Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 427. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 721  —  427. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar NATO-þingsins fyrir árið 2008.

1. Inngangur.
    Starfsemi NATO-þingsins árið 2008 einkenndist öðru fremur af umræðu um samskipti NATO við Rússland. Rússar sýndu aukna hörku í utanríkisstefnu sinni á árinu og var þess fyrst vart í ræðu Pútíns Rússlandsforseta á árlegu öryggismálaráðstefnunni í Munchen í febrúar og náði hámarki með hernaðaraðgerðum Rússa í Georgíu í ágúst. Samskipti NATO og Rússlands kólnuðu og var fundum í NATO-Rússlandsráðinu frestað um ótiltekinn tíma. Deilurnar komu við sögu NATO-þingsins enda hefur Rússland aukaaðild að þinginu og þingmenn rússnesku dúmunnar sækja fundi þess. Þá hefur NATO-þingið stutt dyggilega nánara samstarf Georgíu og NATO og hafa helstu ráðamenn þjóðarinnar oft verið gestir þingsins. Brugðist var við hernaðinum í Georgíu með því að takmarka annars vegar þátttöku rússneskra þingmanna í starfi NATO-þingsins og hins vegar að stofna til sérstaks þingmannaráðs NATO og Georgíu til samræmis við þingmannaráð NATO og Rússlands sem starfað hefur um árabil. Þá hvatti NATO-þingið aðildarríkin til þess að aðstoða við enduruppbyggingu innviða Georgíu sem fóru illa í átökunum og til þess að taka Georgíu inn í aðildaráætlun bandalagsins.
    Líkt og síðustu ár hafa aðgerðir NATO utan Evró-Atlantshafssvæðisins komið til umræðu á vettvangi NATO-þingsins. Aðgerðum NATO hefur fjölgað stórlega og teygja sig yfir fleiri heimsálfur. Umfangsmesta verkefni NATO er í Afganistan en það er um leið tákngervingur hinna miklu breytinga sem eiga sér stað á bandalaginu. Alþjóðlegu öryggissveitirnar í Afganistan (ISAF) hafa starfað undir stjórn NATO frá því í ágúst 2003. Sveitir NATO taka nú til alls landsins og í þeim eru 56.000 menn frá 26 NATO-ríkjum og 15 samstarfsríkjum. Aðgerðin í Afganistan er fyrsta aðgerð NATO utan Evrópu og sú langfjölmennasta í sögu bandalagsins. Afganistan var eins og síðustu ár mjög í brennidepli á vettvangi NATO-þingsins árið 2008 og lögðu þingmenn áherslu á að aðgerðin í Afganistan væri prófsteinn á getu bandalagsins til þess að takast á við nýjar ógnir og nýtt öryggisumhverfi og að tryggja þyrfti árangur hennar.
    Íslandsdeild NATO-þingsins tók beitingu breskra hryðjuverkalaga gegn Landsbankanum og efnahagslegar afleiðingar þess á Íslandi upp með kröftugum hætti á ársfundi NATO-þingsins. Málið var tekið upp á vettvangi þriggja nefnda og á tvíhliða fundi með breskum þingmönnum. Rauði þráðurinn í málflutningi Íslandsdeildar var sá að beiting hryðjuverkalaganna hafi verið óvenjuharkaleg aðgerð sem engin fordæmi væru fyrir í samskiptum bandalagsríkja NATO. Þvert á móti væri eitt helsta verkefni bandalagsins hin sameiginlega barátta gegn hryðjuverkum svo innbyrðis beiting hryðjuverkalaga setti alvarlegt spurningarmerki við samheldni og samstöðu Atlantshafsbandalagsins (sjá nánar í umfjöllun um ársfund NATO- þingsins).

2. Almennt um NATO-þingið.
    NATO-þingið er þingmannasamtök sem hafa allt frá árinu 1954 verið vettvangur þingmanna aðildarríkja NATO til að ræða öryggis- og varnarmál. Fram til ársins 1999 bar þingið heitið Norður-Atlantshafsþingið, en heitir síðan NATO-þingið. Á síðustu árum hefur aðildar- og aukaaðildarríkjum NATO-þingsins fjölgað ört og hefur starfssvið þess verið víkkað til móts við þær breytingar sem orðið hafa í ríkjum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum og í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu. Tólf lýðræðisríki úr hópi fyrrverandi kommúnistaríkja hafa nú aukaaðild að þinginu (auk hlutlausu Evrópuríkjanna fjögurra Austurríkis, Sviss, Svíþjóðar og Finnlands) sem þýðir að þau geta tekið þátt í störfum og umræðum á þinginu. Störf þingsins beinast í auknum mæli að öryggismálum Evrópu í heild, efnahagslegum og pólitískum vandamálum í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu og hinu hnattræna öryggiskerfi. Með Rose Roth áætluninni styður þingið nú einnig við þróun þingbundins lýðræðis í ríkjum álfunnar og nálægum ríkjum.

Hlutverk og starfssvið þingsins.
    Í Atlantshafssáttmálanum 1949 var ekki gert ráð fyrir þinglegri ráðgjafarsamkundu en með tímanum óx þeirri skoðun fylgi að nauðsyn væri á skipulegu samstarfi þjóðþinga í tengslum við og til stuðnings NATO. Þingið hefur ekki formlega stöðu innan bandalagsins en smám saman hefur komist á náin og virk samvinna stofnananna. Meginhlutverk þingsins er að efla samstöðu og samráð þjóðþinga á sviði öryggis- og varnarmála. Þingið kemur saman tvisvar á ári, til vorfundar og ársfundar að hausti.
    Starfsemi þingsins fer að mestu fram í fimm málefnanefndum: stjórnmálanefnd, varnar- og öryggismálanefnd, efnahagsnefnd, vísinda- og tækninefnd og nefnd um borgaralegt öryggi. Auk þess fer mikið starf fram á vegum Miðjarðarhafshópsins sem hefur þó ekki stöðu formlegrar málefnanefndar. Þessar nefndir eru meginvettvangur umræðna um samtímamál er koma upp á starfssviði þeirra og vinna um þau skýrslur. Nefndarálit eru oftast sett fram í formi tilmæla, yfirlýsinga eða ályktana sem nefndin samþykkir og þingið greiðir síðan atkvæði um. Tilmælum er beint til Norður- Atlantshafsráðsins, sem fer með æðsta ákvarðanavald innan NATO, og í þeim er hvatt til tiltekinna aðgerða. Ályktunum þingsins er hins vegar beint til ríkisstjórna aðildarríkjanna.
    Þótt þingið sé óháð NATO hafa samskipti þingsins við bandalagið smám saman tekið á sig fastara form. Á meðal formlegra samskipta má í fyrsta lagi nefna formleg svör við tilmælum þingsins af hálfu framkvæmdastjóra bandalagsins fyrir hönd Norður-Atlantshafsráðsins. Í öðru lagi flytur framkvæmdastjóri bandalagsins ávarp á vorfundum og ársfundum NATO- þingsins og svarar fyrirspurnum þingmanna. Í þriðja lagi koma stjórnarnefnd NATO-þingsins og Norður-Atlantshafsráðið árlega saman til fundar í höfuðstöðvum NATO í Brussel. Að lokum skal nefndur sameiginlegur fundur þriggja nefnda NATO-þingsins í Brussel í febrúarmánuði ár hvert til að greiða fyrir samskiptum við starfsmenn og embættismenn NATO, SHAPE (Supreme Headquarters Allied Powers in Europe – æðstu bækistöðvar bandamanna í Evrópu) og Evrópusambandsins.

