni að vernda hagsmuni félagsmanna og annarra skal tilgreina hver lagaleg áhrif samruna yfir landamæri eru og greina á milli hvort félagið, sem verður til við samrunann sé yfirtökufélag eða nýtt félag. Til að tryggja réttaröryggi skal ekki lengur vera mögulegt að lýsa samrunann ógildan eftir að samruni yfir landamæri hefur tekið gildi.
9)          Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á beitingu löggjafar um eftirlit með samfylkingum fyrirtækja, bæði á vettvangi Bandalagsins með reglugerð (EB) nr. 139/2004 ( 3 ) og í aðildarríkjunum.
10)          Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á löggjöf Bandalagsins viðvíkjandi lánamiðlunum og öðrum fjármagnsfyrirtækjum og innlendar reglur sem settar eru eða innleiddar samkvæmt slíkri löggjöf Bandalagsins.
11)          Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á löggjöf aðildarríkis þar sem krafist er upplýsinga um staðsetningu yfirstjórnar eða aðalstarfsstöðvar sem fyrirhuguð er fyrir félagið sem verður til við samruna yfir landamæri.
12)          Réttindi starfsmanna, önnur en þátttökuréttur, skulu eftir sem áður heyra undir ákvæði landslaga sem um getur í tilskipun ráðsins 98/59/EB frá 20. júlí 1998 um hópuppsagnir ( 4 ), tilskipun ráðsins 2001/23/EB frá 12. mars 2001 um vernd launamanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta fyrirtækja eða atvinnurekstrar ( 5 ), tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/14/EB frá 11. mars 2002 um almennan ramma um upplýsingamiðlun til launamanna og samráð við þá innan Evrópubandalagsins ( 6 ) og tilskipun ráðsins 94/45/EB frá 22. september 1994 um stofnun evrópsks samstarfsráðs eða samþykkt reglna í fyrirtækjum og fyrirtækjahópum er starfa á Bandalagsvísu varðandi upplýsingamiðlun og samráð við starfsmenn ( 7 ).
13)          Ef starfsmenn hafa þátttökurétt í einu af samrunafélögunum í samræmi við skilyrði sem sett eru fram í þessari tilskipun og ef landslög aðildarríkisins, þar sem félagið, sem verður til við samruna yfir landamæri, hefur skráða skrifstofu, kveða ekki á um sömu þátttöku og í hlutaðeigandi samrunafélögum, þ.m.t. í nefndum eftirlitsstjórnar sem hafa ákvörðunarvald, eða þau veita starfsmönnum ekki sama rétt í þeim fyrirtækjum sem verða til við samruna yfir landamæri, skal setja reglur um þátttöku starfsmanna í félaginu sem verður til við samrunann og aðild þeirra að skilgreiningu slíks réttar. Í því skyni skulu meginreglur og málsmeðferð, sem kveðið er á um í reglugerð ráðsins (EB) nr. 2157/2001 frá 8. október 2001 um samþykktir fyrir Evrópufélög (SE) ( 8 ) og í tilskipun ráðsins 2001/86/EB frá 8. október 2001 um viðbætur við samþykktir fyrir Evrópufélög að því er varðar aðild starfsmanna ( 9 ), liggja til grundvallar, þó með fyrirvara um breytingar sem taldar eru nauðsynlegar vegna þess að félagið, sem verður til við samrunann, heyrir undir landslög aðildarríkisins þar sem það hefur skráða skrifstofu. Í samræmi við b-lið 2. mgr. 3. gr. tilskipunar 2001/86/EB geta aðildarríkin séð til þess að samningaviðræður hefjist skjótt, skv. 16. gr. þessarar tilskipunar, í því skyni að koma í veg fyrir óþarfa tafir á samruna.
14)          Í því skyni að ákvarða umfang þátttöku starfsmanna í viðkomandi samrunafélögum skal einnig hafa hliðsjón af hlutfalli fulltrúa starfsmanna í framkvæmdastjórninni, sem afkomusvið félagsins heyra undir, og þátttaka starfsmanna tekur til.
15)          Þar sem aðildarríkin geta ekki með fullnægjandi hætti náð því markmiði sem fyrirhuguð aðgerð felur í sér, þ.e. að setja reglur með sameiginlegum þáttum sem gilda á fjölþjóðlegum vettvangi, og auðveldara er að ná markmiðinu á vettvangi Bandalagsins vegna þess hve aðgerðin er umfangsmikil og vegna áhrifa hennar, getur Bandalagið samþykkt ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna, eins og segir í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og hún er sett fram í þeirri grein, ganga ákvæði þessarar tilskipunar ekki framar en nauðsynlegt er til að þessu markmiði verði náð.
16)          Hvetja skal aðildarríkin, í samræmi við 34. gr. samstarfssamningsins milli stofnana um betri lagasetningu ( 10 ), til að semja fyrir sig og í þágu Bandalagsins sínar eigin töflur sem sýna, eftir því sem við verður komið, samsvörun milli þessarar tilskipunar og ráðstafananna til að lögleiða hana og að birta þær.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.
Gildissvið

