Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 573. máls.
Þskj. 851  —  573. mál.




Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 59/2006, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 59/2006 frá 2. júní 2006, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/68/EB frá 16. nóvember 2005 um endurtryggingu og um breytingu á tilskipunum ráðsins 73/239/EBE og 92/49/EBE, svo og tilskipunum 98/78/EB og 2002/83/EB.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 59/2006 frá 2. júní 2006, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/68/EB frá 16. nóvember 2005 um endurtryggingu og um breytingu á tilskipunum ráðsins 73/239/EBE og 92/49/EBE, svo og tilskipunum 98/78/EB og 2002/83/EB.
    Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES- nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni þeirrar tilskipunar sem hér um ræðir. Gerð þessi felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/68/EB frá 16. nóvember 2005 um endurtryggingu og um breytingu á tilskipunum ráðsins 73/239/EBE og 92/49/EBE, svo og tilskipunum 98/78/EB og 2002/83/EB.
    Tilskipun 2005/68/EB gildir um sjálfstæðan rekstur endurtrygginga af hálfu endurtryggingafélaga sem aðeins stunda endurtryggingar og staðsett eru innan Evrópusambandsins. 1 Tilskipunin gildir hins vegar ekki um vátryggingafélög sem tilskipanir 73/239/EBE og 2002/83/EB ná til og ekki um endurtryggingar sem eru með ríkisábyrgð.
    Í tilskipuninni er mælt fyrir um hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að geta hafið rekstur endurtryggingafélags en þau lúta einkum að öflun starfsleyfis frá viðeigandi eftirlitsaðila. 2 Fáist starfsleyfi skal það gilda á öllu Evrópusambandssvæðinu. Um þrenns konar starfsleyfi getur verið að ræða, þ.e. leyfi sem nær til skaðaendurtrygginga, lífendurtrygginga eða hvers konar endurtrygginga.
    Meginákvæði tilskipunarinnar fjalla um skilyrði reksturs endurtryggingafélags en þau er að finna í fjórum aðgreindum köflum.
    1. kafli: Meginreglur og umfang eftirlits með endurtryggingastarfsemi. Í kaflanum kemur fram að fjárhagslegt eftirlit með endurtryggingafélagi og útibúum þess er alfarið á ábyrgð heimaríkis félagsins. Jafnframt kemur fram að endurtryggingafélag skuli skila eftirlitsaðila ársreikningi sem tekur til allrar starfsemi félagsins, fjárhagslegrar stöðu og gjaldþols ásamt öðrum tölulegum upplýsingum sem nauðsynlegar eru til eftirlits með starfseminni. Í þessum kafla er jafnframt að finna ákvæði um virkan eignarhlut, trúnaðarskyldu, heimildir eftirlitsaðila til miðlunar upplýsinga og skyldur endurskoðanda.
    2. kafli: Reglur um vátryggingaskuld. Þar segir að vátryggingaskuld endurtryggingafélags skuli vera í samræmi við alla starfsemi félagsins og að umfang hennar skuli ákveðið í samræmi við reglur tilskipunar 91/674/EBE. Jafnframt segir að endurtryggingafélag skuli fjárfesta í eignum til að mæta vátryggingaskuld og mælir tilskipunin fyrir um tilteknar reglur í því sambandi, t.d. varðandi fjölbreytni fjárfestinganna til að forðast það að félagið stóli um of á eina eign eða útgefanda í fjárfestingasafninu.
    3. kafli: Gjaldþolsviðmið og ábyrgðarsjóður. Reglur tilskipunarinnar um gjaldþol félags taka annars vegar á tiltæku gjaldþoli og hins vegar lágmarksgjaldþoli. Hluta af lágmarksgjaldþolinu skal ráðstafað í ábyrgðarsjóð eftir reglum sem tilskipunin tilgreinir.
    4. kafli: Afturköllun starfsleyfis. Ef vandkvæði eða óviss staða kemur upp hjá endurtryggingafélagi mælir tilskipunin fyrir um að eftirlitsaðili geti krafist þess að lögð verði fram áætlun um fjárhagslega endurskipulagningu félagsins. Einnig eru ákvæði um undir hvaða kringumstæðum eftirlitsaðila er heimilt að afturkalla starfsleyfi endurtryggingafélags.
    Loks geymir tilskipunin fyrirmæli varðandi a) takmarkaðar endurtryggingar, b) stofnsetningarrétt og þjónustufrelsi, c) endurtryggingarfélög með höfuðstöðvar utan Evrópusambandsins en starfsemi innan þess og d) dótturfélög móðurfélaga sem lög þriðja ríkis gilda um.
    Lög og reglugerðir sem innleiða tilskipunina skulu hafa tekið gildi þann 10. desember 2007. Ljóst er að gera þarf breytingar á lögum til að innleiða tilskipun 2005/68/EC. Ekki er þó fyrirséð að þær breytingar verði mjög viðamiklar, enda er markmið tilskipunarinnar að færa reglur um rekstur endurtryggingafélaga til samræmis við gildandi reglur um rekstur frumtryggjenda.

3. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    EES-samningurinn er reglulega uppfærður með breytingum á viðaukum og bókunum við samninginn. Ákvarðanir um þessar breytingar eru teknar í sameiginlegu EES-nefndinni og með þær hefur ávallt verið farið sem hverja aðra þjóðréttarsamninga. Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda þær aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild í 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Að því er Ísland varðar hefur slíkur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að leita ber eftir samþykki Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt með viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun. Í seinni tíð hefur það verið viðtekinn háttur við staðfestingu þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem krefst lagabreytinga að innleiða, enda kemur hvortveggja til, að frestur til að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara er tiltölulega skammur, auk þess sem ekki er alltaf tímabært að innleiða ákvörðun um leið og hún er tekin.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 59/2006

frá 2. júní 2006

um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir „samningurinn“, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        IX. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 33/2006 frá 10. mars 2006 ( 1 ).

2)         Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/68/EB frá 16. nóvember 2005 um endurtryggingu og um breytingu á tilskipunum ráðsins 73/239/EBE og 92/49/EBE, svo og tilskipunum 98/78/EB og 2002/83/EB ( 2 ) skal felld inn í samninginn.

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.


IX. viðauki við samninginn breytist sem hér segir:

1.         Eftirfarandi liður bætist við á eftir lið 7a (tilskipun ráðsins 92/49/EBE):

        „7b.     32005 L 0068: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/68/EB frá 16. nóvember 2005 um endurtryggingu og um breytingu á tilskipunum ráðsins 73/239/EBE og 92/49/EBE, svo og tilskipunum 98/78/EB og 2002/83/EB (Stjtíð. ESB L 323, 9.12.2005, bls. 1).

                    Ákvæði tilskipunarinnar skulu, að því er samning þennan varðar, aðlöguð sem hér segir:

                    Eftirfarandi bætist við í I. viðauka:

                    „–    að því er varðar Furstadæmið Liechtenstein: „Aktiengesellschaft“, „Europäische Aktiengesellschaft (Societas Europaea)“. „Genossenschaft“;

                    –        að því er varðar Konungsríkið Noreg: „aksjeselskaper“, „allmennaksjeselskaper“, „gjensidige selskaper“;

                    –        að því er varðar Ísland: „hlutafélög“, „gagnkvæm félög“.“ “

2.         Eftirfarandi undirliður bætist við í 2. lið (fyrsta tilskipun ráðsins 73/239/EBE), lið 7a (tilskipun ráðsins 92/49/EBE), 11. lið (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/83/EB) og lið 12c (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/78/EB):

        „–     32005 L 0068: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/68/EB frá 16. nóvember 2005 (Stjtíð. ESB L 323, 9.12.2005, bls. 1).“

2. gr.


Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2005/68/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 3. júní 2006 að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 2. júní 2006.

     Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
    Formaður



    R. Wright


    Ritarar
    sameiginlegu EES-nefndarinnar



    Ø. Hovdkinn     M. Brinkmann




Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2005/68/EB
frá 16. nóvember 2005
um endurtryggingu og um breytingu á tilskipunum ráðsins 73/239/EBE og 92/49/EBE, svo og tilskipunum 98/78/EB og 2002/83/EB
(Texti sem varðar EES)


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 2. mgr. 47. gr. og 55. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 1 ),
að höfðu samráði við svæðanefndina,
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 2 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Í tilskipun ráðsins 73/239/EBE frá 24. júlí 1973 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum til að hefja og reka starfsemi á sviði frumtrygginga annarra en líftrygginga ( 3 ), tilskipun ráðsins 92/49/EBE frá 18. júní 1992 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum varðandi frumtryggingar, aðrar en líftryggingar ( 4 ) og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/83/EB frá 5. nóvember 2002 um líftryggingar ( 5 ) er mælt fyrir um ákvæði sem lúta að því að hefja og reka starfsemi á sviði frumtrygginga í Bandalaginu.
2)          Í þessum tilskipunum er mælt fyrir um lagaramma fyrir vátryggingafélög, sem annast vátryggingastarfsemi á innri markaðinum, að því er varðar staðfesturétt og frelsi til að veita þjónustu, til þess að auðvelda vátryggingafélögum með aðalskrifstofur í Bandalaginu að mæta skuldbindingum sínum innan Bandalagsins og til þess að gera vátryggingatökum kleift að leita, ekki aðeins til vátryggjenda með staðfestu í þeirra eigin landi heldur einnig til vátryggjenda með aðalskrifstofur í Bandalaginu og með staðfestu í öðrum aðildarríkjum.
3)          Fyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í þessum tilskipunum, gildir um alla starfsemi félaga sem annast frumtryggingar, þ.e. bæði um starfsemi á sviði frumtrygginga og endurtryggingastarfsemi sem felur í sér móttöku endurtrygginga; en endurtryggingastarfsemi, sem sérhæfð endurtryggingafélög annast, fellur þó hvorki undir þetta fyrirkomulag né neitt annað fyrirkomulag sem kveðið er á um í lögum Bandalagsins.
4)          Endurtrygging er mjög mikilvæg fjármálastarfsemi þar sem hún gerir félögum á sviði frumtrygginga kleift að auka getu sína til að taka þátt í vátryggingastarfsemi og veita vátryggingavernd og einnig að lækka fjármagnskostnað sinn, með því að dreifa áhættunni víðar um heiminn. Endurtrygging gegnir auk þess lykilhlutverki fyrir fjárhagslegan stöðugleika þar sem hún er afgerandi þáttur í að tryggja fjárhagslegan styrkleika og stöðugleika á mörkuðum fyrir frumtryggingar sem og fjármálakerfisins í heild, vegna þess að hún tengist öllum stærstu aðilum í miðlun fjármálaafurða og stofnanafjárfestum.
5)          Með tilskipun ráðsins 64/225/EBE frá 25. febrúar 1964 um afnám hafta á staðfesturétti og rétti til að veita þjónustu á sviði endurtrygginga ( 6 ) voru höft á staðfesturétti og frelsi til að veita þjónustu í tengslum við ríkisfang eða búsetu þess sem veitir endurtryggingu afnumin. Með henni voru þó ekki afnumin höft sem leiðir af mismun í ákvæðum landslaga að því er varðar varfærnisreglur á sviði endurtrygginga.
        Þessi staða hefur leitt til þess að ekki er haft jafnmikið eftirlit með öllum endurtryggingafélögum í Bandalaginu og skapar það hindranir í starfsemi endurtryggingafélaga, s.s. sú kvöð að endurtryggingafélög skuli veðsetja eignir til jöfnunar sínum hluta vátryggingaskuldar frumtryggingafélags, eða skuldbinding endurtryggingafélaga um að virða mismunandi eftirlitsreglur í mismunandi aðildarríkjum þar sem þau eru með starfsemi eða óbeint eftirlit með ýmsum þáttum í starfsemi endurtryggingafélags sem lögbær yfirvöld á sviði frumtrygginga annast.
6)          Í aðgerðaáætluninni um fjármálaþjónustu er bent á að endurtryggingar séu atvinnugrein þar sem þörf er á aðgerðum innan Bandalagsins til þess að innri markaðurinn fyrir fjármálaþjónustu verði að veruleika. Enn fremur hafa mikilvægar fjármálastofnanir, s.s. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Alþjóðasamband tryggingaeftirlita (IAIS), sérstaklega bent á að skortur á samræmdum eftirlitsreglum með endurtryggingastarfsemi innan Bandalagsins væri misbrestur á regluramma um fjármálaþjónustu sem rétt sé að ráða bót á.
7)          Þessi tilskipun miðar að því að koma á ramma um varfærnisreglur vegna endurtryggingastarfsemi í Bandalaginu. Hún er hluti af heildarlöggjöf Bandalagsins á sviði vátrygginga sem miðar að því að koma á hinum innri markaði á sviði vátrygginga.
8)          Þessi tilskipun er í samræmi við þá umfangsmiklu vinnu á alþjóðavettvangi sem fram fer í tengslum við varfærnisreglur á sviði endurtrygginga, einkum innan Alþjóðasambands tryggingaeftirlita.
9)          Í þessari tilskipun er fylgt nálguninni í löggjöf Bandalagsins, sem samþykkt er á sviði frumtrygginga og felst í því að koma á nauðsynlegri grundvallarsamræmingu sem nægir til að tryggja gagnkvæma viðurkenningu á starfsleyfum og varfærniseftirlitskerfum, þannig að unnt verður að gefa út eitt starfsleyfi sem gildir alls staðar í Bandalaginu og beita meginreglunni um eftirlit heimaaðildarríkis
10)          Því þarf framvegis eitt opinbert leyfi sem gefið er út af lögbærum yfirvöldum í aðildarríkinu þar sem endurtryggingafélag hefur aðalskrifstofu til að hefja og stunda endurtryggingastarfsemi. Slíkt starfsleyfi gerir félaginu kleift að annast starfsemi alls staðar í Bandalaginu samkvæmt staðfesturétti eða frelsi til að veita þjónustu. Aðildarríkið, þar sem útibúið er eða þjónustan er veitt, getur ekki krafist þess að endurtryggingafélag, sem óskar eftir að reka þar endurtryggingastarfsemi og hefur þegar fengið leyfi í heimaaðildarríkinu, sæki um nýtt leyfi. Enn fremur ætti endurtryggingafélag, sem þegar hefur fengið starfsleyfi í heimaaðildarríki sínu, ekki að vera undir viðbótareftirliti eða sæta rannsóknum á fjárhagslegum styrkleika þess sem lögbært yfirvald vátryggingafélags, sem er endurtryggt af því endurtryggingafélagi, annast. Að auki skal aðildarríkjum ekki að vera heimilt að krefjast þess að endurtryggingafélag með starfsleyfi í Bandalaginu veðsetji eignir til jöfnunar sínum hluta vátryggingaskuldar frumtryggjanda. Skilgreina ber skilyrði varðandi veitingu eða afturköllun starfsleyfis. Lögbær yfirvöld skulu ekki veita endurtryggingafélagi starfsleyfi eða viðhalda starfsleyfi endurtryggingafélags sem uppfyllir ekki skilyrðin sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun.
11)          Þessi tilskipun gildir um endurtryggingafélög sem annast eingöngu starfsemi á sviði endurtrygginga en enga frumtryggingastarfsemi. Einnig gildir hún um svokölluð bundin (captive) endurtryggingafélög, sem stofnuð eru eða eru í eigu annaðhvort fjármálafyrirtækis, annars en vátrygginga- eða endurtryggingafélags, eða samstæðu vátrygginga- eða endurtryggingafélaga sem falla undir tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/78/EB frá 27. október 1998 um viðbótareftirlit með vátryggingafélögum í vátryggingahópi ( 7 ) eða eins eða fleiri fyrirtækja, sem ekki eru fjármálafyrirtæki, sem hafa að markmiði að endurtryggja eingöngu gegn áhættu fyrirtækjanna sem þau tilheyra. Þegar vísað er í endurtryggingafélög í þessari tilskipun er einnig átt við bundin endurtryggingafélög nema þegar sett eru sérákvæði um bundin endurtryggingafélög. Bundin endurtryggingafélög tryggja ekki gegn áhættu sem leiðir af ytri frumtryggingastarfsemi eða endurtryggingastarfsemi vátryggingafélags eða endurtryggingafélags sem tilheyrir samstæðunni. Enn fremur mega vátryggingafélög eða endurtryggingafélög, sem tilheyra fjármálasamsteypu, ekki eiga bundið félag.
12)          Þessi tilskipun gildir þó ekki um vátryggingafélög sem falla þegar undir tilskipun 73/239/ EBE eða 2002/83/EBTil þess að fjárhagslegur styrkleiki vátryggingafélaga, sem einnig stunda endurtryggingastarfsemi, sé tryggður og að tilhlýðilegt tillit sé tekið til fyrirkomulags þessarar starfsemi í kröfum varðandi eigið fé þessara vátryggingafélaga gilda þó þau ákvæði þessarar tilskipunar sem tengjast gjaldþoli endurtryggingafélaga einnig um endurtryggingastarfsemi þessara vátryggingafélaga ef umfang hennar er verulega stór hluti af heildarstarfsemi þeirra.
13)          Þessi tilskipun gildir ekki um endurtryggingavernd sem aðildarríki veitir eða ábyrgist að öllu leyti þegar það, af ástæðum sem varða verulega almenna hagsmuni, veitir endurtryggingavernd sem að öðrum kosti væri ófáanleg, einkum þegar ekki er hægt að fá viðunandi endurtryggingavernd á markaðskjörum vegna sérstakra markaðsaðstæðna. Í þessu samhengi merkir skortur á „viðunandi endurtryggingavernd á markaðskjörum“ fyrst og fremst vangetu markaðarins þar sem framboð á vátryggingavernd er augljóslega ófullnægjandi, þótt alltof há iðgjöld ættu í sjálfu sér ekki að merkja að um ófullnægjandi vátryggingavernd á markaðskjörum sé að ræða. Ákvæði d-liðar 2. mgr. 1. gr. þessarar tilskipunar gilda einnig um ráðstafanir milli vátryggingafélaga sem falla undir tilskipun 73/239/EBE eða 2002/83/EB og miða að því sameina fjárkröfur sem leiða af mjög mikilli áhættu, s.s. vegna hryðjuverka.
14)          Endurtryggingafélög skulu takmarka starfsemi sína við endurtryggingar og tengda starfsemi. Þessi krafa kemur ekki í veg fyrir að endurtryggingafélög geti annast starfsemi á borð við tölfræðilega eða tryggingafræðilega ráðgjöf, áhættugreiningu eða rannsóknir fyrir viðskiptavini sína. Þetta getur einnig tekið til starfsemi eignarhaldsfélags og starfsemi á fjármálasviði í skilningi 8. liðar 2. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2002/87/EB frá 16. desember 2002 um viðbótareftirlit með lánastofnunum, vátryggingafélögum og verðbréfafyrirtækjum sem eru hluti af fjármálasamsteypu ( 8 ). Hvað sem öðru líður leyfir þessi krafa ekki að hægt sé að annast óskylda banka- og fjármálastarfsemi.
15)          Í þessari tilskipun er betur skýrt valdsvið og eftirlitsheimildir lögbærra yfirvalda. Lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki endurtryggingafélagsins skulu annast eftirlit með fjárhagslegum styrkleika endurtryggingafélaga, m.a. gjaldþoli þeirra, fullnægjandi vátryggingaskuld og útjöfnunarsjóðum og að þessi skuld og sjóðir séu tryggðir með viðeigandi eignum.
16)          Lögbær yfirvöld í aðildarríkjunum skulu hafa nauðsynlegar eftirlitsheimildir til að tryggja að endurtryggingafélög reki starfsemi sína samkvæmt reglum alls staðar í Bandalaginu, hvort sem hún er rekin samkvæmt staðfesturétti eða frelsi til að veita þjónustu. Einkum verða þau að geta gert viðeigandi verndarráðstafanir eða beita viðurlögum sem miða að því að koma í veg fyrir að ákvæði varðandi endurtryggingaeftirlit séu brotin eða að ekki sé farið eftir þeim.
17)          Ákvæði um yfirfærslu vátryggingarstofns skulu vera í samræmi við það fyrirkomulag sem kveðið er á um í þessari tilskipun og gerir ráð fyrir einu starfsleyfi. Þau gilda um ýmiss konar yfirfærslu á vátryggingastofnum milli endurtryggingafélaga, s.s. yfirfærslu á vátryggingastofni sem leiðir af samruna endurtryggingafélaga eða sölu annarra gerninga sem falla undir félagarétt eða yfirfærslu á vátryggingastofni með útistandandi tapi við flutning til annars endurtryggingafélags. Enn fremur skulu í ákvæðum um yfirfærslu vátryggingastofns vera ákvæði sem varða sérstaklega yfirfærslu á safni vátryggingasamninga, sem gerðir eru á grundvelli staðfesturéttar eða frelsis til að veita þjónustu, til annars endurtryggingafélags.
18)          Gera skal ráð fyrir að lögbær yfirvöld og yfirvöld eða stofnanir, sem í krafti stöðu sinnar stuðla að því að auka stöðugleika fjármálakerfisins, skiptist á upplýsingum. Til að tryggja þá leynd sem hvílir yfir þeim upplýsingum sem sendar eru áfram verður að gæta þess að fjöldi viðtakenda sé mjög takmarkaður. Nauðsynlegt er að tilgreina með hvaða skilyrðum fyrrnefnd upplýsingaskipti eru heimiluð. Þegar kveðið er á um að einungis megi afhenda upplýsingar með skýlausu samþykki lögbærra yfirvalda geta þau, þegar svo ber undir, sett það skilyrði fyrir samþykki sínu að farið sé að ströngum skilyrðum. Í þessu tilliti og í því skyni að tryggja viðeigandi eftirlit lögbærra yfirvalda með endurtryggingafélögum er rétt að í þessari tilskipun sé kveðið á um reglur sem gera aðildarríkjunum kleift að gera samninga um upplýsingaskipti við þriðju lönd að því tilskildu að um upplýsingarnar, sem látnar eru í té, ríki þagnarskylda.
19)          Með það í huga að auka varfærniseftirlit með endurtryggingafélögum skal mæla fyrir um að löggiltum endurskoðanda beri skylda til að upplýsa lögbær yfirvöld jafnharðan, eins og kveðið er á um í þessari tilskipun, komist hann við störf sín á snoðir um tilteknar staðreyndir sem geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir fjárhagsstöðu eða stjórnsýslu og reikningshald endurtryggingafélags. Með hliðsjón af settu markmiði er æskilegt að aðildarríkin kveði á um að sama skylda gildi í öllum tilvikum þegar endurskoðandi kemst á snoðir um slík málsatvik við störf sín í félagi sem hefur náin tengsl við endurtryggingafélag. Skylda endurskoðenda til að upplýsa lögbær yfirvöld, eftir því sem við á, um tilteknar staðreyndir og ákvarðanir, sem varða endurtryggingafélag og þeir hafa komist á snoðir um við störf sín í félagi öðru en endurtryggingafélagi, breytir í sjálfu sér ekki eðli starfa þeirra í viðkomandi félagi né heldur með hvaða hætti þeir inna störf sín af hendi í félaginu.
20)          Setja skal ákvæði um hvernig þessari tilskipun skuli beitt gagnvart starfandi endurtryggingafélögum, sem eru þegar með starfsleyfi eða hafa heimild til að stunda endurtryggingastarfsemi í samræmi við ákvæði aðildarríkjanna, áður en beiting þessarar tilskipunar hefst.
21)          Til þess að gera endurtryggingafélagi kleift að standa við skuldbindingar sínar ber heimaaðildarríkinu að skylda endurtryggingafélag til að vera með fullnægjandi vátryggingaskuld. Ákveða skal fjárhæð slíkra vátryggingaskulda í samræmi við tilskipun ráðsins 91/674/EBE frá 19. desember 1991 um ársreikninga og samstæðureikninga vátryggingafélaga ( 9 ) og skal heimaaðildarríkjunum einnig vera heimilt, að því er varðar starfsemi á sviði lífendurtrygginga, að mæla fyrir um sértækari reglur í samræmi við tilskipun 2002/83/EB.
22)          Endurtryggingafélagi, sem annast endurtryggingar á sviði greiðsluvátrygginga, skal gert að mynda útjöfnunarsjóð, sem ekki er hluti af gjaldþoli þess, ef endurtryggingastarfsemi þess vegna greiðsluvátrygginga er umtalsverður hluti starfseminnar í heild. Þessi sjóður skal reiknaður samkvæmt einni aðferðanna sem mælt er fyrir um í tilskipun 73/239/EBE og teljast þær jafngildar. Enn fremur er rétt að þessi tilskipun heimili heimaaðildarríkinu jafnframt að skylda endurtryggingafélög, sem eru með aðalskrifstofu á yfirráðasvæði þess, til þess að mynda útjöfnunarsjóði fyrir aðra áhættuflokka en endurtryggingar vegna greiðsluvátrygginga, samkvæmt reglum sem það heimaaðildarríki mælir fyrir um. Í framhaldi af innleiðingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla (IFRS 4) skal í þessari tilskipun skýra varfærnismeðferð vegna útjöfnunarsjóða sem myndaðir eru í samræmi við þessa tilskipun. Þar sem nauðsynlegt er að endurmeta endurtryggingar samkvæmt „Gjaldþolsáætlun II“ (Solvency II) er þó ekki fjallað um eftirlit með endurtryggingum í framtíðinni samkvæmt „Gjaldþolsáætlun II“ í þessari tilskipun.
23)          Endurtryggingafélag skal hafa yfir að ráða eignum til að mæta vátryggingaskuld og útjöfnunarsjóði sem miðist við þá tegund starfsemi sem það stundar, einkum hvað varðar eðli, fjárhæð og tímalengd áætlaðra kröfugreiðslna á þann hátt að tryggja nægilegt magn, greiðsluhæfi, öryggi, gæði, arðsemi og jöfnun fjárfestinga sinna sem félagið skal tryggja að séu fjölbreytilegar og hæfilega dreifðar og geri því kleift að bregðast með viðunandi hætti við breytingum í efnahagslífinu, einkum þróun á fjármála- og fasteignamörkuðum eða meiri háttar hamförum.
24)          Nauðsynlegt er að endurtryggingafélag hafi, auk vátryggingaskuldar, yfir að ráða viðbótarvarasjóði, er nefnist gjaldþol, sem myndaður er úr kvaðalausum eignum og, með samþykki þar til bærs yfirvalds, öðrum óbeinum eignum, þannig að það sé viðbúið neikvæðum sveiflum í starfseminni. Þessi krafa skiptir miklu máli við varfærniseftirlit. Þar til endurskoðun framkvæmdastjórnarinnar á núverandi fyrirkomulagi varðandi gjaldþol hefur farið fram samkvæmt „Gjaldþolsáætlun II“, í því skyni að ákvarða tilskilið gjaldþol endurtryggingafélaga, skal beita reglum gildandi löggjafar á sviði frumtrygginga.
25)          Í ljósi þess hve endurtryggingar vegna líftrygginga, sem taka til áhættu vegna dauða, og endurtryggingar vegna skaðatrygginga eru líkar, einkum hvað varðar vernd gegn tryggingaáhættu og gildistíma endurtryggingasamninga vegna líftrygginga, ber að ákvarða gjaldþol fyrir endurtryggingar vegna líftrygginga í samræmi við ákvæði þessarar tilskipunar að því er varðar útreikning á tilskildu gjaldþoli fyrir endurtryggingar vegna skaðatrygginga. Heimaaðildarríkinu skal þó heimilt að beita reglunum, sem kveðið er á um í tilskipun 2002/83/EB, hvað varðar ákvörðun um tilskilið gjaldþol fyrir endurtryggingar vegna líftrygginga sem tengjast fjárfestingarsjóðum eða hlutdeildarsamningum.
26)          Til þess að taka mið af sérstöku eðli ákveðinna tegunda endurtryggingasamninga eða viðskiptasviða er rétt að setja ákvæði vegna breytinga á útreikningi á tilskildu gjaldþoli. Framkvæmdastjórnin skal, við meðferð þess framkvæmdavalds sem henni er falið samkvæmt sáttmálanum, gera þessar breytingar að höfðu samráði við Evrópunefnd um vátryggingar og starfstengda lífeyrissjóði sem komið var á fót með ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2004/ 9/EB ( 10 ).
27)          Þessar ráðstafanir skulu samþykktar með því að beita málsmeðferðarreglunni sem um getur í 5. gr. ákvörðunar ráðsins 1999/468/EB frá 28. júní 1999 um reglur um meðferð framkvæmdavalds sem framkvæmdastjórninni er falið ( 11 ).
28)          Skrá yfir liði, sem eru tækir til að mæta gjaldþoli sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun, skulu vera þeir sömu og kveðið er á um í tilskipun 73/239/EBE og 2002/83/EB.
29)          Endurtryggingafélög skulu einnig vera með ábyrgðasjóð til þess að tryggja að þau hafi yfir nægilegu fé að ráða þegar þau eru stofnuð og jafnframt að gjaldþol fari aldrei niður fyrir tiltekið öryggislágmark meðan á starfsemi stendur. Til að taka tillit til sérkenna bundinna endurtryggingafélaga ber þó að kveða á um að heimaaðildarríki sé heimilt að fastsetja tilskilinn lágmarksábyrgðarsjóð með lægri fjárhæð fyrir bundin endurtryggingafélög.
30)          Í tilteknum ákvæðum í þessari tilskipun eru settir lágmarksstaðlar. Heimaaðildarríki er heimilt að mæla fyrir um strangari reglur fyrir endurtryggingafélög sem hafa fengið starfsleyfi frá lögbærum yfirvöldum sínum, einkum að því er varðar kröfur um gjaldþol.
31)          Þessi tilskipun gildir um takmarkaðar endurtryggingar. Því er nauðsynlegt að skilgreina takmarkaðar endurtryggingar vegna þessarar tilskipunar. Vegna sérstaks eðlis þessarar tegundar endurtryggingastarfsemi skal heimaaðildarríkjunum gefast kostur á að kveða á um sértæk ákvæði um starfsemi á sviði takmarkaðra endurtrygginga. Þessi ákvæði gætu verið frábrugðin almenna fyrirkomulaginu sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun að því er varðar allmörg sértæk atriði.
32)          Í þessari tilskipun skal kveðið á um reglur fyrir félög með sérstakan tilgang sem taka á sig áhættur frá vátrygginga- og endurtryggingafélögum. Sérstakt eðli slíkra félaga með sérstakan tilgang, sem eru ekki vátrygginga- eða endurtryggingafélög, kallar á að sértæk ákvæði séu sett í aðildarríkjunum. Enn fremur skal í þessari tilskipun kveðið á um að heimaaðildarríkið mæli fyrir um ítarlegri reglur um skilyrði fyrir notkun útistandandi fjárhæða frá félagi með sérstakan tilgang sem vátryggingafélag eða endurtryggingafélag getur notað sem eignir til að mæta vátryggingaskuld. Í þessari tilskipun skal einnig kveða á um að endurheimtanlegar fjárhæðir frá félagi með sérstakan tilgang teljist vera frádráttarbærar samkvæmt endurtryggingasamningum innan þeirra marka sem sett eru í þessari tilskipun, með fyrirvara um að vátryggingafélag eða endurtryggingafélag hafi sótt um og fengið samþykki lögbærs yfirvalds.
33)          Nauðsynlegt er að kveða á um ráðstafanir í þeim tilvikum sem fjárhagsstaða endurtryggingafélags verður slík að því reynist erfitt að standa við tryggingaskuldbindingar sínar. Við sérstakar aðstæður er einnig nauðsynlegt að lögbær yfirvöld hafi vald til íhlutunar nægilega snemma en ef til slíkrar íhlutunar kemur skulu lögbær yfirvöld, í samræmi við meginreglur um góða stjórnsýsluhætti og tilhlýðilega málsmeðferð, gera viðkomandi endurtryggingafélögum grein fyrir þeim ástæðum sem liggja að baki slíkum eftirlitsaðgerðum. Á meðan slíkar aðstæður eru fyrir hendi skal komið í veg fyrir að lögbær yfirvöld votti um fullnægjandi gjaldþol endurtryggingafélags.
34)          Nauðsynlegt er að kveða á um samstarf milli lögbærra yfirvalda aðildarríkjanna til þess að tryggja að endurtryggingafélag, sem rekur starfsemi samkvæmt staðfesturétti og frelsi til að veita þjónustu, fari að þeim ákvæðum sem gilda í gistiaðildarríkinu.
35)          Kveða ber á um rétt til að leita til dómstóla sé starfsleyfis synjað eða það afturkallað.
36)          Mikilvægt er að kveða á um að endurtryggingafélög með aðalskrifstofu sína utan Bandalagsins, sem stunda endurtryggingastarfsemi í Bandalaginu, heyri ekki undir ákvæði sem hefðu í för með sér hagstæðari kjör en þau sem búin eru endurtryggingafélögum sem hafa aðalskrifstofu sína innan Bandalagsins.
37)          Til þess að taka tillit til alþjóðlegra þátta í endurtryggingu skal vera mögulegt að gera alþjóðasamninga við þriðju lönd sem miða að því að skilgreina heimildir til að hafa eftirlit með endurtryggingafélögum sem stunda sína starfsemi á yfirráðasvæði sérhvers samningsaðila.
38)          Ákvarða skal sveigjanlega málsmeðferð svo að unnt sé að meta hvort varfærniseftirlit hjá þriðju löndum jafngildi því sem er í Bandalaginu í því skyni að auka frelsi í endurtryggingaþjónustu í þriðju löndum hvort sem það er með því að stofna félag eða veita þjónustu yfir landamæri. Í því skyni er í þessari tilskipun kveðið á um málsmeðferð vegna samningaviðræðna við þriðju lönd.
39)          Framkvæmdastjórnin skal hafa heimild til að samþykkja framkvæmdarráðstafanir, að því tilskildu að þær breyti ekki þessari tilskipun í grundvallaratriðum. Þessar framkvæmdarráðstafanir skulu gera Bandalaginu kleift að taka mið af framtíðarþróun á sviði endurtrygginga. Samþykkja skal nauðsynlegar ráðstafanir til framkvæmdar þessari tilskipun í samræmi við ákvörðun 1999/468/EB.
40)          Því skal aðlaga gildandi lagaramma Bandalagsins fyrir vátryggingar og taka þannig mið af hinu nýja eftirlitsfyrirkomulagi fyrir endurtryggingafélög sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun og tryggja samræmdan regluramma á sviði vátrygginga í heild. Einkum ber að aðlaga gildandi ákvæði sem heimila „óbeint eftirlit“ með vátryggingafélögum á vegum yfirvalda sem bera ábyrgð á eftirliti með frumtryggingafélögum. Enn fremur er nauðsynlegt að ryðja úr vegi gildandi ákvæðum sem gera aðildarríkjunum kleift að krefjast þess að eignir verði veðsettar móti vátryggingaskuld vátryggingafélags, í hvaða formi sem krafan er sett fram, ef vátryggjandi er endurtryggður hjá endurtryggingafélagi sem hefur starfsleyfi samkvæmt þessari tilskipun eða hjá vátryggingafélagi. Að lokum skal samþykkja ákvæði um tilskilið gjaldþol vátryggingafélaga sem stunda endurtryggingastarfsemi þegar slík starfsemi er verulegur hluti starfsemi þess, með fyrirvara um gjaldþolsreglur fyrir endurtryggingafélög í þessari tilskipun. Því ber að breyta tilskipunum 73/239/EBE, 92/49/EBE og 2002/83/EB til samræmis við það.
41)          Breyta skal tilskipun 98/78/EB til að tryggja að endurtryggingafélög í vátrygginga- eða endurtryggingasamstæðu lúti viðbótareftirliti á sama hátt og vátryggingafélög sem nú eru hluti af vátryggingasamstæðu.
42)          Ráðið skal, í samræmi við 34. mgr. samstarfssamningsins milli stofnana um betri lagasetningu ( 12 ), hvetja aðildarríkin til að semja fyrir sig og í þágu Bandalagsins sínar eigin töflur sem sýna, eftir því sem við verður komið, samsvörun milli þessarar tilskipunar og ráðstafana til að lögleiða hana og að gera þær opinberar.
43)          Þar eð aðildarríkin geta ekki með fullnægjandi hætti náð markmiði þessarar tilskipunar, þ.e. að koma á lagaramma til að hefja og stunda endurtryggingastarfsemi, og auðveldara er að ná markmiðunum á vettvangi Bandalagsins vegna umfangs og áhrifa aðgerðanna, getur Bandalagið samþykkt ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna eins og kveðið er á um í 5. gr. sáttmálans.
44)          Þar eð mælt er fyrir um lágmarksstaðla í þessari tilskipun geta aðildarríkin kveðið á um strangari reglur.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