Fulltrúar á NATO-þinginu og forustumenn þess.
    Á NATO-þinginu eiga sæti 248 þingmenn frá aðildarríkjunum 26. Fjöldi fulltrúa frá hverju landi ræðst að mestu af fólksfjölda. Stærsta sendinefndin er sú bandaríska með 36 þingmenn en Ísland er í hópi þeirra smæstu með þrjá þingmenn. Auk fulltrúanna má hvert þjóðþing tilnefna jafnmarga varamenn sem mega taka þátt í störfum þingsins en hafa ekki atkvæðisrétt. Ráðherrar í ríkisstjórnum mega ekki vera fulltrúar á NATO-þinginu. Alls eiga 72 þingmenn frá 16 aukaaðildarríkjum sæti á NATO-þinginu og taka þeir þátt í nefndarfundum, utan funda stjórnarnefndar, og þingfundum en hafa ekki atkvæðisrétt. Þeir hafa þó rétt til þess að leggja fram breytingartillögur.
    Forustumenn þingsins eru sjö og eru sex þeirra, forseti og fimm varaforsetar, kjörnir ár hvert af fulltrúum á þingfundi. Sjöundi embættismaðurinn er gjaldkerinn en hann kýs stjórnarnefndin annað hvert ár. NATO-þinginu er stjórnað af stjórnarnefnd en í henni eiga sæti forseti, varaforsetar, gjaldkeri og nefndarformenn auk formanna allra landsdeilda aðildarríkja NATO.

3. Íslandsdeild NATO-þingsins og starfsemi hennar.
    Í kjölfar alþingiskosninga 2007 var ný Íslandsdeild NATO-þingsins kjörin 31. maí í upphafi 134. þings. Samkvæmt breytingum á þingsköpum Alþingis gildir sú kosning deildarinnar fyrir allt kjörtímabilið. Íslandsdeildina skipa Ragnheiður E. Árnadóttir, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ásta R. Jóhannesdóttir, varaformaður, þingflokki Samfylkingarinnar, og Magnús Stefánsson, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn eru Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ágúst Ólafur Ágústsson, þingflokki Samfylkingarinnar og Kristinn H. Gunnarsson, þingflokki Frjálslynda flokksins. Ritari Íslandsdeildar var Stígur Stefánsson, deildarstjóri alþjóðadeildar.
    Skipting Íslandsdeildar í nefndir árið 2008 var þannig:

     Stjórnarnefnd:     Ragnheiður E. Árnadóttir.
         Til vara:                 Magnús Stefánsson.
     Stjórnmálanefnd:     Ragnheiður E. Árnadóttir.
         Til vara:                 Arnbjörg Sveinsdóttir.
     Varnar- og öryggismálanefnd:     Ragnheiður E. Árnadóttir.
         Til vara:                  Arnbjörg Sveinsdóttir.
     Nefnd um borgaralegt öryggi:     Ásta R. Jóhannesdóttir.
         Til vara:                   Ágúst Ólafur Ágústsson.
    Efnahagsnefnd:     Magnús Stefánsson.
         Til vara:                   Kristinn H. Gunnarsson.
    Vísinda- og tækninefnd:     Magnús Stefánsson.
         Til vara:                   Kristinn H. Gunnarsson.
     Miðjarðarhafshópur:     Ásta R. Jóhannesdóttir.

    Íslandsdeildin hélt undirbúningsfundi með fulltrúum utanríkisráðuneytisins fyrir vor- og ársfundi NATO-þingsins. Þórir Ibsen, skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, sat fund nefndarinnar 20. maí og fór yfir helstu niðurstöður leiðtogafundar NATO í Búkarest í apríl. Þórir kom aftur á fund nefndarinnar 10. nóvember og gerði grein fyrir helstu áherslum íslenskra stjórnvalda í NATO og ráðstefnu um öryggismál á norðurslóðum í Reykjavík sem fyrirhuguð var í janúar 2009.
    Þingmenn Íslandsdeilar gegndu tveimur trúnaðarstörfum á vettvangi NATO-þingsins árið 2008. Á ársfundi NATO-þingsins í Reykjavík í október 2007 var Ragnheiður E. Árnadóttir valin skýrsluhöfundur undirnefndar um öryggis- og varnarsamstarf yfir Atlantsála sem er önnur af tveimur undirnefndum varnar- og öryggismálanefndar. Hlutverk skýrsluhöfunda er að taka saman skýrslu um það málefni sem undirnefndin kýs að taka til sérstakrar skoðunar og leggja fram drög að ályktun um málið á fundi öryggis- og varnarmálanefndar sem síðar fer fyrir þingfund NATO-þingsins. Ragnheiður gegndi starfi skýrsluhöfundar á starfsárinu 2008 og kynnti skýrslu um viðbúnað og getu NATO til aðgerða, bæði nú og í framtíðinni á vorfundi og ársfundi NATO-þingsins (sjá nánar umfjöllun um vor- og ársfundi).
    Ásta R. Jóhannesdóttir var kosin annar af tveimur varaformönnum Miðjarðarhafshóps NATO-þingsins á fundi hópsins í Abu Dhabi í október 2008. Hópurinn var settur á laggirnar árið 1996 og er samráðsvettvangur NATO-þingsins við ríki í norðanverðri Afríku og fyrir botni Miðjarðarhafs um öryggismál í þeim viðkvæma heimshluta.

4. Fundir NATO-þingsins.
    NATO-þingið heldur tvo þingfundi árlega, vorfund og svo ársfund að hausti. Á svokölluðum febrúarfundum heldur stjórnarnefndin fund með framkvæmdastjóra NATO og Norður- Atlantshafsráðinu, auk þess sem stjórnmálanefnd, efnahagsnefnd og varnar- og öryggismálanefnd halda sameiginlegan fund. Auk þess kemur stjórnarnefnd þingsins saman til fundar í mars ár hvert. Þá sækir fjöldi NATO-þingmanna árlegan fund um Atlantshafssamstarfið sem fram fer í desember í samstarfi NATO-þingsins og bandaríska Atlantshafsráðsins. Loks halda nefndir og undirnefndir þingsins reglulega málstofur og fundi á milli þingfunda. Á árinu voru enn fremur haldnar tvær Rose Roth ráðstefnur.
    Árið 2008 tók Íslandsdeildin þátt í febrúarfundunum í Brussel, fundi stjórnarnefndar sem haldinn var í Haag í mars, vorfundi þingsins í Berlín og ársfundi í Valencia auk almennra nefndarfunda utan þingfunda.
    Hér á eftir fylgja frásagnir af fundum sem Íslandsdeildin sótti í tímaröð.