Þessi tilskipun gildir um samruna félaga með takmarkaðri ábyrgð, sem eru stofnuð í samræmi við lög aðildarríkis og eru með skráða skrifstofu, yfirstjórn eða aðalstarfsstöð í Bandalaginu, að því tilskildu að a.m.k. tvö þeirra heyri undir lög mismunandi aðildarríkja (hér á eftir nefndur samruni yfir landamæri).

2. gr.
Skilgreiningar

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1)    „félag með takmarkaðri ábyrgð“, hér á eftir nefnt „félag“:
    a)    félag, eins og um getur í 1. gr. tilskipunar 68/151/EBE ( 11 ), eða
    b)    félag með hlutafé og með réttarstöðu lögaðila sem á sérstakar eignir sem einar og sér duga til greiðslu skulda þess og er háð skilyrðum innlendra laga að því er varðar ábyrgðir, sem kveðið er á um í tilskipun 68/151/EBE, til að vernda hagsmuni félagsmanna og annarra,
2.     „samruni“: framkvæmd þar sem:
    a)    eitt eða fleiri félög yfirfæra við félagsslit, án þess að koma þurfi til skiptameðferðar, allar eignir sínar og skuldir til annars félags, yfirtökufélagsins, í skiptum fyrir útgáfu verðbréfa eða hlutabréfa til félagsmanna sinna, sem nemur hlutafé hins félagsins, og greiðslu í handbæru fé, ef við á, sem nemur ekki meira en 10% af nafnvirðinu eða, sé nafnvirði ekki tilgreint, af bókfærðu verði þessara verðbréfa eða hlutabréfa eða
    b)    tvö eða fleiri félög yfirfæra við félagsslit, án þess að koma þurfi til skiptameðferðar, allar eignir sínar og skuldir til félags sem þau mynda, yfirtökufélagsins, í skiptum fyrir útgáfu verðbréfa eða hlutabréfa til félagsmanna sinna, sem nemur hlutafé nýja félagsins, og greiðslu í handbæru fé, ef við á, sem nemur ekki meira en 10% af nafnvirðinu eða, sé nafnvirði ekki tilgreint, af bókfærðu verði þessara verðbréfa eða hlutabréfa eða
    c)    félag yfirfærir við félagsslit, án þess að koma þurfi til skiptameðferðar, allar eignir sínar og skuldir til félagsins sem á öll verðbréfin eða hlutabréfin sem nemur hlutafé þess.

3. gr.
Frekari ákvæði varðandi gildissviðið

1.     Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 2. gr. skal þessi tilskipun einnig gilda um samruna yfir landamæri þar sem lög, a.m.k. eins hlutaðeigandi aðildarríkis, heimila greiðslu í handbæru fé, sem um getur í a- og b-lið 2. mgr. 2. gr., sem nemur meira en 10% af nafnvirðinu eða, sé nafnvirði ekki tilgreint, af bókfærðu verði verðbréfa eða hlutabréfa sem nemur hlutafé félagsins sem verður til við samrunann.
2.     Aðildarríkjum er heimilt að ákveða að þessi tilskipun gildi ekki um samruna yfir landamæri með þátttöku samvinnufélags jafnvel þótt samvinnufélagið falli undir skilgreininguna „félag með takmarkaðri ábyrgð“ sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 2. gr.
3.     Þessi tilskipun gildir ekki um samruna yfir landamæri með þátttöku félags sem hefur að markmiði sameiginlega fjárfestingu fjármagns, sem almenningur hefur lagt fram, sem starfar á grundvelli meginreglunnar um áhættudreifingu og hlutir í því eru beint eða óbeint endurkeyptir eða innleystir, að ósk eigenda, af eignum þessa félags. Aðgerðir, sem slíkt félag grípur til í því skyni að tryggja að verð hluta þess í kauphöll sé ekki verulega frábrugðið verðmæti hreinnar eignar þess, telst jafngilda slíkum endurkaupum eða innlausnum.

