Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 6. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 432  —  6. mál.




Svar



innanríkisráðherra við fyrirspurn Ólínu Þorvarðardóttur um gerð hættumats og viðbragðsáætlana á höfuðborgarsvæðinu.


    Leitað var til ríkislögreglustjóra um svör við fyrirspurninni, svar hans er eftirfarandi.

     1.      Hvenær er áætlað að lokið verði við gerð heildstæðs hættumats fyrir eldgos á Íslandi í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar haustið 2011 og hvar er sú vinna nú á vegi stödd?
    Ríkisstjórnin samþykkti sl. haust áætlun um gerð heildstæðs hættumats vegna eldgosa á Íslandi. Hafin er vinna við kortlagningu eldstöðva sem nýtt verður við forgangsröðun verkefnisins. Lagt er upp með að þær eldstöðvar sem taldar eru skapa mesta hættu verði metnar fyrst. Fyrsta hluta verkefnisins á að ljúka á þrem árum en miðað er við að verkefnið í heild fyrir allt landið geti tekið allt að 20 árum.

     2.      Hvað líður gerð hættumats og viðbragðsáætlana vegna yfirvofandi hættu, t.d. vegna náttúruhamfara á höfuðborgarsvæðinu, sbr. lög um almannavarnir, nr. 82/2008, og hvenær er áætlað að henni ljúki?
    Eldgosahætta fyrir höfuðborgarsvæðið er helst frá Reykjaneseldstöðinni og er hún í þeim hluta framangreinds verkefnis sem ljúka á við á fyrstu þrem árum þess. Gerð sértækra viðbragðsáætlana er byggð á niðurstöðum hættumats og verða þær unnar þegar hættumat liggur fyrir á hverju svæði fyrir sig.

     3.      Hvaða hættumat og/eða viðbragðsáætlun er í gildi fyrir höfuðborgarsvæðið vegna hugsanlegra náttúruhamfara eða annarrar bráðrar almannahættu á meðan unnið er að nýju mati og áætlunum, sbr. svar ráðherra í 812. máli á 140. löggjafarþingi?
    Þótt ekki liggi fyrir sértækar viðbragðsáætlanir þá er í almennu neyðarskipulagi almannavarna unnið eftir stjórnskipulagi, verkferlum og gátlistum sem æfðir eru reglulega. Auk þess hefur reynt verulega á skipulagið vegna jarðskjálfta, eldgosa, farsótta og óveðra undanfarinna ára.
    Almennar viðbragðsáætlanir almannavarna eru því til staðar vegna hugsanlegra náttúruhamfara eða annarrar bráðrar almannahættu svo sem eldgosa, jarðskjálfta, fárviðra, snjóflóða, skriðufalla, stórbruna, sprenginga og meiriháttar veitubilana.

     4.      Hvaða viðvörunarkerfi fyrir almenning er í gildi vegna skyndilegrar almannavár eftir að almannavarnaflautur borgarinnar voru aftengdar fyrir fáum árum?
    Á þessu ári var tekið í notkun nýtt boðunarkerfi sem getur sent skilaboð, viðvaranir eða fyrirmæli, t.d. vegna rýminga í alla farsíma á landinu. Neyðarlínan er umsjónaraðili kerfisins en ríkislögreglustjóri tekur ákvörðun um notkun þess í hættuástandi. Í kerfinu er hægt að velja svæði eða einstaka senda í farsímakerfinu og senda skilaboð til þeirra sem þar dvelja. Kerfið nær til farsíma sem skráðir eru á Íslandi og síma ferðamanna og eru skilaboðin send á íslensku og ensku. Auk þess er frá vaktstöð Neyðarlínunnar hægt að senda talskilaboð í alla landlínusíma. Loks er til staðar útsendingabúnaður frá Ríkisútvarpinu í samhæfingar- og stjórnstöð ríkislögreglustjóra í Skógarhlíð sem nýttur er til útsendinga á viðvörunum og upplýsingum til almennings.