Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 595. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1069  —  595. mál.
Svarforseta Alþingis við fyrirspurn Birgittu Jónsdóttur um ákærur vegna atburða í Alþingishúsinu og við það 8. desember 2008.

     1.      Með hvaða hætti var tekin ákvörðun um aðkomu Alþingis að ákærum gegn níu einstaklingum vegna atburða sem áttu sér stað í Alþingishúsinu og við það 8. desember 2008?
    Þegar þingfundur hófst á Alþingi kl. 3 síðdegis mánudaginn 8. desember 2008 opnuðu þingverðir bakdyr Alþingishússins til þess að gestir, sem þess óskuðu og fylgdu almennum reglum, kæmust á þingpalla. Þegar fyrstu pallagestir voru komnir í húsið kom hópur manna í kjölfarið og ruddi sér leið fram hjá þingvörðum, sumir með klúta fyrir andliti, og komst upp í stigagang Alþingishússins. Sex þingverðir og lögreglumaður, sem var á vakt í þinghúsinu, lentu í átökum við hópinn þegar hann var stöðvaður. Ýmsir þeirra hlutu meiðsl í átökunum sem kunna að vera varanleg.
    Strax í kjölfarið var farið nákvæmlega yfir myndbandsupptöku sem sýndi hvernig hópurinn þröngvaði sér inn í þinghúsið. Þá áttu aðallögfræðingur Alþingis og forstöðumaður rekstrar- og þjónustusviðs samtöl við þingverðina og lögreglumanninn um atvikið. Myndbandsupptakan sýnir að þingvörður, sem átti að gæta inngangsins, var yfirbugaður til að tryggja að mannsöfnuðurinn kæmist óhindraður inn í húsið. Því mátti ætla að hann væri ekki kominn í friðsamlegum tilgangi. Af samtölunum við þingverði og lögreglumanninn varð enn fremur ráðið að hópurinn skirrðist ekki við að beita líkamlegu valdi til að komast í tæri við þingmenn sem sátu í þingsalnum á fundi. Það var því mat aðallögfræðings Alþingis að rík ástæða væri til að málið yrði rannsakað af lögreglu með tilliti til þess hvort ákvæði almennra hegningarlaga, einkum 106. gr. þeirra, hefðu verið brotin. Þar sem ekki var ljóst hvort lögreglan mundi eiga frumkvæði að rannsókn málsins ákvað skrifstofustjóri Alþingis að óska eftir því bréflega fyrir hönd skrifstofu Alþingis og þeirra starfsmanna, sem í átökunum lentu, að málið yrði tekið til lögreglurannsóknar. Áður hafði málið verið borið undir starfsmennina sem hlut áttu að máli.

     2.      Hver óskaði eftir rannsókn málsins og í umboði hvers var það?
    Um fyrri liðinn í þessari spurningu er vísað til svars við 1. tölul. Skrifstofustjóri Alþingis fer með ráðningarvald yfir öðrum starfsmönnum þingsins og ber ábyrgð á rekstri skrifstofu Alþingis, sbr. 11. gr. þingskapalaga, nr. 55/1991, sbr. 6. gr. laga nr. 68/2007. Hann er því forstöðumaður skrifstofunnar í skilningi laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Eins og fram hefur komið urðu starfsmenn þingsins fyrir meiðslum í átökum meðan þeir gegndu skyldustörfum fyrir Alþingi. Forseti Alþingis lítur svo á að á skrifstofustjóra Alþingis hvíli sjálfstæð skylda til að standa vörð um öryggi starfsmanna Alþingis sem og alþingismanna. Að mati forseta er augljóst að skrifstofustjórinn var bær til að taka sjálfstæða ákvörðun um hvort óskað yrði eftir rannsókn á atvikinu. Til þess þurfti hann hvorki atbeina forseta né annarra eins og ýjað er að í spurningunni.
    Þá er til þess að líta að lögreglurannsókn á atvikinu var ekki háð því að sá sem misgert var við eða bar ábyrgð á starfseminni sem brotið var á óskaði eftir henni. Beiðni um rannsókn var því ekki nauðsynleg forsenda þess að rannsóknin færi fram. Hver sem bjó yfir upplýsingum um atburðinn gat aftur á móti vakið athygli lögreglu á að efni væri til að rannsaka málið.
    Það er grundvallarregla í réttarríki að þeir sem hafa gerst sekir um refsiverða háttsemi sæti ákæru og séu beittir lögmæltum viðurlögum. Að því vinna lögregla, handhafar ákæruvalds og dómstólar hér á landi sem starfa sjálfstætt og af hlutlægni. Mikilvægt er að þessir aðilar fái svigrúm til að meta atvik í réttu ljósi og án utanaðkomandi þrýstings.

     3.      Er það rétt sem fram kom í máli verjanda tveggja hinna ákærðu fyrir héraðsdómi að skrifstofa Alþingis hafi haft aðkomu að málinu og ef svo er, hver var sú aðkoma og hver var formlegur grundvöllur hennar?
    Sjá svar við fyrri töluliðum fyrirspurnarinnar.