I. BÁLKUR
GILDISSVIÐ OG SKILGREININGAR
1. gr.
Gildissvið

1.     Í tilskipun þessari eru settar reglur um stofnun og rekstur sjálfstæðrar starfsemi á sviði endurtrygginga af hálfu endurtryggingafélaga sem annast eingöngu endurtryggingar og eru með staðfestu í aðildarríki eða sem óska eftir staðfestu þar.
2.     Tilskipun þessi gildir ekki um:
a)    vátryggingafélög sem tilskipanir 73/239/EBE eða 2002/83/EB gilda um,
b)    starfsemi og stofnanir sem um getur í 2. og 3. gr. tilskipunar 73/239/EBE,
c)    starfsemi og stofnanir sem um getur í 3. gr. tilskipunar 2002/83/EB,
d)    endurtryggingastarfsemi sem er í höndum ríkisstjórnar aðildarríkis eða tryggð til fulls af ríkisstjórn aðildarríkis þegar hún, af ástæðum sem varða mikilvæga hagsmuni almennings, veitir endurtryggingavernd sem að öðrum kosti væri ófáanleg, þ.m.t. þegar hún verður að gegna slíku hlutverki vegna aðstæðna á markaðinum þar sem ekki er hægt að fá fullnægjandi vátryggingavernd á markaðskjörum.

2. gr.
Skilgreiningar

1.     Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
a)    „endurtryggingar“: starfsemi sem felst í því að taka á sig áhættu sem vátryggingafélag eða annað endurtryggingafélag hefur látið frá sér. Ef um er að ræða samtök vátryggjenda sem þekkt eru undir nafninu Lloyd's merkja endurtryggingar einnig starfsemi sem felst í því að taka á sig áhættu, sem félagi í Lloyd's, vátryggingafélag eða endurtryggingafélag, þó ekki samtök vátryggjenda sem þekkt eru undir nafninu Lloyd's, hefur látið frá sér,
b)    „bundið endurtryggingafélag“ (captive reinsurance undertaking): endurtryggingafélag sem er annaðhvort í eigu fjármálafyrirtækis, þó ekki vátryggingafélags eða endurtryggingafélags eða samstæðu vátrygginga- eða endurtryggingafélaga sem falla undir tilskipun 98/78/EB, eða í eigu fyrirtækis, annars en fjármálafyrirtækis, sem hefur að markmiði að endurtryggja einungis áhættu fyrirtækis eða fyrirtækja sem það tilheyrir eða áhættu fyrirtækis eða fyrirtækja samstæðunnar sem bundna endurtryggingafélagið á aðild að,
c)    „endurtryggingafélag“: félag sem fengið hefur opinbert starfsleyfi í samræmi við 3. gr.,
d)    „útibú“: umboð eða útibú endurtryggingafélags,
e)    „starfsstöð“: aðalskrifstofa eða útibú endurtryggingafélags, að teknu tilliti til d-liðar,
f)    „heimaaðildarríki“: aðildarríkið þar sem aðalskrifstofa endurtryggingafélagsins er staðsett,
g)    „aðildarríki útibúsins“: aðildarríkið þar sem útibú endurtryggingafélagsins er staðsett,
h)    „gistiaðildarríki“: aðildarríki þar sem endurtryggingafélag hefur útibú eða veitir þjónustu,
i)    „yfirráð“: tengsl milli móðurfélags og dótturfélags, samkvæmt skilgreiningu í 1. gr. tilskipunar 83/349/EBE ( 13 ), eða sams konar tengsl milli einstaklings eða lögaðila og félags,
j)    „virk eignarhlutdeild“: bein eða óbein eignarhlutdeild í félagi sem nemur 10% eða meira af eigin fé eða atkvæðisrétti eða annað sem gerir kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun félagsins þar sem eignarhlutdeildin er,
k)    „móðurfélag“: móðurfélag samkvæmt skilgreiningu í 1. og 2. gr. tilskipunar 83/349/EBE,
l)    „dótturfélag“: dótturfélag samkvæmt skilgreiningu í 1. og 2. gr. tilskipunar 83/349/EBE.
m)    „lögbær yfirvöld“: innlend yfirvöld sem hafa heimild samkvæmt lögum eða reglum til að hafa eftirlit með endurtryggingafélögum,
n)    „náin tengsl“: þegar tveir eða fleiri einstaklingar eða lögaðilar tengjast í gegnum:
    i)    hlutdeild, hér er átt við eignarhald á minnst 20% atkvæðisréttar eða eigin fjár félags, beint eða með yfirráðum eða
    ii)    yfirráð, í öllum tilvikunum sem vísað er til í 1. og 2. mgr. 1. gr. tilskipunar 83/349/EBE, eða sambærileg tengsl milli einstaklings eða lögaðila og félags,
o)    „fjármálastofnun“: ein eftirfarandi stofnana:
    i)    lánastofnun, fjármálastofnun eða þjónustufyrirtæki í tengslum við bankastarfsemi í skilningi 5. og 23. mgr. 1. gr. tilskipunar 2000/12/EB ( 14 ),
    ii)    vátryggingafélag, endurtryggingafélag eða eignarhaldsfélag á vátryggingasviði í skilningi i liðar 1. gr. tilskipunar 98/78/EB,
    iii)    fjárfestingarfyrirtæki eða fjármálastofnun í skilningi 1. liðar 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2004/39/EB ( 15 ),
    iv)    blandað eignarhaldsfélag á fjármálasviði í skilningi 15. mgr. 2. gr. tilskipunar 2002/87/ EB,
p)    „félag með sérstakan tilgang“: félag, hvort sem það er hlutafélag eða ekki, annað en starfandi vátrygginga- eða endurtryggingafélag, sem yfirtekur áhættu frá vátrygginga- eða endurtryggingafélögum og tryggir sig alfarið gegn slíkri áhættu með hagnaði af útgáfu skuldabréfa eða með einhverju öðru fjármögnunarfyrirkomulagi þar sem endurgreiðsluréttur þeirra sem útvega slík skuldabréf eða annað fjármögnunarfyrirkomulag víkur fyrir endurtryggingaskuldbindingum slíks félags,
q)    „takmörkuð endurtrygging“: endurtrygging þar sem beint mögulegt hámarkstap, mælt sem yfirfærð fjárhagsleg hámarksáhætta, sem leiðir af yfirfærslu verulegrar vátryggingaráhættu er tengist bæði vátryggingaratburði og tímasetningu yfirfærslu áhættu, er hærra en iðgjaldið á gildistíma samningsins sem svarar til takmarkaðrar en þó verulegrar fjárhæðar, ásamt a.m.k. öðruhvoru eftirfarandi atriða:
    i)    skýru og efnislegu mati á tímavirði peninga,
    ii)    samningsbundnum ákvæðum um að ná, til lengri tíma litið, jafnvægi í fjárhagslegri reynslu aðilanna við að ná þeirri yfirfærslu á áhættu sem stefnt er að.
2.     Að því er varðar a-lið 1. mgr. þessarar greinar telst vernd sem endurtryggingafélag veitir stofnun sem sjá um starfstengdar lífeyrisgreiðslur sem falla undir gildissvið 2003/41/EB ( 16 ), ef lög heimaaðildarríkis stofnunarinnar heimila slíkt, einnig til starfsemi sem fellur undir gildissvið þessarar tilskipunar.
Að því er varðar d-lið 1. mgr. skal fara með allt fast aðsetur endurtryggingafélags á yfirráðasvæði aðildarríkis eins og um umboð eða útibú væri að ræða, enda þótt það sé ekki í formi umboðs eða útibús, heldur felist einungis í skrifstofu sem rekin er af starfsfólki félagsins sjálfs eða óháðum aðila sem hefur ótímabundna heimild til að koma fram fyrir hönd félagsins með sama hætti og umboð.
Að því er varðar j-lið 1. mgr. þessarar greinar og í samhengi við 12. gr. og 19.–23. gr. og annars konar eignarhlutdeild, sem um getur í 19.–23. gr., skal taka tillit til atkvæðaréttarins sem um getur í 92. gr. tilskipunar 2001/34/EB ( 17 ).
Að því er varðar l-lið 1. mgr. ber einnig ber að líta á sérhvert dótturfélag dótturfélags sem dótturfélag þess móðurfélags sem er aðalfyrirtæki þessara félaga.
Að því er varðar n-lið 1. mgr.:
–    skal litið á dótturfélag dótturfélags sem dótturfélag móðurfyrirfélagsins sem er í forsvari fyrir þessi félög,
–    skal einnig litið á það sem náin tengsl milli slíkra aðila þegar svo ber við að tveir eða fleiri einstaklingar eða lögaðilar eru varanlega tengdir einum og sama aðilanum með yfirráðatengslum.
3.     Hvar sem vísað er til evrunnar í tilskipun þessari skal það gengi gjaldmiðils viðkomandi lands, sem notað er frá og með 31. desember ár hvert, miðað við síðasta dag næstliðins októbermánaðar, er gengi allra gjaldmiðla aðildarríkja Bandalagsins gagnvart evrunni lá fyrir.

II. BÁLKUR
AÐ HEFJA STARFSEMI Á SVIÐI ENDURTRYGGINGA OG LEYFISVEITING ENDURTRYGGINGAFÉLAGA
3. gr.
Meginreglan um starfsleyfi

Opinbert starfsleyfi þarf til að hefja endurtryggingastarfsemi.
Sótt skal um slíkt starfsleyfi til lögbærra yfirvalda í heimaaðildarríki og á það við um:
a)    félag sem stofnsetur aðalskrifstofu á yfirráðasvæði þess ríkis,
b)    endurtryggingafélag sem, að fengnu starfsleyfi, færir út starfsemi sína þannig að hún nái til annarra endurtrygginga en þeirra sem starfsleyfið tekur þegar til.

4. gr.
Gildissvið starfsleyfis

1.     Starfsleyfi skv. 3. gr. gildir alls staðar í Bandalaginu. Það heimilar endurtryggingafélagi að stunda starfsemi þar, annaðhvort á grundvelli staðfesturéttar eða frelsis til að veita þjónustu.
2.     Starfsleyfi skal veitt fyrir endurtryggingar á sviði skaðatrygginga, lífendurtrygginga eða hvers konar endurtryggingastarfsemi samkvæmt beiðni umsækjanda.
Það skal metið á grundvelli starfsáætlana sem lagðar skulu fram skv. b-lið 6. gr. og 11. gr. og að uppfylltum skilyrðum sem aðildarríkið, þar sem sótt er um starfsleyfið, setur.

5. gr.
Félagsform endurtryggingafélagsins

1.     Heimaaðildarríkið skal gera kröfu um að hvert endurtryggingafélag, sem sótt er um leyfi fyrir, taki upp eitt af þeim félagsformum sem sett eru fram í I. viðauka.
Enn fremur er endurtryggingafélaginu heimilt að taka upp félagsformið Evrópufélag (SE), eins og það er skilgreint í reglugerð 2157/2001 ( 18 ).
2.     Aðildarríkjunum er heimilt, þegar við á, að stofna félög sem starfa samkvæmt opinberum rétti enda hafi þessir aðilar að markmiði að starfa að endurtryggingastarfsemi á jafnréttisgrundvelli við félög sem starfa samkvæmt einkamálarétti.

6. gr.
Skilyrði

Heimaaðildarríki skulu gera kröfu um að hvert endurtryggingafélag sem sótt er um starfsleyfi fyrir:
a)    takmarki rekstrartilgang sinn við endurtryggingar og tengda starfsemi; þessi krafa getur tekið til hlutverks og starfsemi eignarhaldsfélags sem tengist fjármálastarfsemi í skilningi 8. liðar 2. gr. í tilskipun 2002/87/EB,
b)    leggi fram rekstraráætlun í samræmi við ákvæði 11. gr.,
c)    hafi yfir að ráða lágmarksábyrgðarsjóði skv. 2. mgr. 40. gr,
d)    sé rekið á hagkvæman hátt af einstaklingum með óflekkað mannorð, viðeigandi starfsmenntun og hæfi eða starfsreynslu.

7. gr.
Náin tengsl

1.     Ef náin tengsl eru milli endurtryggingafélags og annarra einstaklinga eða lögaðila skulu lögbær yfirvöld einungis veita leyfi ef sýnt er að þessi tengsl komi ekki í veg fyrir að þau sinni eftirlitshlutverki sínu.
2.     Lögbær yfirvöld skulu synja um starfsleyfi ef lög og stjórnsýslufyrirmæli lands utan Bandalagsins, sem gilda um einn eða fleiri einstaklinga eða lögaðila sem endurtryggingafélagið hefur náin tengsl við, eða vandkvæði tengd framkvæmd þeirra koma í veg fyrir að yfirvaldið sinni eftirlitshlutverki sínu með skilvirkum hætti.
3.     Lögbær yfirvöld skulu krefjast þess að endurtryggingafélag veiti þeim nauðsynlegar upplýsingar svo að þau geti gengið úr skugga um að jafnan sé farið að skilyrðunum sem um getur í þessari málsgrein.

8. gr.
Aðalskrifstofa endurtryggingafélags

Aðildarríkin skulu krefjast þess að aðalskrifstofur endurtryggingafélaga séu staðsettar í sama aðildarríki og skráðar skrifstofur þeirra.

9. gr.
Tryggingaskilmálar og iðgjaldataxtar

1.     Ákvæði þessarar tilskipunar koma ekki í veg fyrir að aðildarríki geti haldið gildandi lögum eða sett lög og stjórnsýslufyrirmæli þar sem krafist er samþykkis á stofnsamningi og -samþykktum og að tilkynnt sé um önnur nauðsynleg skjöl svo unnt sé að framfylgja eðlilegu eftirliti.
2.     Aðildarríkin mega þó ekki setja ákvæði þar sem krafist er fyrirframsamþykkis á almennum og sérstökum tryggingaskilmálum, iðgjaldatöxtum og eyðublöðum og öðrum prentuðum skjölum sem endurtryggingafélagið hyggst nota í skiptum sínum við félög sem láta frá sér eða taka við endurtryggingu (úttrygging), né að um slíkt sé tilkynnt kerfisbundið.

10. gr.
Þörf fyrir starfsemina á markaðinum

Aðildarríkin skulu ekki gera kröfu um að fjallað sé um umsókn um starfsleyfi í ljósi þess hvort efnahagsleg þörf sé fyrir starfsemina á markaðinum.

11. gr.
Rekstraráætlun

1.     Í rekstraráætlun, sem um getur í b-lið 6. gr., skal tilgreina eftirfarandi atriði eða staðfestingu á þeim:
a)    eðli þeirrar áhættu sem endurtryggingafélagið hyggst tryggja gegn,
b)    fyrirkomulag á endurtryggingum sem endurtryggingafélagið leggur til við frumtryggingafélögin,
c)    meginreglur um endurtryggingar endurtryggjenda (úttrygging),
d)    samsetningu lágmarksábyrgðarsjóðs,
e)    áætlaðan kostnað við að koma upp rekstraraðstöðu og skipulagi til að tryggja áframhaldandi starfsemi sem og fjármagn sem ætlað er að standa straum af honum.
2.     Auk skilyrðanna í 1. mgr. skal eftirfarandi koma fram í rekstraráætluninni fyrir þrjú fyrstu fjárhagsárin:
a)    áætlaður stjórnunarkostnaður, annar en uppsetningarkostnaður, einkum almennur kostnaður vegna daglegs reksturs og umboðslauna,
b)    áætluð iðgjöld eða framlög og kröfur,
c)    áætlaður efnahagsreikningur,
d)    áætlaðar fjármögnunarleiðir til að tryggja að staðið verið við vátryggingaskuldbindingr og gjaldþolskröfur.

12. gr.
Hluthafar og aðilar með virka eignarhlutdeild

Lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis skulu ekki veita félagi starfsleyfi til að hefja endurtryggingastarfsemi fyrr en þau hafa fengið upplýsingar um hverjir séu hluthafar eða aðilar, beint eða óbeint, hvort þeir séu einstaklingar eða lögaðilar, hverjir hafi yfir að ráða virkri eignarhlutdeild í félaginu, svo og hve stóran hlut þeir eiga.
Sömu yfirvöld skulu synja um starfsleyfi ef þau telja, með hliðsjón af nauðsyn þess að tryggja trausta og varfærna stjórnun endurtryggingafélags, að áðurnefndir hluthafar eða aðilar séu ekki hæfir.

13. gr.
Synjun starfsleyfis

Ákvörðun um synjun starfsleyfis skal fylgja ítarlegur rökstuðningur og ástæður fyrir henni og skal hlutaðeigandi félagi tilkynnt um hana.
Aðildarríki skulu sjá til þess að hverri synjun megi áfrýja til dómstóla skv. 53. gr.
Sama skal gilda í því tilviki þegar lögbær yfirvöld hafa ekki tekið afstöðu til umsóknar um starfsleyfi til umfjöllunar innan sex mánaða frá móttöku hennar.

14. gr.

Fyrirframsamráð við lögbær yfirvöld í öðrum aðildarríkjum

1.     Hafa skal samráð við lögbær yfirvöld hins aðildarríkisins áður en endurtryggingafélagi er veitt starfsleyfi ef það er:
a)    dótturfélag vátryggingafélags eða endurtryggingafélags með starfsleyfi í öðru aðildarríki eða
b)    dótturfélag móðurfélags vátryggingafélags eða endurtryggingafélags með starfsleyfi í öðru aðildarríki eða
c)    undir yfirráðum einstaklings eða lögaðila sem hefur yfirráð yfir vátryggingafélagi eða endurtryggingafélagi með starfsleyfi í öðru aðildarríki.
2.     Hafa skal samráð við lögbært yfirvald í hlutaðeigandi aðildarríki, sem annast eftirlit með lánastofnunum eða fjárfestingarfyrirtækjum, áður en endurtryggingafélagi er veitt starfsleyfi ef það er:
a)    dótturfélag lánastofnunar eða fjárfestingarfyrirtækis með starfsleyfi í Bandalaginu eða
b)    dótturfélag móðurfélags lánastofnunar eða fjárfestingarfyrirtækis með starfsleyfi í Bandalaginu eða
c)    undir yfirráðum einstaklings eða lögaðila sem hefur yfirráð yfir lánastofnun eða fjárfestingarfyrirtæki með starfsleyfi í Bandalaginu.
3.     Viðkomandi lögbær yfirvöld, sem um getur í 1. og 2. mgr., skulu einkum hafa samráð sín á milli við mat á hæfi hluthafanna, svo og á orðspori og reynslu stjórnenda sem koma að stjórn annars aðila í sömu samstæðu. Þau skulu veita hvert öðru allar upplýsingar um hæfi hluthafa og um orðspor og reynslu stjórnenda sem skipta máli fyrir önnur lögbær yfirvöld sem koma að málinu vegna leyfisveitingar og yfirstandandi mats á því hvort skilyrði varðandi rekstur séu uppfyllt.

