Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 473. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 829  —  473. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Kristjáns Þórs Júlíussonar
um niðurfellingar af íbúðalánum hjá Íbúðalánasjóði.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hversu háa fjárhæð hefur Íbúðalánasjóður fellt niður af íbúðalánum heimilanna og hversu margir einstaklingar eiga í hlut?

    Sé miðað við þau úrræði sem í boði hafa verið frá 2008 hafði Íbúðalánasjóður afskrifað í byrjun febrúar 2012 rétt tæpa 8 milljarða kr. hjá 2.976 heimilum. Mestur hluti afskrifta var vegna 110% leiðar eða 7,2 milljarðar kr. Í meðfylgjandi töflu gefur að líta þær fjárhæðir sem færðar hafa verið niður og fjölda eigna sem standa þar að baki. Af þeim heimilum sem gengið hafa í gegnum 110% leiðina eru 24 heimili tvítalin annars staðar, átta hafa einnig fengið afskrift umfram söluverð og 16 fengið sértæka skuldaaðlögun. Við afskrift krafna umfram söluverð er útbúið glatað veð fyrir fjárhæð umfram söluverð fasteignar og hægt er að sækja um niðurfellingu þess að fimm árum liðnum. Ekki er hægt að sækja um lán að nýju fyrr en veðið er fellt niður. Úrræðið er hugsað til þess að liðka fyrir sölu yfirveðsettra eigna.

Úrræði Upphæðir
í þús. kr.
Fjöldi eigna
Afskrift umfram 110% af verðmæti eignar (samþykkt) 7.182.796 2.752
Afskrift umfram 110% af verðmæti eignar (í vinnslu)* 109.121 32
Afskrift umfram söluverð (100% af verðmæti eignar) 166.363 18
Sértæk skuldaaðlögun (hluti láns getur farið á biðreikning til greiðslu og hluti til afskriftar eða eingöngu annað hvort) 146
Sett á biðreikning til greiðslu eftir 3 ár (sértæk skuldaaðlögun) 166.862 57
Sett á biðreikning til afskriftar eftir 3 ár (sértæk skuldaaðlögun) 347.467 141
Samtals 7.972.609 2.948
Dregið frá vegna tvítalningar –24
Samtals 2.924
* Þessi upphæð gæti hækkað um 200–300 milljónir.

    Um áramótin 2011 og 2012 voru skuldarar lána vegna 56 eigna í greiðsluaðlögun einstaklinga eða tímabundinni greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna. Eftir á að koma í ljós hverjar afskriftir verða vegna þessa.