Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 182. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 304  —  182. mál.




Svar



innanríkisráðherra við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur
um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig er tryggt að kjósendur sem eiga erfiðara en aðrir með að mæta á kjörstað, svo sem vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar eða eru til meðferðar á heilbrigðisstofnunum, eru á hjúkrunar- eða dvalarheimilum eða fangar, fái neytt atkvæðisréttar síns í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október nk.?

    Í lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, nr. 91/2010, segir að fram yfir það sem tilgreint er í þeim lögum fari um þjóðaratkvæðagreiðsluna sjálfa, undirbúning hennar og atkvæðagreiðslu utan kjörstaða og á kjörstað að öðru leyti samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis eftir því sem við á, sbr. 1. mgr. 12. gr. laganna.
    Í 58. gr. laga um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, eru ákvæði um hvernig skuli staðið að atkvæðagreiðslu utan kjörfundar vegna þeirra kjósenda sem eiga erfitt með að mæta á kjörstað þegar svo háttar til sem tilgreint er í spurningunni. Með núgildandi kosningalögum voru gerðar nokkrar breytingar á þágildandi löggjöf til að auðvelda framkvæmd atkvæðagreiðslunnar.
    Í fyrsta lagi var lögfest að sýslumenn (kjörstjórar) gætu ákveðið að atkvæðagreiðsla á aðsetri embætta þeirra færi fram á sérstökum kjörstað utan aðalskrifstofu. Með þessari breytingu var lögfest ákveðið fyrirkomulag sem tíðkað hafði verið í Reykjavík til hægðarauka fyrir kjósendur. Þetta fyrirkomulag hefur haldist síðan í Reykjavík og verið tekið upp t.d. hjá sýslumanninum á Akureyri. Þessi heimild var enn fremur hugsuð til þess að sýslumenn gætu brugðist við og ákveðið sérstakan kjörstað í umdæmi sínu, allt eftir aðstæðum á hverjum stað. Þá var afnumið úr fyrri lögum að sýslumenn þyrftu sérstakt samþykki ráðuneytisins til að fela öðrum en starfsmönnum sínum verkefni kjörstjóra.
    Í öðru lagi var lögunum breytt þannig að kjósandi sem er til meðferðar á sjúkrahúsi eða vistmaður þar eða er heimilismaður á dvalarheimili aldraðra eða stofnun fyrir fatlaða á nú skýlausan rétt á að greiða atkvæði á hlutaðeigandi stofnun eða dvalarheimili aldraðra. Sama gildir um fangelsi og vistmenn þar. Sýslumönnum ber að hlutast til um að kosning á þessum stöðum fari fram. Framkvæmd þessa ákvæðis hefur gengið vel og góð reynsla og þekking hefur áunnist hjá kjörstjórum vegna tíðra kosningu undanfarin missiri.
    Í þriðja lagi var lögunum breytt á sama hátt og að framan greinir vegna kjósenda sem eiga rétt á að greiða atkvæði í heimahúsi vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar. Í þessum tilvikum var slakað á kröfu um vottun á högum kjósanda sem vill fá að greiða atkvæði í heimahúsi. Í stað læknisvottorðs kom vottorð lögráða manns um hagi kjósandans. Þá var ákvæðið rýmkað þannig að kjósandi við þessar aðstæður getur nú lagt fram ósk um að greiða atkvæði í heimahúsi nær kjördegi en áður var ef atvik koma upp sem gera honum ókleift að fara á kjörstað. Er nú miðað við að umsókn hafi borist kjörstjóra kl. 16 á þriðjudegi, miðað við kjördag á laugardegi.
    Í fjórða lagi breyttust lögin þannig að kjörstjóra er ekki einungis skylt að auglýsa hvenær atkvæðagreiðsla utan kjörfundar geti farið fram heldur ber honum einnig að auglýsa hvar atkvæðagreiðslan fari fram. Þá er enn fremur tekið fram í núgildandi lögum að við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar skuli framkvæmd og afgreiðslutíma haga svo að kosning geti gengið sem greiðast og að jafnan sé tekið tillit til aðstæðna á hverjum stað eftir því sem unnt er. Þá var það nýmæli með núgildandi lögum að atkvæðagreiðsla á sjúkrahúsi skuli fara fram sem næst kjördegi. Þá er tekið fram í lögunum að atkvæðagreiðslu utan kjörfundar, þar sem hún á við, skuli skipuleggja í samráði við stjórn hlutaðeigandi stofnunar eða dvalarheimilis aldraðra og í leiðbeiningum sem ráðuneytið gaf út árið 2002 segir að ákvörðun um atkvæðagreiðsluna skuli taka eigi síðar en viku fyrir kjördag. Vitaskuld ráða aðstæður á stofnun eða dvalarheimili aldraðra því hve mikinn tíma þarf að ætla þar til atkvæðagreiðslu, hve nærri kjördegi atkvæðagreiðslan eigi að fara fram og þá einnig hvort ástæða geti verið til að atkvæðagreiðsla fari fram oftar en einu sinni.
    Sýslumenn hafa fylgt þessum lagareglum vel og er framkvæmd þeirra nú orðin með hefðbundnum hætti, ekki síst vegna tíðra kosninga eins og að framan greinir.