Febrúarfundir.
    Dagana 17.–19. febrúar 2008 var efnt til febrúarfunda NATO-þingsins í Brussel en þeir eru sameiginlegir fundir stjórnmálanefndar, efnahagsnefndar og öryggis- og varnarmálanefndar. Fyrirkomulag fundanna var með venjubundnum hætti, þ.e. sérfræðingar, embættismenn og herforingjar Atlantshafsbandalagsins héldu erindi um afmörkuð málefni og svöruðu spurningum þingmanna. Nefndirnar áttu einnig fund með fulltrúum framkvæmdastjórnar ESB. Þá fór fram í tengslum við febrúarfundina árlegur fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins með Norður-Atlantshafsráðinu í höfuðstöðvum NATO. Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA sóttu fundina Ragnheiður E. Árnadóttir formaður og Magnús Stefánsson, auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Fyrsta fundardaginn var fyrirhugaður leiðtogafundur NATO í Búkarest 2.–4. apríl 2008, stuðningur almennings við NATO og ný hernaðarstefna (strategic concept) einkum í brennidepli. Framsögu fluttu Aurélia Bouchez, aðstoðarframkvæmdastjóri NATO, Jean-Francois Bureau, frá almannatengsladeild NATO, og Jamie Shea, yfirmaður stefnumótunarskrifstofu framkvæmdastjóra bandalagsins. Þar kom fram að leiðtogafundur NATO í Búkarest yrði sá stærsti sinnar tegundar. Leiðtogar ríkisstjórna meira en 60 ríkja mundu sækja fundinn auk æðstu fulltrúa helstu alþjóðastofnana eins og Sameinuðu þjóðanna, Evrópusambandsins og Alþjóðabankans. NATO hefur að undanförnu lagt ríka áherslu á samstarf við önnur fjölþjóðasamtök, einkum hvað varðar uppbyggingar- og endurreisnarstarf á átakasvæðum þar sem NATO tekur þátt í friðargæslu. Um 65.000 manns sinntu aðgerðum á vegum NATO í umboði öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna frá Kósóvó til Afganistan. Sérhæfing NATO felst í því að stilla til friðar og tryggja öryggi og stöðugleika á átakasvæðum og þar með svigrúm fyrir aðrar stofnanir á sviði þróunar og uppbyggingar til þess að sinna endurreisnarstarfi. Mikið liggur því við að samstarf NATO við helstu alþjóðastofnanir sé gott.
    Stuðningur almennings við NATO hefur minnkað í mörgum aðildarríkjum og einkum er stuðningur í Evrópu við aðgerðirnar í Afganistan lítill. Francois Bureau nefndi fjórar mögulegar ástæður fyrir því að NATO nyti minnkandi stuðnings: öryggismál væru ekki ofarlega á baugi í pólitískri umræðu; almenningur tengdi ekki aðgerðirnar í Afganistan og upprætingu hryðjuverkabúða þar öryggi í heimalöndum sínum; í hugum margra tengist NATO fyrst og fremst kalda stríðinu; margir Evrópubúar gerðu ekki kláran greinarmun á NATO annars vegar og þáverandi óvinsælum stjórnvöldum í Bandaríkjunum hins vegar og loks að NATO væri helst þekkt fyrir aðgerðir sínar en ekki þau grunngildi frelsis og lýðræðis sem bandalagið hvílir á. Bureau vitnaði til ummæla Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóra NATO, á ársfundi NATO-þingsins í Reykjavík í október 2007, en þar hvatti framkvæmdastjórinn þingmenn til að skýra hið breytta öryggisumhverfi sem einkennist af óhefðbundnum ógnum fyrir almenningi í löndum sínum.
    Þörfin á nýrri hernaðarstefnu NATO var rædd en framkvæmdastjóri NATO hafði lagt áherslu á að aðildarríkin hefðust handa við mótun hennar á leiðtogafundinum í Búkarest. Skiptar skoðanir eru þó innan bandalagsins um þörf á nýrri stefnu sem kæmi í stað þeirrar sem samþykkt var árið 1999 á 50 ára afmæli NATO. Jamie Shea sagði öryggisumhverfi og verkefni NATO hafa gerbreyst á þessum tíma. Ný viðfangsefni hefðu komið fram eins og orkuöryggi, öryggi upplýsingakerfa o.fl. Auk þess þyrfti að skilgreina við hvaða ógnir og verkefni 5. gr. Atlantshafssáttmálans á við, en sú grein kveður á um að árás á eitt bandalagsríki jafngildi árás á þau öll. Aðgerðir utan hefðbundins athafnasvæðis eins og í Afganistan falla ekki undir 5. gr. þrátt fyrir að þær tengjast öryggi í Evrópu og Norður-Ameríku og eru þær því háðar því að aðildarríkin bjóði fram liðsstyrk. Ný hernaðarstefna þyrfti einnig að taka til kostnaðarskiptingar og sameiginlegrar kostunar innan bandalagsins.
    Fjórir sendiherrar hjá NATO, Victoria Nuland frá Bandaríkjunum, Richard Duqué frá Frakklandi, Linas Linkevicius frá Litháen og Tacan Ildem frá Tyrklandi, tóku þátt í pallborðsumræðu við þingmenn. Í framsögu þeirra kom m.a. fram að samband Frakklands og NATO hefði batnað til muna eftir forsetaskiptin í Frakklandi og að landið legði ríkulega til bandalagsins á flestum sviðum þrátt fyrir að það standi enn utan sameiginlegs herstjórnarkerfis þess. Þá var rætt um vandamál í samstarfi NATO og ESB auk þess sem Nuland lýsti þeirri stefnu Bandaríkjastjórnar að bjóða þremur Adríahafsríkjum, Albaníu, Króatíu og Makedóníu aðild að bandalaginu á leiðtogafundinum í Búkarest. Í fyrirspurnatíma spurði Ragnheiður E. Árnadóttir hvort heildarendurskoðun á varnar- og öryggisstefnu Frakklands sem nú stendur yfir og aukin þátttaka landsins í NATO gæti greitt fyrir betri samskiptum bandalagsins og Evrópusambandsins. Jafnframt spurði Ragnheiður sendiherra Tyrklands hvort von væri á að Tyrkir slökuðu á andstöðu sinni við að NATO skiptist á trúnaðarupplýsingum við ESB en þeir hafa verið andvígir því að ESB-ríki sem standa utan NATO, eins og Kýpur og Malta, fái slíkar upplýsingar. Þetta hefur staðið samskiptum stofnananna fyrir þrifum. Franski sendiherrann svaraði spurningunni jákvætt og taldi Frakkland geta beitt sér fyrir betri samskiptum en tyrkneski sendiherrann kenndi áhugaleysi hjá ESB um skort á samstarfi við NATO og sagði að oft mætti halda að tvær ólíkar ríkisstjórnir störfuðu í þeim ríkjum sem eru aðilar að báðum stofnunum.
    Hefðbundinn fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins og sendiherra aðildarríkja NATO í Norður-Atlantshafsráðinu, sem fer með æðsta ákvörðunarvald innan bandalagsins, fór fram í höfuðstöðvum NATO 19. febrúar. Að venju sátu sendiherrar aðildarríkjanna fyrir svörum þingmanna en umræðum stjórnaði Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóri bandalagsins, sem jafnframt flutti inngangserindi. Kósóvó-hérað lýsti yfir sjálfstæði daginn áður og hóf framkvæmdastjórinn mál sitt með því að kynna yfirlýsingu ráðsins um að sveitir NATO sem í eru 16.000 manns yrðu áfram í héraðinu í umboði Sameinuðu þjóðanna til að tryggja frið og stöðugleika. Þá ræddi framkvæmdastjórinn helstu mál sem lágu fyrir leiðtogafundinum í Búkarest. Stækkunarmálin yrðu ofarlega á baugi en auk ákvörðunar um hvort Adríahafsríkjunum þremur yrði boðin aðild lægi fyrir að ákveða hvort Úkraínu og Georgíu yrði boðið að taka þátt í aðildaráætlun bandalagsins sem hjálpar umsóknarríkjum að undirbúa hugsanlega framtíðaraðild. Samskipti NATO við Rússland, orkuöryggi og öryggi upplýsingakerfa kæmu einnig til kasta fundarins. Á eftir fylgdu umræður, m.a. gagnrýni frá kanadískum þingmönnum á þau aðildarríki sem halda sveitum sínum gagngert frá óróasvæðum í Afganistan með því að takmarka athafnasvæði þeirra við friðsamleg héruð.
    Á lokadegi febrúarfundanna áttu NATO-þingmenn fundi með háttsettum embættismönnum framkvæmdastjórnar ESB þar sem rætt var um utanríkisstefnu sambandsins og utanríkisviðskipti þess.

