Ferill 77. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 77  —  77. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um laun forseta Íslands, nr. 10/1990 (laun handhafa).

Flm.: Brynhildur Pétursdóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Svandís Svavarsdóttir.


1. gr.

    1. málsl. 1. mgr. 7. gr. laganna orðast svo: Handhafar forsetavalds skv. 8. gr. stjórnarskrárinnar skulu samanlagt njóta sem svarar til eins tíunda hluta launa forseta þann tíma sem þeir hverju sinni fara með forsetavald um stundarsakir.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2015.

Greinargerð.

    Efnahags- og skattanefnd flutti frumvarp sama efnis á 137. löggjafarþingi (168. mál) og var Magnús Orri Schram þá framsögumaður málsins. Annað frumvarp til laga um breytingu á lögum um laun forseta Íslands var flutt á 143. löggjafarþingi af Árna Þór Sigurðssyni ( 21. mál). Hvorugt málið var tekið til efnislegrar meðferðar.
    Samkvæmt 7. gr. laga um laun forseta Íslands skulu handhafar forsetavalds skv. 8. gr. stjórnarskrárinnar samanlagt njóta jafnra launa og laun forseta eru þann tíma sem þeir hverju sinni fara með forsetavald um stundarsakir og skulu launin skiptast að jöfnu á milli þeirra. Byggist það á 2. mgr. 9. gr. stjórnarskrárinnar en þar segir að ákveða skuli með lögum greiðslur af ríkisfé til forseta og þeirra sem fara með forsetavald. Með frumvarpinu er lagt til að þessar launagreiðslur handhafanna verði lækkaðar verulega frá því sem nú er.
    Greiðslur þessar hafa numið um 10 millj. kr. á ári sl. fimm ár á núverandi verðlagi og lækka því í um það bil 1 millj. kr. á ári verði störf handhafanna framvegis áþekk því sem verið hefur. Lækkunin er ákveðin með hliðsjón af því að eðli málsins samkvæmt eru störf handhafa forsetavalds að mestu takmörkuð við lögbundin störf, svo sem staðfestingu laga, þegar forseti Íslands er erlendis, en ekki heimsóknir, móttökur, setningarávörp og annað af því tagi sem m.a. felst í störfum forsetans. Óheimilt yrði hins vegar talið vegna ákvæða 2. mgr. 9. gr. stjórnarskrárinnar að fella þessar greiðslur niður með öllu og því er lagt til að þær verði lækkaðar verulega. Breytingin hefði í för mér sér sparnað í rekstri forsetaembættisins sé litið til heildarútgjalda. Þá er það mat flutningsmanna að í ljósi kröfu um hagræðingu og sparnað í ríkisrekstri sé eðlilegt að þeir aðilar sem fara með forsetavald í fjarveru forseta gangi fram með góðu fordæmi og taki á sig launaskerðingu þar sem raunverulegt vinnuframlag viðkomandi aðila er ekki í samræmi við þær greiðslur sem ríkið innir af hendi vegna þessa.
    Eftir sem áður er gert ráð fyrir því að handhafar forsetavalds fái greiddan útlagðan kostnað vegna starfans eins og kveðið er á um í 2. mgr. 7. gr. laganna.