III. BÁLKUR
SKILYRÐI FYRIR ENDURTRYGGINGASTARFSEMI
1. KAFLI
Meginreglur og aðferðir við fjármálaeftirlit

1. þáttur
Lögbær yfirvöld og almennar reglur
15. gr.
Lögbær yfirvöld og markmið eftirlits

1.     Fjármálaeftirlit með endurtryggingafélagi, þ.m.t. eftirlit með starfsemi sem það annast fyrir milligöngu útibúa eða samkvæmt frelsi til að veita þjónustu, skal alfarið vera á ábyrgð heimaaðildarríkisins.
Hafi lögbær yfirvöld gistiaðildarríkisins ástæðu til að ætla að starfsemi endurtryggingafélags geti haft áhrif á fjárhagslegan styrkleika þess skulu þau tilkynna það lögbærum yfirvöldum í heimaaðildarríki endurtryggingafélagsins. Hin síðarnefndu skulu ganga úr skugga um að endurtryggingafélagið fari að varfærnisreglunum sem settar eru í þessari tilskipun.
2.     Fjármálaeftirlitið, skv. 1. mgr., skal taka til sannprófunar á allri starfsemi endurtryggingafélagsins, gjaldþolsstöðu þess, vátryggingaskuld og eignum til jöfnunar þeim í samræmi við settar reglur eða gildandi starfshætti í heimaaðildarríkinu samkvæmt ákvæðum Bandalagsins.
3.     Heimaaðildarríki endurtryggingafélagsins skal ekki hafna endurtryggingasamningi, sem endurtryggingafélagið hefur gert við endurtryggingafélag, sem fengið hefur starfsleyfi í samræmi við þessa tilskipun eða vátryggingafélag, sem fengið hefur starfsleyfi í samræmi við tilskipun 73/239/EBE, eða tilskipun 2002/83/EB á forsendum sem tengjast beint fjárhagslegum styrkleika þess endurtrygginga- eða vátryggingafélags
4.     Lögbær yfirvöld í heimaaðildarríkinu skulu krefjast þess að sérhvert endurtryggingafélag hafi traust stjórnunar- og bókhaldsfyrirkomulag og fullnægjandi innra eftirlitskerfi.

16. gr.
Eftirlit með útibúum með staðfestu í öðru aðildarríki

Ef endurtryggingafélag, sem hefur fengið starfsleyfi í öðru aðildarríki, rekur starfsemi sína fyrir milligöngu útibús skal aðildarríki útibúsins kveða á um að lögbær yfirvöld í heimaaðildarríkinu geti, eftir að hafa tilkynnt það lögbærum yfirvöldum í aðildarríki útibúsins, sjálf eða fyrir milligöngu einstaklinga sem þau tilnefna í því skyni, sannprófað á staðnum þær upplýsingar sem eru nauðsynlegar til að tryggja fjármálaeftirlit með félaginu. Yfirvöld í aðildarríki útibúsins geta tekið þátt í þessari sannprófun.

17. gr.
Reikningsskil, varfærnisupplýsingar og tölfræðilegar upplýsingar: eftirlitsheimildir

1.     Sérhvert aðildarríki skal gera kröfu um að öll endurtryggingafélög, sem eru með aðalskrifstofu á yfirráðasvæði þess, taki saman ársreikning sem taki til allra tegunda starfseminnar, fjárhagsstöðu og gjaldþols.
2.     Aðildarríki skulu gera kröfu um að endurtryggingafélög, sem hafa aðalskrifstofu á yfirráðasvæði þeirra, sendi reglulega skýrslur ásamt tölfræðilegum upplýsingum sem nauðsynlegar eru vegna eftirlits með starfseminni. Lögbær yfirvöld skulu senda hvert öðru þau gögn og upplýsingar sem koma að gagni við eftirlit.
3.      Öll aðildarríki skulu gera allt það sem nauðsynlegt er til þess að lögbær yfirvöld hafi þær heimildir og þau úrræði sem þörf er á vegna eftirlits með starfsemi endurtryggingafélaga sem hafa aðalskrifstofur á yfirráðasvæðum þeirra, þ.m.t. starfsemi þeirra utan svæðanna.
4.     Einkum skal lögbærum yfirvöldum gert kleift:
a)    að grennslast nákvæmlega fyrir um stöðu endurtryggingafélagsins og alla starfsemi þess, m.a. með því að safna upplýsingum eða krefjast afhendingar á skjölum um endurtryggingastarfsemi þess og með því að gera vettvangsskoðun hjá því,
b)    að gera allar viðeigandi ráðstafanir gagnvart endurtryggingafélagi, stjórnendum þess eða forstöðumönnum, eða þeim sem hafa yfirráð yfir því, sem nauðsynlegar eru til að tryggja að farið sé að þeim lögum og stjórnsýslufyrirmælum sem endurtryggingafélaginu ber að hlíta í starfsemi sinni í hverju aðildarríki,
c)    að sjá til þess að þessar ráðstafanir séu gerðar, með fullnustuaðgerðum ef þörf krefur, og fyrir atbeina dómstóla þar sem við á.
Aðildarríki geta einnig veitt lögbærum yfirvöldum heimildir til að afla allra upplýsinga um samninga sem milliliðir hafa séð um.

18. gr.
Yfirfærsla vátryggingastofns

Með þeim skilyrðum sem sett eru í landslögum skal hvert aðildarríki veita endurtryggingafélögum, sem hafa aðalskrifstofur á yfirráðasvæði þess, leyfi til að yfirfæra samningasafn sitt, hvort heldur um er að ræða samninga samkvæmt staðfesturétti eða frelsi til að veita þjónustu, að einhverju eða öllu leyti til viðtökuskrifstofu með staðfestu innan Bandalagsins, enda staðfesti lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis viðtökuskrifstofunnar að gjaldþol viðtakandans, sem um getur í 3. kafla, sé fullnægjandi er tekið hefur verið tillit til yfirfærslunnar.

2. þáttur
Virk eignarhlutdeild
19. gr.
Öflun

Aðildarríkin skulu krefjast þess að einstaklingur eða lögaðili, sem hyggst, beint eða óbeint, eiga virka eignarhlutdeild í endurtryggingafélagi, tilkynni það fyrst lögbærum yfirvöldum í heimaaðildarríkinu og skýri þeim frá hve stóran hlut hann hyggst eignast. Hlutaðeigandi verður einnig að tilkynna lögbærum yfirvöldum í heimaaðildarríkinu ef hann hyggst bæta það miklu við virka eignarhlutdeild sína að atkvæðisréttur hans hlutfall hlutafjár hans nemi 20%, 33% eða 50% eða meira þannig að endurtryggingafélagið yrði dótturfélag hans.
Lögbær yfirvöld í heimaaðildarríkinu hafa þrjá mánuði hið mesta, frá degi þeim er tilkynning berst, eins og kveðið er á um í fyrstu undirgrein, til að andmæla þessari fyrirætlun ef þau telja aðilann sem um getur í fyrstu undirgrein ekki hæfan til að tryggja trausta og varfærna stjórnun viðkomandi endurtryggingafélags. Ef þau andmæla ekki fyrirætluninni sem um ræðir geta þau ákveðið hvenær henni skuli í síðasta lagi hrundið í framkvæmd.

20. gr.
Öflun fjármálafyrirtækis á eignarhlutum

Ef sá er aflar eignarhluta, sem um getur í 19. gr., er vátryggingafélag, endurtryggingafélag, lánastofnun eða fjárfestingafyrirtæki með starfsleyfi í öðru aðildarríki eða móðurfélag slíks aðila eða einstaklingur eða lögaðili, sem hefur yfirráð yfir slíkum aðila, og ef félagið, sem þessi aðili hyggst öðlast slíkan eignarhlut í, yrði dótturfélag hans eða lyti yfirráðum hans í kjölfar öflunar þessara eignarhluta skal mat á öflun eignarhlutanna ekki fara fram fyrr en að höfðu því samráði sem um getur í 14. gr.

21. gr.
Ráðstöfun

Aðildarríkin skulu krefjast þess að einstaklingur eða lögaðili, sem hyggst ráðstafa, beint eða óbeint, virkri eignarhlutdeild í endurtryggingafélagi, tilkynni það fyrst lögbærum yfirvöldum í heimaaðildarríkinu og skýri þeim frá hve stóran hlut hann hyggst eignast.
Hlutaðeigandi skal einnig tilkynna lögbærum yfirvöldum ef hann hyggst minnka virka eignarhlutdeild sína þannig að atkvæðisréttur hans eða hlutfall hlutafjár fari niður fyrir 20%, 33%, 50% eða það mikið að endurtryggingafélagið hætti að vera dótturfélag hans.

22. gr.
Upplýsingar frá endurtryggingafélagi til lögbærs yfirvalds

Þegar endurtryggingafélög fá vitneskju um öflun og ráðstöfun á eignarhlutum í eigin fé þeirra, sem veldur því að eignarhlutar fara yfir eða undir mörkin sem tilgreind eru í 19. og 21. gr., skulu þau tilkynna það lögbærum yfirvöldum í heimaaðildarríkinu.
Einnig skulu þau a.m.k. einu sinni á ári tilkynna þeim um nöfn þeirra hluthafa og aðila sem eiga virka eignarhlutdeild og upphæð þessa hlutafjár samkvæmt því sem gefið er upp, t.d. á aðalfundum hluthafa eða félagsaðila eða með hliðsjón af reglum sem settar eru um félög sem skráð eru í kauphöllum.

23. gr.
Virk eignarhlutdeild: heimildir lögbærs yfirvalds

Aðildarríkin skulu krefjast þess að þegar áhrif þeirra aðila sem um getur í 19. gr. eru líkleg til að ganga gegn traustri og varfærinni stjórnun endurtryggingafélagsins skuli lögbær yfirvöld í heimaaðildarríkinu grípa til viðeigandi ráðstafana til að binda enda á það ástand. Slíkar ráðstafanir geta t.d. verið lögbann, viðurlög gagnvart stjórnendum og forstöðumönnum eða svipting atkvæðisréttar sem fylgir hlutabréfum þeirra hluthafa og aðila sem um ræðir.
Svipaðar ráðstafanir skulu gilda gagnvart einstaklingum og lögaðilum sem ekki standa við þá skuldbindingu að veita upplýsingar fyrir fram, s.s. kveðið er á um í 19. gr.
Ef eignarhlutar er aflað þrátt fyrir andstöðu lögbærra yfirvalda skulu aðildarríkin, óháð öðrum viðurlögum sem gripið er til, sjá svo um að viðkomandi sé sviptur atkvæðisrétti sínum tímabundið eða að greidd atkvæði séu ógild eða hægt sé að ógilda þau.

3. þáttur
Þagnarskylda og upplýsingaskipti
24. gr.
Skyldur

1.     Aðildarríkin skulu mæla svo fyrir að allir þeir sem vinna fyrir eða hafa unnið fyrir lögbær yfirvöld, sem og endurskoðendur eða sérfræðingar sem koma fram fyrir hönd lögbærra yfirvalda, séu bundnir þagnarskyldu.
Þessi skuldbinding merkir að þeir mega ekki skýra neinum einstaklingum eða yfirvöldum frá trúnaðarmálum sem þeir öðlast vitneskju um við skyldustörf sín nema um sé að ræða ágrip eða samantekt af því tagi að ekki sé unnt að bera kennsl á einstök endurtryggingafélög, þó með fyrirvara um mál sem heyra undir hegningarlög.
2.     Þó má skýra frá trúnaðarupplýsingum í málum sem heyra undir einkamálrétt eða verslunarrétt ef endurtryggingafélag hefur verið lýst gjaldþrota eða tekið nauðugt til slitameðferðar snerti þau ekki þriðju aðila sem reyna að bjarga áðurnefndu félagi.

25. gr.
Upplýsingaskipti milli lögbærra yfirvalda aðildarríkjanna

Ákvæði 24. gr. koma ekki í veg fyrir að lögbær yfirvöld í hinum ýmsu aðildarríkjum skiptist á upplýsingum í samræmi við tilskipanir sem gilda um endurtryggingafélög. Slíkar upplýsingar skulu háðar ákvæði um þagnarskyldu svo sem kveðið er á um í 24. gr.

26. gr.
Samvinna við þriðju lönd

Aðildarríkjunum er því aðeins heimilt að gera samstarfssamninga um upplýsingaskipti við lögbær yfirvöld í þriðju löndum, eða yfirvöld eða stofnanir í þriðju löndum, eins og skilgreint er í 1. og 2. mgr. 28. gr., að um upplýsingarnar ríki þagnarskylda í a.m.k. sama mæli og um getur í þessum þætti. Slík upplýsingaskipti skulu fara fram í þeim tilgangi að fyrrgreind yfirvöld eða stofnanir geti sinnt eftirlitsstörfum sínum.
Séu upplýsingarnar upprunnar í öðru aðildarríki er ekki heimilt að afhenda þær án skýlauss samþykkis lögbærra yfirvalda sem hafa afhent þær og þá einungis til þeirra nota sem sömu yfirvöld hafa gefið samþykki fyrir.

27. gr.
Notkun trúnaðarupplýsinga.

Lögbær yfirvöld, sem fá vitneskju um trúnaðarmál skv. 24. eða 25. gr., mega einungis notfæra sér hana við skyldustörf sín:
a)    til að fylgjast með því að skilyrði fyrir því að hefja endurtryggingastarfsemi séu uppfyllt og til að auðvelda eftirlit með slíkri starfsemi, einkum m.t.t. eftirlits með vátryggingaskuld, gjaldþoli, stjórnunar- og bókhaldsaðferðum og innri eftirlitskerfum eða
b)    til að beita viðurlögum,
c)    þegar lögð er fram stjórnsýslukæra gegn ákvörðun lögbærs yfirvalds eða
d)    í dómsmálum sem eru höfðuð skv. 53. gr. eða sérákvæðum í þessari tilskipun og öðrum tilskipunum um vátrygginga- og endurtryggingafélög.

28. gr.
Upplýsingaskipti við önnur yfirvöld

1.     Ákvæði 24. og 27. gr. skulu ekki útiloka upplýsingaskipti innan aðildarríkis ef um er að ræða tvö eða fleiri lögbær yfirvöld í sama aðildarríkinu eða milli lögbærra yfirvalda í mismunandi aðildarríkjum og:
a)    yfirvalda sem annast opinbert eftirlit með lánastofnunum og öðrum fjármálastofnunum og yfirvalda sem annast eftirlit með fjármálamörkuðum,
b)    aðila sem hafa afskipti af félagsslitum og gjaldþroti vátrygginga- og endurtryggingafélaga og annarri sambærilegri málsmeðferð og
c)    aðila sem annast lögboðna endurskoðun á reikningum vátryggingafélaga, endurtryggingafélaga og annarra fjármálastofnana,
þegar þau gegna eftirlitshlutverki sínu eða veita stofnunum, sem stjórna lögboðinni slitameðferð eða ábyrgðarsjóðum, nauðsynlegar upplýsingar til að gegna starfi sínu. Upplýsingar, sem þessi yfirvöld, stofnanir og aðilar fá, skulu háðar skilyrðum um þagnarskyldu svo sem kveðið er á um í 24. gr.
2.     Þrátt fyrir 24.–27. gr. geta aðildarríkin heimilað upplýsingaskipti milli lögbærra yfirvalda og:
a)    yfirvalda sem annast eftirlit með stofnunum sem hafa afskipti af félagsslitum og gjaldþrotaskiptum vátrygginga- eða endurtryggingafélaga og annarri sambærilegri málsmeðferð eða
b)    yfirvalda sem annast eftirlit með aðilum sem falin er lögboðin endurskoðun reikninga vátryggingafélaga eða endurtryggingafélaga, lánastofnana, fjárfestingarfyrirtækja og annarra fjármálastofnana eða
c)    óháðra tryggingafræðinga vátryggingafélaga eða endurtryggingafélaga sem annast lögboðið eftirlit með þeim félögum, svo og stofnana sem annast eftirlit með þessum tryggingafræðingum.
Aðildarríki, sem nýta sér þann kost sem kveðið er á um í fyrstu undirgrein, skulu krefjast þess að eftirfarandi skilyrðum sé fullnægt hið minnsta:
a)    upplýsingarnar skal nota í því skyni að hafa umsjón með og annast lögboðið eftirlit eins og um getur í fyrstu undirgrein,
b)    um upplýsingar, sem eru fengnar í þessu sambandi, skulu gilda ákvæði 24. gr. um þagnarskyldu,
c)    séu upplýsingarnar upprunnar í öðru aðildarríki er ekki heimilt að afhenda þær án skýlauss samþykkis lögbærra yfirvalda sem hafa afhent þær og, eftir því sem við á, einungis til þeirra nota sem sömu yfirvöld hafa veitt samþykki fyrir.
Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni og hinum aðildarríkjunum hvaða yfirvöld, aðilar og stofnanir megi taka við upplýsingum samkvæmt þessari málsgrein.
3.     Þrátt fyrir 24.–27. gr. geta aðildarríkin, með það að markmiði að auka stöðugleika fjármálakerfisins og gera það heilsteyptara, heimilað skipti á upplýsingum milli lögbærra yfirvalda og yfirvalda eða stofnana sem hafa það hlutverk samkvæmt lögum að ljóstra upp um og rannsaka brot á félagarétti.
Aðildarríki, sem nýta sér þann kost sem kveðið er á um í fyrstu undirgrein, skulu krefjast þess að eftirfarandi skilyrðum sé fullnægt hið minnsta:
a)    upplýsingarnar skulu notaðar til þess að inna af hendi það starf sem um getur í fyrstu undirgrein,
b)    um upplýsingar, sem eru fengnar í þessu sambandi, skulu gilda ákvæði 24. gr. um þagnarskyldu,
c)    séu upplýsingarnar upprunnar í öðru aðildarríki er ekki heimilt að afhenda þær án skýlauss samþykkis lögbærra yfirvalda sem hafa afhent þær og þá einungis til þeirra nota sem sömu yfirvöld hafa veitt samþykki fyrir.
Ef svo ber undir í aðildarríki að yfirvöld eða stofnanir, sem um getur í fyrstu undirgrein, njóta við uppljóstranir eða rannsóknir sínar aðstoðar aðila, sem hafa verið tilnefndir í þessu skyni vegna sérþekkingar sinnar en starfa ekki á vegum hins opinbera, er heimilt að láta hugsanleg upplýsingaskipti, sem kveðið er á um í fyrstu undirgrein, ná einnig til slíkra aðila með þeim skilyrðum sem sett eru í annarri undirgrein.
Við beitingu c-liðar annarrar undirgreinar ber yfirvöldum eða stofnunum, sem um getur í fyrstu undirgrein, að gera lögbæru yfirvöldunum, sem afhentu upplýsingarnar, grein fyrir nöfnum og umboði aðilanna sem eiga að fá þær.
Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni og hinum aðildarríkjunum hvaða yfirvöld eða stofnanir mega þiggja upplýsingar samkvæmt þessari málsgrein.

29. gr.
Miðlun upplýsinga til seðlabanka og yfirvalda í peningamálum

Ákvæði þessa þáttar skulu ekki koma í veg fyrir að lögbært yfirvald veiti seðlabönkum og öðrum stofnunum, sem gegna svipuðu hlutverki sem yfirvöld á sviði peningamála, og eftir atvikum, öðrum opinberum yfirvöldum sem annast eftirlit með greiðslukerfum, upplýsingar sem nýtast við störf þeirra, Né heldur skulu þau koma í veg fyrir að þessi yfirvöld eða stofnanir sendi lögbærum yfirvöldum upplýsingar sem þau geta þurft á að halda m.t.t. 27. gr.
Um upplýsingar, sem eru fengnar í þessu sambandi, skulu gilda ákvæði um þagnarskyldu samkvæmt þessum þætti.

30. gr.
Upplýsingar sem veittar eru stjórnarskrifstofum sem bera ábyrgð á fjármálalöggjöf

Þar að auki geta aðildarríkin, þrátt fyrir 24. og 27. gr. og samkvæmt heimildum í lögum, heimilað að öðrum deildum stjórnarskrifstofa sem bera ábyrgð á löggjöf um eftirlit með lánastofnunum, fjármálastofnunum, fjárfestingarþjónustu og vátrygginga- eða endurtryggingafélögum og eftirlitsmönnum, sem koma fram fyrir hönd þessara deilda, sé skýrt frá vissum upplýsingum.
Slíkar upplýsingar má þó aðeins veita þegar þess er þörf vegna varfærniseftirlits með starfseminni.
Þó skulu aðildarríkin kveða á um að upplýsingar, sem fengnar eru skv. 25. gr. og 1. mgr. 28. gr. eða með sannprófun á staðnum, s.s. um getur í 16. gr., megi aldrei veita í þeim tilvikum sem um getur í þessari grein nema með skýlausu samþykki lögbærra yfirvalda aðildarríkisins sem veitti upplýsingarnar eða lögbærra yfirvalda aðildarríkisins þar sem sannprófunin á staðnum fór fram.

4. þáttur
Skyldur endurskoðenda
31. gr.
Skyldur endurskoðenda

1.     Aðildarríkin skulu a.m.k. kveða á um að hverjum þeim aðila, sem til þess hefur heimild í skilningi tilskipunar 84/253/EBE ( 19 ), og annast í endurtryggingafélagi það starf sem er lýst í 51. gr. tilskipunar 78/660/EBE ( 20 ), 37. gr. tilskipunar 83/349/EBE eða 31. gr. tilskipunar 85/611/EBE ( 21 ) eða annað lögboðið starf, skuli skylt að upplýsa lögbær yfirvöld jafnharðan um málsatvik eða ákvörðun varðandi félagið, sem viðkomandi hefur orðið áskynja um í starfi sínu og líklegt er að:
a)    feli í sér að verulega sé gengið á svig við lög eða stjórnsýslufyrirmæli, þar sem mælt er fyrir um skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis eða sem fjalla sérstaklega um starfsemi vátrygginga- eða endurtryggingafélaga eða
b)    hafi áhrif á áframhaldandi starfsemi endurtryggingafélags eða
c)    leiði til þess að ekki er skrifað upp á reikningana eða að fyrirvarar eru settir.
Þessum sama einstaklingi ber skylda til að upplýsa um málsatvik og ákvarðanir, sem hann verður áskynja um í starfi sínu eins og um getur í fyrstu undirgrein, í félagi sem hefur náin tengsl vegna yfirráðatengsla við endurtryggingafélagið þar sem hann sinnir framangreindu starfi.
2.     Aðilar, sem hafa heimild í skilningi tilskipunar 84/253/EBE til að upplýsa lögbær yfirvöld um málsatvik eða ákvarðanir sem máli skipta, teljast ekki hafa brotið gegn ákvæðum um takmörkun á birtingu upplýsinga sem mælt er fyrir um í samningi eða laga- eða stjórnsýslufyrirmælum og skal ekki kalla þá til ábyrgðar með neinum hætti.

2. KAFLI
Reglur um vátryggingaskuld

32. gr.
Útreikningur á vátryggingaskuld

1.     Heimaaðildarríkin skulu gera kröfu um að sérhvert endurtryggingafélag ákvarði fullnægjandi vátryggingaskuld í tengslum við heildarstarfsemi sína.
Ákvarða skal fjárhæð slíkra vátryggingaskulda í samræmi við reglurnar sem mælt er fyrir um í tilskipun 91/647/EBE. Heimaaðildarríki er heimilt, eftir því sem við á, að mæla fyrir um sértækari reglur í samræmi við 20. gr. tilskipunar 2002/83/EB.
2.     Aðildarríkin skulu ekki viðhalda eða taka upp kerfi með brúttóvarasjóðum sem binda tilteknar eignir til að mæta iðgjaldaskuldum og útistandandi tjónaskuld ef endurtryggjandinn er endurtryggingafélag með starfsleyfi í samræmi við þessari tilskipun eða vátryggingafélag með starfsleyfi í samræmi við 73/239/EBE eða 2002/83/EB.
3.     Þegar heimaaðildarríki heimilar að vátryggingaskuld sé tryggð með kröfum á hendur endurtryggjendum, sem eru ekki með starfsleyfi í samræmi við þessa tilskipun, eða vátryggingafélögum, sem ekki eru með starfsleyfi í samræmi við tilskipun 73/239/ EBE eða 2002/83/EB, skal það ákveða skilyrði þess að slíkar kröfur séu viðurkenndar.

33. gr.
Útjöfnunarsjóður

1.     Heimaaðildarríkið skal krefjast þess að sérhvert endurtryggingafélag, sem endurtryggir gegn áhættu sem fellur undir 14. greinaflokk í A-lið viðaukans við tilskipun 73/239/EBE, stofni útjöfnunarsjóð í því skyni að jafna tap af vátryggingastarfsemi eða tjónahlutföll yfir meðallagi sem gætu orðið í þessum flokki á einhverju fjárhagsári.
2.     Útjöfnunarsjóðurinn fyrir greiðsluvátryggingar skal reiknaður út í samræmi við reglurnar sem heimaaðildarríkið mælir fyrir um í samræmi við eina af fjórum aðferðum sem tilgreindar eru í D-lið viðaukans við tilskipun 73/239/EBE og teljast þær allar jafngildar.
3.     Heimaaðildarríkið getur veitt endurtryggingafélögum undanþágu frá þeirri skyldu að mynda útjöfnunarsjóði vegna endurtrygginga í starfsemi á sviði greiðsluvátrygginga þegar tekjur af iðgjöldum eða framlögum vegna endurtrygginga greiðsluvátrygginga nema minna en 4% af heildartekjum þeirra af iðgjöldum eða framlögum og eru undir 2 500 000 evra.
4.     Heimaaðildarríkinu er heimilt að krefjast þess að hvert endurtryggingafélag stofni útjöfnunarsjóð vegna annarra áhættuflokka en greiðsluendurtrygginga. Útjöfnunarsjóðirnir skulu reiknaðir út samkvæmt reglum sem heimaaðildarríkið mælir fyrir um.