Marsfundur stjórnarnefndar.
    Helstu mál á dagskrá fundarins voru samskipti NATO-þingsins við rússnesku dúmuna, tengsl NATO-þingsins við ríki utan NATO, stækkun NATO-þingsins samfara stækkun bandalagsins, mótun nýrrar hernaðarstefnu NATO, og vettvangur umræðu um konur og öryggi innan NATO-þingsins. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sótti Stígur Stefánsson ritari fundinn.
    Áður en gengið var til formlegrar dagskrár ávarpaði Bert Koenders, fyrrverandi forseti NATO-þingsins, sem nú gegnir embætti ráðherra þróunarmála í ríkisstjórn Hollands, fundarmenn. Í ávarpi sínu fjallaði Koenders um Afganistan og nauðsyn aukinna framlaga til uppbyggingar þar í landi auk þess sem hann lagði áherslu á betri samvinnu öryggissveita NATO og þróunarstofnana. Í kjölfar erindis Koenders var þó mest rætt um umdeilda kvikmynd hollenska þingmannsins Geert Wilders um íslam sem frumsýnd var viku fyrir stjórnarnefndarfundinn. Tyrkneski þingmaðurinn Vahit Erdem sagði kvikmyndina vatn á myllu öfgasinnaðra og herskárra múslima og síst til að minnka spennu á milli hins kristna og íslamska menningarheims. Koenders sagði ríkisstjórn Hollands ósammála þeirri ímynd sem dregin er upp í myndinni þar sem íslam og hryðjuverk eru samofin. Aldrei hefði þó komið til greina að banna myndina vegna mál- og tjáningarfrelsis.
    Þegar gengið var til dagskrár og síðasta fundargerð stjórnarnefndarinnar frá Reykjavík var borin upp til samþykktar ítrekaði José Lello, forseti NATO-þingsins, þakklæti til Íslandsdeildar og starfsfólks Alþingis fyrir framkvæmd síðasta ársfundar sem fram fór í Reykjavík 5.–9. október 2007.
    Þá voru samskipti NATO-þingsins og rússnesku dúmunnar tekin til umræðu. Rússar eru með aukaaðild að NATO-þinginu auk þess sem sérstök þingmannanefnd NATO og Rússlands er starfandi. Þingmannanefndin hefur fundað í tengslum við vor- og ársfundi NATO-þingsins en tímaskortur hefur einkennt fundina. NATO-þingið hefur því lagt til breytt fyrirkomulag þannig að nefndin haldi fund einu sinni á ári, annað árið í Rússlandi og hitt árið í NATO-ríki. Því hafa Rússar hafnað og vilja að fundirnir verði haldnir til skiptis í ríkjunum 27. Ákveðið var að leita áfram samkomulags við Rússa um framtíðarskipulag funda þingmannanefndarinnar. Auk þess var ákveðið að setja þátttöku Rússa í starfsemi NATO-þingsins þær skorður að ekki séu sendir fleiri fulltrúar á einstaka fundi eða viðburði en þeir 10 fulltrúar sem Rússar eiga samkvæmt reglum þingsins. Það eru sömu takmarkanir og reglur og önnur aukaaðildarríki lúta.
    Ríki sem standa utan NATO hafa tengst NATO-þinginu á þrenns konar hátt, með aukaaðild (Associate Membership), Miðjarðarhafsaðild (Mediterranian Associate Membership) og áheyrnaraðild (Parliamentary Observer). Þessum ólíku formum fylgja ólík réttindi og skyldur. Ákveðið var að vinnuhópur um umbætur á starfsemi NATO-þingsins tæki núverandi fyrirkomulag til athugunar og skilaði tillögum um mögulegar breytingar til stjórnarnefndar.
    Á stjórnarnefndarfundinum var rætt um stækkun NATO-þingsins enda var búist við því að leiðtogafundur NATO í Búkarest 2.–4. apríl tæki ákvörðun um stækkun bandalagsins. Það gekk eftir og var Albaníu og Króatíu boðin aðild. Ákveðið var að sendinefndum væntanlegra aðildarríkja, sem væru aukaaðilar að NATO-þinginu, yrði boðin full þátttaka um leið og aðildarsamningar hafa verið undirritaðir en nokkur tími getur liðið frá undirritun þeirra þar til formleg innganga í bandalagið tekur gildi. Yrði hér fylgt fordæmi NATO-þingsins frá síðustu stækkun NATO árið 2004.
    Mikið hefur verið rætt um hvort NATO eigi að móta nýja hernaðarstefnu (Strategic Concept) og hefur framkvæmdastjóri bandalagsins, Jaap de Hoop Scheffer, verið talsmaður þess að slíkt verði gert. Núverandi hernaðarstefna er frá árinu 1999 og var um tíma rætt um möguleika þess að móta nýja stefnu fyrir 60 ára afmælisfund NATO árið 2009. NATO-þingið hefur fylgst grannt með umræðum innan bandalagsins um þessi mál og útnefnt Jan Pedersen, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs, sem sérstakan fulltrúa sinn. Á fundinum kom fram að ný hernaðarstefna yrði ekki mótuð fyrir afmælisfundinn en í stað þess væri stefnt að því að undirrita svokallaða Atlantshafsyfirlýsingu um þau lýðræðislegu grunngildi sem bandalagið byggist á. NATO-þingið mundi leggja sitt af mörkum við vinnslu yfirlýsingarinnar og Pedersen vinna drög að tillögum NATO-þingsins vegna þessa og leggja fyrir síðari stjórnarnefndarfund til samþykktar.
    Framkvæmd árlegra funda NATO-þingsins í Washington D.C., svokallaðra „Transatlantic Forum“-funda, var þá til umræðu. Fundirnir hafa notið slíkra vinsælda að þátttaka hefur á stundum verið við það að sprengja ramma þeirra. Vinnuhópi um umbætur á starfsemi NATO- þingsins var falið að gera tillögur um fyrirkomulag þeirra í framtíðinni og skoða m.a. hvort setja bæri kvóta á þátttöku einstakra sendinefnda.
    Forseti NATO-þingsins, José Lello, gerði því næst grein fyrir fyrirhuguðu erindi sínu á leiðtogafundi NATO í Búkarest. Áhersla var lögð á þrjú mál, aðgerðirnar í Afganistan og stuðning þingmanna við þær, stækkun NATO og loks undirbúningur fyrrnefndrar Atlantshafsyfirlýsingar fyrir árið 2009.
    Á vor- og ársfundi NATO-þingsins árið 2007 voru sérstakir hliðarviðburðir um hlutdeild kvenna í þjóðaröryggi og alþjóðlegum öryggismálum. Þetta voru hádegisverðarfundir sem fóru fram að frumkvæði svissnesku landsdeildarinnar og jafnframt á kostnað hennar. Þar var horft á málefnið út frá a.m.k. fjórum sjónarhornum: verndun kvenna á átakasvæðum samkvæmt ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325; stöðu og starfi kvenna innan herja NATO-ríkja; þátttöku kvenna í ákvarðanatöku í öryggis- og varnarmálum og þátttöku kvenna í friðargæslu. Landsdeildir Kanada og Noregs buðust til að gangast fyrir áframhaldandi málstofum um konur og öryggismál á vor- og haustfundunum 2008 auk þess sem nefnd um borgaralegt öryggi mun taka málið sérstaklega á dagskrá.
    Að lokum flutti fráfarandi gjaldkeri NATO-þingsins, þýski þingmaðurinn Lothar Ibrügger, stjórnarnefnd skýrslu sína um fjárreiður þingsins árið 2007. Að því loknu tók kanadíski öldungadeildarþingmaðurinn Pierre Claude Nolan við embætti gjaldkera.

