Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 422. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 899  —  422. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur um valdheimildir Evrópusambandsins á sviði orkuauðlinda.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Gerir Evrópusambandið í þeim samningaviðræðum sem nú standa yfir ráð fyrir að auka valdheimildir sínar hér á landi varðandi stjórn orkuauðlinda í þágu heildarhagsmuna sambandsins?

    Formlegar samningaviðræður við Evrópusambandið hefjast ekki fyrr en lokið er svokallaðri rýnivinnu, þar sem löggjöf Íslands og löggjöf ESB er borin saman í því skyni að finna út hvar ber á milli og hvað þarf að semja um. Þessi rýnivinna stendur nú yfir og er síðasti rýnifundur áætlaður 17. júní nk. Þegar rýnivinnu er lokið hefjast svo eiginlegar samningaviðræður um einstaka kafla löggjafar ESB þar sem samningsafstaða Íslands og ESB er lögð fram. Aðilar skiptast á samningsafstöðu þar til sameiginleg niðurstaða hefur náðst þannig að loka megi viðræðum með formlegum hætti, kafla fyrir kafla.
    Á þessum tímapunkti er því ekki unnt að segja til um hver samningsafstaða ESB verður á sviði orkumála þegar til formlegra samningaviðræðna kemur, að lokinni rýnivinnu. Þess ber hins vegar að geta að ein af grundvallarreglum í orkustefnu Evrópusambandsins er að virða beri sjálfsákvörðunarrétt aðildarríkja þegar kemur að nýtingu orkuauðlinda í eigu þeirra. 1
    Í 2. mgr. 194. gr. Lissabon-sáttmála Evrópusambandins frá 2008 eru valdmörk Evrópusambandsins og aðildarríkja skilgreind með formlegum hætti hvað varðar orkumál og orkuauðlindir. Í málsgreininni er kveðið á um að Evrópuþingið og ráðið skuli, á grundvelli hefðbundins lagasetningarferils (e. codecision), samþykkja þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru til að ná markmiðum 1. mgr. 194. gr. að höfðu samráði við efnahags- og félagsmálanefndina (e. Economic and Social Committee) og svæðanefndina (e. Committee of the Regions). Í 2. mgr. 194. gr. er tekið fram að slíkar aðgerðir skuli ekki hafa áhrif á rétt aðildarríkis til að ákveða skilyrði fyrir nýtingu orkuauðlinda þess, val aðildarríkis á mismunandi orkugjöfum og almenna samsetningu orkujafnaðar. 2
    Almennt er því ekki litið svo á að orkuauðlindin sé sameiginleg auðlind ESB-ríkjanna heldur er forræði á nýtingu orkuauðlindar hvers aðildarríkis háð sjálfsákvörðunarrétti þess.
Neðanmálsgrein: 1
1     „Fully respect Member States sovereignty over primary energy sources.“ (Council conclusions: „A New Energy Policy for Europe“ – Contribution of the Energy Ministers to the 2006 Spring European Council. 6878/06.) Á fundum leiðtogaráðs ESB (European Council) 23.–24. mars 2006 og 8.–9. mars 2007 var ítrekað að virða beri sjálfsákvörðunarrétt aðildarríkjanna varðandi nýtingu orkuauðlinda.
    Sjá: www.consilium.europa.eu/ueDocs/cms_Data/docs/pressData/en/ec/89013.pdf (bls. 16) og register.consilium.europa.eu/pdf/en/07/st07/st07224.en07.pdf (bls. 11).
Neðanmálsgrein: 2
2     „Member State's right to determine the conditions for exploiting its energy resources, its choice between different energy sources and the general structure of its energy supply“.