34. gr.
Eignir til jöfnunar vátryggingaskuld

1.     Heimaaðildarríki skal krefjast þess að sérhvert endurtryggingafélag fjárfesti þær eignir sem koma til jöfnunar þeirri vátryggingaskuld og þeim útjöfnunarsjóði, sem um getur í 33. gr., í samræmi við eftirfarandi reglur:
a)    eignirnar skulu taka mið af þeirri tegund starfsemi sem endurtryggingafélagið stundar, einkum hvað varðar eðli, fjárhæð og tímalengd áætlaðra kröfugreiðslna á þann hátt að tryggja nægilegt magn, gjaldfærni, öryggi, gæði, arðsemi og jöfnun fjárfestinga félagsins,
b)    endurtryggingafélagið skal tryggja að eignir séu fjölbreytilegar og hæfilega dreifðar sem gerir því kleift að bregðast með viðunandi hætti við breytingum í efnahagslífinu, einkum þróun á fjármála- og fasteignamörkuðum og meiri háttar hamförum. Félagið skal meta áhrif óeðlilegra aðstæðna á markaði á eignir þess og skal dreifa eignum með það að markmiði að draga úr slíkum áhrifum,
c)    fjárfesting í eignum, sem ekki eru skráðar á skipulegum fjármálamarkaði, verður ávallt að vera innan varfærnismarka,
d)    fjárfesting í afleiðusamningum skal vera möguleg að því marki sem þeir geta dregið úr fjárfestingaáhættu eða stuðla að hagkvæmri stýringu vátryggingastofns. Þá skal meta á varfærnisgrundvelli, með hliðsjón af eignunum sem liggja til grundvallar, og fella inn í matið á eignum félagsins. Félagið skal einnig forðast að taka mikla áhættu gagnvart einum mótaðila og annarri afleiddri starfsemi,
e)    eignirnar skulu vera nægilega fjölbreytilegar þannig að ekki verði treyst óþarflega mikið á einhverja eina eign, útgefanda eða samstæðu félaga og áhætta safnist ekki fyrir í eignasafninu í heild. Fjárfestingar í eignum sem gefnar eru úr af sama útgefanda eða útgefendum, sem tilheyra sömu samstæðu, skulu ekki leiða til þess að áhætta safnist fyrir í of miklum mæli hjá félaginu.
Aðildarríkin geta ákveðið að framfylgja ekki kröfunum sem um getur í e-lið gagnvart fjárfestingum í ríkisskuldabréfum.
2.     Aðildarríkin geta ekki gert kröfu um að endurtryggingafélög á yfirráðasvæði þeirra fjárfesti í tilteknum eignaflokkum.
3.     Aðildarríkin skulu ekki skilyrða fjárfestingarákvarðanir endurtryggingafélags eða forstöðumanns fjárfestinga þess á yfirráðasvæði þeirra við neins konar fyrirframsamþykki eða kerfisbundna tilkynningarskyldu.
4.     Þrátt fyrir 1.–3. mgr. er heimaaðildarríki heimilt að mæla fyrir um eftirfarandi reglur um magn fyrir þau endurtryggingafélög sem eru með aðalskrifstofu á yfirráðasvæði þeirra, að því tilskildu að þær séu rökstuddar út frá varfærnissjónarmiði:
a)    fjárfesting heildarvátryggingaskuldar í öðrum gjaldmiðlum en þeim sem vátryggingaskuldin er í skal vera takmörkuð við 30%,
b)    fjárfesting heildarvátryggingaskuldar í hlutabréfum og öðrum framseljanlegum verðbréfum, sem farið er með eins og hlutabréf og skuldabréf sem ekki eru skráð á skipulegum markaði, skal vera takmörkuð við 30%,
c)    heimaaðildarríkinu er heimilt að skylda sérhvert endurtryggingafélag til að fjárfesta að hámarki 5% af heildarvátryggingaskuld sinni í hlutabréfum og öðrum framseljanlegum verðbréfum, sem farið er með sem hlutabréf, skuldabréf og aðra peninga- og fjármagnsmarkaðargerninga frá sama félagi, og að hámarki 10% af heildarvátryggingaskuld í hlutabréfum og öðrum framseljanlegum verðbréfum sem farið er með sem hlutabréf, skuldabréf og aðra peninga- og fjármagnsmarkaðargerninga sem félög, sem tilheyra sömu samstæðu, gefa út.
5.     Enn fremur skal heimaaðildarríki mæla fyrir um ítarlegri reglur um skilyrði fyrir notkun útistandandi fjárhæða frá félagi með sérstakan tilgang sem eigna til jöfnunar vátryggingaskuld samkvæmt þessari grein.

3. KAFLI
Reglur um gjaldþol og ábyrgðarsjóð

1. þáttur
Gjaldþol
35. gr.
Almennt ákvæði

Aðildarríki skal gera kröfu um að þau endurtryggingafélög, sem eru með aðalskrifstofu á yfirráðasvæði þess, hafi ætíð gjaldþol vegna starfseminnar í heild sem sé fullnægjandi og a.m.k. í samræmi við kröfur í þessari tilskipun.

36. gr.
Tækar eignir

1.     Gjaldþol skal samanstanda af hreinum eignum endurtryggingafélags sem ekki tengjast neinum fyrirsjáanlegum skuldbindingum, að frádregnum öllum óefnislegum liðum, þ.m.t.:
a)    innborgað hlutafé eða, ef um er að ræða gagnkvæmt endurtryggingafélag, upphaflegt stofnfé, að viðbættum reikningum félagsaðila, sem uppfylla öll eftirtalin skilyrði:
    i)    í stofnsamþykktum skal kveðið á um að ekki sé heimilt að greiða félagsaðilum af þessum reikningum hafi það í för með sér að gjaldþol fari niður fyrir tilskilið lágmark eða, ef um er að ræða félagsslit, skuli fyrst gera upp allar aðrar skuldir félagsins,
    ii)    í stofnsamþykktum skal kveðið á um að, að því er varðar greiðslur sem um getur í i-lið af öðrum ástæðum en við útgöngu einstakra félagsaðila, skuli lögbærum yfirvöldum tilkynnt um það með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara og geta þau, þar til sá tími rennur út, bannað greiðslu,
    iii)    eingöngu er heimilt að breyta viðkomandi ákvæðum í stofnsamþykktum eftir að lögbær yfirvöld hafa lýst því yfir að þau hreyfi engum andmælum við breytingunni, sbr. þó skilyrðin sem kveðið er á um í i- og ii-lið,
b)    bundnir og frjálsir varasjóðir sem ekki tengjast vátryggingaskuldbindingum og eru ekki flokkaðir sem útjöfnunarsjóðir,
c)    óráðstafaður hagnaður að frádregnu ójöfnuðu tapi og ráðgerðum arðgreiðslum.
2.     Gjaldþol skal lækkað um fjárhæð sem nemur eign endurtryggingafélagsins í eigin hlutum.
Að því er þau endurtryggingafélög varðar, sem afvaxta eða lækka vátryggingaskuldir á sviði skaðatrygginga vegna tjónaskuldar til að taka mið af fjárfestingartekjum, eins og leyfilegt er skv. g-lið 1. mgr. 60 gr. tilskipunar 91/674/EBE skal gjaldþol lækkað um muninn á óafvöxtuðum vátryggingaskuldum, eða vátryggingaskuldum fyrir frádrátt, eins og tilgreint er í skýringum í ársreikningi, og vátryggingaskuldum eftir afvöxtun eða frádrátt. Þessi aðlögun skal gerð fyrir allar tegundir áhættu, sem tilgreindar eru í A-lið viðaukans við tilskipun 73/239/ EBE, að undanskildum þeim sem skráðar eru í greinaflokk 1 og 2 í A-lið þess viðauka. Í öðrum flokkum en greinaflokki 1 og 2, sem tilgreindir eru í A-lið sama viðauka, þarf enga aðlögun vegna afvöxtunar á árlegum greiðslum sem taldar eru með í vátryggingaskuld.
Auk frádráttarins í fyrstu og annarri undirgrein skulu eftirfarandi liðir koma til lækkunar á gjaldþoli:
a)    hlutdeild endurtryggingafélagsins í eftirfarandi stofnunum:
    i)    vátryggingafélögum í skilningi 6. gr. tilskipunar 73/239/EBE, 4. gr. tilskipunar 2002/83/ EB eða b-liðar 1. gr. tilskipunar 98/78/EB,
    ii)    endurtryggingafélögum í skilningi 3. gr. þessarar tilskipunar eða endurtryggingafélög í löndum utan Bandalagsins í skilningi 1-. liðar 1. gr. tilskipunar 98/78/EB,
    iii)    eignarhaldsfélögum á vátryggingasviði í skilningi i-liðar 1. gr. tilskipunar 98/78/EB,
    iv)    lánastofnunum og fjármálastofnunum í skilningi 1. mgr. og 5. mgr. 1. gr. tilskipunar 2000/12/EB,
    v)    fjárfestingarfyrirtækjum og fjármálastofnunum í skilningi 2. mgr. 1. gr. tilskipunar 93/22/EBE ( 22 ) og 4. og 7. mgr. 2. gr. tilskipunar 93/6/EBE ( 23 ),
b)    allir eftirtaldir liðir sem endurtryggingafélagið á í tengslum við aðila sem eru skilgreindir í a-lið og það á hlutdeild í:
    i)    gerningar sem um getur í 4. mgr.,
    ii)    gerningar sem um getur í 3. mgr. 27. gr. tilskipunar 2002/83/EB,
    iii)    víkjandi kröfur og gerningar sem um getur í 35. gr. og 3. mgr. 36. gr. tilskipunar 2000/12/EB.
Þegar hlutabréf í annarri lánastofnun, fjárfestingarfyrirtæki, fjármálastofnun, vátrygginga- eða endurtryggingafélagi eða eignarhaldsfélagi á vátryggingasviði er bráðabirgðaráðstöfun og ætluð sem fjárhagsaðstoð til endurskipulagningar eða til bjargar hlutaðeigandi aðila, er lögbærum yfirvöldum heimilt að falla frá ákvæðunum um frádrátt sem um getur í a- og b-lið þriðju undirgreinar.
Í stað þess að draga frá þá liði, sem um getur í a- og b-lið þriðju undirgreinar, sem endurtryggingafélag á í lánastofnunum, fjárfestingarfyrirtækjum og fjármálastofnunum, geta aðildarríkin heimilað endurtryggingafélögum sínum að beita, að breyttu breytanda, aðferðum 1, 2 eða 3 í I. viðauka við tilskipun 2002/87/EB. Einungis skal beita aðferð 1 (samstæðureikningsskil) ef lögbæra yfirvaldið hefur fulla vissu fyrir því að hve miklu leyti stjórnun er samþætt og innra eftirlit viðhaft að því er varðar aðila sem á að taka með í samstæðureikningsskilunum. Jafnan skal beita aðferðinni, sem valin er, á sama hátt.
Aðildarríkin geta kveðið á um að endurtryggingafélög, sem skulu vera undir viðbótareftirliti í samræmi við tilskipun 98/78/EB eða viðbótareftirliti í samræmi við tilskipun 2002/87/EB, þurfi ekki, við útreikning á gjaldþoli, eins og kveðið er á um í þessari tilskipun, að draga frá liðina sem um getur í a- og b-lið þriðju undirgreinar, sem eru eign í lánastofnunum, fjárfestingarfyrirtækjum, fjármálastofnunum, vátrygginga- eða endurtryggingafélögum eða eignarhaldsfélögum á vátryggingasviði sem viðbótareftirlitið nær til.
Að því er varðar frádrátt á hlutdeild, sem um getur í þessari málsgrein, er orðið hlutdeild notað í skilningi f-liðar 1. gr. tilskipunar 98/78/EB.
3.     Til gjaldþols má einnig telja:
a)    samanlagða fjárhæð forgangshlutafjár og víkjandi lána sem ekki mega fara yfir 50% af gjaldþoli eða tilskildu gjaldþoli, hvort sem lægra reynist, og þar af mega víkjandi lán með fastan lánstíma eða heildarfjárhæð forgangshlutafjár með fastan lánstíma ekki fara yfir 25%, að því tilskildu að, ef um er að ræða gjaldþrot eða slit endurtryggingafélags, sé til bindandi samkomulag um að víkjandi lánum eða forgangshlutabréfum sé skipað aftar kröfum allra annarra lánardrottna og verði ekki endurgreidd fyrr en allar aðrar útistandandi skuldir hafa verið greiddar.
    Víkjandi lán verður einnig að uppfylla eftirtalin skilyrði:
    i)    aðeins er heimilt að telja með innborgaðar fjárhæðir,
    ii)    upphaflegur lánstími lána með föstum lánstíma skal ekki vera skemmri en fimm ár. Eigi síðar en einu ári áður en kemur að endurgreiðslu skal endurtryggingafélagið leggja fyrir lögbær yfirvöld til samþykktar áætlun um hvernig gjaldþoli skuli haldið eða það aukið þannig að það nái tilskildu marki á gjalddaga nema að um sé að ræða lán sem unnt er að telja sem hluta af gjaldþoli sem unnt er að lækka í áföngum, a.m.k. á síðustu fimm árunum fyrir endurgreiðslu. Lögbær yfirvöld geta veitt heimild til að flýta endurgreiðslu slíkra lána svo fremi endurtryggingafélagið sæki um það og að því tilskildu að gjaldþol fari ekki niður fyrir tilskilið lágmark,
    iii)    lán, sem eru ekki með föstum lánstíma, skulu vera með fimm ára uppsagnarfresti nema lánið teljist ekki lengur hluti af gjaldþoli eða að samþykki lögbærra yfirvalda þurfi til að það fáist greitt fyrr. Í síðara tilvikinu verður endurtryggingafélagið að senda lögbærum yfirvöldum tilkynningu a.m.k. sex mánuðum fyrir áætlaðan greiðsludag þar sem það tilgreinir gjaldþol og lágmarksgjaldþol, bæði fyrir og eftir endurgreiðsluna. Lögbær yfirvöld skulu eingöngu heimila endurgreiðslu fari gjaldþol endurtryggingafélagsins ekki niður fyrir tilskilið lágmark,
    iv)    lánasamningurinn má ekki fela í sér nein ákvæði þar sem gert er ráð fyrir að lán verði við sérstakar aðstæður endurgreitt fyrr en á gjalddaga nema um sé að ræða slit endurtryggingafélagsins,
    v)    eingöngu er heimilt að breyta lánssamningnum eftir að lögbær yfirvöld hafa lýst því yfir að þau hreyfi ekki andmælum við breytingunni,
b)    verðbréf án tiltekins lánstíma og aðrir gerningar, þ.m.t. forgangshlutabréf, önnur en þau sem um getur í a lið, en þau ásamt víkjandi lánum, sem um getur í a-lið, mega vera allt að 50% af gjaldþoli eða tilskildu gjaldþoli, hvort sem lægra reynist, að því tilskildu að þau uppfylli eftirtalin skilyrði:
    i)    óheimilt sé að endurgreiða þau að frumkvæði handhafa eða án þess að lögbært yfirvald hafi áður veitt samþykki sitt,
    ii)    útgáfusamningurinn verður að gera endurtryggingafélaginu kleift að fresta greiðslu vaxta af láninu,
    iii)    skipa skal kröfum lánveitanda á hendur endurtryggingafélaginu aftar öllum öðrum kröfum lánardrottna sem ekki eru víkjandi,
    iv)    í skjölunum, sem gilda um útgáfu verðbréfanna, skal kveðið á um að nota megi skuldir og ógreidda vexti til að mæta tapi á meðan endurtryggingafélaginu er gert kleift að halda áfram starfsemi sinni,
    v)    aðeins er heimilt að telja með innborgaðar fjárhæðir.
4.     Samkvæmt rökstuddri umsókn endurtryggingafélags til lögbærs yfirvalds heimaaðildarríkis og að fengnu samþykki viðkomandi lögbærs yfirvalds má einnig telja til gjaldþols:
a)    helming óinnborgaðs hlutafjár eða stofnfjár, enda nemi hlutinn, sem greiddur hefur verið, a.m.k. 25% hlutafjár eða stofnfjár, og þessi liður verði í mesta lagi 50% af gjaldþoli eða tilskildu gjaldþoli hvort sem lægra reynist,
b)    kröfur um viðbótarframlög sem gagnkvæm skaðatryggingafélög eða félög hliðstæðrar gerðar með óregluleg framlög geta gert á hendur félagsmönnum sínum á fjárhagsárinu sem geta numið allt að helmingi mismunarins milli hámarksframlaga og þeirra framlaga sem í raun er krafist en geta þó ekki numið meira en 50% af gjaldþoli eða tilskildu gjaldþoli, hvort sem lægra reynist. Lögbær innlend yfirvöld skulu mæla fyrir um viðmiðunarreglur um við hvaða aðstæður heimilt er að taka á móti viðbótarframlögum,
c)    dulda nettóvarasjóði sem stafa af mati á eignum, að svo miklu leyti sem slíkir duldir nettóvarasjóðir eru ekki óvenjulegs eðlis.
5.     Hvað lífendurtryggingar varðar má, samkvæmt rökstuddri umsókn endurtryggingafélags til lögbærs yfirvalds heimaaðildarríkis og að fengnu samþykki viðkomandi lögbærs yfirvalds, einnig telja til gjaldþols:
a)    til 31. desember 2009, fjárhæð sem nemur 50% af framtíðarhagnaði félagsins en þó aldrei meira en 25% af gjaldþoli eða tilskildu gjaldþoli, hvort sem lægra reynist; fjárhæð framtíðarhagnaðar fæst með því að margfalda áætlaðan árshagnað með stuðli sem sýnir þann meðalárafjölda sem tryggingaskírteini eiga eftir að vera í gildi; meðalárafjöldinn má þó aldrei vera hærri en sex; áætlaður árshagnaður skal ekki fara yfir meðalhagnað næstliðinna fimm fjárhagsára fyrir þá starfsemi sem skráð er í 1. mgr. 2. gr. í tilskipun 2002/83/EB.
    Lögbær yfirvöld geta einungis samþykkt að slík fjárhæð sé hluti af gjaldþoli:
    i)    ef lögð hefur verið fyrir lögbær yfirvöld tryggingafræðileg skýrsla sem rennir stoðum undir líkur á því að slíkur hagnaður verði í framtíðinni og
    ii)    að svo miklu leyti sem sá hluti framtíðarhagnaðar, sem verður fyrir tilstilli dulinna nettóvarasjóða sem um getur í c-lið 4. mgr., hefur ekki enn verið tekinn til greina,
b)    ef Zillmer-aðferð er ekki beitt eða ef henni er beitt en miðað er við álag vegna kostnaðar við öflun vátrygginga sem er lægra en samsvarandi álag fólgið í iðgjöldum, mismuninn á annars vegar vátryggingasjóði sem ekki er reiknaður samkvæmt Zillmer-aðferðinni eða reiknaður er að hluta samkvæmt Zillmer-aðferð og hins vegar vátryggingasjóði sem er reiknaður samkvæmt Zillmer-aðferð þar sem gengið er út frá álagi á iðgjöld sem samsvarar kostnaðinum við öflun vátrygginganna; upphæðin má þó ekki fara yfir 3,5% af samanlögðum mismun á fjárhæðum vegna endurtrygginga á sviði líftrygginga og vátryggingasjóðum vegna allra skírteina þar sem unnt er að nota Zillmer-aðferð; frá þeim mismun skal draga allan óafskrifaðan eignfærðan öflunarkostnað.
6.     Breytingar á 1.–5. mgr. þessarar greinar sem gerðar eru til að taka tillit til þróunar sem réttlætir tæknilega aðlögun þeirra liða sem mynda mega gjaldþol, skulu samþykktar í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 55. gr.

2. þáttur
Tilskilið gjaldþol
37. gr.
Tilskilið gjaldþol fyrir endurtryggingastarfsemi á sviði skaðatrygginga

1.     Tilskilið gjaldþol skal annaðhvort ákveðið á grundvelli árlegrar fjárhæðar iðgjalda og framlaga eða á grundvelli meðaltjónakostnaðar þriggja næstliðinna fjárhagsára.
Þegar um er að ræða endurtryggingafélög, sem aðallega hafa með höndum eina eða fleiri tegundir áhættu sem falla undir greiðslu-, óveðurs-, hagl-, eða frostvátryggingar, skal þó miðað við sjö síðastliðin reikningsár til að finna meðaltjónakostnað.
2.     Með fyrirvara um 40. gr. skal tilskilið gjaldþol jafnt og sú niðurstöðutala sem hærri er þeirra tveggja sem settar eru fram í 3. og 4. mgr. þessarar greinar.
3.     Iðgjaldagrunnurinn skal reiknaður út með því að nota bókfærð iðgjöld og framlög, eins og þau eru reiknuð hér á eftir, eða brúttóiðgjöld ársins, hvort sem hærra reynist.
Iðgjöld eða framlög vegna 11., 12. og 13. greinaflokks, sem taldir eru upp í A-lið viðauka við tilskipun 73/239/EBE, skulu hækkuð um 50%.
Heimilt er að hækka iðgjöld eða framlög vegna 11., 12. og 13. greinaflokks, sem taldir eru upp í A-lið í viðauka við tilskipun 73/239/EBE, um allt að 50% vegna sérstakrar endurtryggingastarfsemi eða tegunda samninga til að taka mið af sérhæfni þessarar starfsemi eða samninga í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 55. gr. þessarar tilskipunar. Iðgjöld eða framlög, þ.m.t. viðbótargjöld eða viðbótarframlög sem féllu í gjalddaga á næstliðnu fjárhagsári vegna endurtryggingastarfsemi skulu lögð saman.
Frá þessari samtölu skal draga heildarfjárhæð niðurfelldra iðgjalda eða framlaga á næstliðnu fjárhagsári sem og heildarfjárhæð skatta og álagðra gjalda sem innifalin eru í iðgjöldum eða framlögum sem fara í samtöluna.
Fjárhæðinni, sem þannig fæst, er skipt í tvo hluta, annan, sem nemur allt að 50 000 000 evrum og hinn því sem umfram er: reiknuð eru 18% af fyrri fjárhæðinni og 16% af þeirri síðari og þær fjárhæðir lagðar saman.
Samtalan, sem þannig fæst, skal margfölduð með hlutfalli milli heildartjóna næstliðinna þriggja fjárhagsára, sem endurtryggingafélagið ber í eigin áhættu, eftir að hlutur endurtryggjenda (úttrygging) þess í tjónum hefur verið dreginn frá, og tjóna í heild; þetta hlutfall má þó aldrei vera lægra en 50%. Samkvæmt rökstuddri umsókn endurtryggingafélags til lögbærs yfirvalds heimaaðildarríkis og að fengnu samþykki þess yfirvalds má einnig draga endurheimtanlegar upphæðir frá félögum með sérstakan tilgang, eins og um getur í 46. gr., sem endurtryggingar endurtryggjanda (úttrygging).
Að fengnu samþykki lögbærra yfirvalda er heimilt að nota tölfræðilegar aðferðir til að áætla iðgjöld eða framlög.
4.     Tjónagrunnur skal reiknaður á eftirfarandi hátt og skulu kröfur, vátryggingaskuld og endurheimtanlegar fjárhæðir, er varða 11., 12. og 13. greinaflokk sem taldir eru upp í A-lið viðauka við tilskipun 73/239/ EBE, hækkaðar um 50%.
Heimilt er að hækka kröfur, vátryggingaskuld og endurheimtanlegar fjárhæðir fyrir aðra greinaflokka en 11, 12 og 13, sem taldir eru upp í A-lið viðauka við tilskipun 73/239/EBE, um allt að 50% vegna sérstakrar endurtryggingastarfsemi eða tegunda samninga til að taka mið af sérhæfni þessarar starfsemi eða samninga í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 55. gr. þessarar tilskipunar.
Fjárhæðir tjónagreiðslna, án frádráttar á tjónum sem endurtryggjendur (úttrygging) bera, á því tímabili sem tiltekið er í 1. mgr. skulu lagðar saman.
Við þessa samtölu skal bætt fjárhæð skuldar vegna tjónaskuldar í lok næstliðins fjárhagsárs.
Frá þeirri samtölu skal draga fjárhæðir endurheimtar á þeim tímabilum sem um getur í 1. mgr.
Frá þeirri upphæð, er þá stendur eftir, dregst fjárhæð skuldar vegna tjónaskuldar í upphafi annars fjárhagsárs á undan síðasta fjárhagsári sem reikningar eru til fyrir. Ef viðmiðunartímabilið, sem tilgreint er í 1. mgr., er sjö ár skal draga frá skuld vegna tjónaskuldar í upphafi sjötta reikningsárs á undan síðasta fjárhagsári sem reikningar eru til fyrir.
Einum þriðja eða einum sjöunda af þeirri fjárhæð, sem þannig fæst, en það fer eftir því tímabili sem miðað er við skv. 1. mgr., er skipt í tvo hluta, annan sem nemur 35 000 000 evra en hinn því sem umfram er; reiknuð eru 26% af fyrri fjárhæðinni og 23% af þeirri síðari og þessar tölur lagðar saman.
Samtalan, sem þannig fæst, skal margfölduð með hlutfalli milli heildartjóna næstliðinna þriggja fjárhagsára, sem félagið ber í eigin áhættu, eftir að hlutur endurtryggjenda (úttrygging) þess í tjónum hefur verið dreginn frá, og tjóna í heild; þetta hlutfall má þó aldrei vera lægra en 50%. Samkvæmt rökstuddri umsókn endurtryggingafélags til lögbærs yfirvalds heimaaðildarríkis og að fengnu samþykki þess yfirvalds má einnig draga endurheimtanlegar upphæðir frá félögum með sérstakan tilgang, eins og um getur í 46. gr., sem endurtryggingar endurtryggjenda (úttrygging).
Að fengnu samþykki lögbærra yfirvalda er heimilt að nota tölfræðilegar aðferðir til að áætla kröfur, vátryggingaskuld og endurheimtanlegar fjárhæðir.
5.     Ef tilskilið gjaldþol, eins og það er reiknað út í 2., 3. og 4. mgr., er lægra en tilskilið gjaldþol fyrra árs skal tilskilið gjaldþol nema a.m.k. tilskildu gjaldþoli fyrra árs, margfölduðu með hlutfalli vátryggingaskuldar vegna óuppgerðra tjóna í lok næstliðins fjárhagsárs og vátryggingaskuldar vegna óuppgerðra tjóna í byrjun næstliðins fjárhagsárs.
Í þessum útreikningum skal vátryggingaskuld reiknuð út að frádregnum hluta endurtryggjenda (úttrygging) en hlutfallið skal aldrei vera hærra en 1.
6.     Hlutföllin, sem margfaldað er með í fimmtu undirgrein 3. mgr. og sjöundu undirgrein 4. mgr., skal lækka í 1/3 ef um endurtryggingar sjúkratrygginga er að ræða sem reknar eru á hliðstæðum tæknilegum grundvelli og líftryggingar, ef:
a)    iðgjöld eru reiknuð á tryggingarstærðfræðilegum grunni út frá sjúkratöflum,
b)    komið er upp sjóði vegna hækkandi aldurs,
c)    viðbótariðgjöld eru innheimt til að koma upp hæfilegu öryggisálagi,
d)    vátryggingafélagið getur sagt upp samningnum í síðasta lagi fyrir lok þriðja tryggingarárs,
e)    samningurinn gerir ráð fyrir því að hækka megi iðgjöld eða lækka greiðslur jafnvel þegar um er að ræða samninga sem þegar eru í gildi.

38. gr.
Tilskilið gjaldþol fyrir starfsemi á sviði lífendurtrygginga

1.     Tilskilið gjaldþol fyrir starfsemi á svið lífendurtrygginga skal ákvarðað í samræmi við 37. gr.
2.     Þrátt fyrir 1. mgr. þessarar greinar er heimaaðildarríkinu heimilt að kveða á um að fyrir þá greinaflokka endurtrygginga á sviði líftrygginga, sem falla undir a-lið 1. mgr. 2. gr. tilskipunar 2002/83/EB sem tengjast fjárfestingarsjóðum eða hlutdeildarsamningum og starfsemi sem um getur í b-lið 1. mgr. 2. gr., b-, c-, d- og e-lið 2. mgr. 2. gr. tilskipunar 2002/83/EB, skuli tilskilið gjaldþol ákvarðað í samræmi við 28. gr. tilskipunar 2002/83/EB.

39. gr.
Tilskilið gjaldþol fyrir endurtryggingafélag sem annast bæði skaðatryggingar og líftryggingar

1.     Heimaaðildarríkið skal gera kröfu um að öll endurtryggingafélög, sem annast bæði skaðaendurtryggingar og lífendurtryggingar, séu með gjaldþol til að mæta heildarfjárhæð tilskilins gjaldþols, bæði að því er varðar starfsemi á sviði skaðaendurtrygginga og lífendurtrygginga eins og það er ákvarðað í samræmi við 37. gr. annars vegar og 38. gr. hins vegar.
2.     Ef gjaldþol nær ekki því stigi sem krafist er í 1. mgr. þessarar greinar skulu lögbær yfirvöld beita ráðstöfununum sem kveðið er á um í 42.–43. gr.

3. þáttur
Ábyrgðarsjóður
40. gr.
Fjárhæð ábyrgðarsjóðs

1.     Ábyrgðarsjóður skal nema þriðjungi tilskilins gjaldþols eins og það er tilgreint í 37., 38. og 39. gr. Þessi sjóður skal myndaður af liðum sem tilgreindir eru í 1., 2. og 3. mgr. 36. gr. og, að fengnu samþykki lögbærs yfirvalds heimaaðildarríkisins, í c-lið 4. mgr. 36. gr.
2.     Ábyrgðarsjóður má þó ekki vera lægri en 3 000 000 evrur.
Aðildarríkjunum er heimilt að kveða á um að lágmarksábyrgðarsjóður sé ekki undir 1 000 000 evrum þegar um er að ræða bundin endurtryggingafélög.