Vorfundur.
    Vorfundur NATO-þingsins var haldinn í Berlín dagana 23.–27. maí sl. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sóttu fundinn þau Ragnheiður E. Árnadóttir formaður, Ásta R. Jóhannesdóttir og Magnús Stefánsson, auk Stígs Stefánssonar ritara. Á vorfundum NATO- þingsins vinna málefnanefndir skýrslur og eiga fundi með fulltrúum ríkisstjórna og alþjóðastofnana og sérfræðingum. Þá er þingfundur haldinn þar sem fjallað er um þau mál sem hæst ber í alþjóðlegri öryggis- og varnarmálaumræðu.
    Áður en fundir málefnanefnda hófust fór fram fundur þingmannaráðs NATO og Rússlands. Fulltrúar Rússlands gagnrýndu harðlega ýmsar ákvarðanir sem teknar voru á leiðtogafundi NATO í Búkarest 2.–4. apríl og tilgreindu sérstaklega samvinnu á sviði netöryggis, orkuöryggis og eldflaugavarna sem þeir töldu beinast gegn Rússlandi. Þá sögðu þeir helming íbúa Úkraínu á móti NATO-aðild og sömuleiðis íbúa ákveðinna héraða Georgíu. NATO- þingmenn lögðu áherslu á að Rússland hefði ekki á nokkurn hátt neitunarvald gagnvart ákvörðunum NATO, ekki heldur gagnvart stækkun bandalagsins.
    Á fundi stjórnmálanefndar NATO-þingsins var einkum fjallað um ákvarðanir fyrrnefnds leiðtogafundar í Búkarest, aðgerðirnar í Afganistan, málefni Íran og samstarfsáætlanir við ríki utan Atlantshafsbandalagsins. Efnahagsnefndin fjallaði m.a. um efnahagslega uppbyggingu í Afganistan, orkuöryggi og samspil ríkis og markaðar í Rússlandi. Vísinda- og tækninefnd tók m.a. eldflaugavarnir og útbreiðslu kjarnorkutækni og vopna til umræðu.
    Varnar- og öryggismálanefnd NATO-þingsins fjallaði um þrjár skýrslur á fundi sínum. Sú fyrsta fjallaði um aðgerðir NATO, önnur um framlög ríkja utan NATO til aðgerða bandalagsins og sú þriðja um viðbúnað og getu NATO til aðgerða, bæði nú og í framtíðinni. Skýrsluhöfundur síðastnefndu skýrslunnar var Ragnheiður E. Árnadóttir en hún var valin til þess starfs á ársfundi NATO-þingsins í Reykjavík í október 2007. Ragnheiður flutti framsögu með skýrslunni og lagði m.a. áherslu á að samræmi yrði að vera á milli viðbúnaðar og getu bandalagsins og þeirra verkefna sem ríkisstjórnirnar fela því. Aukin verkefni utan Evró- Atlantshafssvæðisins, svo sem í Afganistan, hafa sýnt fram á vandamál varðandi hreyfanleika hersveita og skort á flutningsgetu, þyrlukosti og öðrum búnaði. Mikið bil hefur myndast á milli Bandaríkjanna annars vegar, sem hafa yfir hreyfanlegum herafla að ráða, og Evrópu hins vegar, þar sem uppbygging herafla hefur í gegnum árin miðast við hefðbundnar varnir eigin landsvæðis. Það hefur takmarkað getu evrópsku bandalagsríkjanna til að senda hersveitir til fjarlægra staða með skömmum fyrirvara. Það eykur enn á muninn á milli Bandaríkjanna og evrópskra bandalagsríkja að þau síðarnefndu hafa mörg hver varið mun minni fjármunum til varnarmála en yfirlýst markmið NATO um 2% af þjóðarframleiðslu segir til um. Þar við bætist að mun stærri hluta varnarmálaútgjalda Evrópuríkjanna er varið í launagreiðslur og starfsmannakostnað en í Bandaríkjunum sem minnkar enn fjárhagslegt svigrúm þeirra fyrrnefndu til að auka hreyfanleika hersveita sinna. Í lok máls síns sagði Ragnheiður ekkert benda til þess að eftirspurn eftir þátttöku NATO í alþjóðlegum aðgerðum og friðargæsluverkefnum muni minnka á næstu árum og því væri mikilvægt að bandalagið væri fært um að takast á við þau verkefni með viðeigandi búnaði og getu.
    Nefnd um borgaralegt öryggi fjallaði á fundi sínum m.a. um orkuöryggi í Evrópu og hlutverk Rússlands, Kósóvó og ástand öryggismála á Balkanskaga, og stefnu NATO og ESB gagnvart lýðræðisvæðingu og öryggismálum í Mið-Asíu. Mið-Asíuríkin eru lykilsvæði hvað varðar hefðbundin sem óhefðbundin öryggismál eins og orkuöryggi, baráttuna gegn hryðjuverkum og trúarofstæki, aðgerðirnar í Afganistan, aðgerðir til að hefta útbreiðslu kjarnorkuvopna, og baráttu gegn mansali, fíkniefna- og vopnasmygli. Í umræðu um möguleika á auknu samstarfi við Mið-Asíuríkin um lýðræðisvæðingu og bætta stjórnarhætti lagði Ásta R. Jóhannesdóttir áherslu á að hugað yrði að stöðu og réttindum kvenna og barna í öllu slíku starfi.
    Auk nefndarfunda fór fram sérstakur hádegisfundur um konur og öryggismál. Fulltrúar Miðstöðvar um borgaralegt eftirlit með herjum í Genf (Geneva Centre for the Democratic Control of Armed Forces) kynntu skýrslu um mikilvægi þess að efla hlut kvenna við umbætur og umbreytingu herafla. Auk þess að vera jafnréttismál tryggir aukin þátttaka kvenna í starfi herafla og mótun öryggismálastefnu að þekking og reynsla kvenna nýtist og að breidd samfélagsins endurspeglist betur í vörnum þess. Í friðargæsluverkefnum væri sýnileg þátttaka kvenna mjög mikilvæg, kvenkyns friðargæsluliðar ættu auðveldara með að vinna traust kvenna á átakasvæðum auk þess sem þeir væru þeim ákveðin fyrirmynd.
    Hinn eiginlegi þingfundur NATO-þingsins fór fram 27. maí. José Lello, forseti NATO–þingsins, setti þingfundinn og lagði í ávarpi sínu áherslu á aukið hlutverk þingmanna til stuðnings og við stefnumótun NATO. Bandalagið hefði gengið í gegnum miklar breytingar sem enn sæi ekki fyrir enda á og það væri hlutverk NATO-þingmanna að útskýra breytt hlutverk og áframhaldandi mikilvægi bandalagsins fyrir almenningi í aðildarríkjunum. Þá ræddi Lello áframhaldandi stuðning þingmanna við aðgerðirnar í Afganistan og aðstoð NATO- þingsins við uppbyggingu lýðræðislegra stjórnarhátta í væntanlegum aðildarríkjum, sér í lagi eftirlitshlutverk þjóðþinga með öryggisstofnunum ríkisins.
    Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóri NATO, ávarpaði þingfundinn. De Hoop Scheffer fór yfir helstu niðurstöður leiðtogafundar NATO í Búkarest. Um stækkun Atlantshafsbandalagsins sagði framkvæmdastjórinn að stefnt væri að undirritun aðildarsamninga Króatíu og Albaníu að bandalaginu 9. júlí. Kvaðst hann vona að fyrrum Júgóslavíulýðveldið Makedónía gæti orðið fyrrnefndum ríkjum samferða í bandalagið en það veltur á því að lausn náist í deilu við Grikki um nafn landsins. Úkraína og Georgía yrðu aðilar að bandalaginu síðar, en á desemberfundi utanríkisráðherra bandalagsins yrði metið hvort þau séu reiðubúin til þátttöku í aðildaráætlun bandalagsins. Um aðgerðir NATO í Afganistan sagði framkvæmdastjórinn að samþætting hernaðarlegra og borgaralegra aðgerða væri forsenda árangurs. Alþjóðastofnanir á sviði þróunar yrðu að koma í auknum mæli að endurreisnarstarfi í landinu en fulltrúar þeirra sóttu Búkarestfundinn. Þá voru teknar ákvarðanir um að fjölga í liðssveitum NATO í Afganistan. Biðlaði framkvæmdastjórinn til þingmanna um að kynna mikilvægi aðgerðanna í Afganistan í aðildarríkjunum og tryggja þannig stuðning almennings við þær. Auk þess fjallaði De Hoop Scheffer m.a. um samskipti NATO og Rússlands, stöðu Kósóvó og aðgerðir NATO þar í landi og samstarf NATO og Evrópusambandsins.
    Í fyrirspurnatíma að afloknu ávarpi framkvæmdastjórans tók Ragnheiður E. Árnadóttir til máls um getu og viðbúnaði NATO til aðgerða. Benti hún á augljósan mun á þeim verkefnum sem ríkisstjórnir aðildarríkjanna fela bandalaginu og þeim hersveitum og búnaði sem þær leggja til bandalagsins til að sinna verkefnunum. Spurði Ragnheiður framkvæmdastjórann hvernig hann teldi að hægt væri að skapa pólitíska sátt um að tryggja bandalaginu þann viðbúnað og þau tæki sem það þarf til að valda verkefnum sínum. Enn fremur spurðist Ragnheiður fyrir um svokallaðan mjúkan viðbúnað (soft capabilities) sem er borgaralegur fremur en hernaðarlegur og á hvaða sviðum NATO þyrfti að þróa hann. De Hoop Scheffer svaraði því til að mjúkur viðbúnaður væri ekki síður mikilvægur en hernaðarleg geta í aðgerðum eins og í Afganistan og áréttaði að uppbygging þar í landi væri lykillinn að varanlegum árangri. Skoraði hann á þingmenn að beita sér fyrir uppbyggingu á slíkri getu og viðbúnaði og nefndi Ísland sem fyrirmynd á því sviði. Ísland hefði byggt upp sérfræðiþekkingu á afmörkuðum sviðum sem hefði reynst bandalaginu mikilvæg. Nefndi framkvæmdastjórinn sérfræðiþekkingu Íslendinga við rekstur flugvalla og árangur þeirra við stjórnun alþjóðaflugvallanna í Pristina og Kabúl sem dæmi. Þá sagði hann marga Íslendinga starfa á skrifstofu borgaralegs fulltrúa NATO í Kabúl en starfsemin þar væri einkar mikilvæg fyrir aðgerðir NATO í landinu.