4. gr.
Skilyrði varðandi samruna yfir landamæri

1.     Ef ekki er kveðið á um annað í þessari tilskipun,
a)    skal samruni yfir landamæri einungis vera mögulegur milli þeirra gerða félaga sem er heimilt samkvæmt landslögum hlutaðeigandi aðildarríkja að sameinast, og
b)    skal félag, sem tekur þátt í samruna yfir landamæri, lúta ákvæðum og formsatriðum landslaga sem það heyrir undir. Lög aðildarríkis, sem gera innlendum yfirvöldum kleift að mótmæla tilteknum innri samruna af ástæðum er varða hagsmuni almennings, skulu einnig gilda um samruna yfir landamæri ef a.m.k. eitt samrunafélaganna heyrir undir lög þess aðildarríkis. Þetta ákvæði gildir ekki þegar 21. gr. reglugerðar (EB) nr. 139/2004 gildir.
2.     Ákvæði og formsatriði, sem um getur í b-lið 1. mgr., skulu einkum taka til ákvarðanatöku varðandi samrunann og, með hliðsjón af því að samruninn nær yfir landamæri, til verndar lánardrottnum samrunafélaganna, eigendum verðbréfa og hlutabréfa, auk starfsmanna að því er varðar önnur réttindi en þau sem falla undir 16. gr.Aðildarríki er heimilt, að því er varðar félög sem taka þátt í samruna yfir landamæri og lúta lögum þess, að samþykkja ákvæði í því skyni að vernda með viðeigandi hætti minnihluta félagsmanna sem leggst gegn samruna yfir landamæri.

5. gr.
Sameiginlegar samrunaáætlanir

Framkvæmdastjórn eða stjórn sérhvers samrunafélaganna skal semja sameiginlega áætlun um samruna yfir landamæri. Í sameiginlegu áætluninni um samruna yfir landamæri skulu vera a.m.k. eftirfarandi upplýsingar:
a)    form, heiti og skráð skrifstofa samrunafélaganna og félagsins sem verður til við samruna yfir landamæri,
b)    skiptihlutfall verðbréfa eða hlutabréfa, sem nemur hlutafé félagsins, ásamt greiðslufjárhæð í handbæru fé,
c)    skilmálar varðandi úthlutun verðbréfa eða hlutabréfa sem nemur hlutafé félagsins sem verður til við samruna yfir landamæri,
d)    líkleg áhrif samruna yfir landamæri á atvinnumál starfsmanna,
e)    frá hvaða degi réttur eigenda slíkra verðbréfa og hlutabréfa, sem nemur hlutafé félagsins, til hlutdeildar í hagnaði myndast og sérstök skilyrði sem hafa áhrif á þann rétt,
f)    frá hvaða degi viðskipti samrunafélaganna skuli fá bókhaldsmeðferð sem viðskipti félagsins sem verður til við samruna yfir landamæri,
g)    hvaða réttindi félagið, sem verður til við samruna yfir landamæri, veitir félagsmönnum sem njóta sérstakra réttinda eða eigendum annarra verðbréfa en hlutabréfa sem nemur hlutafé félagsins eða hvaða ráðstafanir séu fyrirhugaðar í því sambandi,
h)    hvaða sérstöku kjör, ef um slíkt er að ræða, bjóðast þeim sérfræðingum sem skoða samrunaáætlunina um samrunann yfir landamæri eða fulltrúum í stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn samrunafélaganna,
i)    samþykktir félagsins sem verður til við samruna yfir landamæri,
j)    upplýsingar um málsmeðferð, eftir því sem við á, þegar ákvarðað er fyrirkomulag, skv. 16. gr., um aðild starfsmanna í skilgreiningu á réttindum þeirra til þátttöku í félaginu, sem verður til við samruna yfir landamæri,
k)    upplýsingar um mat á eignum og skuldum sem eru yfirfærðar til félagsins sem verður til við samruna yfir landamæri,
l)    dagsetningar reikninga félagsins, sem voru notaðir til að ákvarða skilyrði fyrir samruna yfir landamæri.