41. gr.
Endurskoðun á fjárhæð ábyrgðarsjóðs

1.     Fjárhæðin í evrum, sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 40. gr., skal endurskoðuð árlega frá og með 10. desember 2007, með hliðsjón af breytingum á evrópskri vísitölu neysluverðs, sem öll aðildarríkin falla undir, eins og hún er gefin út af Hagstofu Evrópubandalaganna (Eurostat).
Fjárhæðin skal aðlöguð sjálfkrafa með því að hækka grunnfjárhæðina í evrum í hlutfalli við breytingu á vísitölunni á tímabili sem stendur frá gildistöku þessarar tilskipunar til endurskoðunardags og skal fjárhæðin námunduð að margfeldi af 100 000 evrum.
Ef breytingin á hlutfallinu frá síðustu aðlögun er undir 5% fer engin aðlögun fram.
2.     Framkvæmdastjórnin skal ár hvert tilkynna Evrópuþinginu og ráðinu um endurskoðunina og aðlöguðu fjárhæðirnar sem um getur í 1. mgr.

4. KAFLI
Endurtryggingafélög sem eiga í erfiðleikum eða uppfylla ekki sett skilyrði og afturköllun starfsleyfis

42. gr.
Endurtryggingafélög sem eiga í erfiðleikum

1.     Fari endurtryggingafélag ekki að ákvæðum 32. gr. getur lögbært yfirvald í heimaaðildarríki þess bannað frjálsa ráðstöfun eigna þess eftir að hafa áður tilkynnt lögbærum yfirvöldum gistiaðildarríkisins um fyrirætlun sína.
2.     Í því skyni að rétta við fjárhagsstöðu endurtryggingafélags þegar gjaldþol þess nær ekki lágmarksgjaldþoli skv. 37., 38. og 39. gr. skal lögbært yfirvald í heimaaðildarríkinu gera kröfu um að félagið leggi fram til samþykktar áætlun um að rétta við fjárhagsstöðu sína og koma henni á traustan grundvöll.
Í undantekningartilvikum getur lögbært yfirvald, telji það að fjárhagsstaða endurtryggingafélags eigi eftir að versna enn frekar, takmarkað eða bannað frjálsa ráðstöfun eigna endurtryggingafélagsins. Það skal tilkynna yfirvöldum annarra aðildarríkja þar sem endurtryggingafélagið rekur starfsemi sína um allar ráðstafanir sem gerðar hafa verið og skulu þau, að beiðni þess fyrrnefnda, gera sömu ráðstafanir.
3.     Reynist gjaldþol félagsins lægra en sem nemur ábyrgðarsjóði, eins og hann er skilgreindur í 40. gr., skal lögbært yfirvald heimaaðildarríkisins gera kröfu um að endurtryggingafélagið leggi fram skammtímafjárhagsáætlun til samþykktar hjá því.
Það getur einnig takmarkað eða bannað frjálsa ráðstöfun á eignum endurtryggingafélagsins. Það skal tilkynna yfirvöldum allra annarra aðildarríkja um ráðstafanirnar og skulu þau að beiðni þess gera sömu ráðstafanir.
4.     Hvert aðildarríki skal gera nauðsynlegar ráðstafanir svo það geti, í samræmi við landslög, bannað frjálsa ráðstöfun eigna sem eru á yfirráðasvæði þess, að beiðni heimaaðildarríkis endurtryggingafélagsins, í þeim tilvikum sem um getur í 1., 2. og 3. mgr., en heimaaðildarríkið skal tilgreina um hvaða eignir þessar ráðstafanir gilda.

43. gr.
Áætlun um fjárhagslega endurreisn

1.     Aðildarríkin skulu tryggja að lögbær yfirvöld hafi vald til þess að krefjast áætlunar um fjárhagslega endurreisn fyrir þau endurtryggingafélög þar sem lögbær yfirvöld telja að skuldbindingum, sem leiðir af endurtryggingasamningum, sé stofnað í hættu.
2.     Áætlunin um fjárhagslega endurreisn skal að lágmarki innihalda, fyrir næstu þrjú fjárhagsár, upplýsingar eða sannanir varðandi:
a)    áætlaðan rekstrarkostnað, einkum almennan kostnað vegna daglegs reksturs og umboðslauna,
b)    áætlun með nákvæmri spá um tekjur og kostnað vegna móttöku endurtrygginga (inn-endurtrygginga) og keyptrar endurtryggingaverndar (út- endurtrygginga),
c)    áætlaðan efnahagsreikning,
d)    áætlaðar fjármögnunarleiðir til að mæta vátryggingaskuldbindingum og tilskildu gjaldþoli,
e)    heildarstefnu varðandi endurtryggingar (úttrygging).
3.     Þegar fjárhagsstaða endurtryggingafélags fer versnandi og samningsbundnum skuldbindingum endurtryggingafélagsins er stofnað í hættu skulu aðildarríkin tryggja að lögbær yfirvöld hafi vald til þess að skylda endurtryggingafélög til þess að hafa hærra lágmarksgjaldþol í því skyni að tryggja að endurtryggingafélagið sé í stakk búið til þess að uppfylla kröfur um gjaldþol í nánustu framtíð. Það skal byggt á áætluninni um fjárhagslega endurreisn, sem um getur í 1. mgr., hversu hátt þetta tilskilda gjaldþol skal vera.
4.     Aðildarríkin skulu tryggja að lögbær yfirvöld hafi vald til þess að endurmeta til lækkunar alla þætti sem falla undir gjaldþol, einkum í þeim tilvikum þegar veruleg breyting hefur orðið á markaðsvirði þessara þátta frá lokum síðasta fjárhagsárs.
5.     Aðildarríkin skulu tryggja að lögbær yfirvöld hafi vald til þess að draga úr lækkun, á grundvelli endurtryggingar (úttrygging), á gjaldþoli eins og það er skilgreint í samræmi við 37., 38. og 39. gr. þegar:
a)    veruleg breyting hefur orðið á eðli eða gæðum endurtryggingasamninga (úttrygging) frá næstliðnu fjárhagsári,
b)    engin eða lítil yfirfærsla áhættu felst í endurtryggingasamningunum (úttrygging).
6.     Hafi lögbær yfirvöld krafist áætlunar um fjárhagslega endurreisn fyrir endurtryggingafélag í samræmi við 1. mgr. þessarar greinar skulu þau ekki gefa út vottorð skv. 18. gr. svo lengi sem þau telja að skuldbindingum, sem leiðir af endurtryggingasamningum, sé stofnað í hættu í skilningi téðrar 1. mgr.

44. gr.
Afturköllun starfsleyfis

1.     Lögbært yfirvald heimaaðildarríkis, sem veitt hefur endurtryggingafélagi starfsleyfi, getur afturkallað það ef félagið:
a)    nýtir ekki starfsleyfið innan tólf mánaða, afsalar sér því afdráttarlaust eða hættir rekstri starfseminnar í meira en sex mánuði, nema viðkomandi aðildarríki hafi kveðið á um að starfsleyfið renni út í slíkum tilvikum,
b)    uppfyllir ekki lengur skilyrði fyrir staðfestu,
c)    hefur ekki getað hrundið í framkvæmd, innan tilskilins frests, þeirri áætlun um að rétta við fjárhagsstöðu sína eða fjárhagsáætlun sem um getur í 42. gr.,
d)    bregst alvarlega skyldum sem á því hvíla samkvæmt gildandi reglugerðum.
Sé starfsleyfi endurtryggingafélags afturkallað eða ef það rennur út tilkynnir lögbært yfirvald í heimaaðildarríkinu það til lögbærra yfirvalda í hinum aðildarríkjunum sem skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir að félagið hefji á ný starfsemi á yfirráðasvæði þeirra samkvæmt staðfesturétti eða frelsi til að veita þjónustu.
2.     Ákvörðun um að afturkalla starfsleyfi skal ítarlega rökstudd og tilkynnt hlutaðeigandi endurtryggingafélagi.

IV. BÁLKUR
ÁKVÆÐI UM TAKMARKAÐAR ENDURTRYGGINGAR OG FÉLÖG MEÐ SÉRSTAKAN TILGANG
45. gr.
Takmarkaðar endurtryggingar

1.     Heimaaðildarríkinu er heimilt að setja sérstök ákvæði um starfsemi á sviði takmarkaðra endurtrygginga að því er varðar:
–    lögboðin skilyrði sem skulu vera í öllum útgefnum samningum,
–    traustar stjórnunar- og bókhaldsaðferðir, fullnægjandi kerfi fyrir innra eftirlit og kröfur um áhættustýringu,
–    kröfur um reikningsskil, varfærnisupplýsingar og tölfræðilegar upplýsingar,
–    myndun vátryggingaskuldar til að tryggja að þær séu fullnægjandi, áreiðanlegar og hlutlægar,
–    fjárfestingu eigna til jöfnunar vátryggingaskuld til að tryggja að þær taki tillit til þeirrar tegundar starfsemi sem endurtryggingafélagið stundar, sérstaklega hvað varðar eðli, fjárhæð og lengd skuldbindinga vegna áætlaðra kröfugreiðslna, og með það að markmiði að tryggja nægilegt magn, greiðsluhæfi, öryggi, arðsemi og jöfnun eigna,
–    reglur um gjaldþol, tilskilið gjaldþol og lágmarksábyrgðarsjóð sem endurtryggingafélög skulu hafa yfir að ráða vegna takmarkaðra endurtrygginga.
2.     Til að tryggja gagnsæi skulu aðildarríkin senda framkvæmdastjórninni án tafar texta allra ráðstafana sem mælt er fyrir um í landslögum þeirra vegna 1. mgr.

46. gr.
Félög með sérstakan tilgang

1.     Ef aðildarríki ákveður að heimila að félag með sérstakan tilgang í skilningi þessarar tilskipunar sé stofnað á yfirráðasvæði þess skal það krefjast opinbers starfsleyfis fyrir því áður.
2.     Aðildarríkið þar sem félag með sérstakan tilgang er stofnað skal setja skilyrði um rekstur starfsemi slíks félags. Aðildarríkið skal einkum setja reglur um:
–    gildissvið starfsleyfis,
–    lögboðin skilyrði sem skulu vera í öllum útgefnum samningum,
–    óflekkað mannorð og viðeigandi starfsmenntun og hæfi þeirra sem reka félag með sérstakan tilgang,
–    hæfilegar og viðeigandi kröfur fyrir hluthafa eða aðila með virka eignarhlutdeild í félagi með sérstakan tilgang,
–    traustar stjórnunar- og bókhaldsaðferðir, fullnægjandi kerfi fyrir innra eftirlit og kröfur um áhættustýringu,
–    kröfur um reikningsskil, varfærnisupplýsingar og tölfræðilegar upplýsingar,
–    kröfur um gjaldþol félaga með sérstakan tilgang.
3.     Til að tryggja gagnsæi skulu aðildarríkin senda framkvæmdastjórninni án tafar texta allra ráðstafana sem mælt er fyrir um í landslögum þeirra vegna 1. mgr.

V. BÁLKUR
ÁKVÆÐI UM STAÐFESTURÉTT OG FRELSI TIL AÐ VEITA ÞJÓNUSTU
47. gr.
Endurtryggingafélög sem fara ekki að lagaákvæðum

1.     Nú komast lögbær yfirvöld gistiaðildarríkis að því að endurtryggingafélag, sem hefur útibú eða rekur starfsemi samkvæmt frelsi til að veita þjónustu á yfirráðasvæði þess, fer ekki að þeim lagaákvæðum sem um það gilda í því ríki og skulu þau þá krefjast þess af endurtryggingafélaginu að það bindi enda á það ástand og fari að settum reglum. Á sama tíma skulu þau vísa málinu til lögbærs yfirvalds í heimaaðildarríkinu.
Nú heldur endurtryggingafélagið áfram að brjóta gegn lagaákvæðum sem gilda um það í gistiaðildarríkinu þrátt fyrir þessar ráðstafanir af hálfu lögbærra yfirvalda í heimaaðildarríkinu eða vegna þess að slíkar ráðstafanir eru ónógar og geta þá yfirvöld hins síðarnefnda, er þau hafa skýrt lögbærum yfirvöldum heimaaðildarríkisins frá því, gert viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir frekari brot eða refsa fyrir frekari brot og þar á meðal, að því marki sem það er nauðsynlegt, komið í veg fyrir að endurtryggingafélagið geri fleiri endurtryggingasamninga á yfirráðasvæði þess.
Aðildarríkin skulu sjá til þess að á þeirra yfirráðasvæði sé unnt að birta endurtryggingafélögum nauðsynleg lagaskjöl vegna slíkra ráðstafana.
2.     Allar ráðstafanir, sem gripið er til skv. 1. mgr. og fela í sér viðurlög eða takmörkun á endurtryggingastarfsemi, skulu vel rökstuddar og tilkynntar því endurtryggingafélagi sem í hlut á.

48. gr.
Slit félags

Nú er endurtryggingafélagi slitið og skal þá gera upp skuldbindingar vegna samninga sem gerðir hafa verið fyrir milligöngu útibús eða samkvæmt frelsi til að veita þjónustu, á sama hátt og þær sem eiga rætur að rekja til annarra endurtryggingasamninga félagsins.

VI. BÁLKUR
ENDURTRYGGINGAFÉLÖG MEÐ AÐALSKRIFSTOFUR UTAN BANDALAGSINS SEM STUNDA STARFSEMI Á SVIÐI ENDURTRYGGINGA INNAN ÞESS
49. gr.
Meginregla og skilyrði fyrir rekstri endurtryggingastarfsemi

Aðildarríki skulu ekki beita ákvæðum gagnvart endurtryggingafélögum sem eru með aðalskrifstofur utan Bandalagsins, hvort heldur er við stofnun þeirra eða þegar þau annast starfsemi á yfirráðasvæði þess, sem fela í sér hagstæðari kjör en veitt eru endurtryggingafélögum sem hafa aðalskrifstofu sína innan Bandalagsins.

50. gr.
Samningar við þriðju lönd

1.     Framkvæmdastjórninni er heimilt að leggja fyrir ráðið tillögur vegna samningaviðræðna við eitt eða fleiri þriðju lönd um hvernig annast skuli viðbótareftirlit með:
a)    endurtryggingafélögum sem hafa aðalskrifstofu sína í þriðja landi og stunda starfsemi á sviði endurtrygginga í Bandalaginu,
b)    endurtryggingafélögum sem hafa aðalskrifstofu sína í Bandalaginu og stunda starfsemi á sviði endurtrygginga á yfirráðasvæði þriðja lands.
2.     Í samningunum, sem um getur í 1. mgr., skal einkum leitast við að tryggja skilvirkan markaðsaðgang, á grundvelli skilyrða um samsvörunar í varfærnisreglum, fyrir endurtryggingafélög á yfirráðasvæði hvers samningsaðila og kveða á um gagnkvæma viðurkenningu á eftirlitsreglum og starfsvenjum í endurtryggingum. Í þeim skal einnig ætlað leitast við að tryggja:
a)    að lögbær yfirvöld í aðildarríkjunum geti aflað upplýsinga sem nauðsynlegar eru vegna eftirlits með endurtryggingafélögum sem hafa aðalskrifstofur sínar í Bandalaginu og stunda starfsemi á yfirráðasvæðum viðkomandi þriðju landa,
b)    að lögbær yfirvöld í þriðju löndum geti aflað upplýsinga sem nauðsynlegar eru vegna eftirlits með endurtryggingafélögum sem hafa aðalskrifstofur sínar á yfirráðasvæði þeirra og stunda starfsemi í Bandalaginu.
3.     Með fyrirvara um 1. og 2. mgr. 300. gr. sáttmálans skal framkvæmdastjórnin, með aðstoð Evrópunefndar um vátryggingar og starfstengdar lífeyrisgreiðslur, fara yfir niðurstöður samningaviðræðnanna sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar og meta árangur þeirra.

VII. BÁLKUR
DÓTTURFÉLÖG MÓÐURFÉLAGA SEM HEYRA UNDIR LÖGGJÖF ÞRIÐJA LANDS OG ÖFLUN SLÍKRA MÓÐURFÉLAGA Á EIGNARHLUTUM
51. gr.
Upplýsingar frá aðildarríkjum til framkvæmdastjórnarinnar

Lögbær yfirvöld aðildarríkjanna skulu tilkynna framkvæmdastjórninni og lögbærum yfirvöldum hinna aðildarríkjanna:
a)    þegar starfsleyfi er veitt félögum sem beint eða óbeint eru dótturfélög, ef löggjöf þriðja lands gildir um móðurfélög þeirra, eitt eða fleiri,
b)    þegar slíkt móðurfélag aflar sér eignarhlutar í endurtryggingafélagi innan Bandalagsins sem gerir hið síðarnefnda að dótturfélagi þess.
Þegar starfsleyfið, sem um getur í a-lið, er veitt félagi, sem beint eða óbeint, er dótturfélag eins eða fleiri móðurfélaga er heyra undir löggjöf þriðja lands, skal, í tilkynningu sem lögbær yfirvöld senda framkvæmdastjórninni, tilgreina hvernig skipulagi samstæðunnar er háttað.

52. gr.
Meðferð sem þriðju lönd veita endurtryggingafélögum Bandalagsins

1.     Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um alla erfiðleika almenns eðlis sem endurtryggingafélög þeirra lenda í við að öðlast staðfestu og við rekstur í þriðja landi eða þegar þau stunda starfsemi sína í þriðja landi.
2.     Framkvæmdastjórnin skal reglulega semja skýrslu um kjör sem endurtryggingafélög Bandalagsins njóta í þriðju löndum, í skilningi 3. mgr., að því er varðar það að endurtryggingafélög Bandalagsins öðlist staðfestu í þriðju löndum, geti aflað eignarhluta í endurtryggingafélögum í þriðju löndum, stundað rekstur endurtryggingastarfsemi slíkra endurtryggingafélaga með staðfestu í þriðju löndum og endurtryggingastarfsemi yfir landamæri milli Bandalagsins og þriðju landa.
Framkvæmdastjórnin skal leggja skýrslurnar fyrir ráðið, ásamt tillögum og tilmælum, eftir því sem við á.
3.     Telji framkvæmdastjórnin, annaðhvort á grundvelli skýrslna sem um getur í 2. mgr. eða annarra upplýsinga, að þriðja land heimili ekki endurtryggingafélögum Bandalagsins raunverulegan aðgang að markaðinum, getur hún beint tilmælum til ráðsins um að það veiti viðeigandi umboð til samningaumleitana til að ná fram bættum markaðsaðgangi fyrir endurtryggingafélög Bandalagsins.
4.     Ráðstafanir, sem gerðar eru samkvæmt þessari grein, skulu vera í samræmi við skuldbindingar Bandalagsins samkvæmt alþjóðasamningum, einkum samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

VIII. BÁLKUR
ÖNNUR ÁKVÆÐI
53. gr.
Réttur til að áfrýja til dómstóla

Aðildarríkin skulu tryggja að unnt sé að vísa til dómstóls öllum ákvörðunum sem teknar eru um endurtryggingafélög samkvæmt lögum og stjórnsýslufyrirmælum sem sett eru til framkvæmdar þessari tilskipun.

54. gr.
Samvinna milli aðildarríkjanna og framkvæmdastjórnarinnar

1.     Lögbær yfirvöld skulu starfa saman að því að auðvelda eftirlit með endurtryggingum innan Bandalagsins og beitingu þessarar tilskipunar.
2.     Framkvæmdastjórnin og lögbær yfirvöld aðildarríkjanna skulu hafa með sér náið samstarf til þess að auðvelda eftirlit með endurtryggingum innan Bandalagsins og við að rannsaka vandkvæði sem upp geta komið við beitingu þessarar tilskipunar.

55. gr.
Nefndarmeðferð

1.     Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar Evrópunefndar um vátryggingar og starfstengdar lífeyrisgreiðslur.
2.     Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gilda ákvæði 5. og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar.
Fresturinn, sem um getur í 6. mgr. 5. gr. ákvörðunar 1999/468/EB, skal vera þrír mánuðir.
3.     Nefndin setur sér starfsreglur.

56. gr.
Framkvæmdarráðstafanir

Samþykkja skal eftirfarandi ráðstafanir til framkvæmdar þessari tilskipun í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 55. gr.:
a)    rýmkun rekstrarforms að lögum sem kveðið er á um í I. viðauka,
b)    nánari útlistun á liðum, sem mynda gjaldþol og er að finna í 36. gr., með hliðsjón af gerð nýrra fjármálagerninga,
c)    aukningu um allt að 50% á iðgjöldum eða fjárhæðum krafna sem notaðar eru við útreikning á tilskildu gjaldþoli, sem kveðið er á um í 3. og 4. mgr. 37. gr. í öðrum greinaflokkum en 11., 12. og 13. greinaflokki, sem taldir eru upp í A-lið í viðaukanum við tilskipun 73/239/EBE, eða fyrir sérhæfða endurtryggingastarfsemi eða samningsgerðir, með hliðsjón af sérstöðu þessarar starfsemi eða samninga,
d)    breytingu á lágmarksábyrgðarsjóði, sem kveðið er á um í 2. mgr. 40. gr., með hliðsjón af efnahags- og fjárhagsþróun,
e)    nánari útlistun á skilgreiningum í 2. gr. til að tryggja sams konar beitingu þessarar tilskipunar í öllu Bandalaginu.

IX. BÁLKUR
BREYTINGAR Á GILDANDI TILSKIPUNUM
57. gr.
Breytingar á tilskipun 73/239/EBE

Tilskipun 73/239/EBE er hér með breytt sem hér segir:
1.     Í stað 1. og 2. mgr. 12. gr. a komi eftirfarandi:
    „1.     Hafa skal samráð við lögbær yfirvöld hins aðildarríkisins sem í hlut á áður en skaðatryggingafélagi er veitt starfsleyfi ef það er:
    a)    dótturfélag vátryggingafélags eða endurtryggingafélags með starfsleyfi í öðru aðildarríki eða
    b)    dótturfélag móðurfélags vátryggingafélags eða endurtryggingafélags með starfsleyfi í öðru aðildarríki eða
    c)    undir yfirráðum einstaklings eða lögaðila sem hefur yfirráð yfir vátryggingafélagi eða endurtryggingafélagi með starfsleyfi í öðru aðildarríki.
    2.     Hafa skal samráð við lögbært yfirvald í hlutaðeigandi aðildarríki, sem annast eftirlit með lánastofnunum eða fjárfestingarfyrirtækjum, áður en skaðatryggingafélagi er veitt starfsleyfi ef það er:
    a)    dótturfélag lánastofnunar eða fjárfestingarfyrirtækis með starfsleyfi í Bandalaginu eða
    b)    dótturfélag móðurfélags lánastofnunar eða fjárfestingarfyrirtækis með starfsleyfi í Bandalaginu eða
    c)    undir yfirráðum einstaklings eða lögaðila sem hefur yfirráð yfir lánastofnun eða fjárfestingarfyrirtæki með starfsleyfi í Bandalaginu.“
2.     Í 2. mgr. 13. gr. bætist eftirfarandi undirgrein við:
    „Heimaaðildarríki vátryggingafélags skal ekki hafna endurtryggingasamningi sem vátryggingafélagið hefur gert við endurtryggingafélag sem hefur starfsleyfi á grundvelli tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2005/68/EB frá 16. nóvember 2005 um endurtryggingu ( * ) eða vátryggingafélag sem hefur starfsleyfi á grundvelli þessarar tilskipunar eða tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2002/83/EB frá 5. nóvember 2002 um líftryggingar ( ** ) á forsendum sem tengjast beint fjárhagslegum styrkleika þess endurtrygginga- eða vátryggingafélags.
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


(*)    Stjtíð. ESB L 323, 9.12.2005, bls. 1.
    (**)    Stjtíð. EB L 345, 19.12.2002, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2005/1/EB (Stjtíð. ESB L 79, 24.3.2005, bls. 9).“
3.     Í stað 2. og 3. mgr. 15. gr. komi eftirfarandi:
    „2.     Heimaaðildarríki skal gera kröfu um að öll vátryggingafélög noti eignir til jöfnunar vátryggingaskuld og útjöfnunarsjóð, sem um getur í 15. gr. a í þessari tilskipun, í samræmi við 6. gr. tilskipunar 88/357/EBE. Með hliðsjón af áhættu innan Bandalagsins skulu þessar eignir vera staðsettar innan þess. Aðildarríkin skulu ekki gera kröfu um að vátryggingafélög hafi eignir sínar í tilteknu aðildarríki. Heimaaðildarríkið má þó heimila tilslakanir frá reglum um staðsetningu eigna.
    3.     Aðildarríkin skulu ekki viðhalda eða taka upp, vegna myndunar vátryggingaskuldar, kerfi sem krefst brúttóvarasjóðs sem bindur eignir til að mæta iðgjaldaskuld eða tjónaskuld ef endurtryggjandinn er endurtryggingafélag með starfsleyfi í samræmi við tilskipun 2005/68/EB eða vátryggingafélag með starfsleyfi í samræmi við þessa tilskipun eða tilskipun 2002/83/EB. Ef heimaaðildarríki heimilar að vátryggingaskuld sé tryggð með kröfum á hendur endurtryggjanda sem er hvorki endurtryggingafélag með starfsleyfi í samræmi við tilskipun 2005/68/EB né vátryggingafélag með starfsleyfi í samræmi við þessa tilskipun eða tilskipun 2002/83/EB skal það ákveða skilyrði fyrir viðurkenningu á slíkum kröfum.“
4.     Ákvæðum 2. mgr. 16. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    í stað b-liðar fyrstu undirgreinar komi eftirfarandi:
        „b)    varasjóðir (bundnir og frjálsir varasjóðir) sem hvorki tengjast vátryggingaskuldbindingum né eru flokkaðir sem útjöfnunarsjóðir,“
    b)    í stað inngangsorðanna og a-liðar í fjórðu undirgrein komi eftirfarandi:
        „Gjaldþol skal einnig lækkað sem nemur eftirfarandi:
        a)    hlutdeild vátryggingafélagsins í:
            –    vátryggingafélögum í skilningi 6. gr. þessarar tilskipunar, 4. gr. tilskipunar 2002/83/EB eða b-liðar 1. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 98/78/EB,
            –    endurtryggingafélögum í skilningi 3. gr. tilskipunar 2005/68/EB eða endurtryggingafélögum í löndum utan Bandalagsins í skilningi 1-liðar 1. gr. tilskipunar 98/78/EB,
            –    eignarhaldsfélögum á vátryggingasviði í skilningi i-liðar 1. gr. tilskipunar 98/78/EB,
            –    lánastofnunum og fjármálastofnunum í skilningi 1. og 5. mgr. 1. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2000/12/EB,
            –    fjárfestingarfyrirtækjum og fjármálastofnunum í skilningi 2. mgr. 1. gr. tilskipunar 93/22/EBE og 4. og 7. mgr. 2. gr. tilskipunar ráðsins 93/6/EBE“.
5.     Ákvæðum 16. gr. a er breytt sem hér segir:
    a)    eftirfarandi komi í stað sjöundu undirgreinar í 3. mgr.:
        „Samtalan, sem þannig fæst, skal margfölduð með hlutfalli milli heildartjóna næstliðinna þriggja fjárhagsára, sem félagið ber í eigin áhættu eftir að hlutur endurtryggjenda þess í tjónum hefur verið dreginn frá, og fjárhæðar tjóna í heild; þetta hlutfall má þó aldrei vera lægra en 50%. Samkvæmt rökstuddri umsókn vátryggingafélags til lögbærs yfirvalds heimaaðildarríkis og að fengnu samþykki þess yfirvalds má einnig draga endurheimtanlegar fjárhæðir, sem endurtryggingar, frá félögum með sérstakan tilgang, sem um getur í 46. gr. tilskipunar 2005/68/EB.“,
    b)    eftirfarandi komi í stað sjöundu undirgreinar í 4. mgr.:
        „Samtalan, sem þannig fæst, skal margfölduð með hlutfalli milli heildartjóna næstliðinna þriggja fjárhagsára, sem félagið ber í eigin áhættu eftir að hlutur endurtryggjenda þess í tjónum hefur verið dreginn frá, og fjárhæðar tjóna í heild; þetta hlutfall má þó aldrei vera lægra en 50%. Samkvæmt rökstuddri umsókn vátryggingafélags til lögbærs yfirvalds heimaaðildarríkis og að fengnu samþykki þess yfirvalds má einnig draga endurheimtanlegar fjárhæðir, sem endurtryggingar, frá félögum með sérstakan tilgang, sem um getur í 46. gr. tilskipunar 2005/68/EB“
6.     Eftirfarandi grein bætist við:
    „17. gr. b
    1.     Aðildarríki skal gera kröfu um að þau vátryggingafélög, sem eru með aðalskrifstofu á yfirráðasvæðis þess og stunda endurtryggingastarfsemi, komi á fót lágmarksábyrgðarsjóði vegna starfseminnar í heild í samræmi við 40. gr. tilskipunar 2005/68/EB þar sem einu eftirfarandi skilyrða er fullnægt:
    a)    innheimt endurtryggingaiðgjöld nema meira en 10% af heildariðgjöldum,
    b)    innheimt endurtryggingaiðgjöld nema meira en 50 000 000 evrum,
    c)    vátryggingaskuld vegna móttekinna endurtrygginga nema meira en 10% af heildarvátryggingaskuld.
    2.     Hverju aðildarríki er heimilt að beita ákvæðum 34. gr. tilskipunar 2005/68/EB gagnvart þeim vátryggingafélögum sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar og eru með aðalskrifstofu á yfirráðasvæði þess vegna starfsemi sem felst í móttöku endurtrygginga, að uppfylltu einu skilyrðanna sem mælt er fyrir um í téðri fyrstu málsgrein.
    Í því tilviki skal hlutaðeigandi aðildarríki gera kröfu um að halda skuli aðgreindum, stýra og skipuleggja allar eignir, sem vátryggingafélagið notar til að mæta vátryggingaskuld, sem samsvara móttöku endurtrygginga (inn-endurtrygginga) aðskilið frá frumtryggingastarfsemi vátryggingafélagsins án möguleika á yfirfærslu. Í slíkum tilvikum og eingöngu að því er varðar móttöku endurtrygginga falla vátryggingafélög ekki undir 20., 21. og 22. gr. tilskipunar 92/49/ EBE ( * ) og I. viðauka við tilskipun 88/357/EBE.
    Hvert aðildarríki skal sjá til þess að lögbær yfirvöld þess sannreyni sundurgreininguna sem kveðið er á um í annarri undirgrein.
    3.     Ef framkvæmdastjórnin ákveður skv. c-lið 56. gr. tilskipunar 2005/68/EB að hækka fjárhæðir, sem eru notaðar til að reikna út tilskilið gjaldþol sem kveðið er á um í 3. og 4. gr. 37. gr. þeirrar tilskipunar, skal hvert aðildarríki beita gagnvart slíkum vátryggingafélögum, sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar, ákvæðum 35.–39. gr. að því er varðar móttöku endurtrygginga (inn-endurtrygginga).
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