Ársfundur.
    Ársfundur NATO-þingsins fór fram í Valencia dagana 14.–18. nóvember. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sóttu fundinn þau Ragnheiður E. Árnadóttir formaður, Ásta R. Jóhannesdóttir og Magnús Stefánsson, auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Íslandsdeild NATO-þingsins tók beitingu breskra hryðjuverkalaga gegn Landsbankanum og efnahagslegar afleiðingar þess á Íslandi upp á nefndarfundum þingsins. Ragnheiður E. Árnadóttir tók málið upp í stjórnmálanefnd þingsins og Magnús Stefánsson og Ásta R. Jóhannesdóttir gerðu slíkt hið sama í efnahagsnefnd og nefnd um borgaralegt öryggi.
    Rauði þráðurinn í málflutningi Íslandsdeildar var sá að beiting hryðjuverkalaganna hafi verið óvenjuharkaleg aðgerð sem engin fordæmi væru fyrir í samskiptum bandalagsríkja NATO. Þvert á móti væri eitt helsta verkefni bandalagsins hin sameiginlega barátta gegn hryðjuverkum og innbyrðis beiting hryðjuverkalaga setti því alvarlegt spurningarmerki við samheldni og samstöðu Atlantshafsbandalagsins. Ekkert hefði komið fram sem benti til lögbrota sem réttlættu aðgerðina og ef grunur hefði verið uppi um slíkt í tengslum við Landsbankann hefði verið eðlilegt að bresk stjórnvöld hefðu haft samráð við íslensk stjórnvöld um að gæta eigna bankans. Þá hafi yfirlýsingar breskra ráðamanna í alþjóðlegum fjölmiðlum um að frysta ætti eignir allra íslenskra fyrirtækja í Bretlandi og jafnvel eignir íslenskra stjórnvalda verið afar skaðlegar. Orð forsætisráðherra Bretlands hafi mikla vigt og yfirlýsingar Gordon Browns hafi valdið miklu tjóni hjá fyrirtækjum og einstaklingum sem engin tengsl höfðu við Landsbankann. Beiting hryðjuverkalaga, skaðlegar yfirlýsingar ráðamanna og yfirtaka breska fjármálaeftirlitsins á Kaupþingi hefði valdið miklum skaða fyrir íslenskt efnahagslíf og gert slæma stöðu Íslendinga enn verri. Stærsta fyrirtæki landsins, Kaupþing, hafi fallið í kjölfar aðgerðanna og miklar efnahagslegar þrengingar væru fram undan.
    Einungis komu fram andsvör frá fulltrúum Breta í umræðum í stjórnmálanefndinni eftir að Ragnheiður E. Árnadóttir hafði gert grein fyrir málinu frá sjónarhóli Íslendinga. Breski þingmaðurinn Denis MacShane svaraði stuttlega að rangt væri að taka þetta mál upp á vettvangi NATO og að í lögunum sem beitt var væru einnig valdheimildir sem tengdust á engan hátt hryðjuverkum. Þessum heimildum hefði verið beitt við hrun íslensku bankanna í Bretlandi. Ragnheiður svaraði því til að þrátt fyrir þær skýringar væri staðreyndin sú að Landsbankinn hefur verið á lista með Al-kaída og talibönum á heimasíðu breska fjármálaráðuneytisins og það hefði haft slæm áhrif á traust alþjóðlegra fjármálamarkaða á íslensku efnahagslífi.
    Í kjölfar yfirlýsinga Íslandsdeildar á nefndarfundum átti breski þingmaðurinn Hugh Bayley frumkvæði að tvíhliða fundi Íslandsdeildar og fulltrúa bresku landsdeildarinnar sem fram fór þriðjudaginn 18. nóvember. Auk Bayley, sem er þingmaður verkamannaflokksins í neðri deild breska þingsins, sátu fundinn af hálfu Bretanna tveir þingmenn úr lávarðadeild, þeir Lord Jopling frá íhaldsflokknum og John Sewel frá verkamannaflokknum. Á fundinum var málflutningur Íslandsdeildar ítrekaður en bresku þingmennirnir vörðu beitingu hryðjuverkalaganna og sögðu þær valdheimildir sem beitt var ekki úr þeim hluta laganna sem fjalla um hryðjuverk heldur um efnahagslega glæpi. Lögunum var beitt vegna óvissu um hvort Íslendingar ætluðu að standa við skuldbindingar gagnvart eigendum Icesave-reikninga í Bretlandi og áhyggja af því að íslensk stjórnvöld hygðust mismuna innstæðueigendum á grundvelli þjóðernis og veita íslenskum innstæðueigendum aukna vernd á kostnað breskra. Þótt innstæður á Icesave-reikningum hafi einungis verið um 0,5% af heildarinnlánum á breskum bankamarkaði þá var staðreyndin sú að það hrikti í stoðum hinna 99,5% markaðarins vegna óróa á fjármálamörkuðum. Því var nauðsynlegt að eyða óvissu um tryggingar fyrir innstæðum Icesave-reikninganna hratt og örugglega með því að frysta eignir Landsbankans. Í yfirstandandi fjármálakreppu þar sem traust markaðarins er lítið á bankakerfinu þurfa stjórnvöld að bregðast hratt við til að lægja öldur á markaðnum og koma þannig í veg fyrir að kreppan dýpki og valdi frekari eyðileggingu. Tímapressa af þessum völdum kann að hafa komið í veg fyrir að hægt hafi verið að eiga frekara samráð við íslensk stjórnvöld.
    Ragnheiður E. Árnadóttir áréttaði að íslensk stjórnvöld hefðu frá upphafi lýst því yfir að þau mundu standa við lagalegar skuldbindingar sínar í tengslum við fall bankanna. Hins vegar hafi verið lagaleg óvissa um hversu víðtækar þær skuldbindingar væru og því hefðu íslensk stjórnvöld átt í viðræðum við stjórnvöld í Bretlandi og öðrum ríkjum þar sem íslensku bankarnir störfuðu. Einungis Bretland greip til harkalegra aðgerða gegn Íslendingum á meðan unnið var með öðrum ríkjum að lausn vandans eftir diplómatískum leiðum. Ítrekaði Ragnheiður að ef bresk stjórnvöld hefðu haft grun um glæpsamlegt athæfi í íslensku bönkunum hefðu þau átt að leita samvinnu við íslensk stjórnvöld við að uppræta slíkt.
    Engin eiginleg niðurstaða varð af fundinum en í lok hans sögðu aðilar það gagnlegt að hafa fengið tækifæri til óformlegra og hreinskiptinna skoðanaskipta um deilumál þjóðanna. Íslandsdeildin afhenti bresku þingmönnunum útprentun af heimasíðu breska fjármálaráðuneytisins þar sem Landsbankinn kom fyrir á lista ásamt Al-Kaída og talíbönum og enska fréttatilkynningu forsætisráðuneytisins frá 16. nóvember um samkomulag við nokkur Evrópusambandsríki um innstæðutryggingar og viðmið fyrir frekari samningaviðræður. Bresku þingmennirnir afhentu Íslandsdeildinni bresku hryðjuverkalögin frá árinu 2001, skýrslur rannsóknarþjónustu breska þingsins um lögin og bankahrunið á Íslandi og útprentun af umræðum um hrun íslensku bankanna í neðri deild breska þingsins 6. nóvember.
