Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 107. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 271  —  107. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Þuríðar Backman, Marðar Árnasonar og
Birkis Jóns Jónssonar um undirritun og/eða fullgildingu
á samningum Evrópuráðsins.


     Hvað líður undirritun og/eða fullgildingu eftirtalinna samninga Evrópuráðsins af Íslands hálfu og hvenær er fyrirhugað að henni verði lokið af hálfu íslenskra stjórnvalda:
     1.      Bókun nr. 12 við mannréttindasáttmála Evrópu (ETS nr. 177),
     2.      Sáttmáli Evrópu um svæðisbundin eða minnihlutatungumál (ETS nr. 148),
     3.      Rammasamningur Evrópuráðsins um vernd minnihlutahópa (ETS nr. 157),
     4.      Félagsmálasáttmáli Evrópu (endurskoðaður) (ETS. nr. 163),
     5.      Viðbótarbókun við félagsmálasáttmála Evrópu (ETS nr. 158),
     6.      Samþykkt Evrópuráðsins gegn spillingu (ETS nr. 174),
     7.      Samþykkt Evrópuráðsins gegn peningaþvætti o.fl. (CETS nr. 198)?


    Ísland hefur undirritað sex framangreindra samninga. Ísland undirritaði samningsviðauka nr. 12 við mannréttindasáttmála Evrópu um bann við mismunun 4. nóvember 2000, Evrópusáttmála um svæðisbundin tungumál og tungumál minnihlutahópa 7. maí 1999, rammasamning um vernd þjóðarbrota 1. febrúar 1995, endurskoðaðan félagsmálasáttmála Evrópu 4. nóvember 1998, samning á sviði einkamálaréttar um spillingu 4. nóvember 1999 og samning um þvætti, leit, hald og upptöku ávinnings af afbrotum og um fjármögnun hryðjuverkastarfsemi 16. maí 2005. Ísland hefur að svo stöddu ekki undirritað viðbótarbókun við félagsmálasáttmála Evrópu þar sem kveðið er á um kerfi fyrir kærur hópa.
    Áður en til fullgildingar alþjóðasamninga kemur meta viðkomandi fagráðuneyti efnisleg áhrif samninga á þeirra sviðum og hvort þau krefjist lagabreytinga svo uppfylla megi skuldbindingarnar sem í þeim felast. Krefjist alþjóðasamningur lagabreytinga tekur fagráðuneyti afstöðu til þess hvort rétt sé að leggja til slíkar breytingar og hvort þær séu tímabærar.
    Utanríkisráðuneytið hefur haft samráð við innanríkisráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið og velferðarráðuneytið vegna þeirra alþjóðasamninga sem hér um ræðir. Vinna er hafin hvað áhrærir hugsanlegar lagabreytingar vegna endurskoðaðs félagsmálasáttmála Evrópu og eftir atvikum viðbótarbókunar við félagsmálasáttmála Evrópu þar sem kveðið er á um kerfi fyrir kærur hópa, samnings á sviði einkamálaréttar um spillingu og samnings um þvætti, leit, hald og upptöku ávinnings af afbrotum og um fjármögnun hryðjuverkastarfsemi. Í tilviki hinna samninganna er það mat hlutaðeigandi fagráðuneyta að ekki sé tímabært að ráðast í lagabreytingar og fullgildingu, m.a. vegna vinnu viðkomandi ráðuneyta við að uppfylla aðrar samningsskuldbindingar.