(*)    Tilskipun ráðsins 92/49/EBE frá 18. júní 1992 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum varðandi frumtryggingar, aðrar en líftryggingar (þriðja tilskipun um skaðatryggingar) (Stjtíð. EB L 228, 11.8.1992, bls. 1). Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2005/1/EB.“
7.     Í stað 4. mgr. 20. gr. a komi eftirfarandi:
    „4.     Aðildarríkin skulu tryggja að lögbær yfirvöld hafi vald til þess að draga úr lækkun, á grundvelli endurtryggingar, á gjaldþoli eins og það er skilgreint í samræmi við 16. gr. a þegar:
    a)    veruleg breyting hefur orðið á eðli eða gæðum endurtryggingasamninga frá síðasta fjárhagsári,
    b)    engin eða takmörkuð yfirfærsla vátryggingaáhættu felst í endurtryggingasamningunum.“

58. gr.
Breytingar á tilskipun 92/49/EBE

Tilskipun 92/49/EBE er hér með breytt sem hér segir:
1.     Í stað 1. mgr. a í 15. gr. komi eftirfarandi:
    „1a.     Ef sá er aflar eignarhluta, sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar, er vátryggingafélag, endurtryggingafélag, lánastofnun eða fjárfestingarfyrirtæki með starfsleyfi í öðru aðildarríki eða móðurfélag slíkrar stofnunar eða einstaklingur eða lögaðili, sem hefur yfirráð yfir slíkri stofnun, og ef félagið sem þessi aðili hyggst öðlast eignarhlut í yrði dótturfélag hans eða lyti yfirráðum í kjölfar öflunar þessara eignarhluta, skal mat á öflun eignarhlutanna ekki fara fram fyrr en að höfðu því samráði sem um getur í 12. gr. a í tilskipun 73/239/EBE.“
2.     Í stað 4., 5. og 6. mgr. 16. gr. komi eftirfarandi:
    „4.     Lögbær yfirvöld, sem fá vitneskju um trúnaðarmál í samræmi við 1. eða 2. mgr., mega einungis notfæra sér hana við skyldustörf sín:
    –    til að fylgjast með því að skilyrði fyrir því að hefja tryggingastarfsemi séu uppfyllt og til að auðvelda eftirlit með rekstri slíkrar starfsemi, einkum m.t.t. eftirlits með vátryggingaskuld, gjaldþoli, stjórnunar- og bókhaldsaðferðum og innri eftirlitskerfum eða
    –    til að beita viðurlögum,
    –    þegar lögð er fram stjórnsýslukæra gegn ákvörðun lögbærs yfirvalds eða
    –    í dómsmálum, sem eru höfðuð skv. 53. gr. eða sérákvæðum sem kveðið er á í þessari tilskipun og öðrum tilskipunum sem samþykktar eru á sviði vátrygginga- eða endurtryggingafélaga.
    5.     Ákvæði 1. og 4. mgr. skulu ekki útiloka upplýsingaskipti innan aðildarríkis ef um er að ræða tvö eða fleiri lögbær yfirvöld í sama aðildarríkinu eða milli aðildarríkja, milli lögbærra yfirvalda og:
    –    yfirvalda sem annast opinbert eftirlit með lánastofnunum og öðrum fjármálastofnunum og yfirvalda sem bera ábyrgð á eftirliti með fjármálamörkuðum,
    –    stofnana sem hafa afskipti af félagsslitum og gjaldþroti vátryggingafélaga, endurtryggingafélaga og annarri sambærilegri málsmeðferð og
    –    aðila sem annast lögboðna endurskoðun á reikningum vátryggingafélaga, endurtryggingafélaga og annarra fjármálastofnana,
    þegar þau gegna eftirlitshlutverki sínu eða veita stofnunum sem stjórna lögboðinni slitameðferð eða ábyrgðasjóðum nauðsynlegar upplýsingar til að gegna starfi sínu. Upplýsingar, sem þessi yfirvöld, stofnanir og aðilar fá, skulu háðar skilyrðum um þagnarskyldu svo sem kveðið er á um í 1. mgr.
    6.     Þrátt fyrir 1.–4. mgr. geta aðildarríkin heimilað upplýsingaskipti milli lögbærra yfirvalda og:
    –    yfirvalda sem annast eftirlit með stofnunum sem tengjast félagsslitum og gjaldþrotaskiptum vátryggingafélaga, endurtryggingafélaga og öðrum sambærilegum málum eða
    –    yfirvalda sem annast eftirlit með aðilum sem falin er lögboðin endurskoðun reikninga vátryggingafélaga, endurtryggingafélaga, lánastofnana, fjárfestingarfyrirtækja og annarra fjármálastofnana eða
    –    óháðra tryggingafræðinga vátryggingafélaga eða endurtryggingafélaga sem annast lögboðið eftirlit með þessum félögum, svo og stofnana sem annast eftirlit með þessum tryggingafræðingum.
    Aðildarríki, sem nýta sér þann kost sem kveðið er á um í fyrstu undirgrein, skulu krefjast þess að eftirfarandi skilyrðum sé fullnægt hið minnsta:
    –    upplýsingarnar skulu fengnar til að annast eftirlit eða lögboðið eftirlit eins og um getur í fyrstu undirgrein,
    –    um upplýsingar, sem eru fengnar í þessu sambandi, skulu gilda ákvæði 1. mgr. um þagnarskyldu,
    –    séu upplýsingarnar upprunnar í öðru aðildarríki er ekki heimilt að afhenda þær án skýlauss samþykkis frá lögbærum yfirvöldum sem afhentu þær og þá einungis, þar sem við á, til þeirra nota sem sömu yfirvöld hafa gefið samþykki fyrir.
    Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni og hinum aðildarríkjunum hvaða yfirvöld, aðilar og stofnanir geta þegið upplýsingar samkvæmt þessari málsgrein.“
3.     Eftirfarandi breytingar eru hér með gerðar á 1. mgr. 21. gr.:
    a)    í stað inngangsorðanna komi eftirfarandi texti:
        „1.     Heimaaðildarríkið getur ekki leyft að vátryggingafélag láti annað en eftirfarandi eignarflokka standa bak við vátryggingaskuld og útjöfnunarsjóði:“,
    b)    eftirfarandi komi í stað f-liðar B-liðar:
        „f) inneign hjá endurtryggjendum, þ.m.t. hluti endurtryggjenda í vátryggingaskuld, og hjá félögum með sérstakan tilgang sem um getur í 46. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2005/68/EB frá 16. nóvember 2005 um endurtryggingu ( * ).
        

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


(*)    Stjtíð. ESB L 323, 9.12.2005, bls. 1.“
    c)    í stað þriðju undirgreinar C-liðar komi eftirfarandi:
        „Þótt eign eða eignaflokkur sé talinn með í skránni í 1. undirgrein táknar það ekki að allar þessar eignir séu sjálfkrafa viðurkenndar til jöfnunar vátryggingaskuld. Heimaaðildarríkið skal setja nánari reglur um skilyrði fyrir notkun á viðurkenndum eignum.“
4.     Eftirfarandi í stað inngangsorðanna í 1. mgr. 22. gr.:
    „1.     Að því er varðar eignir til jöfnunar vátryggingaskuld og útjöfnunarsjóðum skal heimaaðildarríki gera kröfu um að hvert vátryggingafélag fjárfesti ekki meira en:“

59. gr.
Breytingar á tilskipun 98/78/EB

Tilskipun 98/78/EB er hér með breytt sem hér segir:
1.     Eftirfarandi komi í stað titilsins
    „Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/78/EB frá 27. október 1998 um viðbótareftirlit með vátrygginga- og endurtryggingafélögum í vátrygginga- eða endurtryggingahópi“.
2.     Ákvæðum 1. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    eftirfarandi komi í stað c-, i-, j- og k-liðar:
        „c) „endurtryggingafélag“: félag sem hefur fengið starfsleyfi yfirvalda í samræmi við 3. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2005/68/EB frá 16. nóvember 2005 um endurtryggingu ( * ),
        

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


(*)    Stjtíð. ESB L 323, 9.12.2005, bls. 1.“
        „i) „eignarhaldsfélag á vátryggingasviði“: móðurfélag sem hefur það að meginmarkmiði að afla og eiga hlutdeild í dótturfélögum sem eru annaðhvort eingöngu eða aðallega vátryggingafélög, endurtryggingafélög eða vátryggingafélög eða endurtryggingafélög utan Bandalagsins þar sem a.m.k. eitt dótturfélaganna er vátryggingafélag eða endurtryggingafélag og ekki blandað eignarhaldsfélag á fjármálasviði í skilningi tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2002/87/EB frá 16. desember 2002 um viðbótareftirlit með lánastofnunum, vátryggingafélögum og verðbréfafyrirtækjum sem eru hluti af fjármálasamsteypu ( * ),
        j) „blandað eignarhaldsfélag á vátryggingasviði“: móðurfélag sem er ekki vátryggingafélag eða endurtryggingafélag Bandalagsins, eignarhaldsfélag á vátryggingasviði eða blandað eignarhaldsfélag á fjármálasviði í skilningi tilskipunar 2002/87/EB þar sem a.m.k. eitt dótturfélaganna er vátryggingafélag eða endurtryggingafélag,
        k) „lögbær yfirvöld“: innlend yfirvöld sem hafa heimild til að hafa eftirlit með vátryggingafélögum eða endurtryggingafélögum samkvæmt lögum eða reglum.
        

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


(*)    Stjtíð. ESB L 35, 11.2.2003, bls. 1. Til skip un inni var breytt með tilskipun 2005/1/EB (Stjtíð. ESB L 79, 24.3.2005, bls. 9).,“
    b)    eftirfarandi liður bætist við:
        „l) „endurtryggingafélag utan Bandalagsins“: félag sem þyrfti starfsleyfi í samræmi við 3. gr. tilskipunar 2005/68/EB ef það hefði aðalskrifstofu sína í Bandalaginu,“.
3.     Eftirfarandi komi í stað 2., 3. og 4. gr.:
    „2. gr.
    Tilvik þar sem viðbótareftirlit er haft með vátryggingafélögum og endurtryggingafélögum
    1.     Auk ákvæða tilskipunar 73/239/EBE, tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2002/83/EB frá 5. nóvember 2002 um líftryggingar ( * ) og tilskipunar 2005/68/EB, þar sem mælt er fyrir um reglur um eftirlit með vátryggingafélögum og endurtryggingafélögum, skulu aðildarríkin hafa viðbótareftirlit með sérhverju vátryggingafélagi eða sérhverju endurtryggingafélagi sem er hluteignarfélag a.m.k. eins vátryggingafélags, endurtryggingafélags, vátryggingafélags eða endurtryggingafélags utan Bandalagsins á þann hátt sem lýst er í 5., 6., 8. og 9. gr. þessarar tilskipunar.
    2.     Sérhvert vátryggingafélag eða endurtryggingafélag, sem á að móðurfélagi eignarhaldsfélag á vátryggingasviði, vátryggingafélag eða endurtryggingafélag utan Bandalagsins skal falla undir viðbótareftirlit á þann hátt sem lýst er í 2. mgr. 5. gr., 6., 8. og 10. gr.
    3.     Sérhvert vátryggingafélag eða endurtryggingafélag, sem eiga að móðurfélagi blandað eignarhaldsfélag á vátryggingasviði, skulu falla undir viðbótareftirlit á þann hátt sem lýst er í 2. mgr 5. gr., 6. og 8. gr.
    3. gr.
    Umfang viðbótareftirlits
    1.     Framkvæmd viðbótareftirlits, í samræmi við 2. gr., gerir engan veginn þá kröfu á hendur lögbærum yfirvöldum að þau takist á hendur eftirlit með einstökum vátryggingafélögum eða endurtryggingafélögum utan Bandalagsins, eignarhaldsfélögum á vátryggingasviði eða blönduðum eignarhaldsfélögum á vátryggingasviði.
    2.     Við viðbótareftirlit skal taka tillit til eftirfarandi félaga sem um getur í 5., 6., 8., 9. og 10. gr.:
    –    félaga sem eru tengd vátryggingafélaginu eða endurtryggingafélaginu,
    –    hluteignarfélaga vátryggingafélagsins eða endurtryggingafélagsins,
    –    félaga sem eru tengd hluteignarfélagi vátryggingafélagsins eða hluteignarfélagi endurtryggingafélagsins.
    3.     Við viðbótareftirlitið, sem um getur í 2. gr., er aðildarríkjunum heimilt að ákveða að taka ekki tillit til félaga með skráða skrifstofu í landi utan Bandalagsins ef lagalegar hömlur eru á því að flytja nauðsynlegar upplýsingar á milli, með fyrirvara um ákvæði liðar 2.5 í I. viðauka og 4. lið í II. viðauka.
    Enn fremur er lögbærum yfirvöldum, sem annast viðbótareftirlit, heimilt, í þeim tilvikum sem talin eru upp hér á eftir, að ákveða í einstökum tilvikum að taka ekki tillit til félags við viðbótareftirlitið sem um getur í 2. gr.:
    –    ef félagið, sem taka ber með, hefur litla þýðingu sé tekið mið af markmiðum viðbótareftirlitsins með vátryggingafélögum eða endurtryggingafélögum,
    –    ef það væri óviðeigandi eða villandi að taka tillit til fjárhagsstöðu félagsins að því er varðar markmið viðbótareftirlitsins með vátryggingafélögum eða endurtryggingafélögum.
    4. gr.
    Lögbær yfirvöld sem skulu annast viðbótareftirlit
    1.     Lögbær yfirvöld aðildarríkisins, þar sem vátryggingafélaginu eða endurtryggingafélaginu hefur verið veitt starfsleyfi skv. 6. gr. tilskipunar 73/239/EBE eða 4. gr. tilskipunar 2002/83/EB eða 3. gr. tilskipunar 2005/68/EB, skulu annast viðbótareftirlitið.
    2.     Ef vátryggingafélög eða endurtryggingafélög, sem hafa starfsleyfi í tveimur eða fleiri aðildarríkjum, eiga að móðurfélagi sama eignarhaldsfélag á vátryggingasviði, vátryggingafélag eða endurtryggingafélag utan Bandalagsins eða blandað eignarhaldsfélag á vátryggingasviði, er lögbærum yfirvöldum í viðkomandi aðildarríki heimilt að komast að samkomulagi um hvert þeirra eigi að annast viðbótareftirlitið.
    3.     Ef í aðildarríki eru fleiri en eitt lögbært yfirvald sem hefur varfærniseftirlit með vátryggingafélögum og endurtryggingafélögum skal það gera nauðsynlegar ráðstafanir til að skipuleggja samræmi milli þessara yfirvalda.
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


(*)    Stjtíð. EB L 345, 19.12.2002, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2005/1/EB.“
4.     Eftirfarandi komi í stað 1. mgr. 5. gr.:
    „1.     Aðildarríkin skulu mæla fyrir um að lögbær yfirvöld fari fram á að í sérhverju vátryggingafélagi eða endurtryggingafélagi, sem fellur undir viðbótareftirlit, sé fullnægjandi innra eftirlitskerfi til að unnt sé að leggja fram nauðsynleg gögn og upplýsingar vegna viðbótareftirlitsins.“
5.     Eftirfarandi komi í stað 6., 7. og 8. gr.:
    „6. gr.
    Aðgangur að upplýsingum
    1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að lögbær yfirvöld þeirra sem annast viðbótareftirlit hafi aðgang að öllum upplýsingum sem geta skipt máli í tengslum við viðbótareftirlit með vátryggingafélagi eða endurtryggingafélagi sem fellur undir slíkt viðbótareftirlit. Lögbærum yfirvöldum er aðeins heimilt að snúa sér beint til hlutaðeigandi félaga, sem um getur í 2. mgr. 3. gr., til að afla sér nauðsynlegra upplýsinga, hafi verið beðið um slíkar upplýsingar frá vátryggingafélaginu eða endurtryggingafélaginu en þær ekki verið veittar.
    2.     Aðildarríki skulu sjá til þess að lögbærum yfirvöldum þeirra sé heimilt að sannprófa á vettvangi, innan yfirráðasvæða þeirra, sjálf eða fyrir meðalgöngu einstaklinga sem þau tilnefna í því skyni, upplýsingarnar eins og um getur í 1. mgr.:
    –    hjá vátryggingafélaginu sem fellur undir viðbótareftirlit,
    –    hjá endurtryggingafélaginu sem fellur undir viðbótareftirlit,
    –    hjá dótturfélögum þess vátryggingafélags,
    –    hjá dótturfélögum þess endurtryggingafélags,
    –    hjá móðurfélögum þess vátryggingafélags,
    –    hjá móðurfélögum þess endurtryggingafélags,
    –    hjá dótturfélögum móðurfélags þess vátryggingafélags,
    –    hjá dótturfélögum móðurfélags þess endurtryggingafélags.
    3.     Ef lögbær yfirvöld eins aðildarríkis óska eftir því í ákveðnum tilvikum, þegar þessari grein er beitt, að sannreyna mikilvægar upplýsingar um félag, sem hefur aðsetur í öðru aðildarríki og er tengt vátryggingafélag, tengt endurtryggingafélag, dótturfélag, móðurfélag eða dótturfélag móðurfélags vátryggingafélagsins eða endurtryggingafélagsins sem fellur undir viðbótareftirlit þurfa þau að fara fram á það við lögbær yfirvöld í hinu aðildarríkinu að fá þessa staðfestingu. Yfirvöldin, sem fá slíka beiðni, verða að bregðast við henni innan marka lögsögu sinnar með því að sjá um að sannreyna upplýsingarnar sjálf eða með því að leyfa yfirvöldunum, sem lögðu beiðnina fram, eða endurskoðanda eða sérfræðingi að sannreyna þær.
    Lögbæra yfirvaldið, sem lagði fram beiðnina, getur tekið þátt í sannprófun sem það annast ekki sjálft ef það óskar eftir því.
    7. gr.
    Samstarf milli lögbærra yfirvalda
    1.     Ef vátryggingafélög eða endurtryggingafélög, sem stofnuð eru í mismunandi aðildarríkjum, tengjast beint eða óbeint eða eiga sameiginlegt hluteignarfélag skulu lögbær yfirvöld í hverju aðildarríki senda hvert öðru, að fenginni beiðni, allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að gera kleift eða auðvelda framkvæmd eftirlits samkvæmt þessari tilskipun og senda að eigin frumkvæði allar upplýsingar sem þau telja nauðsynlegar fyrir lögbær yfirvöld hinna aðildarríkjanna.
    2.     Ef vátryggingafélag eða endurtryggingafélag og annaðhvort lánastofnun, eins og hún er skilgreind í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/12/EB frá 20. mars 2000 um stofnun og rekstur lánastofnana ( * ), eða fjárfestingarfyrirtæki, eins og þau eru skilgreind í tilskipun ráðsins 93/22/EBE frá 10. maí 1993 um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta ( ** ) eða hvort tveggja, tengjast beint eða óbeint eða eiga sameiginlegt hluteignarfélag skulu lögbær yfirvöld og yfirvöld, sem annast opinbert eftirlit með hinum félögunum, hafa með sér nána samvinnu. Með fyrirvara um ábyrgð hvers fyrir sig skulu þessi yfirvöld veita hvert öðru allar upplýsingar sem geta auðveldað störf þeirra, einkum innan ramma þessarar tilskipunar.
    3.     Um upplýsingarnar, sem eru fengnar samkvæmt þessari tilskipun, einkum upplýsingaskipti milli lögbærra yfirvalda, sem kveðið er á um í þessari tilskipun, gildir þagnarskylda eins og kveðið er á um í 16. gr. tilskipunar ráðsins 92/49/EBE frá 18. júní 1992 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum varðandi frumtryggingar, aðrar en líftryggingar (þriðja tilskipun um skaðatryggingar) ( *** ) og 16. gr. tilskipunar 2002/83/EB og 24.–30. gr. tilskipunar 2005/68/EB.
    8. gr.
    Viðskipti innan samstæðu
    1.     Aðildarríkin skulu kveða á um að lögbær yfirvöld annist almennt eftirlit með viðskiptum milli:
    a)    vátryggingafélags eða endurtryggingafélags og:
        i)    félags sem er tengt vátryggingafélaginu eða endurtryggingafélaginu,
        ii)    hluteignarfélags vátryggingafélagsins eða endurtryggingafélagsins,
        iii)    félags sem er tengt hluteignarfélagi vátryggingafélagsins eða endurtryggingafélagsins,
    b)    vátryggingafélags eða endurtryggingafélags og einstaklings sem á hlutdeild í:
        i)    vátryggingafélaginu, endurtryggingafélaginu eða einhverju félagi því tengdu,
        ii)    hluteignarfélagi vátryggingafélagsins eða endurtryggingafélagsins,
        iii)    félagi sem er tengt hluteignarfélagi vátryggingafélagsins eða endurtryggingafélagsins.
    Þessi viðskipti varða einkum:
    –    lán,
    –    ábyrgðir og liði utan efnahagsreiknings,
    –    liði sem geta verið hluti af gjaldþoli,
    –    fjárfestingar,
    –    endurtryggingaviðskipti (úttrygging),
    –    samninga um kostnaðarskiptingu.
    2.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að vátryggingafélög og endurtryggingafélög hafi yfir að ráða viðeigandi áhættustýringaraðferðum og kerfum fyrir innra eftirlit, þ.m.t. áreiðanlegar skýrslugjafar- og reikningsskilaaðferðir, til að geta á heppilegan hátt sanngreint, metið, fylgst með og stýrt viðskiptum eins og kveðið er á um í 1. mgr. Aðildarríkin skulu einnig krefjast þess að vátryggingafélög og endurtryggingafélög gefi lögbærum yfirvöldum skýrslu um öll umtalsverð viðskipti, a.m.k. árlega. Lögbær yfirvöld skulu hafa eftirlit með þessum aðferðum og kerfum.
    Ef í ljós kemur á grundvelli þessara upplýsinga að gjaldþol vátryggingafélagsins eða endurtryggingafélagsins sé eða kynni að verða teflt í tvísýnu skal lögbæra yfirvaldið gera viðeigandi ráðstafanir gagnvart vátryggingafélaginu eða endurtryggingafélaginu.
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


(*)    (Stjtíð. EB L 126, 26.5.2000, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2005/1/EB.
    (**)    (Stjtíð. EB L 141, 11.6.1993, bls. 27. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2002/87/EB.
    (***)    (Stjtíð. EB L 228, 11.8.1992, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2005/1/EB.“
6.     Eftirfarandi komi í stað 3. mgr. 9. gr.:
    „3.     Sýni útreikningurinn, sem um getur í 1. mgr., fram á að aðlagað gjaldþol sé neikvætt skulu lögbær yfirvöld gera viðeigandi ráðstafanir gagnvart vátryggingafélaginu eða endurtryggingafélaginu sem um ræðir.“
7.     Ákvæðum 10. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    eftirfarandi komi í stað fyrirsagnarinnar:
        „Eignarhaldsfélög á vátryggingasviði, vátryggingafélög utan Bandalagsins og endurtryggingafélög utan Bandalagsins“,
    b)    eftirfarandi komi í stað 2. og 3. mgr.:
        „2.     Í tilvikinu, sem um getur í 2. mgr. 2. gr., skal útreikningurinn taka til allra félaga sem eru tengd eignarhaldsfélögum á vátryggingasviði, vátryggingafélagi utan Bandalagsins eða endurtryggingafélagi utan Bandalagsins, á þann hátt sem kveðið er á um í II. viðauka.
        3.     Úrskurði lögbær yfirvöld á grundvelli þessara útreikninga að gjaldþoli vátryggingafélags eða endurtryggingafélags, sem er dótturfélag eignarhaldsfélagsins á vátryggingasviði, vátryggingafélags utan Bandalagsins eða endurtryggingafélags utan Bandalagsins, sé eða kunni að vera teflt í tvísýnu skulu þau gera viðeigandi ráðstafanir gagnvart því vátryggingafélagi eða endurtryggingafélagi.“
8.     Eftirfarandi breytingar eru hér með gerðar á 10. gr. a:
    a)    eftirfarandi komi í stað b-liðar 1. mgr.:
        „b)    endurtryggingafélögum sem eiga, sem hluteignarfélög, félög í skilningi 2. gr. sem hafa aðalskrifstofu sína í þriðja landi,
        c)    vátryggingafélögum eða endurtryggingafélögum utan Bandalagsins sem eiga, sem hluteignarfélög, félög í skilningi 2. gr. sem hafa aðalskrifstofu sína í Bandalaginu.“,
    b)    eftirfarandi komi í stað 2. mgr.:
        „2.     Í samningunum, sem um getur í 1. mgr., skal einkum leitast við að tryggja:
        a) að lögbær yfirvöld í aðildarríkjunum geti fengið þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru fyrir viðbótareftirlit með vátryggingafélögum og endurtryggingafélögum sem hafa aðalskrifstofu í Bandalaginu og eiga dótturfélög eða hlutdeild í félögum utan Bandalagsins og
        b) að lögbær yfirvöld í þriðju löndum geti fengið þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru fyrir viðbótareftirlit með vátryggingafélögum og endurtryggingafélögum sem hafa aðalskrifstofu á yfirráðasvæðum þeirra og eiga dótturfélög eða hlutdeild í félögum í einu eða fleiri aðildarríkjum.“
9.     Í stað I. og II. viðauka við tilskipun 98/78/EB komi II. viðauki við þessa tilskipun.

