Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 528. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 917  —  528. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um frumkvæði að almennu hvatningarverkefni til að efla innlenda framleiðslu og fjölga störfum.

Flm.: Sigurður Ingi Jóhannsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson,


Eygló Harðardóttir, Guðmundur Steingrímsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hafa frumkvæði að samstarfi við aðila vinnumarkaðarins á grundvelli stöðugleikasáttmálans að almennu hvatningarverkefni til að efla innlenda framleiðslu og sölu á innlendum afurðum og þar með fjölga störfum. Lagt er til að verkefnið verði kallað Íslenskt, já takk, hefjist sumarið 2010 og standi út árið hið minnsta.

Greinargerð.


    Á núverandi erfiðleikatímum með vaxandi atvinnuleysi er mikil þörf á að hvetja landsmenn til að kaupa íslenskar vörur og þar með efla innlenda framleiðslu og fjölga störfum. Slík hvatning hefur áður sýnt sig skila miklu til eflingar innlendrar framleiðslu. Nú þegar við þurfum á öllum okkar gjaldeyri að halda til að standa skil á erlendum skuldum og innflutningi á nauðþurftum sem við getum ekki framleitt innan lands er mikilsvert að auka hlutdeild innlendrar framleiðslu sem mest. Það sparar gjaldeyri, fjölgar störfum í framleiðslu og styður þannig margfalt við að koma hjólum atvinnulífsins af stað á nýjan leik. Með því að efla innlenda framleiðslu og hvetja landsmenn til kaupa íslenskt styðjum við marga þætti, svo sem gjaldeyrissparnað og fjölgun starfa, aukum og breikkum skattstofn og bætum öryggisstaðla með því að vera sjálfbjarga á enn fleiri vegu en við erum nú o.s.frv.
    Verkefnið Íslenskt, já takk hefur áður verið notað til að efla innlenda framleiðslu og sölu á innlendum vörum með góðum árangri. Árið 1996 stóð ríkisvaldið ásamt aðilum vinnumarkaðarins að verkefni á landsvísu sem vakti mikla athygli. Á liðnum missirum hafa Samtök iðnaðarins jafnframt staðið fyrir minni auglýsingaherferðum undir sama heiti. Það er því sjálfsagt mál að nýta hið jákvæða viðhorf sem Íslenskt, já takk hefur meðal landsmanna til að vera vörumerki hvatningarverkefnisins.
    Það er afar mikilvægt á hverjum tíma og ekki síst á viðsjárverðum efnahagstímum eins og nú að hvetja til kaupa á innlendri framleiðslu. Öll þekkjum við til hvernig til að mynda Frakkar, Þjóðverjar og Danir, svo að einhverjar Evrópuþjóðir séu nefndar, velja og verja sína eigin framleiðslu með ýmsum hætti. Má þar nefna fánamerkingar og sérmerkingar aðrar, eins og vöruheiti sem ekki má nota á aðrar sambærilegar vörur í heiminum. Í kreppunni vörðu þjóðir Evrópu miklum fjármunum til að verja sína eigin framleiðslu, til að mynda á bílum, og svo mætti lengi telja.
    Samstarf ríkisvaldsins og allra aðila á vinnumarkaði væri eftirtektarvert átak sem án nokkurs vafa skilaði miklu til eflingar innlendrar framleiðslu. Með þingsályktun sem hér er gerð tillaga um er ríkisstjórninni allri falið að hafa frumkvæði að samstarfi við alla aðila á vinnumarkaði til að koma verkefninu á laggirnar. Sérstaklega er rétt að nefna forsætisráðuneytið, iðnaðarráðuneytið og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti. Ráðherrar þessara ráðuneyta ættu ásamt fjármálaráðherra að mynda starfshóp sem stýrði undirbúningsvinnunni að samstarfinu við aðila vinnumarkaðarins. Lagt er til að vinnunni verði hraðað þannig að átakið geti hafist strax sumarið 2010 og staðið í hálft ár hið minnsta eða eins lengi og samstarfsaðilarnir telja æskilegt.