Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 166. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Prentað upp.

Þskj. 366  —  166. mál.
Tafla.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur um innlent leikið sjónvarpsefni.

     1.      Hversu mikið í mínútum talið hefur verið framleitt af leiknu innlendu sjónvarpsefni hjá Ríkisútvarpinu síðan rekstrarformi þess var breytt og hverjir eru titlar þeirra dagskrárliða?
    Ríkisútvarpið ohf. leggur áherslu á að sýna innlent leikið efni hvort sem það framleiðir það sjálft, í samvinnu við aðra eða kaupir það tilbúið. Í töflunni hér að aftan kemur fram það leikna efni sem framleitt hefur verið frá því að RÚV ohf. tók til starfa.

Tímabil 1. apríl 2007 – 19. nóvember 2008.
Frumsýnt Endursýnt Frumsýning
í mín.
Endursýning
í mín.
Samtals mín.
Sýnt Mannaveiðar 4 þættir 2x 170 340 510
Sýnt Svartir englar 6 þættir 1x 270 270 540
Sýnt Áramótaskaup 2007 1 þáttur 1x 45 45 90
Sýnt Er grín G-vara 1 þáttur 1x 40 20 80
Sýnt Spaugstofan 37 þættir 2x 888 1.776 2.664
Ósýnt Hamarinn 4 þættir 220
Ósýnt Jóladagatal 2008 24 þættir 168
Ósýnt Á uppleið 1 þáttur 15
Ósýnt Áramótaskaup 2008 1 þáttur 50
Sýnt Stundin okkar* 48 þættir 2x 720 1.440 2.160
Samtals mín. 2.586 3.891 6.044
* 15 mín. af leiknu efni eru í hverjum þætti af Stundinni okkar


     2.      Hefur verið farið eftir samningi Ríkisútvarpsins ohf. við ráðuneytið um aukið leikið efni fyrir sjónvarp á tímabilinu?
    Í þjónustusamningi milli Ríkisútvarpsins ohf. og menntamálaráðuneytis segir m.a.: „RÚV skal styrkja og efla sjónvarpsþátta-, kvikmynda- og heimildarmyndagerð með því að kaupa og sýna efni frá sjálfstæðum framleiðendum. Með hugtakinu sjálfstæður framleiðandi er átt við fyrirtæki sem er sjálfstæður lögaðili aðskilinn frá útvarpsfyrirtækinu og hefur frelsi til að skilgreina sína eigin viðskiptastefnu, þar með talið það sem lýtur að vinnu fyrir aðra en útvarpsfyrirtækið sjálft. RÚV skal gerast kaupandi eða meðframleiðandi að leiknu sjónvarpsefni, kvikmyndum, heimildarmyndum eða öðru sjónvarpsefni og verja til þess að lágmarki 150 millj. kr. á ári frá og með árinu 2008. Árið 2009 hækkar upphæðin í 200 millj. kr. og verður við lok samningstímabilsins 250 millj. kr.“
    Ráðuneytið telur Ríkisútvarpið ohf. hafa uppfyllt skyldur sínar að þessu leyti fram til þessa. Eins og kemur fram í töflunni hér að framan hefur RÚV ohf. eflt leikna sjónvarpsþáttagerð til muna í samstarfi við sjálfstæða kvikmyndaframleiðendur. Sjónvarpsþættirnir Mannaveiðar, Svartir englar, Áramótaskaupið 2008, Jóladagatalið 2008 og Hamarinn eru allir framleiddir í samstarfi við sjálfstæða kvikmyndaframleiðendur.

     3.      Hvaða áhrif hefur samningur Ríkisútvarpsins ohf. við leikara og tónlistarmenn frá í febrúar sl. haft á flutning leikins efnis í dagskrá Ríkisútvarpsins – sjónvarps?
    Nýr samningur við Félag íslenskra leikara hefur það í för með sér að nú er hægt að endurflytja eldra efni úr safni Sjónvarpsins. Í vetur mun Sjónvarpið endursýna gömul áramótaskaup, að jafnaði eitt í mánuði, og einnig eru í vinnslu þættir um sjónvarpsleikrit fyrri ára og annað leikið efni sem til er í safni Sjónvarpsins. Þessir þættir, sem eru í umsjón Hallmars Sigurðssonar og Rúnars Gunnarssonar, verða á dagskrá Sjónvarpsins í vetur. Samningurinn við tónlistarmenn hefur ekki haft áhrif á leikna innlenda dagskrárgerð enn sem komið er.

     4.      Er að vænta breytinga á samningi Ríkisútvarpsins ohf. og ráðuneytisins?
    Í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Ríkisútvarpið sem lagt hefur verið fram á Alþingi er gert ráð fyrir að ýmis atriði verði útfærð nánar í þjónustusamningi. Samþykkt frumvarpsins mundi því kalla á að gerðar yrðu viðbætur við samninginn. Ekki hefur hins vegar verið tekin ákvörðun um það hvort gerðar verðar frekari breytingar á þjónustusamningi menntamálaráðuneytis og Ríkisútvarpsins.