60. gr.
Breytingar á tilskipun 2002/83/EB

Tilskipun 2002/83/EB er hér með breytt sem hér segir:
1.     Í 1. mgr. 1. gr. bætist eftirfarandi liður við:
    „s) „endurtryggingafélag“: endurtryggingafélag í skilningi c-liðar 2. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2005/68/EB frá 16. nóvember 2005 um endurtryggingu ( * ).“
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


(*)    Stjtíð. ESB L 323, 9.12.2005, bls. 1.
2.     Eftirfarandi grein bætist við:
    „9. gr. a
    Fyrirframsamráð við lögbær yfirvöld í öðrum aðildarríkjum
    1.     Hafa skal samráð við lögbær yfirvöld hins aðildarríkisins áður en líftryggingafélagi er veitt starfsleyfi ef það er:
    a)    dótturfélag vátryggingafélags eða endurtryggingafélags með starfsleyfi í öðru aðildarríki eða
    b)    dótturfélag móðurfélags vátryggingafélags eða endurtryggingafélags með starfsleyfi í öðru aðildarríki eða
    c)    undir yfirráðum einstaklings eða lögaðila sem hefur yfirráð yfir vátryggingafélagi eða endurtryggingafélagi með starfsleyfi í öðru aðildarríki.
    2.     Hafa skal samráð við lögbært yfirvald í hlutaðeigandi aðildarríki sem annast eftirlit með lánastofnunum eða fjárfestingarfyrirtækjum áður en líftryggingafélagi er veitt starfsleyfi ef það er:
    a)    dótturfélag lánastofnunar eða fjárfestingarfyrirtækis með starfsleyfi í Bandalaginu eða
    b)    dótturfélag móðurfélags lánastofnunar eða fjárfestingarfyrirtækis með starfsleyfi í Bandalaginu eða
    c)    undir yfirráðum einstaklings eða lögaðila sem hefur yfirráð yfir lánastofnun eða fjárfestingarfyrirtæki með starfsleyfi í Bandalaginu.
    3.     Viðkomandi lögbær yfirvöld, sem um getur í 1. og 2. mgr., skulu einkum hafa samráð sín á milli við mat á hæfi hluthafanna, svo og á orðspori og reynslu stjórnenda sem koma að stjórn annars aðila í sömu samstæðu. Þau skulu veita hvert öðru allar upplýsingar um hæfi hluthafa og um orðspor og reynslu stjórnenda sem skipta máli fyrir önnur lögbær yfirvöld sem koma að málinu vegna leyfisveitingar og yfirstandandi mats á því hvort skilyrði varðandi rekstur séu uppfyllt.“
3.     Í 2. mgr. 10. gr. bætist eftirfarandi undirgrein við:
    „Heimaaðildarríki vátryggingafélagsins skal ekki hafna endurtryggingasamningi sem vátryggingafélagið hefur gert við endurtryggingafélag sem fengið hefur starfsleyfi í samræmi við tilskipun 2005/68/EB eða vátryggingafélag sem starfar á grundvelli tilskipunar 73/239/EBE eða þessarar tilskipunar á forsendum sem tengjast beint fjárhagslegum stöðugleika þess endurtrygginga- eða vátryggingafélags.“
4.     Eftirfarandi málsgrein bætist við í 15. gr.:
    „1a.     Ef sá er aflar eignarhluta, sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar, er vátryggingafélag, endurtryggingafélag, lánastofnun eða fjárfestingarfyrirtæki með starfsleyfi í öðru aðildarríki eða móðurfélag slíks aðila eða einstaklingur eða lögaðili, sem hefur yfirráð yfir slíkum aðila, og ef félagið sem þessi aðili hyggst öðlast slíka eignarhlut í yrði dótturfélag hans eða lyti yfirráðum hans í kjölfar öflunar þessara eignarhluta, skal mat á öflun eignarhlutanna ekki fara fram fyrr en að höfðu því samráði sem um getur í 9. gr. a.“
5.     Ákvæðum 16. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    eftirfarandi komi í stað 4., 5. og 6. mgr.:
        „4.     Lögbær yfirvöld, sem fá vitneskju um trúnaðarmál skv. 1. eða 2. mgr., mega einungis notfæra sér hana við skyldustörf sín:
        –    til að fylgjast með því að skilyrði fyrir því að hefja vátryggingastarfsemi séu uppfyllt og til að auðvelda eftirlit með slíkri starfsemi, einkum m.t.t. eftirlits með vátryggingaskuld, gjaldþoli, stjórnunar- og bókhaldsaðferðum og innri eftirlitskerfum eða
        –    til að beita viðurlögum eða
        –    þegar lögð er fram stjórnsýslukæra gegn ákvörðun lögbærs yfirvalds eða
        –    í dómsmálum sem eru höfðuð skv. 67. gr. eða sérákvæðum í þessari tilskipun og öðrum tilskipunum um vátryggingafélög og endurtryggingafélög.
        5.     Ákvæði 1. og 4. mgr. skulu ekki útiloka upplýsingaskipti innan aðildarríkis, ef um er að ræða tvö eða fleiri lögbær yfirvöld í sama aðildarríkinu, eða milli aðildarríkja eða milli lögbærra yfirvalda í mismunandi aðildarríkjum og:
        –    yfirvalda sem annast opinbert eftirlit með lánastofnunum og öðrum fjármálastofnunum og yfirvalda sem annast eftirlit með fjármálamörkuðum,
        –    aðila sem hafa afskipti af félagsslitum og gjaldþroti vátryggingafélaga, endurtryggingafélaga og annarri sambærilegri málsmeðferð og
        –    aðila sem annast lögboðna endurskoðun á reikningum vátryggingafélaga, endurtryggingafélaga og annarra fjármálastofnana,
        þegar þau gegna eftirlitshlutverki sínu eða veita stofnunum sem stjórna lögboðinni slitameðferð eða ábyrgðasjóðum nauðsynlegar upplýsingar til að gegna starfi sínu. Upplýsingar, sem þessi yfirvöld, stofnanir og aðilar fá, skulu háðar skilyrðum um þagnarskyldu svo sem mælt er fyrir um í 1. mgr.
        6.     Þrátt fyrir 1.–4. mgr. geta aðildarríkin heimilað upplýsingaskipti milli lögbærra yfirvalda og:
        –    yfirvalda sem annast eftirlit með stofnunum sem tengjast félagsslitum og gjaldþrotaskiptum vátryggingafélaga, endurtryggingafélaga og annarri sambærilegri málsmeðferð eða
        –    yfirvalda sem annast eftirlit með aðilum sem falin er lögboðin endurskoðun reikninga vátryggingafélaga, endurtryggingafélaga, lánastofnana, fjárfestingarfyrirtækja og annarra fjármálastofnana eða
        –    óháðra tryggingafræðinga vátryggingafélaga eða endurtryggingafélaga sem annast lögboðið eftirlit með þeim félögum, svo og stofnana sem annast eftirlit með slíkum tryggingafræðingum.
        Aðildarríki, sem nýta sér þann kost sem kveðið er á um í fyrstu undirgrein, skulu krefjast þess að eftirfarandi skilyrðum sé fullnægt hið minnsta:
        –    upplýsingarnar skal nota í því skyni að hafa umsjón með og annast lögboðið eftirlit eins og um getur í fyrstu undirgrein,
        –    um upplýsingar, sem eru fengnar í þessu sambandi, skulu gilda ákvæði 1. mgr. um þagnarskyldu,
        –    séu upplýsingarnar upprunnar í öðru aðildarríki er ekki heimilt að afhenda þær án skýlauss samþykkis lögbærra yfirvalda sem hafa afhent þær og þá einungis til þeirra nota sem sömu yfirvöld hafa gefið samþykki fyrir.
        Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni og hinum aðildarríkjunum hvaða yfirvöld, aðilar og stofnanir megi taka við upplýsingum samkvæmt þessari málsgrein.“,
    b)    eftirfarandi komi í stað 8. mgr.:
        „8.     Ákvæði 1.–7. mgr. skulu ekki koma í veg fyrir að lögbært yfirvald veiti:
        –    seðlabönkum og öðrum stofnunum sem gegna svipuðu hlutverki sem yfirvöld á sviði peningamála,
        –    eftir atvikum, öðrum opinberum yfirvöldum sem annast eftirlit með greiðslukerfum,
        upplýsingar sem koma að haldi við störf þeirra, né heldur skulu þau koma í veg fyrir að viðkomandi yfirvöld eða stofnanir sendi lögbærum yfirvöldum upplýsingar sem þau geta þurft á að halda m.t.t. 4. mgr.
        Um upplýsingar, sem eru fengnar í þessu sambandi, skulu gilda ákvæði um þagnarskyldu samkvæmt þessari grein.“
6.     Í stað 4. mgr. 20. gr. komi eftirfarandi:
    „4.     Aðildarríki skulu ekki viðhalda eða taka upp, vegna myndunar vátryggingaskuldar, kerfi með brúttóvarasjóðum sem binda eignir til að mæta væntum iðgjöldum og útistandandi tjónaskuld ef endurtryggjandinn er endurtryggingafélag eða vátryggingafélag með starfsleyfi í samræmi við tilskipun 73/239/EBE eða þessa tilskipun.
    Þegar heimaaðildarríki heimilar að vátryggingaskuld sé tryggð með kröfum á hendur endurtryggjendum sem eru hvorki eru með starfsleyfi í samræmi við tilskipun 2005/68/EB né vátryggingafélag með starfsleyfi í samræmi við tilskipun 73/239/EBE eða þessa tilskipun skal það ákveða skilyrði fyrir viðurkenningu á slíkum kröfum.“
7.     Ákvæðum 23. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    eftirfarandi komi í stað f-liðar B-liðar í 1. mgr:
        „f) inneign hjá endurtryggjendum, þ.m.t. hluti endurtryggjenda í vátryggingaskuld og hjá félögum með sérstakan tilgang sem um getur í 46. gr. tilskipunar 2005/68/EB“,
    b)    eftirfarandi komi í stað fyrstu undirgreinar 3. mgr.:
        „3.     Þótt eign eða eignaflokkur sé talinn með í skránni í 1. mgr. táknar það ekki að allar þessar eignir séu sjálfkrafa viðurkenndar til jöfnunar vátryggingaskuld. Heimaaðildarríkið skal setja nánari reglur um skilyrði fyrir notkun á viðurkenndum eignum.“
8.     Í 2. mgr. 27. gr. bætast eftirfarandi undirgreinar við:
    „Eftirfarandi liðir skulu koma til lækkunar á gjaldþoli:
    a)    hlutdeild vátryggingafélagsins í:
        –    vátryggingafélögum í skilningi 4. gr. þessarar tilskipunar, 6. gr. tilskipunar 73/239/ EB eða b-liðar 1. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 98/78/EB frá 27. október 1998 um viðbótareftirlit með vátryggingafélögum í vátryggingahópi ( * ),
        –    endurtryggingafélögum í skilningi 3. gr. tilskipunar 2005/68/EB eða endurtryggingafélögum í löndum utan Bandalagsins í skilningi 1. liðar 1. gr. tilskipunar 98/78/EB,
        –    eignarhaldsfélögum á vátryggingasviði í skilningi i-liðar 1. gr. tilskipunar 98/78/EB,
        –    lánastofnunum og fjármálastofnunum í skilningi 1. og 5. mgr. 1. gr. í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/12/EB frá 20. mars 2000 um stofnun og rekstur lánastofnana ( ** ),
        –    fjárfestingarfélögum og fjármálastofnunum í skilningi 2. mgr. 1. gr. tilskipunar ráðsins 93/22/EBE frá 10. maí 1993 um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta ( *** ) og 4. og 7. mgr. 2. gr. tilskipunar ráðsins 93/6/EBE frá 15. mars 1993 um eiginfjárkröfur fjárfestingarfyrirtækja og lánastofnana ( **** ),
    b)    allir eftirtaldir liðir sem vátryggingafélagið á í tengslum við aðila sem eru skilgreindir í a- lið og það á hlutdeild í:
        –    gerningar sem um getur í 3. mgr.,
        –    gerningar sem um getur í 3. mgr. 16. gr. tilskipunar 73/239/EBE,
        –    víkjandi kröfur og gerningar sem um getur í 35. gr. og 3. mgr. 36. gr. tilskipunar 2000/12/EB.
    Þegar hlutabréfeign í annarri lánastofnun, fjárfestingarfyrirtæki, fjármálastofnun, vátrygginga- eða endurtryggingafélagi eða eignarhaldsfélagi á vátryggingasviði er bráðabirgðaráðstöfun og ætluð sem fjárhagsaðstoð til endurskipulagningar eða til bjargar hlutaðeigandi aðila er lögbærum yfirvöldum heimilt að falla frá ákvæðunum um frádrátt sem um getur í a- og b-lið þriðju undirgreinar.
    Í stað þess að draga frá þá liði sem um getur í a- og b-lið þriðju undirgreinar sem vátryggingafélag á í lánastofnunum, fjárfestingarfyrirtækjum og fjármálastofnunum geta aðildarríkin heimilað vátryggingafélögum sínum að beita, að breyttu breytanda, aðferðum 1, 2 eða 3 í I. viðauka við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/87/EB frá 16. desember 2002 um viðbótareftirlit með lánastofnunum, vátryggingafélögum og verðbréfafyrirtækjum sem eru hluti af fjármálasamsteypu ( ***** ). Einungis skal beita aðferð 1 (samstæðureikningsskil) ef lögbæra yfirvaldið hefur fulla vissu fyrir því að hve miklu leyti stjórnun er samþætt og innra eftirlit viðhaft að því er varðar aðila sem á að taka með í samstæðureikningsskilunum. Jafnan skal beita aðferðinni, sem valin er, á sama hátt.
    Aðildarríkin geta kveðið á um að vátryggingafélög, sem eiga að vera undir viðbótareftirliti í samræmi við tilskipun 98/78/EB eða viðbótareftirliti í samræmi við tilskipun 2002/87/EB, þurfi ekki, við útreikning á gjaldþoli, eins og kveðið er á um í þessari tilskipun, að draga frá liðina sem um getur í a- og b-lið þriðju undirgreinar þessarar greinar, sem eru eign í lánastofnunum, fjárfestingarfyrirtækjum, fjármálastofnunum, vátrygginga- eða endurtryggingafélögum eða eignarhaldsfélögum á vátryggingasviði sem viðbótareftirlitið nær til. Að því er varðar frádrátt á hlutdeild sem um getur í þessari málsgrein er orðið hlutdeild notað í skilningi f- liðar 1. gr. tilskipunar 98/78/EB.
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


(*)    Stjtíð. EB L 330, 5.12.1998, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2005/1/EB (Stjtíð. ESB L 79, 24.3.2005, bls. 9).
    (**)    Stjtíð. EB L 126, 26.5.2000, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2005/1/EB.
    (***)    Stjtíð. EB L 141, 11.6.1993, bls. 27. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2002/87/EB (Stjtíð. ESB L 35, 11.2.2003, bls. 1).
    (****)    Stjtíð. EB L 141, 11.6.1993, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2005/1/EB.
    (*****)    Stjtíð. ESB L 35, 11.2.2003, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2005/1/EB.“
9.     Eftirfarandi breytingar eru hér með gerðar á 2. mgr. 28. gr.:
    a)    eftirfarandi komi í stað a-liðar:
        „a)    fyrri niðurstaða:
            margfalda skal hluta sem nemur 4% af vátryggingasjóðum, í frumtryggingum og endurtryggingum, án frádráttar á hlut endurtryggjenda, og vegna móttekinna endurtrygginga, með hlutfallinu milli samanlagðra vátryggingafjárhæða, að frádregnum hlut endurtryggjenda, og heildarvátryggingafjárhæða eins og hlutfallið var á næstliðnu fjárhagsári. Þetta hlutfall má þó aldrei vera lægra en 85%. Samkvæmt rökstuddri umsókn vátryggingafélags til lögbærs yfirvalds heimaaðildarríkis og að fengnu samþykki þess yfirvalds má draga endurheimtanlegar fjárhæðir, sem endurtryggingar, frá félögum með sérstakan tilgang, sem um getur í 46. gr. tilskipunar 2005/68/EB.“,
        b)    eftirfarandi komi í stað fyrstu undirgreinar b-liðar:
            „b)    seinni niðurstaða:
                margfalda skal hluta, sem nemur 0,3% af áhættufjárhæð vátrygginga sem vátryggingafélag hefur tekið að sér, þar sem áhættufjárhæðin er ekki neikvæð tala, með hlutfallinu milli samanlagðrar áhættufjárhæðar í eigin áhættu félagsins eftir endurtryggingu og endurtryggingu endurtryggjenda (úttrygging) og samanlagðrar áhættufjárhæðar án frádráttar endurtrygginga eins og það var á næstliðnu fjárhagsári; hlutfallið má þó aldrei vera lægra en 50%. Samkvæmt rökstuddri umsókn vátryggingafélags til lögbærs yfirvalds heimaaðildarríkis og að fengnu samþykki þess yfirvalds má draga endurheimtanlegar fjárhæðir frá félögum með sérstakan tilgang, sem um getur í 46. gr. tilskipunar 2005/68/ EB, sem endurtryggingar.“
10.     Eftirfarandi grein bætist við:
    „28. gr. a
    Gjaldþol vátryggingafélaga sem annast starfsemi á sviði endurtrygginga
    1.     Hvert aðildarríki skal beita ákvæðum 35.–39. gr. tilskipunar 2005/68/EB gagnvart þeim vátryggingafélögum sem eru með aðalskrifstofu á yfirráðasvæði þess vegna starfsemi sem felst í móttöku endurtrygginga, að uppfylltu einu eftirtalinna skilyrða:
    a)    innheimt endurtryggingaiðgjöld nema meira en 10% af heildariðgjöldum,
    b)    innheimt endurtryggingaiðgjöld nema meira en 50 000 000 evrum,
    c)    vátryggingaskuld vegna móttekinna endurtrygginga nema meira en 10% af heildarvátryggingaskuld.
    2.     Hvert aðildarríki getur valið um að beita ákvæðum 34. gr. tilskipunar 2005/68/EB gagnvart þeim vátryggingafélögum, sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar og eru með aðalskrifstofu á yfirráðasvæði þess vegna starfsemi sem felst í móttöku endurtrygginga, að uppfylltu einu skilyrðanna sem mælt er fyrir um í téðri fyrstu málsgrein. Í því tilviki skal viðkomandi aðildarríki krefjast þess að öllum eignum, sem vátryggingafélag notar til jöfnunar vátryggingaskuld, sem samsvara mótteknum endurtryggingum, sé haldið aðgreindum, þeim stýrt og þær skipulagðar aðgreindar frá allri annarri tryggingastarfsemi vátryggingafélagsins, án nokkurs möguleika á yfirfærslu. Í slíku tilviki og eingöngu að því marki sem um móttöku endurtrygginga er að ræða falla vátryggingafélög ekki undir 22.–26. gr.
    Hvert aðildarríki skal sjá til þess að lögbær yfirvöld þess sannreyni aðgreininguna sem kveðið er á um í annarri undirgrein.“
11.     Eftirfarandi komi í stað 4. mgr. 37. gr.:
    „4.     Aðildarríkin skulu tryggja að lögbær yfirvöld hafi vald til þess að draga úr lækkun, á grundvelli endurtryggingar, á gjaldþoli eins og það er skilgreint í samræmi við 28. gr. þegar:
    a)    veruleg breyting hefur orðið á eðli eða gæðum endurtryggingasamninga frá næstliðnu fjárhagsári,
    b)    engin eða lítil yfirfærsla áhættu felst í endurtryggingasamningunum.“

X. BÁLKUR
BRÁÐABIRGÐA- OG LOKAÁKVÆÐI
61. gr.
Áunnin réttindi starfandi endurtryggingafélaga

1.     Endurtryggingafélög, sem heyra undir þessa tilskipun og fengu starfsleyfi eða réttindi til að annast endurtryggingastarfsemi í samræmi við ákvæði aðildarríkjanna þar sem þau hafa aðalskrifstofur fyrir 10. desember 2005, teljast vera með starfsleyfi í samræmi við 3. gr.
Hins vegar er þeim skylt að fara að ákvæðum þessarar tilskipunar, að því er varðar rekstur endurtrygginga, og kröfunum sem eru settar fram í 6. gr. (a-, c- og d-liður), 7., 8., 12. gr. og 32.–41. gr. frá 10. desember 2007.
2.     Aðildarríkin geta heimilað að endurtryggingafélög, sem um getur í 1. mgr. og hafa ekki farið að 6. gr. (a-liður), 7., 8., og 32.–40. gr. 10. desember 2005, fái frest til 10. desember 2008 til þess að uppfylla þessar kröfur.

62. gr.
Endurtryggingafélög sem hætta starfsemi

1.     Endurtryggingafélög, sem hætta að gera endurtryggingasamninga fyrir 10. desember 2007 og stjórna fyrirliggjandi vátryggingastofni eingöngu með það í huga að hætta starfsemi sinni, heyra ekki undir þessa tilskipun.
2.     Aðildarríkin skulu gera skrá yfir viðkomandi endurtryggingafélög og senda hana öllum hinum aðildarríkjunum.

63. gr.

Aðlögunartímabil vegna 3. mgr. 57. gr. og 6. mgr. 60. gr.

Aðildarríki er heimilt að fresta beitingu ákvæða 3. mgr. 57. gr. þessarar tilskipunar um breytingu á 3. mgr. 15. gr. tilskipunar 73/239/EBE og ákvæða 6. mgr. 60. gr. þessarar tilskipunar til 10. desember 2008.

64. gr.
Lögleiðing

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 10. desember 2007. Þau skulu þegar í stað senda framkvæmdastjórninni texta þessara ráðstafana.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þau eru birt opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.

65. gr.
Gildistaka.

Tilskipun þessi öðlast gildi daginn eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

66. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Strassborg 16. nóvember 2005.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
J. BORRELL FONTELLES Bach of LUTTERWORTH
forseti. forseti.

I. VIÐAUKI

Rekstrarform endurtryggingafélaga:
–    í Konungsríkinu Belgíu: 'société anonyme/naamloze vennootschap', 'société en commandite par actions/ commanditaire vennootschap op aandelen', 'association d'assurance mutuelle/onderlinge verzekeringsvereniging', 'société coopérative/coöperatieve vennootschap';
–    í Tékklandi: 'akciová spolecnost';
–    í Konungsríkinu Danmörku: 'aktieselskaber', 'gensidige selskaber';
–    í Sambandslýðveldinu Þýskalandi: 'Aktiengesellschaft', 'Versicherungsverein auf Gegenseitigkeit', 'Öffentlich-rechtliches Wettbewerbsversicherungsunternehmen';
–    í Lýðveldinu Eistlandi: 'aktsiaselts';
–    í Lýðveldinu Grikklandi: '.....µ. .......', '................. ..........µ..';
–    í Konungsríkinu Spáni: 'sociedad anónima';
–    í Lýðveldinu Frakklandi: 'société anonyme', 'société d'assurance mutuelle', 'institution de prévoyance régie par le code de la sécurité sociale', 'institution de prévoyance régie par le code rural' and 'mutuelles régies par le code de la mutualité';
–    á Írlandi: incorporated companies limited by shares or by guarantee or unlimited;
–    í Lýðveldinu Ítalíu: 'società per azioni';
–    í Lýðveldinu Kýpur: '........ ........µ.... ....... µ. µ......' . '........ ........µ.... ....... µ. .......';
–    í Lýðveldinu Lettlandi: 'akciju sabiedriba', 'sabiedriba ar ierobeþotu atbildibu';
–    í Lýðveldinu Litháen: 'akcine bendrove', 'uþdaroji akcine bendrove';
–    í Stórhertogadæminu Lúxemborg: 'société anonyme', 'société en commandite par actions', 'association d'assurances mutuelles', 'société coopérative';
–    í Lýðveldinu Ungverjalandi: 'biztosító részvénytársaság', 'biztosító szövetkezet', 'harmadik országbeli biztosító magyarországi fióktelepe';
–    í Lýðveldinu Möltu: 'limited liability company/kumpannija tà responsabbiltà limitata';
–    í Konungsríkinu Hollandi: 'naamloze vennootschap', 'onderlinge waarborgmaatschappij';
–    í Lýðveldinu Austurríki: 'Aktiengesellschaft', 'Versicherungsverein auf Gegenseitigkeit';
–    í Lýðveldinu Póllandi: 'spólka akcyjna', 'towarzystwo ubezpieczen wzajemnych';
–    í Lýðveldinu Portúgal: 'sociedade anónima', 'mútua de seguros';
–    í Lýðveldinu Slóveníu: 'delniska dru.ba';
–    í Lýðveldinu Slóvakíu: 'akciová spolocnost';
–    í Lýðveldinu Finnlandi: 'keskinäinen vakuutusyhtiö/ömsesidigt försäkringsbolag', 'vakuutusosakeyhtiö/ försäkringsaktiebolag', 'vakuutusyhdistys/försäkringsförening';
–    í Konungsríkinu Svíþjóð: 'försäkringsaktiebolag', 'ömsesidigt försäkringsbolag';
–    í Breska konungsríkinu: incorporated companies limited by shares or by guarantee or unlimited, societies registered under the Industrial and Provident Societies Acts, societies registered or incorporated under the Friendly Societies Acts, 'the association of underwriters known as Lloyd's'.

