Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 29. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 99  —  29. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Birkis Jóns Jónssonar um niðurgreiðslur á rafmagni til húshitunar á árabilinu 2004–2009.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hver er þróun fjárframlaga til niðurgreiðslna á rafmagni til húshitunar til notenda á köldum svæðum á árabilinu 2004–2009, miðað við verðlag í apríl sl.?

    Niðurgreiðslur vegna rafhitunar eru greiddar af fjárlagalið 11-373. Á árunum 2004–2008 hafa framlög til fjárlagaliðarins numið samanlagt 6.695,6 millj. kr. á verðlagi í apríl 2009. Þar af hafa 5.883,1 millj. kr. runnið til niðurgreiðslna á rafmagni til húshitunar til notenda á köldum svæðum, sem er stærsti útgjaldaliður fjárlagaliðarins. Fjárveiting ársins 2009 nemur 1.176,6 millj. kr. og þar af er áætlað að 939 millj. kr. renni til niðurgreiðslna á rafhitun.
    Miðað við áætlun fyrir árið 2009 er gert ráð fyrir að heildarniðurgreiðslur vegna rafhitunar á árunum 2004–2009 nemi samtals 6.822,1 millj. kr. miðað við verðlag í apríl 2009. Áætlun ársins varðandi niðurgreiðslur gæti breyst lítillega þar sem kyndikostnaður fer nokkuð eftir veðurfari og getur því hækkað ef mjög kalt er í veðri en lækkað ef veður eru mild. Þegar áætlun er gerð varðandi ráðstöfun fjármuna af fjárlagaliðnum ganga niðurgreiðslur fyrir öðrum verkefnum. Auk rafkyndingar eru olíukynding og rekstur einkarafstöðva einnig niðurgreidd. Þá eru framlög til orkusparnaðar, framlög vegna hagkvæmniútreikninga á varmadælum og smávirkjunum og framlög til jarðhitaleitar og stofnstyrkja hitaveitna. Einnig er greitt fyrir umsjón og eftirlit Orkustofnunar.
    Á árunum 2004–2008 var mikill uppgangur í uppbyggingu hitaveitna og fjárþörf vegna stofnstyrkja mun meiri en fjárframlög til verkefnisins. Á fjáraukalögum 2007 voru veittar 55 millj. kr. til fjárlagaliðar 11-373 og 151 millj. kr. árið 2008. Framangreindar fjárveitingar runnu óskiptar til stofnstyrkja hitaveitna og hefur nú tekist að afgreiða allar umsóknir um stofnstyrki til hitaveitna sem bárust á umræddu tímabili. Þá var 147,5 millj. kr. varið til jarðhitaleitar á árunum 2007–2009 í tengslum við mótvægisaðgerðir vegna þorskaflaskerðingar.
    Í eftirfarandi töflu má sjá framlög til niðurgreiðslna vegna rafhitunar auk annarra verkefna sem greitt er fyrir af fjárlagalið 11-373 á árunum 2004–2008. Allar tölur eru miðaðar við verðlag í apríl 2009. Í töflunni er einnig tilgreint hversu margir nutu niðurgreiðslna á tímabilinu. Rétt er að benda á að mikil uppbygging hefur átt sér stað á svæðum sem ekki hafa hitaveitu, sérstaklega á Austurlandi, og því má ljóst vera að ef ekki hefði komið til uppbyggingar nýrra hitaveitna hefði fjöldi þeirra sem rétt eiga á niðurgreiðslum verið mun meiri en raun ber vitni.

2004 2005 2006 2007 2008
Niðurgreiðslur vegna rafhitunar 1.136,8 1.273,2 1.252,6 1.182,0 1.038,5
Niðurgreiðslur v. olíukyndingar og einkarafstöðva 10,3 11,7 11,3 10,3 13,8
Orkusparnaðarátak 12,4 13,7 13,7 13,4 12,4
Varmadælur og smávirkjanir 14,3 13,8 10,1 11,9 1,6
Umsjón og eftirlit Orkustofnunar 20,1 19,3 18,1 17,2 15,3
Jarðhitaleit 43,7 0 0 15,3 16,4
Stofnstyrkir til hitaveitna 64,5 74,9 85 106,7 141,4
Samtals 1.302,1 1.406,6 1.390,8 1.356,8 1.239,3
Íbúafjöldi með niðurgreiðslur 36.204 37.033 37.728 36.680 36.550
Íbúafjöldi á Íslandi 1. desember ár hvert 293.291 299.404 307.271 312.872 319.750