Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 595. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1014  —  595. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000,
með síðari breytingum (kjördæmi, kjörseðill).

Frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 6. gr. laganna:
     a.      Orðið „Bæjarhreppur“ í 1. tölul. fellur brott.
     b.      Orðið „Grímseyjarhreppur“ í 2. tölul. fellur brott.
     c.      Í stað orðanna „Arnarneshreppur, Hörgárbyggð“ í 2. tölul. kemur: Hörgársveit.
     d.      Orðin „Sveitarfélagið Álftanes“ í 4. tölul. falla brott.

2. gr.

    Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 52. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Ef framboðslistar í kjöri eru fleiri en sautján skulu listarnir prentaðir í láréttum röðum. Þess skal gætt að í röðunum sé sem jafnastur fjöldi lista.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til tvenns konar breytingar á lögum um kosningar til Alþingis sem báðar eru tæknilegar lagfæringar. Sú fyrri snýr að því að uppfæra heiti sveitarfélaga sem hafa verið sameinuð frá síðustu kosningum og þar með breytt um heiti og sú síðari varðar skilyrði um gerð kjörseðla miðað við fjölda framboða.
    Í 1. mgr. 6. gr. laga um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, eru listar með sveitarfélögum landsins uppfærðir miðað við breytingar sem orðið hafa við sameiningar sveitarfélaga fram að alþingiskosningum árið 2009, sbr. 2. gr. laga nr. 16/2009. Síðan þá hafa frekari sameiningar tekið gildi og eru í 1. gr. frumvarpsins lagðar til breytingar á greininni til samræmis við þær.
    Í 2. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 1. mgr. 52. gr. laganna sem varða breidd kjörseðla en fyrir liggur að verði framboðslistar fleiri en sautján mun ekki vera hægt að prenta kjörseðla til samræmis við kröfur greinarinnar um að ætla hverju framboði um 6 sm breidd þar sem ekki er unnt með góðu móti að prenta á stærri pappírsörk en 104 sm x 74 sm. Með greininni er því lagt til að verði framboð fleiri en sautján skuli skipta listunum upp og prenta í láréttum röðum. Verði framboð t.d. átján verða níu og níu í hvorri röð. Verði tvær láréttar raðir fylltar verða framboðin því orðin 34 en verði framboðin fleiri skal bætt við láréttri röð eða röðum. Jafnframt er lagt til að þess skuli ætíð gætt að í röðunum sé sem jafnastur fjöldi lista.