II. VIÐAUKI

Eftirfarandi komi í stað I. og II. viðauka við tilskipun 98/78/EB:
    ,,I. VIÐAUKI
    ÚTREIKNINGUR Á AÐLÖGUÐU GJALDÞOLI VÁTRYGGINGAFÉLAGA OG ENDURTRYGGINGAFÉLAGA
    1.    VAL Á ÚTREIKNINGSAÐFERÐ OG ALMENNAR GRUNDVALLARREGLUR
        A.        Aðildarríkin skulu kveða á um að reikna skuli aðlagað gjaldþol vátryggingafélaga og endurtryggingafélaga, sem um getur í 1. mgr. 2 gr., í samræmi við eina af aðferðunum sem lýst er í 3. lið. Aðildarríki er þó heimilt að kveða á um að lögbær yfirvöld geti heimilað eða fyrirskipað að beitt sé annarri aðferð í 3. lið en þeirri sem aðildarríkið kaus.
        B.         Hlutfall
                Þegar aðlagað gjaldþol vátryggingafélags eða endurtryggingafélags er reiknað skal tekið tillit til hlutfallslegs eignarhluta hluteignarfélagsins í félögum því tengdum.
                „Hlutfallslegur eignarhluti“ merkir annaðhvort, ef beitt er aðferð 1 eða 2, sem lýst er í 3. lið, hlutfall hlutafjár sem hluteignarfélagið á beint eða óbeint eða, ef notuð er aðferð 3 í 3. lið, þá hundraðshluta sem notaðir eru við gerð samstæðureikninganna.
                Ef tengda félagið er hins vegar dótturfélag með ófullnægjandi gjaldþol verður að taka tillit til slíks ófullnægjandi gjaldþols í heild, sama hvaða aðferð er beitt.
                Telji lögbær yfirvöld á hinn bóginn að ábyrgð móðurfélags, sem á hlutafé í félaginu, sé skýrt og ótvírætt bundin við það hlutafé geta lögbær yfirvöld heimilað að hlutfallslega verði tekið tillit til ófullnægjandi gjaldþols dótturfélagsins.
                „Ef engin eignatengsl eru á milli sumra félaganna í vátryggingasamstæðu eða endurtryggingasamstæðu skal lögbært yfirvald ákvarða hvaða hlutfallslega eignarhlutar þurfi að taka tillit til.
        C.         Útilokun á tvínotkun gjaldþolsliða
        C.1.     Almenn meðferð gjaldþolsliða
                Sama hvaða aðferð er notuð til að reikna aðlagað gjaldþol vátryggingafélags eða endurtryggingafélags verður að útiloka tvínotkun liða sem geta verið hluti af gjaldþoli hinna ýmsu vátryggingafélaga eða endurtryggingafélaga sem tekið er tillit til í útreikningnum.
                Í því skyni skal, þegar reiknað er út aðlagað gjaldþol vátryggingafélags eða endurtryggingafélags og ekki er kveðið á um það í aðferðunum sem lýst er í 3. lið, sleppa eftirtöldum fjárhæðum:
                –    verðmæti sérhverrar eignar vátryggingafélagsins eða endurtryggingafélags, sem ætlað er að fjármagna liði með, sem geta verið hluti af gjaldþoli eins af tengdum vátryggingafélögum eða endurtryggingafélögum þess,
                –    verðmæti sérhverrar eignar vátryggingafélags eða endurtryggingafélags, sem er tengt vátryggingafélaginu eða endurtryggingafélaginu, sem ætlað er að fjármagna liði með, sem geta verið hluti af gjaldþoli vátryggingafélagsins eða endurtryggingafélagsins,
                –    verðmæti sérhverrar eignar vátryggingafélags eða endurtryggingafélags, sem er tengt vátryggingafélaginu eða endurtryggingafélaginu, sem ætlað er að fjármagna liði með, sem geta verið hluti af gjaldþoli einhvers annars vátryggingafélags eða endurtryggingafélags sem er tengt vátryggingafélaginu eða endurtryggingafélaginu.
        C.2.     Meðferð tiltekinna liða
                Með fyrirvara um ákvæði liðar C.1 má aðeins taka með í útreikninginn:
                –    ágóðasjóði og framtíðarhagnað, sem falla til hjá líftryggingafélagi eða lífendurtryggingafélagi, sem er tengt vátryggingafélaginu eða endurtryggingafélaginu sem aðlagað gjaldþol er reiknað fyrir, og
                –    skráð, óinnborgað stofnfé vátryggingafélags eða endurtryggingafélags sem er tengt vátryggingafélaginu eða endurtryggingafélaginu sem aðlagað gjaldþol er reiknað fyrir,
                að því marki sem það getur fullnægt gjaldþolskröfu þess tengda félags. Þó skal skráð, óinnborgað stofnfé, sem hugsanlega skuldbindur hluteignarfélagið, ekki tekið með við útreikninginn.
                Skráð, óinnborgað hlutafé hluteignarfélags á vátryggingasviði eða endurtryggingasviði, sem hugsanlega skuldbindur tengt vátryggingafélag eða endurtryggingafélag, skal heldur ekki tekið með við útreikninginn.
                Skráð, óinnborgað hlutafé tengds vátryggingafélags eða endurtryggingafélags, sem hugsanlega skuldbindur annað tengt vátryggingafélag eða endurtryggingafélag sama hluteignarfélags á vátryggingasviði eða endurtryggingasviði, skal ekki tekið með við útreikninginn..
        C.3.     Yfirfærsla
                Telji lögbær yfirvöld að tilteknir liðir, sem geta verið hluti af gjaldþoli tengds vátryggingafélags eða endurtryggingafélags annarra en þeirra sem um getur í lið C.2, séu ekki raunverulega til umráða til að mæta gjaldþolskröfu hluteignarfélagsins á vátryggingasviði eða endurtryggingasviði, sem verið er að reikna aðlagað gjaldþol fyrir, má aðeins taka þessa liði með við útreikninginn að því marki sem þeir geta fullnægt gjaldþolskröfu tengda félagsins.
        C.4.    Samtala liðanna, sem um getur í liðum C.2 og C.3, má ekki vera hærri en gjaldþolskrafa tengda vátryggingafélagsins eða endurtryggingafélagsins.
        D.         Útilokun fjármögnunar innan samstæðunnar
                Þegar aðlagað gjaldþol er reiknað skal ekki taka tillit til neinna liða sem geta verið hluti af gjaldþoli og til falla við gagnkvæma fjármögnun vátryggingafélagsins eða endurtryggingafélagsins og:
                –    tengds félags,
                –    hluteignarfélags,
                –    annars félags sem er tengt einhverju hluteignarfélaga þess.
                Enn fremur skal ekki tekið tillit til neinna liða, sem geta verið hluti af gjaldþoli vátryggingafélags eða endurtryggingafélags sem er tengt vátryggingafélaginu eða endurtryggingafélaginu, sem aðlagað gjaldþol er reiknað fyrir, þegar viðkomandi liður verður til við gagnkvæma fjármögnun með öðru tengdu félagi þess vátryggingafélags eða endurtryggingafélags.
                Einkum telst um gagnkvæma fjármögnun að ræða þegar vátryggingafélag eða endurtryggingafélag, eða eitthvert félag því tengt, á hlutabréf í eða veitir lán öðru félagi sem, beint eða óbeint, ræður yfir lið sem getur verið hluti af gjaldþoli fyrrnefnda félagsins.
        E.        Lögbær yfirvöld skulu sjá til þess að aðlagað gjaldþol sé reiknað jafnoft og gjaldþol vátryggingafélaga eða endurtryggingafélaga sem skal reiknað eins og mælt er fyrir um í tilskipunum 73/239/EBE, 91/647/EBE, 2002/83/EB og 2005/68/EB. Verðmæti eigna og skuldbindinga skal metið samkvæmt viðeigandi ákvæðum tilskipana 73/239/EBE, 91/647/EBE, 2002/83/EB og 2005/68/EB.
    2.    BEITING ÚTREIKNINGSAÐFERÐA
        2.1.     Tengd vátryggingafélög og tengd endurtryggingafélög.
                Aðlagað gjaldþol skal reiknað í samræmi við almennu meginreglurnar og aðferðirnar sem mælt er fyrir um í þessum viðauka.
                Samkvæmt öllum aðferðunum skal, þegar vátryggingafélag eða endurtryggingafélag er tengt fleiri en einu vátryggingafélagi eða endurtryggingafélagi, reikna aðlagað gjaldþol þess með hliðsjón af hverju og einu þessara tengdu vátryggingafélaga eða endurtryggingafélaga.
                Þegar um er að ræða raðtengda hlutdeild (ef vátryggingafélag eða endurtryggingafélag er t.d. hluteignarfélag annars vátryggingafélags eða endurtryggingafélags sem sjálft er hluteignarfélag vátryggingafélags eða endurtryggingafélags) skal aðlagað gjaldþol reiknað fyrir hvert hluteignarfélag á vátryggingasviði eða endurtryggingasviði sem er tengt a.m.k. einu vátryggingafélagi eða endurtryggingafélagi.
                Aðildarríkin geta heimilað að útreikningi á aðlöguðu gjaldþoli vátryggingafélags eða endurtryggingafélags sé sleppt:
                –    ef vátryggingafélagið eða endurtryggingafélagið er tengt félagi annars vátryggingafélags eða endurtryggingafélags með starfsleyfi í sama aðildarríki og tekið er tillit til tengda félagsins þegar aðlagað gjaldþol hluteignarfélagsins á vátryggingasviði eða endurtryggingasviði er reiknað eða
                –    ef vátryggingafélagið eða endurtryggingafélagið er tengt félag eignarhaldsfélags á vátryggingasviði með skráða skrifstofu í sama aðildarríki og vátryggingafélagið eða endurtryggingafélagið og bæði er tekið tillit til eignarhaldsfélagsins á vátryggingasviði og tengda vátryggingafélagsins eða endurtryggingafélagsins við útreikninginn.
                Aðildarríkin geta einnig heimilað að útreikningi á aðlöguðu gjaldþoli vátryggingafélags eða endurtryggingafélags sé sleppt ef það er tengt vátryggingafélag eða tengt endurtryggingafélag annars vátryggingafélags, endurtryggingafélags eða eignarhaldsfélagi á vátryggingasviði sem hefur skráða skrifstofu í öðru aðildarríki og ef lögbær yfirvöld viðkomandi aðildarríkja hafa samþykkt að veita lögbærum yfirvöldum síðarnefnda aðildarríkisins heimild til að annast viðbótareftirlitið.
                Í báðum tilvikum er aðeins heimilt að veita undanþáguna ef lögbær yfirvöld eru þess fullviss að liðirnir, sem geta verið hluti af gjaldþoli vátryggingafélaganna eða endurtryggingafélaganna, sem útreikningurinn tekur til, dreifist á fullnægjandi hátt milli félaganna.
                Hafi tengt vátryggingafélag eða tengt endurtryggingafélag skráða skrifstofu í öðru aðildarríki en vátryggingafélagið eða endurtryggingafélagið, sem verið er að reikna aðlagað gjaldþol fyrir, geta aðildarríkin kveðið á um að við útreikninginn sé, að því er varðar tengda félagið, tekið tillit til gjaldþols þess eins og það er metið af lögbærum yfirvöldum hins aðildarríkisins.
        2.2.     Eignarhaldsfélög á vátryggingasviði sem eru milliliðir
                Við útreikning á aðlöguðu gjaldþoli vátryggingafélags eða endurtryggingafélags, sem á hlutdeild í tengdu vátryggingafélagi, tengdu endurtryggingafélagi eða vátryggingafélagi utan Bandalagsins, í gegnum eignarhaldsfélag á vátryggingasviði, er tekið tillit til stöðu eignarhaldsfélagsins á vátryggingasviði. Eingöngu að því er varðar þennan útreikning, sem skal fara fram í samræmi við almennu meginreglurnar og aðferðirnar sem lýst er í þessum viðauka, skal litið á þetta eignarhaldsfélag á vátryggingasviði eins og það væri vátryggingafélag eða endurtryggingafélag sem fellur undir kröfuna um gjaldþolið núll og sömu skilyrði og mælt er fyrir um í 16. gr. tilskipunar 73/239/EBE, 27. gr. tilskipun 2002/83/EB eða 36. gr. tilskipunar 2005/68/EB að því er varðar liði sem geta verið hluti af gjaldþoli.
        2.3.     Tengd vátryggingafélög og tengd endurtryggingafélög með skráða skrifstofu utan Bandalagsins
                Þegar reiknað er aðlagað gjaldþol vátryggingafélags eða endurtryggingafélags, sem er hluteignarfélag vátryggingafélags utan Bandalagsins eða endurtryggingafélags utan Bandalagsins, skal litið á síðarnefnt félag, einungis að því er varðar útreikninginn, á hliðstæðan hátt og tengt vátryggingafélag eða tengt endurtryggingafélag og beita almennu meginreglunum og aðferðunum sem lýst er í þessum viðauka.
                Sé þess hins vegar krafist í landi utan Bandalagsins, þar sem þetta félag hefur skráða skrifstofu, að það hafi starfsleyfi, auk þess sem gerð er til þess krafa um gjaldþol sem er a.m.k. sambærileg við þá kröfu sem mælt er fyrir um í tilskipunum 73/239/EBE, 2002/83/EB eða 2005/68/EB, með hliðsjón af liðunum sem fullnægja þeirri kröfu, geta aðildarríkin kveðið á um að í útreikningnum sé tekið, að því er varðar það félag, tillit til kröfunnar um gjaldþol og liðanna sem fullnægja þeirri kröfu eins og mælt er fyrir um í viðkomandi landi utan Bandalagsins.
        2.4.     Tengdar lánastofnanir, fjárfestingafyrirtæki og fjármálastofnanir
                Þegar reiknað er út aðlagað gjaldþol vátryggingafélags eða endurtryggingafélags sem er hluteignarfélag í lánastofnun, fjárfestingafyrirtæki eða fjármálastofnun gilda reglurnar, sem mælt er fyrir um í 16. gr. í tilskipun 73/239/EBE, 27. gr. tilskipunar 2002/83/EBE og 36. gr. tilskipunar 2005/68/EB um frádrátt slíkrar hlutdeildar, að breyttu breytanda, svo og ákvæðin um að aðildarríkin geti, við tilteknar aðstæður, leyft aðrar aðferðir og að slík hlutdeild komi ekki til frádráttar.
        2.5.     Fáist nauðsynlegar upplýsingar ekki
                Hafi lögbær yfirvöld, hver svo sem ástæðan kann að vera, ekki aðgang að upplýsingum, sem eru nauðsynlegar til að reikna aðlagað gjaldþol vátryggingafélags eða endurtryggingafélagsins og varða tengt félag með skráða skrifstofu í aðildarríki eða landi utan Bandalagsins, skal draga bókfært virði þess félags í hluteignarfélaginu á vátryggingasviði eða endurtryggingasviði frá liðunum sem geta verið hluti af aðlöguðu gjaldþoli. Þegar svo ber undir er ekki hægt að líta á dulinn hagnað af slíkri hlutdeild sem lið sem getur verið hluti af aðlöguðu gjaldþoli
    3.    ÚTREIKNINGSAÐFERÐIR
        Aðferð 1: Frádráttar- og samlagningaraðferð
        Aðlagað gjaldþol hluteignarfélags á vátryggingasviði eða endurtryggingasviði er mismunurinn á milli:
        i)    samtölu:
            a)    liðanna sem geta verið hluti af gjaldþoli hluteignarfélags á vátryggingasviði eða endurtryggingasviði og
            b)    hlutfallslegs eignarhluta hluteignarfélagsins á vátryggingasviði eða endurtryggingasviði í liðum sem geta verið hluti af gjaldþoli tengds vátryggingafélags eða tengds endurtryggingafélags
            og
        ii)    samtölu:
            a)    bókfærðs virðis tengda vátryggingafélagsins eða tengda endurtryggingafélagsins hjá hluteignarfélagi á vátryggingasviði eða endurtryggingasviði,
            b)    kröfu um gjaldþol hluteignarfélags á vátryggingasviði eða endurtryggingasviði og
            c)    hlutfallslegs eignarhluta lágmarksgjaldþols tengda vátryggingafélagsins eða tengda endurtryggingafélagsins.
        Ef hlutdeild í tengdu vátryggingafélagi eða tengdu endurtryggingafélagi felst, algjörlega eða að hluta til, í óbeinu eignarhaldi skal telja verðmæti óbeina eignarhaldsins með í a-lið ii-liðar, að teknu tilliti til viðkomandi raðtengdra hagsmuna, og b-liður i-liðar og c-liður ii-liðar skulu innihalda samsvarandi hlutfallslegan eignarhluta í liðum sem geta verið hluti af gjaldþoli tengda vátryggingafélagsins eða tengda endurtryggingafélagsins.
        Aðferð 2: Aðferð byggð á frádrætti kröfu
        Aðlagað gjaldþol hluteignarfélags á vátryggingasviði eða á endurtryggingasviði er mismunurinn á milli:
        i)    samtölu liðanna sem geta verið hluti af gjaldþoli hluteignarfélags á vátryggingasviði eða endurtryggingasviði
             og
        ii)    samtölu:
            a)    kröfu um gjaldþol hluteignarfélags á vátryggingasviði eða endurtryggingasviði og
            b)    hlutfallslegs eignarhluta kröfu um gjaldþol tengda vátryggingafélagsins eða tengda endurtryggingafélagsins.
        Þegar liðir, sem geta verið hluti af gjaldþoli, eru metnir er hlutdeild, í skilningi þessarar tilskipunar, metin með hlutdeildaraðferðinni, í samræmi við möguleikann sem mælt er fyrir um í b-lið 2. mgr. 59. gr. tilskipunar 78/660/EBE.
        Aðferð 3: Aðferð byggð á samstæðureikningsskilum
        Aðlagað gjaldþol hluteignarfélags á vátryggingasviði eða endurtryggingasviði skal reiknað á grundvelli samstæðureikninga. Aðlagað gjaldþol hluteignarfélags á vátryggingasviði eða endurtryggingasviði er mismunurinn á liðunum sem geta verið hluti af gjaldþoli, reiknuðum á grundvelli samstæðureikninga og:
        a)    annaðhvort samtölu kröfu um gjaldþol hluteignarfélags á vátryggingasviði eða endurtryggingasviði og hlutfallslegs eignarhluta í kröfu um gjaldþol tengdra vátryggingafélaga eða tengdra endurtryggingafélaga, á grundvelli hundraðshlutanna sem notaðir eru við uppsetningu samstæðureikninganna eða
        b)    gjaldþolinu, reiknuðu á grundvelli samstæðureikninga.
        Ákvæði tilskipana 73/239/EBE, 91/674/EBE, 2002/83/EB og 2005/68/EB skulu gilda um útreikning á liðunum sem geta verið hluti af gjaldþoli og á gjaldþolskröfum, á grundvelli gagna um samstæðureikninga.

    II. VIÐAUKI
    VIÐBÓTAREFTIRLIT MEÐ VÁTRYGGINGAFÉLÖGUM OG ENDURTRYGGINGAFÉLÖGUM SEM ERU DÓTTURFÉLÖG EIGNARHALDSFÉLAGS Á VÁTRYGGINGASVIÐI, VÁTRYGGINGAFÉLAGS UTAN BANDALAGSINS EÐA ENDURTRYGGINGAFÉLAGS UTAN BANDALAGSINS
    1.    Ef um er að ræða tvö eða fleiri vátryggingafélög eða endurtryggingafélög sem um getur í 2. mgr. 2. gr. og eru dótturfélög eignarhaldsfélags á vátryggingasviði, vátryggingafélags utan Bandalagsins eða endurtryggingafélags utan Bandalagsins og eru stofnuð í mismunandi aðildarríkjum skulu lögbær yfirvöld tryggja að aðferðinni, sem lýst er í þessum viðauka, sé beitt með samræmdum hætti.
        Lögbær yfirvöld skulu sinna viðbótareftirliti svo oft sem mælt er fyrir um í tilskipunum að því er varðar útreikning á gjaldþoli vátryggingafélaga og endurtryggingafélaga samkvæmt tilskipunum 73/239/ EBE, 91/647/EBE, 2002/83/EB og 2005/68/EB.
    2.    Aðildarríkin geta heimilað að útreikningnum, sem kveðið er á um í þessum viðauka að því er varðar vátryggingafélag eða endurtryggingafélag, sé sleppt:
        –    ef það vátryggingafélag eða endurtryggingafélag er tengt félag annars vátryggingafélags eða endurtryggingafélags og tekið er tillit til þess í útreikningnum sem kveðið er á um í þessum viðauka fyrir hitt félagið,
        –    ef það vátryggingafélag eða endurtryggingafélag og eitt eða fleiri vátryggingafélög eða endurtryggingafélög önnur, sem hafa starfsleyfi í sama aðildarríki, eiga að móðurfélagi sama eignarhaldsfélag á vátryggingasviði, vátryggingafélag utan Bandalagsins eða endurtryggingafélag utan Bandalagsins og tekið er tillit til vátryggingafélagsins eða endurtryggingafélagsins í útreikningnum sem kveðið er á um í þessum viðauka fyrir eitt þessara félaga annarra,
        –    ef það vátryggingafélag eða endurtryggingafélag og eitt eða fleiri vátryggingafélög eða endurtryggingafélög önnur, sem hafa starfsleyfi í öðrum aðildarríkjum, eiga að móðurfélagi sama eignarhaldsfélag á vátryggingasviði, vátryggingafélag utan Bandalagsins eða endurtryggingafélag utan Bandalagsins og gerður hefur verið samningur í samræmi við 2. mgr. 4. gr. um að veita eftirlitsyfirvaldi í öðru aðildarríki rétt til að sinna viðbótareftirlitinu sem fjallað er um í þessum viðauka.
            Ef um er að ræða raðtengda hlutdeild (s.s. eignarhaldsfélag á vátryggingasviði eða vátryggingafélag eða endurtryggingafélag utan Bandalagsins sem er sjálft í eigu annars eignarhaldsfélags á vátryggingasviði, vátryggingafélags eða endurtryggingafélags utan Bandalagsins) er aðildarríkjunum einungis heimilt að beita útreikningunum, sem kveðið er á um í þessum viðauka, gagnvart móðurfélagi sem er höfuð vátryggingafélagsins eða endurtryggingafélagsins og er eignarhaldsfélag á vátryggingasviði, vátryggingafélag utan Bandalagsins eða endurtryggingafélag utan Bandalagsins.
    3.    Lögbær yfirvöld skulu sjá til þess að fram fari útreikningar, hliðstæðir þeim sem lýst er í I. viðauka, í eignarhaldsfélögum á vátryggingasviði, vátryggingafélögum utan Bandalagsins eða endurtryggingafélögum utan Bandalagsins.
        Hliðstæðan skal felast í því að beita almennu meginreglunum og aðferðunum, sem lýst er í I. viðauka, gagnvart eignarhaldsfélögum á vátryggingasviði, vátryggingafélögum utan Bandalagsins eða endurtryggingafélögum utan Bandalagsins.
        Einungis að því er varðar þennan útreikning skal litið á móðurfélagið eins og um væri að ræða vátryggingafélag eða endurtryggingafélag sem ber að lúta:
        –    kröfu um gjaldþol sem jafngildir núlli ef um er að ræða eignarhaldsfélag á vátryggingasviði,
        –    kröfu um gjaldþol sem er ákvarðað í samræmi við meginreglur liðar 2.3 í I. viðauka ef um er að ræða vátryggingafélag utan Bandalagsins eða endurtryggingafélag utan Bandalagsins,
        og lýtur sömu skilyrðum og mælt er fyrir um í 16. gr. tilskipunar 73/239/EBE, 27. gr. tilskipunar 2002/83/EB og 36. gr. tilskipunar 2005/68/EB að því er varðar liði sem taka má með við útreikning á gjaldþoli.
    4.     Fáist nauðsynlegar upplýsingar ekki
        Hafi lögbær yfirvöld, hver svo sem ástæðan kann að vera, ekki aðgang að upplýsingum sem eru nauðsynlegar fyrir útreikninginn sem kveðið er á um í þessum viðauka og varða tengt félag með skráða skrifstofu í aðildarríki eða landi utan Bandalagsins skal draga bókfært virði þess félags í hluteignarfélaginu frá liðunum sem taka má með í útreikninginn sem kveðið er á um í þessum viðauka. Þegar svo ber undir er ekki hægt að líta á dulinn hagnað af slíkri hlutdeild sem lið sem taka má með í útreikninginn.“
Neðanmálsgrein: 1
    1 Rétt er að taka fram að þegar tilskipunin hefur verið felld inn í EES-samninginn mun þar sem segir „Evrópusambandið“ í þessum efnisútdrætti, sem byggist beint á tilskipuninni, eiga við um Evrópska efnahagssvæðið.
Neðanmálsgrein: 2
    2 Á Íslandi er viðeigandi eftirlitsaðili Fjármálaeftirlitið.
Neðanmálsgrein: 3
(1)    Stjtíð. ESB L 147, 1.6.2006, bls. 50, og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 33, 1.6.2006, bls. 19.
Neðanmálsgrein: 4
(2)    Stjtíð. ESB L 323, 9.12.2005, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 5
(*)     Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 6
(1)    Stjtíð. ESB C 120, 20.5.2005, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 7
(2)    Álit Evrópuþingsins frá 7. júní 2005 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB) og ákvörðun ráðsins frá 17. október 2005.
Neðanmálsgrein: 8
(3)    Stjtíð. EB L 228, 16.8.1973, bls. 3. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/1/EB (Stjtíð. ESB L 79, 24.3.2005, bls. 9).
Neðanmálsgrein: 9
(4)    Stjtíð. EB L 228, 11.8.1992, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2005/1/EB.
Neðanmálsgrein: 10
(5)    Stjtíð. EB L 345, 19.12.2002, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2005/1/EB.
Neðanmálsgrein: 11
(6)    Stjtíð. EB 56, 4.4.1964, bls. 878.
Neðanmálsgrein: 12
(7)    Stjtíð. EB L 330, 5.12.1998, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2005/1/EB.
Neðanmálsgrein: 13
(8)    Stjtíð. ESB L 35, 11.2.2003, bls. 1. Tilskipuninni var breytt með tilskipun 2005/1/EB.
Neðanmálsgrein: 14
(9)    Stjtíð. EB L 374, 31.12.1991, bls. 7. Tilskipuninni var breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/51/EB (Stjtíð. ESB L 178, 17.7.2003, bls. 16).
Neðanmálsgrein: 15
(10)    Stjtíð. ESB L 3, 7.1.2004, bls. 34.
Neðanmálsgrein: 16
(11)    Stjtíð. EB L 184, 17.7.1999, bls. 23.
Neðanmálsgrein: 17
(12)    Stjtíð. ESB C 321, 31.12.2003, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 18
(13)    Sjöunda tilskipun ráðsins 83/349/EBE frá 13. júní 1983 um samstæðureikninga, byggð á g-lið 3. mgr. 54. gr. sáttmálans (Stjtíð. EB L 193, 18.7.1983, bls. 1). Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2003/51/EB.
Neðanmálsgrein: 19
(14)    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/12/EB frá 20. mars 2000 um stofnun og rekstur lánastofnana (Stjtíð. EB L 126, 26.5.2000, bls. 1). Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2005/1/EB.
Neðanmálsgrein: 20
(15)    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39/EB frá 21. apríl 2004 um markaði fyrir fjármálagerninga (Stjtíð. ESB L 145, 30.4.2004, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 21
(16)    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/41/EB frá 3. júní 2003 um starfsemi og eftirlit með stofnunum sem sjá um starfstengdan lífeyri (Stjtíð. ESB L 235, 23.9.2003, bls. 10).
Neðanmálsgrein: 22
(17)    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/34/EB frá 28. maí 2001 um opinbera skráningu verðbréfa á verðbréfaþingi og upplýsingar sem birtar skulu um slík verðbréf (Stjtíð. EB L 184, 6.7.2001, bls. 1). Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2005/1/EB.
Neðanmálsgrein: 23
(18)    Reglugerð ráðsins (EB) nr. 2157/2001 frá 8. október 2001 um samþykktir fyrir Evrópufélög (SE) (Stjtíð. EB L 294, 10.11.2001, bls. 1). Reglugerðinni var breytt með reglugerð (EB) nr. 885/2004 (Stjtíð. ESB L 168, 1.5.2004, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 24
(19)    Áttunda tilskipun ráðsins 84/253/EBE frá 10. apríl 1984 um löggildingu einstaklinga sem falið er að annast lögmælta endurskoðun bókhaldsgagna, byggð á g-lið 3. mgr. 54. gr. sáttmálans (Stjtíð. EB L 126, 12.5.1984, bls. 20).
Neðanmálsgrein: 25
(20)    Fjórða tilskipun ráðsins 78/660/EBE frá 25. júlí 1978 byggð á g-lið 3. mgr. 54. gr. sáttmálans, um ársreikninga félaga af tiltekinni gerð (Stjtíð. EB L 222, 14.8.1978, bls. 11). Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2003/51/EB.
Neðanmálsgrein: 26
(21)    Tilskipun ráðsins 85/611/EBE frá 20. desember 1985 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum (Stjtíð. EB L 375, 31.12.1985, bls. 3). Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2005/1/EB.
Neðanmálsgrein: 27
(22)    Tilskipun ráðsins 93/22/EBE frá 10. maí 1993 um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta (Stjtíð. EB L 141, 11.6.1993, p. 27). Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/87/EB (Stjtíð. ESB L 35, 11.2.2003, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 28
(23)    Tilskipun ráðsins 93/6/EBE frá 15. mars 1993 um eiginfjárkröfur fjárfestingarfyrirtækja og lánastofnana (Stjtíð. EB L 141, 11.6.1993, bls. 1). Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2005/1/ EB.