Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 436. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1099  —  436. mál.




Svar



fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur um
lánasöfn í eigu Seðlabanka Íslands og dótturfélaga.


    Ráðuneytið leitaði eftir upplýsingum hjá Seðlabanka Íslands. Eru svörin sem hér fylgja byggð á upplýsingum bankans.

     1.      Hver er fjöldi, kröfuvirði og bókfært virði lána til einstaklinga og lögaðila sem eru í eigu dótturfélaga Seðlabanka Íslands, sundurliðað eftir einstökum félögum?
    Miðað við ársreikning Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. (ESÍ) fyrir árið 2011 var bókfært virði krafna á lögaðila um 321 milljarðar kr. og voru þeir á þriðja tug. ESÍ á ekki kröfur á einstaklinga. Miðað við ársreikning Hildu fyrir árið 2011 var bókfært virði krafna á einstaklinga og lögaðila um 32 milljarðar kr. og fjöldi þeirra um 2.100.

     2.      Hvaða skýringar eru á því að Seðlabanki Íslands eða dótturfélög hans skuli nú vera eigendur að beinum kröfum á viðskiptavini fjármálafyrirtækja og hvernig samræmist það hlutverki hans?
                  a.      Hlutverk Seðlabanka Íslands er m.a. að veita fjármálafyrirtækjum dag- og veðlán verði vanskil sem ekki er hægt að bæta úr, svo sem við slit fjármálafyrirtækja. Þá ber Seðlabankanum rétt eins og öðrum lánveitendum að takmarka tjón sitt, innheimta kröfur og ganga að tryggingum. Til að aðgreina hagsmunagæslu vegna bankahrunsins frá öðrum hefðbundnum verkefnum Seðlabankans ákvað bankinn að setja allar kröfur sínar í sérstakt félag, ESÍ.
                  b.      Eins og fram kemur í svari við 4. tölul. fyrirspurnar Margrétar Tryggvadóttur í þingskjali 545 í 437. máli setti SPRON Seðlabankanum að veði skuldabréfasjóð (sambærilegur við sértryggð skuldabréf) sem hefur verið slitið og eignum sjóðsins var ráðstafað til Hildu, sem hafði fengið kröfulýsingu ESÍ framselda. SPRON setti einnig Seðlabankanum að veði skuldabréf í eigu SPRON og Frjálsa fjárfestingarbankans hf., sem slitastjórn úthlutaði upp í veðkröfuna sem þá var komin í eigu Hildu, sbr. svar við 4. tölul. fyrirspurnar í 437. máli. Fyrir í eigu Hildu voru lán til einstaklinga sem Saga Capital hafði veitt.
                  c.      Lána- og skuldabréfasöfn, sem Kaupþing og Glitnir settu Seðlabankanum að veði, voru framseld til Arion banka annars vegar og hins vegar Íslandsbanka sem greiddu fyrir þau með skuldaviðurkenningum sem nú eru í eigu ESÍ, með öðrum orðum lán, sem Glitnir og Kaupþing höfðu veðsett Seðlabankanum, fóru í nýju bankana sem gáfu út skuldabréf eða lánasamning á móti sem aftur var tryggður með hinum veðsettu lánum, sbr. svar við 2. tölul. fyrirspurnar í 437. máli. Í tilfelli SPRON þá voru allar eignir færðar yfir í Dróma, þar á meðal veðskuldabréf sem sett höfðu verið Seðlabankanum að veði. Þau voru síðan framseld til Hildu, sbr. hér að ofan.

     3.      Liggja fyrir einhverjar áætlanir um hvenær og með hvaða hætti fyrrgreind lánasöfn verði færð undan beinu eða óbeinu eignarhaldi Seðlabanka Íslands og dótturfélaga hans og ef svo er, hverjar eru þær?
    Unnið er að áætlun um með hvaða hætti lánasöfn ESÍ og Hildu verða seld, þar þarf m.a. að taka tillit til umfangs og áhrifa slíkrar sölu á hagkerfið, markaði og fjármálastöðugleika.