Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 541. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Prentað upp.

Þskj. 1406  —  541. mál.
Leiðrétt tafla.




Svar



félags- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur um hjúkrunarrými, heimahjúkrun og heimaþjónustu.

     1.      Hve mörg hjúkrunarrými eru hér á landi og hver er meðallegutími?
    Í maí 2010 voru 2.529 hjúkrunarrými skráð á landinu. Meðallegutími er 3,32 ár.

     2.      Hvað er ráðgert að mörg ný hjúkrunarrými verði tilbúin á næstu árum?
    Í framkvæmdaáætlun um byggingu nýrra hjúkrunarrýma og fjölgun einbýla árin 2008 - 2012 sem kynnt var 12. ágúst 2008 var gert ráð fyrir 400 nýjum hjúkrunarrýmum sem viðbót við þau hjúkrunarrými sem þá voru í notkun og auk þess 380 rýmum til að breyta fjölbýlum í einbýli.
    Vegna erfiðrar stöðu ríkissjóðs hefur ekki orðið af áformum um fjölgun hjúkrunarrýma en ráðgert er að 60 ný hjúkrunarrými verði tekin í notkun árið 2012. Hins vegar er mikið um nýbyggingar til að leysa af hólmi eldri hjúkrunarrými og vinna að því marki að fjölga einbýlum. Í Boðaþingi í Kópavogi var tekið í notkun nýtt húsnæði fyrir 44 hjúkrunarrými í mars sl. og nýtt húsnæði fyrir 110 hjúkrunarrými við Suðurlandsbraut í Reykjavík verða tekin í notkun í september í ár. Nýtt húsnæði er í byggingu á Jaðri í Snæfellsbæ og hönnunarsamkeppni stendur yfir varðandi hönnun nýs húsnæðis fyrir Hulduhlíð í Fjarðabyggð.
    Í október 2009 fól ríkisstjórnin félags- og tryggingamálaráðherra að vinna áfram, í samstarfi við fjármálaráðuneytið, að samningsgerð við níu sveitarfélög um byggingu 361 hjúkrunarrýmis þar sem megináhersla er lögð á að bæta aðbúnað og aðstöðu einstaklinga og starfsfólks en áætlað er að raunfjölgun rýma verði aðeins 60. Nú þegar hefur verið skrifað undir samninga við sex sveitarfélög og verður leigukostnaður greiddur úr Framkvæmdasjóði aldraðra.

     3.      Hvað kostar að reka eitt hjúkrunarrými á ári?
    Hjúkrunarrými eru rekin á daggjöldum sem taka m.a. mið af hjúkrunarþörf þeirra einstaklinga sem þar dveljast. Miðað við meðalhjúkrunarþyngd á landinu árið 2010 kostar um 7,8 millj. kr. að reka eitt hjúkrunarrými á ári.
    Daggjald á að standa undir öllum rekstrarkostnaði heimilisins. Má þar nefna allan umönnunarkostnað og aðhlynningu, heilbrigðisþjónustu, lyf, ákveðin hjálpartæki, fæði, lín, þvott á fatnaði og líni og rekstur húsnæðis.

     4.      Hvert er hlutfall hjúkrunarrýma hér á landi í samanburði við nágrannaríki, greint eftir fjölda aldraðra og sundurliðað eftir löndum?
    Eftirfarandi tölur eru frá árinu 2007 og koma frá Hagstofu Íslands. Nýrri tölur liggja ekki fyrir. Hér er um að ræða samanburð á öldrunarrýmum milli nokkurra landa en inn í þessar tölur eru ekki tekin öldrunarrými á heilbrigðisstofnunum.

Lönd Fjöldi rýma Á 1.000 íbúa Á 1.000 íbúa
65 ára og eldri
Ástralía 163.739 7,8 59,3
Bandaríkin 1.613.942 5,4 42,6
Belgía 128.180 12,1 70,6
Danmörk 14.793 2,7 17,5
Finnland 51.487 9,7 59,0
Ísland* 2.179 7,0 60,6
Ítalía 204.251 3,5 17,6
Japan 726.701 5,7 26,5
Kórea 51.310 1,1 10,7
Lúxemborg 3.284 6,9 49,2
Noregur 41.257 8,8 59,9
Pólland 88.328 2,3 17,2
Slóvakía 30.567 5,7 47,4
Sviss 87.960 11,7 71,5
Svíþjóð 134.603 14,7 84,4
Tékkland 31.221 3,0 20,9
Ungverjaland 88.525 8,8 54,8
Þýskaland 799.059 9,7 48,0
*    Ef öldrunarrými á heilbrigðisstofnunum eru hins vegar tekin með verður heildarfjöldi hjúkrunarrýma á Íslandi 2.562 (heildarfjöldi hjúkrunarrýma árið 2007). Það gerir 8,2 rými á 1.000 íbúa og 70,1 rými á á 1.000 íbúa 65 ára og eldri.


     5.      Hver er meðallegutími í nágrannaríkjunum?
    Meðallegutími í hjúkrunarrými á Norðurlöndunum er u.þ.b. tvö ár. Samanburður er erfiður, þar eð forsendur að baki skilgreiningum á því hvað telst vera hjúkrunarrými (e. long term care) fyrir aldraða geta verið ólíkar. Ef litið er til Norðurlandanna og Kanada virðist meðallegutími vera á bilinu 2–2,5 ár.

     6.      Hvert er þjónustustig heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu við aldraða hér á landi í samanburði við nágrannaríki?
    Ef átt er við hversu mikla þjónustu er unnt að veita er erfitt að bera það saman milli landa, m.a. vegna þess hve uppbygging þjónustunnar er ólík. Á Íslandi er einnig mjög mismunandi milli sveitarfélaga hvaða þjónusta er veitt. Einungis í fáum sveitarfélögum er unnt að fá heimahjúkrun eða félagslega heimaþjónustu á kvöldin, um nætur eða um helgar.

     7.      Hve mikla þjónustu er unnt að veita í heimahjúkrun og heimaþjónustu sveitarfélaga svo að það teljist fjárhagslega hagkvæmara en þjónusta í hjúkrunarrými?
    Kostnaður við vikudvöl í hjúkrunarrými er sambærilegur við 25-26 heimsóknir heimahjúkrunar fyrir sama tímabil. Hver heimsókn reiknast þá 30 mínútur.
    Félags- og tryggingamálaráðuneytinu hefur ekki reynst unnt að fá nægilega nákvæmar kostnaðarupplýsingar varðandi félagslega heimaþjónustu svo unnt sé að svara spurningunni varðandi þann þátt en ljóst er að margir sem fá heimahjúkrun fá einnig félagslega heimaþjónustu. Ef sama fjárhæð væri notuð til að mæta kostnaði bæði við heimahjúkrun og félagslega heimaþjónustu má ætla að fjöldi heimsókna gæti orðið meiri því kostnaður við heimsókn heimahjúkrunar er hærri en kostnaður við heimsókn félaglegrar heimaþjónustu. Í fyrirspurninni er einungis spurt um hve mikla heimahjúkrun og heimaþjónustu sveitarfélaga sé unnt að veita til að það teljist hagkvæmara en þjónusta í hjúkrunarrými. Í því sambandi er rétt að taka fram að annar kostnaður fellur einnig til á hjúkrunarheimilum, svo sem matur, lyf og önnur heilbrigðisþjónusta.