Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 99. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 106  —  99. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um að fella niður loftrýmisgæslu Breta á Íslandi.

Flm.: Árni Þór Sigurðsson, Steingrímur J. Sigfússon, Katrín Jakobsdóttir,


Atli Gíslason, Álfheiður Ingadóttir, Jón Bjarnason, Kolbrún Halldórsdóttir,
Þuríður Backman, Ögmundur Jónasson.


    Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að tilkynna breskum stjórnvöldum og yfirstjórn Atlantshafsbandalagsins að fyrirhuguð loftrýmisgæsla Breta á Íslandi í desember nk. falli niður. Jafnframt verði utanríkismálanefnd falið að endurskoða áætlun Atlantshafsbandalagsins um loftrýmisgæslu yfir Íslandi sem samþykkt var í júlí 2007, með það að markmiði að hætta með öllu slíkum æfingum.

Greinargerð.


    Eftir brottför bandaríska herliðsins á Keflavíkurflugvelli gerðu íslensk stjórnvöld samkomulag við Atlantshafsbandalagið og einstök ríki innan þess um svokallaða loftrýmisgæslu við Ísland. Hafa bæði Norðmenn og Frakkar nú þegar komið hingað til lands í samræmi við samkomulagið. Fyrirhugað er að Bretar taki að sér umrædda loftrýmisgæslu í desembermánuði nk.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur alfarið lagst gegn þeim hernaðarumsvifum sem framangreint samkomulag gerir ráð fyrir. Verður ekki séð að nú séu fyrir hendi sérstakar forsendur til að efna til slíkra æfinga né heldur að rétt sé að Bretar, sem beitt hafa hryðjuverkalöggjöf sinni gegn Íslendingum, inni slíkt eftirlit af hendi. Í Morgunblaðinu 18. október sl. birtist eftirfarandi frétt:
    „Össur Skarphéðinsson, starfandi utanríkisráðherra, sagðist í samtali við mbl.is í gær ekki vilja fá Breta hingað til lands til að sinna þessari gæslu. Það myndi misbjóða íslensku þjóðarstolti. Þá sagði hann að þeim skilaboðum hefði verið komið á framfæri við NATO. Orðrétt sagði Össur: „Þessi mál hafa verið rædd af okkar hálfu við NATO svo það sé alveg ljóst og þeir vita af þessu.““
    Ljóst er að íslenska ríkið ber umtalsverðan kostnað af loftrýmiseftirliti því sem fyrirhugað er. Þeim fjármunum verður betur varið til annarra þarfari verkefna á vegum ríkisins og má segja í því efni að oft var þörf en nú er nauðsyn. Margt bendir til að nú geti skapast breiðari pólitísk samstaða en áður um að fella niður hernaðaræfingar á borð við þá sem til stendur að Bretar framkvæmi, sbr. m.a. tilvitnuð ummæli starfandi utanríkisráðherra.
    Því er lagt til hér að utanríkisráðherra verði falið að tilkynna breskum stjórnvöldum og yfirstjórn NATO að fyrirhugað loftrýmiseftirlit í desember nk. verði fellt niður. Jafnframt er lagt til að utanríkismálanefnd verði í framhaldinu falið að endurskoða áætlun Atlantshafsbandalagsins um loftrýmisgæslu með það að markmiði að hætta með öllu slíkum æfingum. Er það í samræmi við stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.