6. gr.
Birting

1.     Birta skal sameiginlegu samrunaáætlunina með þeim hætti sem er lýst í lögum hvers aðildarríkis í samræmi við 3. gr. tilskipunar 68/151/EBE fyrir hvert samrunafélag, a.m.k. einum mánuði fyrir hluthafafund sem skal ákvarða þar að lútandi.
2.     Að því er varðar hvert og eitt af samrunafélögunum og með fyrirvara um viðbótarkröfur af hálfu aðildarríkisins sem fer með lögsögu í málefnum hlutaðeigandi félags skal birta upplýsingar um eftirfarandi í lögbirtingablaði þess aðildarríkis:
a)    tegund, heiti og skráða skrifstofu hvers samrunafélags,
b)    skrána þar sem skjölin, sem um getur í 2. mgr. 3. gr. tilskipunar 68/151/EBE, eru skráð fyrir hvert samrunafélaganna og númer hverrar færslu í þeirri skrá,
c)    upplýsingar, fyrir hvert samrunafélag, um fyrirkomulag sem gengið er frá til að lánardrottnar og sérhver minnihluta hluthafi samrunafélagsins geti neytt réttar síns og heimilisfang þar sem hægt er að nálgast fullnægjandi upplýsingar um þetta fyrirkomulag án endurgjalds.

7. gr.
Skýrsla framkvæmdastjórnar eða stjórnar

Framkvæmdastjórn eða stjórn hvers samrunafélags skal semja skýrslu til handa félagsmönnum þar sem lagalegir og fjárhagslegir þættir samrunans yfir landamæri eru skýrðir og rökstuddir og einnig áhrif samrunans yfir landamæri á félagsmenn, lánardrottna og starfsmenn.
Félagsmenn og fulltrúar starfsmanna eða starfsmennirnir sjálfir, ef engir slíkir fulltrúar eru fyrir hendi, skulu fá aðgang að skýrslunni eigi síðar en einum mánuði fyrir þann dag er hluthafafundurinn, sem um getur í 9. gr., er haldinn.
Ef framkvæmdastjórn eða stjórn einhvers af samrunafélögunum fær, tímanlega, álit frá fulltrúum starfsmanna sinna, sem kveðið er á um í innlendum lögum, skal bæta því áliti við skýrsluna.

8. gr.
Óháð sérfræðingsskýrsla

1.     Semja skal óháða sérfræðingsskýrslu fyrir hvert samrunafélag til handa félagsmönnum og skal hún gerð aðgengileg eigi síðar en einum mánuði áður en hluthafafundurinn, sem um getur í 9. gr., er haldinn. Slíkir sérfræðingar geta verið einstaklingar eða lögaðilar, í samræmi við lög hvers aðildarríkis.
2.     Í stað þess að sérfræðingar starfi fyrir hönd hvers samrunafélags er einum eða fleiri óháðum sérfræðingum, sem dómsmálayfirvald eða stjórnvald tilnefnir, eftir sameiginlega beiðni frá félögunum, í aðildarríkinu þar sem eitt af samrunafélögunum eða félagið, sem verður til við samruna yfir landamæri eða samþykkt af slíku yfirvaldi, er skráð, heimilt að kanna sameiginlegu samrunaáætlunina og semja eina skriflega skýrslu fyrir alla félagsmenn.
3.     Í sérfræðingsskýrslunni skulu a.m.k. vera þær upplýsingar sem kveðið er á um í 2. mgr. 10. gr. tilskipunar ráðsins 78/855/EBE frá 9. október 1978 um samruna almenningshlutafélaga ( 12 ). Sérfræðingarnir skulu hafa rétt til að fá allar þær upplýsingar frá hverju samrunafélagi sem þeir telja nauðsynlegar til að gegna skyldustörfum sínum.
4.     Ef allir félagsmenn hvers félags, sem tekur þátt í samruna yfir landamæri, hafa gefið samþykki sitt þar að lútandi skal hvorki krefjast könnunar óháðra sérfræðinga á sameiginlegu samrunaáætluninni né sérfræðingsskýrslu.

9. gr.
Samþykki hluthafafundar

1.     Hluthafafundur hvers samrunafélags skal, taka ákvörðun um samþykkt sameiginlegrar samrunaáætlunar með hliðsjón af skýrslunum, sem um getur í 7. og 8. gr.
2.     Hluthafafundur hvers samrunafélags getur áskilið sér rétt til að binda framkvæmd samruna yfir landamæri því skilyrði að fyrirkomulag, sem ákveðið er um þátttöku starfsmanna í félaginu sem verður til við samrunann, verði staðfest með skýlausum hætti.
3.     Ekki er nauðsynlegt að í lögum aðildarríkis sé krafist samþykkis hluthafafundar yfirtökufélagsins um samrunann ef skilyrðin, sem mælt er fyrir um í 8. gr. tilskipunar 78/855/EBE, eru uppfyllt.