    Á fundi stjórnmálanefndar NATO-þingsins var einkum fjallað um samskipti NATO og Rússlands eftir innrás Rússa í Georgíu í ágústmánuði, aðgerðir NATO í Afganistan, málefni Íran og samstarfsáætlanir við ríki utan Atlantshafsbandalagsins. Efnahagsnefndin fjallaði m.a. um efnahagslega uppbyggingu í Afganistan, fjármálakreppuna og orkuöryggi. Vísinda- og tækninefnd tók m.a. eldflaugavarnir og útbreiðslu kjarnorkutækni og vopna til umræðu.
    Varnar- og öryggismálanefnd NATO-þingsins fjallaði um lokadrög að þremur skýrslum á fundi sínum. Sú fyrsta fjallaði um aðgerðir NATO, önnur um framlög ríkja utan NATO til aðgerða bandalagsins og sú þriðja um viðbúnað og getu NATO til aðgerða, bæði nú og í framtíðinni. Skýrsluhöfundur síðastnefndu skýrslunnar var Ragnheiður E. Árnadóttir. Ragnheiður kynnti skýrsluna og lagði m.a. áherslu á að samræmi yrði að vera á milli viðbúnaðar og getu bandalagsins annars vegar og þeirra verkefna sem ríkisstjórnirnar fela því hins vegar. Aukin verkefni utan Evró-Atlantshafssvæðisins, svo sem í Afganistan, hafa sýnt fram á vandamál varðandi hreyfanleika hersveita og skort á flutningsgetu, þyrlukosti og öðrum búnaði. Uppbygging herafla í Evrópuríkjum NATO miðaðist við hefðbundnar varnir eigin landsvæðis en eftir lok kalda stríðsins hefur nokkur umbreyting átt sér stað með áherslu á hreyfanlegar hersveitir sem hægt er að senda til fjarlægra staða með skömmum fyrirvara. Breytingarnar hafa þó ekki náð lengra en svo að af 2,4 milljónum hermanna í herjum Evrópuríkja NATO er einungis mögulegt að beita 3–5% heraflans utan heimaríkja sinna og það þyrfti að bæta. Ragnheiður benti þó á að í ljósi hernaðarátakanna í Georgíu hafi umræða blossað upp um að hve miklu leyti væri réttlætanlegt að setja hreyfanleika hersveita í forgang á kostnað hefðbundinna landvarna.
    Á fundi stjórnarnefndar NATO-þingsins var löng umræða um hvernig bregðast skyldi við átökum Rússlands og Georgíu og var samstaða um að ekki væri verjandi að halda áfram óbreyttu samstarfi við Rússa. Fór svo að ákveðið var annars vegar að takmarka þátttöku rússneskra þingmanna í fundum og ráðstefnum NATO-þingsins og hins vegar að stofna sérstakt þingmannaráð NATO-þingsins og georgískra þingmanna.
    Skömmu fyrir ársfund NATO-þingsins var Ásta R. Jóhannesdóttir kjörin varaformaður sérstaks Miðjarðarhafshóps þingsins, sem eins og nafnið gefur til kynna beinir sjónum sínum einkum að samstarfi NATO við ríki Norður-Afríku og Mið-Austurlanda.
    Hinn eiginlegi þingfundur NATO-þingsins fór fram 18. nóvember. Í setningarræðu fráfarandi forseta, portúgalska þingmannsins José Lello, kom m.a. fram að hernaðaraðgerðir Rússa í Georgíu kæmu til með að auka öryggisþörf ríkja á ytri landamærum NATO og þar með vilja Georgíumanna að ganga í bandalagið í óþökk Rússa. Georgía sótti um aðild að NATO til þess að komast inn í samfélag þjóða sem byggja á lýðræðislegum gildum og sameiginlegum vörnum. Þá las Lello þingfundinum kveðju Barack Obama, verðandi Bandaríkjaforseta, sem lýsti stuðningi við störf þingsins og vilja sínum til að vinna náið með nýjum forseta NATO-þingsins sem verður bandaríski fulltrúadeildarþingmaðurinn John Tanner.
    Mikheil Saakashvili, forseti Georgíu, var gestur á þingfundinum og fór hann í ræðu sinni hörðum orðum um Rússa og stríðsátökin við þá. Sagði hann alþjóðalög hafa verið þverbrotin með árásum Rússa í ágústmánuði og framgöngu þeirra í héruðunum Suður-Ossetíu og Abkasíu. Árásin hafi verið skipulögð með margra mánaða fyrirvara og sýndi ljóslega aukna hörku og gamaldags stórveldapólitík í utanríkisstefnu Rússa. Samstaða lýðræðisþjóða innan NATO væri eina svarið við hættulegri hegðun Rússlands og ítrekaði Saakashvili ósk Georgíu um aðild að bandalaginu. Þá greindi Saakashvili frá samstarfi stjórnar og stjórnarandstöðu í Georgíu í krísunni og þeim umbótum sem tryggja eiga aukið gagnsæi í stjórnsýslu landsins.
    Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóri NATO, ávarpaði þingfundinn og fór yfir helstu verkefni bandalagsins árið 2008, svo sem stækkunarmál og spennu vegna þeirra í samskiptum við Rússland, þörfina fyrir betri samræmingu hernaðarlegra aðgerða og borgaralegs uppbyggingarstarfs í Afganistan, og nýjar ógnir á borð við öryggi boðskiptakerfa, orkuframboð, sjórán og fjármálaóstöðugleika. Þá sagði framkvæmdastjórinn mikilvægt að auka skilning almennings í aðildarríkjunum á hlutverki NATO og þar væri þáttur þingmanna mjög mikilvægur. Væntanleg Atlantshafsyfirlýsing sem leiðtogar NATO-ríkjanna munu samþykkja í tilefni af 60 ára afmæli bandalagsins á næsta ári væri vettvangur til þess að skýra grunngildi Atlantshafsbandalagsins jafnt sem framtíðarsýn þess.
    Í fyrirspurnatíma að afloknu ávarpi framkvæmdastjórans tók Ragnheiður E. Árnadóttir til máls um viðbúnað og getu NATO til aðgerða og vitnaði í umræður í öryggis- og varnarmálanefnd þingsins um þau mál. Benti hún á að hin hnattræna fjármálakreppa mun að líkindum hafa neikvæð áhrif á framlög NATO-ríkjanna til öryggis- og varnarmála en á sama tíma kynni efnahagskreppan og sá óstöðugleiki sem henni fylgir að skapa ný átakasvæði og auka eftirspurn eftir friðargæslu NATO. Ragnheiður spurði í þessu ljósi um viðbrögð NATO við fjármálakreppunni. De Hoop Scheffer svaraði því til að erfitt væri að tryggja framlög til varnarmála í efnahagskreppum þegar skiljanlega væri þrýst á um aukin framlög til velferðarmála. Vandinn væri að skýra mikilvægi framlaga til varnar- og öryggismála, t.a.m. þau tengsl sem eru á milli öryggis í Afganistan og þess að fólk sé öruggt gagnvart hryðjuverkaárásum í borgum Evrópu. Biðlaði framkvæmdastjórinn enn til þingmanna um að útskýra þessi tengsl fyrir almenningi í aðildarríkjunum.
    
