Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 861. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1692  —  861. mál.




Svar



sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Atla Gíslasonar og Jóns Bjarnasonar um samningsafstöðu Íslands varðandi dýra- og plöntuheilbrigði
í aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

                                  
     1.      Hvernig er staðið að mótun samningsafstöðu varðandi dýra- og plöntuheilbrigði í viðræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu?
    Dýra- og plöntuheilbrigði fellur undir 12. kafli aðildarviðræðnanna. Stærstur hluti löggjafar ESB á sviði kaflans fellur undir EES-samninginn. Sú löggjöf kaflans sem fellur utan EES-samningsins varðar dýraheilbrigði annars vegar og dýravelferð hins vegar.
    Við mótun samningsafstöðu í 12. kafla var einkum höfð hliðsjón af áliti meiri hluta utanríkismálanefndar um tillögu til þingsályktunar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu (137. löggjafarþing, þingskjal 249). Þar kemur m.a. fram að líta beri til þeirra undanþágna, aðlagana og sérlausna sem sóst hefur verið eftir og fengist hafa í tengslum við EES-samninginn sem fordæmis um hvernig semja megi að nýju um þessi mál í aðildarviðræðunum og varðveita þær aðlaganir sem fengist hafa í EES-samstarfinu sé þeirra enn þörf. Stór hluti þeirra krafna sem settar verða fram varðandi dýra- og plöntuheilbrigði í viðræðunum um aðild Íslands að ESB á þannig rætur að rekja til meirihlutaálitsins. Sumar þeirra eru að auki nefndar sérstaklega í álitinu. Á það við um kröfuna um að tryggja áfram öflugar sjúkdómavarnir, vernd viðkvæmra búfjárstofna og heilbrigði matvæla, kröfuna um áframhaldandi bann við innflutningi lifandi dýra, kröfuna um heimildir til að fóðra jórturdýr með fiskimjöli, reglur um viðbrögð við riðu í sauðfé og kröfuna um að bann gildi áfram við innflutningi á kjöt- og beinamjöli. Byggt er á nálgun og rökstuðningi frá því samið var um þessi mál innan EES.
    Í kjölfar rýnivinnunnar voru skrifaðar þrjár greinargerðir um 12. kafla, um dýraheilbrigði, matvælaöryggi og plöntuheilbrigði. Framan við greinargerðirnar voru birt yfirlit yfir þau atriði sem Ísland hélt sérstaklega á lofti á rýnifundi um kaflann. Þessi gögn voru kynnt og rædd í samningahópi EES I í mars 2011 og gafst fulltrúum hópsins kostur á að hafa áhrif á efni og efnistök. Þau atriði sem sérstaklega var haldið á lofti voru þau sem einkum koma til skoðunar í samningaviðræðunum og voru þau fleiri en þau atriði sem rekja má beint til meirihlutaálitsins. Þau atriði sem bættust við voru einkum krafa um áframhaldandi bann við innflutningi á hráu kjöti, eggjum, ómeðhöndluðum skinnum og húsdýraáburði og krafan um áframhaldandi bann við innflutningi tiltekinna ættkvísla skógartrjáa og tiltekinna grænmetisplantna. Í þessari vinnu – og með hliðsjón af meirihlutaálitinu – var lagður grunnur að skilgreiningu samningsmarkmiðanna sem síðar voru færð inn í samningsafstöðuna.
    Er íslenskum stjórnvöldum hafði borist rýniskýrsla ESB um 12. kafla hófst ritun samningsafstöðu sem inniheldur samningsmarkmiðin sem skilgreind höfðu verið svo sem lýst er hér fyrr. Einni kröfu var þó bætt við sem ekki hafði áður verið skilgreind og varðar hún aðlögunartíma til að innleiða tilskipun ESB um lágmarkskröfur um velferð varphænsna. Drög að samningsafstöðunni voru unnin af formanni samningahóps EES I og hlutaðeigandi sérfræðingum innan stjórnsýslunnar. Er drög lágu fyrir voru þau lögð fyrir samningahópinn og gafst fulltrúum í honum kostur á að hafa áhrif á efni og efnistök.