10. gr.
Vottorð fyrir samruna

1.     Hvert aðildarríki skal tilnefna dómstól, lögbókanda eða annað þar til bært yfirvald til að athuga gaumgæfilega lögmæti samruna yfir landamæri að því er varðar þann þátt málsmeðferðarinnar sem snertir samrunafélögin sem heyra undir innlend lög.
2.     Í hverju hlutaðeigandi aðildarríki skal yfirvaldið, sem um getur í 1. mgr., tafarlaust veita hverju samrunafélagi, sem heyrir undir innlend lög ríkisins, vottorð til endanlegrar staðfestingar á því að lokið sé öllum viðeigandi gerningum og formsatriðum fyrir samrunann.
3.     Ef kveðið er á um málsmeðferð í lögum aðildarríkis, sem samrunafélag heyrir undir, um hvernig standa beri að athugun og breytingum á skiptihlutfalli verðbréfa eða hlutabréfa eða um jöfnunargreiðslur til minnihluta hluthafa, án þess að komið sé í veg fyrir skráningu samruna yfir landamæri, skal því aðeins beita slíkri málsmeðferð að hin samrunafélögin í aðildarríkjum, þar sem ekki er kveðið á um slíka málsmeðferð, staðfesti ótvírætt, þegar þau samþykkja samrunaáætlunina í samræmi við 1. mgr. 9. gr., að þau séu því samþykk að hluthafar þess samrunafélags geti nýtt sér slíka málsmeðferð, sem skal höfða fyrir þeim dómstóli sem hefur lögsögu yfir því samrunafélagi. Í slíkum tilvikum getur yfirvaldið, sem um getur í 1. mgr., gefið út vottorðið, sem um getur í 2. mgr., jafnvel þótt slík málsmeðferð sé hafin. Í vottorðinu skal þó koma fram að málsmeðferðinni sé ekki lokið. Ákvörðun sú, sem er niðurstaða málsmeðferðarinnar, skal vera bindandi fyrir félagið sem verður til við samruna yfir landamærin og alla félagsmenn þess.

11. gr.
Athugun á lögmæti samruna yfir landamæri

1.     Hvert aðildarríki skal tilnefna dómstól, lögbókanda eða annað þar til bært yfirvald til að athuga gaumgæfilega lögmæti samruna yfir landamæri að því er varðar þann þátt málsmeðferðarinnar sem snertir framkvæmd samrunans og, þar sem við á, stofnun nýs félags sem verður til við samruna yfir landamæri þar sem félagið heyrir undir innlend lög. Framangreint yfirvald skal einkum tryggja að samrunafélögin hafi samþykkt samrunaáætlunina með sama orðalagi og, ef við á, að fyrirkomulag að því er varðar þátttöku starfsmanna hafi verið ákvarðað í samræmi við 16. gr.
2.     Í því skyni skal hvert samrunafélag senda yfirvaldinu, sem um getur í 1. mgr., vottorðið, sem um getur í 2. mgr. 10. gr., innan sex mánaða frá útgáfu þess ásamt sameiginlegu samrunaáætluninni sem hefur verið samþykkt á hluthafafundi, sem um getur í 9. gr.

12. gr.
Gildistaka samruna yfir landamæri

Lög aðildarríkisins sem hefur lögsögu yfir félaginu, sem verður til við samruna yfir landamæri, skal ákvarða hvaða dag samruninn tekur gildi. Sá dagur skal vera eftir að gaumgæfileg athugun, sem um getur í 11. gr., hefur farið fram.

13. gr.
Skráning

Lög hvers aðildarríkis sem hafði lögsögu yfir samrunafélögunum, skulu ákvarða, m.t.t. yfirráðasvæðis hvers aðildarríkis, fyrirkomulagið, í samræmi við 3. gr. tilskipunar 68/151/EBE, um birtingu tilkynningar um samruna yfir landamæri í opinberu skránni þar sem hverju félagi er skylt að leggja inn skjöl. Skráningarskrifstofan, þar sem félagið, sem verður til við samrunann yfir landamæri, er skráð, skal tafarlaust tilkynna skrifstofunni þar sem hvert félaganna var skylt að leggja inn skjöl um að samruni yfir landamæri hafi tekið gildi. Afskrá skal félagið úr fyrri skránni, ef við á, þegar framangreind tilkynning hefur borist en eigi fyrr.