Nefndarfundir.
    Fulltrúar Íslandsdeildar sóttu einnig ýmsa nefndarfundi og ráðstefnur NATO-þingsins á árinu. Ragnheiður E. Árnadóttir tók þátt í heimsókn varnar- og öryggismálanefndar til Washington D.C. og Seattle í janúar. Þá sótti Ragnheiður fundi sömu nefndar á Ítalíu í maí og Eistlandi og Finnlandi í júní. Ásta R. Jóhannesdóttir tók þátt í fundum miðjarðarhafshóps NATO-þingsins í Kaíró í maí og Abu Dhabi í október.

Alþingi, 10. mars 2009.



Ragnheiður E. Árnadóttir,


form., frsm.


Ásta R. Jóhannesdóttir,


varaform.


Magnús Stefánsson.




Fylgiskjal.

Ályktanir NATO-þingsins árið 2008.



Ársfundur í Valencia, 14.–18. nóvember:
          Ályktun 368 um veginn fram undan í Kósóvó.
          Ályktun 369 um yfirstandandi aðgerðir NATO.
          Ályktun 370 um efnahagslega endurreisn í Afganistan.
          Ályktun 371 um framtíðarsamskipti NATO og Rússlands.
          Ályktun 372 um orku og öryggi.
          Yfirlýsing 364 um átökin á milli Rússlands og Georgíu.