Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 312. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 472  —  312. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Þuríðar Backman, Marðar Árnasonar og
Birkis Jóns Jónssonar um fullgildingu Íslands á samningi Evrópuráðsins
um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvað líður fullgildingu samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi (CETS nr. 210, undirritaður í Istanbúl í maí 2011) af Íslands hálfu og hvenær er fyrirhugað að henni verði lokið af hálfu íslenskra stjórnvalda?


    Ísland undirritaði samning Evrópuráðsins um að koma í veg fyrir og berjast gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi í Istanbúl 11. maí 2011.
    Áður en til fullgildingar alþjóðasamninga kemur meta viðkomandi fagráðuneyti efnisleg áhrif samninga á þeirra sviðum og hvort þeir krefjist lagabreytinga svo uppfylla megi skuldbindingarnar sem í þeim felast. Krefjist alþjóðasamningur lagabreytinga tekur fagráðuneyti afstöðu til þess hvort rétt sé að leggja til slíkar breytingar og hvort þær séu tímabærar.
    Um þessar mundir vinna innanríkisráðuneytið og velferðarráðuneytið að því að skoða samning Evrópuráðsins um að koma í veg fyrir og berjast gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi með því að meta efnisleg áhrif hans og greina þær lagabreytingar sem nauðsynlegar eru svo uppfylla megi þær skuldbindingar sem í honum felast. Þar sem þeirri vinnu er ekki lokið er á þessari stundu ekki unnt að segja til um hvenær af fullgildingu getur orðið.