14. gr.
Afleiðingar samruna yfir landamæri

1.     Samruni yfir landamæri sem fer fram eins og mælt er fyrir um í a- og c-lið 2. mgr. 2. gr. skal, frá þeim degi sem um getur í 12. gr., hafa í för með sér eftirfarandi:
a)    allar eignir og skuldir félagsins, sem tekið er yfir, færast til yfirtökufélagsins,
b)    félagsmenn félagsins, sem tekið er yfir, verða félagsmenn í yfirtökufélaginu,
c)    félagið, sem tekið er yfir, hættir að vera til.
2.     Samruni yfir landamæri, sem fer fram eins og mælt er fyrir um í b-lið 2. mgr. 2. gr., skal, frá þeim degi, sem um getur í 12. gr., hafa í för með sér eftirfarandi:
a)    allar eignir og skuldir samrunafélaganna færast til nýja félagsins,
b)    félagsmenn samrunafélaganna verða félagsmenn nýja félagsins,
c)    samrunafélögin hætta að vera til.
3.     Ef þess er krafist samkvæmt lögum aðildarríkjanna við samruna félaga, sem falla undir þessa tilskipun, yfir landamæri, að sérstökum formsatriðum sé lokið áður en yfirfærsla tiltekinna eigna, réttinda og skuldbindinga samrunafélanna tekur gildi gagnvart þriðja aðila, skal félagið sem verður til við samruna yfir landamæri annast framkvæmd þessara formsatriða.
4.     Réttindi og skyldur samrunafélaganna, sem af ráðningarsamningum eða -samböndum leiðir og eru fyrir hendi þann dag er samruni yfir landamæri tekur gildi, skulu, vegna gildistöku samrunans, færast yfir til félagsins, sem verður til við samruna yfir landamæri, á þeim degi sem samruninn tekur gildi.
5.     Ekki skal skipta neinum hlutabréfum í yfirtökufélaginu fyrir hlutabréf í félaginu sem tekið er yfir, hvorki:
a)    af hálfu yfirtökufélagsins sjálfs né einstaklings sem starfar í eigin nafni en er á vegum fyrirtækisins,
b)    af hálfu félagsins, sem tekið er yfir, né einstaklings sem starfar í eigin nafni en er á vegum fyrirtækisins,

15. gr.
Einfölduð formsatriði

1.     Í þeim tilvikum að samruni með yfirtöku verður fyrir tilverknað félags sem á öll hlutabréfin og önnur verðbréf sem veita atkvæðisrétt á hluthafafundum í félaginu eða félögunum sem tekin eru yfir:
–    skulu ákvæði b-, c- og e-liðar 5. gr., 8. gr. og b- liður 1. mgr. 14. gr. ekki gilda,
–    skal 1. mgr. 9. gr. ekki gilda um félagið eða félögin sem tekin eru yfir.
2.     Í þeim tilvikum að samruni yfir landamæri verði fyrir tilverknað félags, sem á minnst 90% hlutabréfa en ekki öll hlutabréfin og önnur verðbréf, sem veita atkvæðisrétt á hluthafafundum félagsins eða félaganna, sem tekin eru yfir, skal einungis gera kröfu um skýrslur frá óháðum sérfræðingi eða sérfræðingum og skjöl sem nauðsynleg eru til að athuga gaumgæfilega lögmæti samrunans, að því marki sem kveðið er á um slíkt í landslögum sem yfirtökufélagið eða félagið, sem tekið er yfir, heyrir undir.