     2.      Gerir ráðherra kröfur um undanþágur frá regluverki Evrópusambandsins hvað þennan málaflokk varðar og þá hvaða kröfur?
    Íslensk stjórnvöld hafa undirbúið kröfur um sérlausnir og aðlögunartímabil að því er varðar regluverk Evrópusambandsins á sviði dýra- og plöntuheilbrigðis. Málið bíður nú umfjöllunar í utanríkismálanefnd Alþingis. Kröfurnar eru eftirfarandi:
    – Ísland óskar eftir því að löggjöf sambandsins um dýraheilbrigði og löggjöf sambandsins um viðskipti með lifandi dýr gildi ekki að því er varðar Ísland.
    – Ísland óskar eftir því að reglugerð (EB) nr. 998/2003 um gæludýr gildi ekki um Ísland eða að fundnar verði leiðir til að viðhalda núverandi fyrirkomulagi innan ramma reglugerðarinnar.
    – Ísland óskar eftir því að viðkomandi ákvæðum tilskipana 89/662/EB, 90/425/EB, 92/118/EB, 2002/99/EB, reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 206/2009 og afleiddum lögum verði ekki beitt til þess að unnt verði að viðhalda núverandi fyrirkomulagi vegna innflutnings á hráu kjöti og hráum eggjum og viðkomandi ákvæðum reglugerðar (EB) nr. 1069/2009 og afleiddra laga varðandi aukaafurðir úr dýrum hvað varðar núverandi fyrirkomulag á innflutningi á ósótthreinsuðum hráum skinnum og húðum, húsdýraáburði og moltu sem blönduð er húsdýraáburði.
    – Ísland óskar eftir að beita ekki ákvæðum reglugerðar (EB) nr. 999/2001, með áorðnum breytingum, varðandi fiskimjöl í fóður fyrir búfé, innflutning á kjöt- og beinamjöli og sérstaka áhættuvefi í nautgripum svo lengi sem Ísland nýtur þeirrar stöðu að vera laust við eða með óverulega hættu á kúariðu samkvæmt Alþjóðadýraheilbrigðisstofnuninni.
    – Ísland óskar eftir aðlögunartíma í allt að 15 ár til að innleiða tilskipun ráðsins 1999/74/EB um lágmarkskröfur um velferð varphænsna, að því er varðar bann við því að halda hænsni í búrum.
    – Ísland óskar eftir því að viðhalda lægra díoxínmagni (5 pg á hvert gramm af fitu) í fiskilýsi en kveðið er á um í reglugerð (EB) nr. 1881/2006.
    – Ísland óskar eftir aðlögunartíma í allt að 10 ár (sem er veittur aðildarríkjum) til að hverfa í áföngum frá núverandi innlendu kerfi með innleiðingu reglugerðar (EB) nr. 1107/2009 um markaðssetningu plöntuvarnarefna.
    – Ísland óskar eftir því að beita ekki löggjöf Evrópusambandsins um plöntuheilbrigði eins og mælt er fyrir um í tilskipun 2000/29/EB og afleiddri eða tengdri löggjöf eða að fundin verði leið til að viðhalda núverandi fyrirkomulagi innan löggjafarinnar.
    – Ísland óskar eftir aðlögunartíma til 2025 til að innleiða markaðstilskipanirnar sem út af standa varðandi sáðvöru og fjölgunarefni. Ísland óskar þó eftir því að halda því banni sem er við innflutningi tiltekinna ættkvísla skógartrjáa (að undanskildum fræjum), þ.e. birki, Betula spp., lerki, Larix spp., greni, Picea spp., furu, Pinus spp., ösp, Populus spp., víði, Salix spp., og álmi, Ulmus spp., og vissra grænmetisplantna (að fræjum undanskildum), þ.e. gúrku, salati, papriku og tómat sem bannað er samkvæmt íslensku löggjöfinni um plöntuheilbrigði.

     3.      Hefur ráðherra fylgt því sérstaklega eftir að samráð við hagsmunaaðila sé tryggt á öllum stigum málsins og ef svo er, þá hvernig?
    Þátttaka hagsmunaaðila í aðildarferlinu fer einkum fram í gegnum samningahópana þar sem hagsmunaaðilar eiga fulltrúa. Í samningahópi EES I sitja fulltrúar eftirtalinna hagsmunaaðila: Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Bændasamtök Íslands, Neytendasamtökin, Samtök atvinnulífsins, Samtök atvinnurekenda og Samtök iðnaðarins. Í erindisbréfi samningahóps EES I kemur fram að haft skuli samráð við samningahóp um landbúnaðarmál að því er varðar matvælaöryggi. Samráðið hefur verið útfært þannig að landbúnaðarhópurinn tilnefndi tvo fulltrúa, einn frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og einn frá Bændasamtökum Íslands og eru þeir boðaðir á fundi hópsins þegar 12. kafli er til umræðu til viðbótar við fasta fulltrúa þessara sömu aðila í samningahópnum. Samráð við hagsmunaaðila hefur verið tryggt á öllum stigum málsins að því er varðar samningsafstöðu Íslands um 12. kafla. Það hefur einkum verið gert með tvennum hætti. Annars vegar með dreifingu allra gagna er málaflokkinn varða meðal fulltrúa í hópnum og hins vegar með fundum í samningahópnum á öllum stigum viðræðuferlisins. Sérstaklega var brugðist við sjónarmiðum Bændasamtaka Íslands sem þótti of skammur frestur vera veittur til að gera athugasemdir við drög að samningsafstöðunni.