Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 265. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 495  —  265. mál.
Svarvelferðarráðherra við fyrirspurn Guðmundar Steingrímssonar um Tryggingastofnun ríkisins og Sjúkratryggingar Íslands.


     1.      Hefur reynslan af uppskiptingu Tryggingastofnunar ríksins (TR) í TR og Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) verið metin af óháðum aðila frá því að hún átti sér stað 1. október 2008?
    Ekki hefur farið fram heildarmat á uppskiptingu TR og SÍ. Í febrúar 2010 óskaði heilbrigðisráðuneytið eftir því að Ríkisendurskoðun gerði stjórnsýsluúttekt á uppskiptingunni. Í apríl 2010 var ákveðið að hefja forkönnun fyrir slíka úttekt, að höfðu samráði við fálags- og tryggingamálaráðuneytið. Ríkisendurskoðun komst síðan að þeirri niðurstöðu að ekki þætti rétt að vinna sérstaka úttekt á uppskiptingunni þar sem allar nauðsynlegar upplýsingar lægju fyrir.
    Í febrúar 2011 ákvað velferðarráðuneytið að láta kanna stöðu Sjúkratrygginga Íslands og Tryggingastofnunar ríkisins með sérstakri áherslu á samvinnu og samskipti þessara tveggja stofnana. Ekki átti að fara í viðamikla úttekt heldur einfaldari athugun þar sem einkum yrði fjallað um framgang eftirfarandi atriða:
          Markmið sem sett voru við uppskiptingu þáverandi Tryggingastofnunar ríkisins.
          Hagræðingu og almennar umbætur í starfsemi.
          Uppbyggingu nýrrar starfsemi og þá sérstaklega á grundvelli samningakafla sjúkratryggingalaga (samningar um heilbrigðisþjónustu).
          Samvinnu og samskipti stofnananna á grundvelli þjónustusamnings.
          Frágang fjárhagslegra þátta uppskiptingarinnar.
          Skoðuð yrði sérstaklega þróun starfsmanna frá setningu laganna og þróun kostnaðar.
    Verkefnið var unnið af sömu ráðgjöfum og komu að uppskiptingunni á sínum tíma. Helstu niðurstöður þessarar athugunar lágu fyrir í apríl 2011 og koma þær fram í svari við 2. tölul. fyrirspurnarinnar.

     2.      Ef svo er, hverjar eru meginniðurstöður þess mats? Hafa markmið uppskiptingarinnar náðst?
    Helstu niðurstöður áðurnefndrar athugunar voru:
     a.      Þróun stofnananna frá uppskiptingu hefur verið jákvæð.
     b.      Verkefnum stofnananna er nú betur sinnt en fyrir uppskiptingu.
     c.      Tækifæri til að þróa ný vinnubrögð og aðferðir hafa þó ekki verið nýtt sem skyldi.
     d.      Samstarf stofnananna hefur ekki gengið eins og lagt var upp með og mörg álitaefni enn óleyst.
     e.      Stefna og ákvarðanir stofnananna hafa dregið úr samþættingu og mögulegum kostnaði fulls aðskilnaðar.
     f.      Þörf fyrir samstarf stofnananna virðist minnka.
     g.      Ekki eru vísbendingar um hagkvæmni þess að sameina stofnanirnar að nýju.

    Markmiðið með uppskiptingu TR og SÍ var tvíþætt:
     a.      Að einfalda og nútímavæða þjónustuna;
     b.      Að skapa forsendur fyrir breytingum á stýringum og fjárstreymi í heilbrigðiskerfinu.
    Niðurstaða fyrrgreindrar athugunar benda til að fyrra markmiðinu hafi verið náð. Síðara markmiðinu hefur hins vegar ekki verið náð og því hefur gildistöku samningsákvæðis laganna verið frestað og fyrir Alþingi liggur frumvarp þar sem gildistökunni er enn frestað um eitt ár. Uppbygging og rekstur SÍ er í frekari skoðun.

     3.      Kemur til greina að sameina aftur TR og SÍ í ljósi stefnu ríkisstjórnarinnar um sameiningu stofnana? Hefur hagræðing slíkrar sameiningar verið metin?
    Á vegum ráðuneytisins er nú unnið að endurskoðun fjölmargra þátta velferðarþjónustunnar, þ.m.t. starfsemi stofnana og mögulegum breytingum sem gætu í senn stuðlað að aukinni hagræðingu og betri þjónustu við einstaklinga. Starfsemi Tryggingarstofnunar og Sjúkratrygginga er hér ekki undanskilin. Þessi endurskoðun takmarkast hins vegar ekki við hugsanlega sameiningu einstakra stofnana heldur nær hún einnig til aukins samstarfs einstakra stofnana og frekari samhæfingar ýmissa þjónustuþátta. Þannig er nú unnið að heildarendurskoðun á lögum um almannatryggingar, undirbúningi að auknu og víðtæku velferðareftirliti, samræmingu bótagreiðslna o.fl. Stefnt er því að ljúka þessari vinnu á næsta ári.

     4.      Hver var, á föstu verðlagi, rekstarkostnaður TR á árunum 2005–2007, sundurliðaður eftir árum, og hver var samanlagður rekstarkostnaður TR og SÍ á árunum 2008–2010, sundurliðaður eftir árum?
    Meðfylgjandi mynd sýnir þróun fjárveitinga til rekstrar Sjúkratrygginga Íslands, SÍ, og Tryggingastofnunar ríkisins, TR, á verðlagi hvers árs, fyrir hvora stofnun fyrir sig og samanlagðan rekstur beggja. Svo virðist sem fjárheimildir stofnananna hafi þróast með svipuðum hætti.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Heimild:Velferðarráðuneytið.
                         Heimild:Velferðarráðuneytið.

    Meðfylgjandi tafla sýnir rekstrartölur TR fyrir árin 2005–2007 og fyrir SÍ og TR fyrir árin 2008–2010. Tölur eru á föstu verðlagi ársins 2010 miðað við vísitölu neysluverðs.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Heimild: Sjúkratryggingar Íslands og Tryggingastofnun ríkisins.