16. gr.
Þátttaka starfsmanna

1.     Með fyrirvara um 2. mgr skulu gildandi reglur um þátttöku starfsmanna, ef einhverjar eru, í aðildarríkinu þar sem félagið, sem verður til við samruna yfir landamæri, hefur skráða skrifstofu, gilda um félagið.
2.     Hins vegar skulu gildandi reglur um þátttöku starfsmanna, ef einhverjar eru, í aðildarríkinu þar sem félagið, sem verður til við samruna yfir landamæri, hefur skráða skrifstofu, ekki gilda ef meðalfjöldi starfsmanna í a.m.k. einu af samrunafélögunum var yfir 500 á síðustu sex mánuðum fyrir birtingu áætlunar um samruna yfir landamæri, sem um getur í 6. gr., þar reglur gilda um þátttökurétt starfsmannaí skilningi k-liðar 2. gr. tilskipunar 2001/86/EB eða ef innlend lög, sem gilda um félagið, sem verður til við samrunann, kveða ekki á um:
a)    a.m.k. sömu réttindi starfsmanna til þátttöku og í hlutaðeigandi samrunafélögum, sem miðast við hlutfall fulltrúa starfsmanna í stjórn eða eftirlitsstjórn eða nefndum þeirra eða í framkvæmdastjórninni, sem afkomustöðvar félagsins heyra undir, sem þátttaka starfsmanna tekur til, eða
b)    sama rétt starfsmanna fyrirtækja félagsins, sem verður til við samruna yfir landamæri og er staðsett í öðru aðildarríki, til að nýta þátttökuréttinn og þeir starfsmenn hafa sem starfa í aðildarríkinu þar sem félagið, sem verður til við samrunann, er með skráða skrifstofu.
3.     Í þeim tilvikum, sem um getur í 2. mgr., skulu aðildarríkin setja reglur um þátttöku starfsmanna í félaginu sem verður til við samruna yfir landamæri og aðild starfsmanna í skilgreiningunni á þessum réttindum, að breyttu breytanda og með fyrirvara um 4. til 7. mgr hér á eftir, í samræmi við meginreglur og málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 2., 3., og 4. mgr. 12. gr. reglugerðar (EB) nr. 2157/2001 og eftirfarandi ákvæði tilskipunar 2001/86/EB:
a)    ákvæði 1., 2., og 3. mgr., fyrsta undirliðar fyrstu undirgreinar og annarrar undirgreinar 4. mgr., 5. og 7. mgr. 3. gr.,
b)    ákvæði 1. mgr., a-, g- og h-liðar 2. mgr. og 3. mgr. 4. gr.,
c)    ákvæði 5. gr.,
d)    ákvæði 6. gr.,
e)    ákvæði 1. mgr., b-liðar fyrstu undirgreinar og annarrar undirgreinar 2. mgr. og 3. mgr. 7. gr., Að því er varðar þessa tilskipun skal þó hækka hlutfallið, sem mælt er fyrir um í b-lið fyrstu undirgreinar 2. mgr. 7. gr. tilskipunar 2001/86/ EB að því er varðar beitingu almennu reglnanna í 3. hluta viðaukans við þá tilskipun, úr 25 í 33.%,
f)    ákvæði 8., 10. og 12. gr.,
g)    ákvæði 4. mgr. 13. gr.,
h)    ákvæði b-liðar, 3. hluta viðaukans.
4.     Við setningu meginreglna og verkreglna sem um getur í 3. mgr.:
a)    skulu aðildarríkin veita viðkomandi stofnunum samrunafélaganna rétt til að velja um, án þess að samningaviðræður hafi áður farið fram, hvort þær heyri beint undir almennar reglur um þátttöku sem um getur í h-lið 3. mgr., eins og mælt er fyrir um í löggjöf aðildarríkisins þar sem félagið, sem verður til við samruna yfir landamæri, mun hafa skráða skrifstofu, og að hlíta þessum reglum frá dagsetningu skráningar,
b)    skulu aðildarríkin veita sérstöku samninganefndinni rétt til að ákveða, með atkvæðum tveimur þriðju hluta félagsmanna og skulu a.m.k. tveir þriðju fulltrúa starfsmanna greiða atkvæði, þ.m.t. atkvæði félagsmanna sem eru fulltrúar starfsmanna í a.m.k. tveimur aðildarríkjum, að hefja ekki samningaviðræður eða binda enda á samningaviðræður sem þegar eru hafnar og bera fyrir sig þær reglur um þátttöku sem eru í gildi í aðildarríkinu þar sem skráð skrifstofa félagsins, sem verður til við samruna yfir landamæri, verður staðsett,
c)    er aðildarríkjunum heimilt, í þeim tilvikum þegar samningaviðræður hafa áður farið fram, ef almennar reglur um þátttöku gilda og þrátt fyrir þær reglur, að ákvarða takmörkun á hlutfalli fulltrúa starfsmanna í stjórn félagsins, sem verður til við samruna yfir landamæri. Ef hlutfall fulltrúa starfsmanna í stjórn eða eftirlitsstjórn í einu af samrunafyrirtækjunum er a.m.k. einn þriðji má takmörkunin aldrei leiða til þess að hlutfall fulltrúa starfsmanna í stjórn verði lægra en einn þriðji.
5.     Rýmkun þátttökuréttar þannig að hann nái yfir starfsmenn félagsins, sem verður til við samruna yfir landamæri, sem starfa í öðrum aðildarríkjum, sem um getur í b-lið 2.gr., skal ekki hafa í för með sér neina skuldbindingu fyrir aðildarríki, sem velja þá leið, um að taka tillit til þessarra starfsmanna þegar reiknuð eru viðmiðunarmörk fyrir fjölda starfsmanna sem veita þátttökurétt samkvæmt innlendum lögum.
6.     Ef reglur um þátttöku starfsmanna gilda um a.m.k. eitt af samrunafélögunum og félagið, sem verður til við samruna yfir landamæri, fellur undir slíkt kerfi í samræmi við reglurnar, sem um getur í 2. mgr., er skylt að félagið fái lögákveðið rekstrarform sem heimilar að þátttökuréttur sé nýttur.
7.     Ef reglur um þátttöku starfsmanna gilda um félagið, sem verður til við samruna yfir landamæri, er því félagi skylt að gera ráðstafanir til að tryggja að þátttökuréttur starfsmanna sé varinn komi til innlends samruna á næstu þremur árum eftir að samruninn yfir landamæri tók gildi, með því að beita, að breyttu breytanda, reglunum sem mælt er fyrir um í þessari grein.

