Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 142. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 221  —  142. mál.
Svarvelferðarráðherra við fyrirspurn Ásmundar Einars Daðasonar
um tækjakost á Landspítalanum.


     1.      Hversu gömul eru geislatæki Landspítalans?
    Á Landspítalanum eru tvö geislatæki og var eldra tækið keypt 1995 og hið yngra árið 2004.

     2.      Hversu oft hafa tækin bilað á undanförnum þremur árum þannig að senda hefur þurft heim sjúklinga sem hafa verið í meðferð?
    Að mati Landspítalans eru tilvikin um tíu á síðastliðnum þremur árum. Þrátt fyrir aldur tækjanna hefur með hjálp og eftirliti góðra tæknimanna á Landspítalanum tekist að halda þeim í gangi í meira en 99% af virkum tíma.

     3.      Er annar mikilvægur tækjabúnaður í sambærilegu ástandi?
    Talsvert af tækjabúnaði Landspítalans er orðinn gamall, að hluta til úreltur og það getur verið erfiðleikum bundið að fá varahluti. Þetta á jafnt við um smá og stór tæki sem og búnað af ýmsum toga.

     4.      Hvað má gera ráð fyrir að kostnaðurinn við endurnýjun þessara tækja sé hár?
    Landspítalinn lagði í septemberbyrjun sl. fram fjárfestingaráætlun í tækjabúnaði að beiðni velferðarráðherra. Laut áætlunin að búnaði sem áríðandi er að endurnýjaður sé hið fyrsta og þeirra tækja sem þörf er á til að mæta nýjungum í meðferð hérlendis, hliðstætt við það sem gerst hefur annars staðar á Norðurlöndunum. Áætlunin nemur um einum milljarði til tækjakaupa á næstu árum.
    Að beiðni velferðarráðherra hefur nú verið tekin upp sú nýbreytni að í heilbrigðisáætlun er gert ráð fyrir því að fjárfestingaráætlun vegna tækjabúnaðar sjúkrahúsa verði lögð fram á tveggja ára fresti.

     5.      Hvenær er gert ráð fyrir að tækjabúnaður spítalans verði endurnýjaður?
    Nokkur endurnýjun á sér stöðugt stað og það er von ráðuneytisins að slík endurnýjun geti átt sér stað í vaxandi mæli með auknum fjárveitingum til tækjakaupa spítalans.

     6.      Hefur ríkisstjórnin leitað til lífeyrissjóða um fjármögnun tækjabúnaðar fyrir Landspítalann?
    Ríkisstjórnin hefur ekki enn sem komið er leitað til lífeyrissjóða um þessa fjármögnun.