17. gr.
Gildi

Ekki er heimilt að lýsa samruna yfir landamæri, sem hefur öðlast gildi eins og kveðið er á um í 12. gr., ógildan.

18. gr.
Endurskoðun

Fimm árum eftir dagsetninguna, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 19. gr., skal framkvæmdastjórnin endurskoða þessa tilskipun í ljósi þeirrar reynslu sem hefur verið aflað við beitingu hennar og leggja til breytingar, ef þörf er á.

19. gr.
Lögleiðing

Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 15. desember 2007.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær verða birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

20. gr.
Gildistaka.

Tilskipun þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

21. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Strassborg 26. október 2005.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
J. BORRELL FONTELLES D. ALEXANDER
forseti. forseti.

Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 175, 29.6.2006, bls. 105, og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 34, 29.6.2006, bls. 16.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 310, 25.11.2005, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 3
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Stjtíð. ESB C 117, 30.4.2004, bls. 43.
Neðanmálsgrein: 5
(2)    Álit Evrópuþingsins frá 10. maí 2005 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB) og ákvörðun ráðsins frá 19. september 2005.
Neðanmálsgrein: 6
(3)    Reglugerð ráðsins (EB) nr. 139/2004 frá 20 janúar 2004 um eftirlit með samfylkingum fyrirtækja (samrunareglugerð EB) (Stjtíð. EB L 24, 29.1.2004, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 7
(4)    Stjtíð. EB L 225, 12.8.1998, bls. 16.
Neðanmálsgrein: 8
(5)    Stjtíð. EB L 82, 22.3.2001, bls. 16.
Neðanmálsgrein: 9
(6)    Stjtíð. EB L 80, 23.3.2002, bls. 29.
Neðanmálsgrein: 10
(7)    Stjtíð. EB L 254, 30.9.1994, bls. 64. Tilskipuninni var breytt með tilskipun 97/74/EB (Stjtíð. EB L 10, 16.1.1998, bls. 22).
Neðanmálsgrein: 11
(8)    Stjtíð. EB L 294, 10.11.2001, bls. 1. Reglugerðinni var breytt með reglugerð (EB) nr. 885/2004 (Stjtíð. ESB L 168, 1.5.2004, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 12
(9)    Stjtíð. EB L 294, 10.11.2001, bls. 22.
Neðanmálsgrein: 13
(10)     Stjtíð. ESB C 321, 31.12.2003, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 14
(11)     Fyrsta tilskipun ráðsins 68/151/EBE frá 9. mars 1968 um samræmingu verndarráðstafana, sem ætlað er að vera jafngildar í Bandalaginu og aðildarríki krefjast af félögum í skilningi annarrar málsgreinar 58. gr. sáttmálans, til að vernda hagsmuni félagsmanna og annarra (Stjtíð. EB L 65, 14.3.1968, bls. 8). Tilskipuninni var síðast breytt með aðildarlögunum frá 2003.
Neðanmálsgrein: 15
(12)    Stjtíð. EB L 295, 20.10.1978, p. 36. Tilskipuninni var síðast breytt með aðildarlögunum frá 2003.