131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

7. mál
[11:56]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Mér finnst að þessi umræða hafi um margt verið ákaflega fróðlegt og hún er þörf. Hún hefur líka leitt í ljós ákveðinn grundvallarágreining millum stjórnar og stjórnarandstöðu varðandi megintilgang skattkerfisins.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, er einn helsti talsmaður ríkisstjórnarinnar í skattamálum. Hans viðhorf er bersýnilega það að skattkerfið sé fyrst og fremst til tekjuöflunar en með engu móti beri að nota skattkerfið til jöfnunar. Það er grundvallarmunur á þessu viðhorfi annars vegar og hins vegar því viðhorfi sem að minnsta kosti Samfylkingin og félagar okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði hafa til skattkerfisins. Við lítum svo á að skattkerfið sé ekki síður til jöfnunar. Reyndar höfum við litið svo á að skattkerfið sé eins konar frumáveita og frá því renni í gegnum það og frá uppsprettu þess renni síðan straumar fjármagns sem eiga að fara til þess að styðja ýmsa þá sem þurfa tímabundið eða varanlega á því að halda, í gegnum húsnæðiskerfið, í gegnum heilbrigðiskerfi, í gegnum menntakerfi og í gegnum almannatryggingabótakerfið. Að þessu leyti má segja að þetta sé eins og pólitísk Flóaáveita. Þetta hefur alltaf verið skilningur okkar. Við erum stoltir af því að vera í senn bæði arkitektar og smiðir að þessu kerfi. Þar af leiðandi kemur það líka oftar en ekki í okkar hlut að leiðrétta hugsanlegar skekkjur sem koma fram í burðargrind kerfisins.

Almennt vil ég segja, herra forseti, að umræða um skattamál á sér ýmsa ástæður nú um stundir. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon rakti nokkrar. Það er alveg rétt hjá honum að mikil umræða var um skattamál í aðdraganda kosninganna. Það stafaði ekki síst af því að Sjálfstæðisflokkurinn var að tapa þeim kosningum og tapaði þeim. Hann tapaði 7%, ef ég man rétt, í þeim kosningum og gerði á síðustu metrum kosningabaráttunnar örvæntingarfulla tilraun til þess að kaupa sér atkvæði með gylliboðum um skattalækkanir upp á 30 milljarða. Engin merki eru þess að að standa eigi við öll þau orð og þau loforð sem Sjálfstæðisflokkurinn lagði þá fram. Hins vegar hefur fæðst lítil mús og þessi litla mús er 1% í tekjuskatti. Það á að lækka tekjuskatt um 1%. En jafnvel þó það sé gert er skattheimtan undir forustu Sjálfstæðisflokksins í dag enn meiri en þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sat með þáverandi félaga sínum og fjármálaráðherra, Ólafi Ragnari Grímssyni, í ríkisstjórn 1990. Skattheimtan sem Geir H. Haarde fjármálaráðherra stendur fyrir er enn hærra hlutfall af landsframleiðslu en þegar Ólafur Ragnar Grímsson var fjármálaráðherra.

Þetta er dálítið athyglisvert að skoða, herra forseti, og ekki síst fyrir hæstv. forseta sem hefur ákaflega mikinn áhuga á skattasögunni eins og fram hefur komið í umræðunum um skattamál síðustu daga. Ekki ætla ég samt að fara frekar út í það.

Ástæðan fyrir þessari skattaumræðu er í fyrsta lagi loforð Sjálfstæðisflokksins. Í öðru lagi þessi mikla skattheimta sem hefur átt sér stað undir forustu Geirs H. Haardes og í þriðja lagi sá vöxtur sem hefur verið í hagkerfinu og vekur spurningar um það hvort ekki sé svigrúm til skattalækkana.

Mig langar aðeins að dvelja við það sem ég nefndi hér til sögunnar sem aðra orsök þessarar umræðu, þ.e. hina miklu skattheimtu sem Geir H. Haarde hefur staðið fyrir, og Sjálfstæðisflokkurinn.

Það kom fram undir lok síðasta kjörtímabils í svari við fyrirspurn frá Rannveigu Guðmundsdóttur, hv. þm. Samfylkingarinnar, að skattheimta hefði í öllum tekjuflokkum, bæði hjá einstaklingum og hjónum, aukist frá 1995 til loka kjörtímabilsins 2003. Sá sem staðfesti þetta var enginn annar en hæstv. fjármálaráðherra. Geir Haarde staðfesti það sem sagt að á því tímaskeiði sem hinn mikli skattalækkunarflokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, hefði haft forustu í fjármálum hefði skattheimta af landsmönnum aukist.

Það eru auðvitað mikil tíðindi og merkileg að fjármálaráðherrann skyldi undir lok kosningabaráttunnar neyðast til að staðfesta þetta. Þetta eru hins vegar rök fyrir því að við skoðum það kirfilega hvort ekki sé hægt að lækka skatta.

Þá kem ég að því sem ég vildi ræða: Er svigrúm til skattalækkana? Ég held að svigrúm til skattalækkana sé að skapast. Forsendurnar sem Samfylkingin hefur gefið sér fyrir stuðninginn við einhvers konar skattlækkanir eru í fyrsta lagi að þær leiði ekki til niðurskurðar í velferðarkerfinu. Þá er ég að tala um menntakerfið og heilbrigðiskerfið fyrst og fremst. Í öðru lagi mega skattalækkanir ekki leiða til þess að hér skapist óhófleg þensla í efnahagslífi sem kunni að valda brothættri stöðu, kunni að valda áhlaupi á gengið með tilheyrandi verðbólgu og rýrnun kaupmáttar í framhaldi af því.

Þegar okkar ágætu félagar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði koma með tillögur virði ég það auðvitað. Mér finnst skiljanlegt að menn kanni þessa leið til að afla frekari tekna fyrir ríkið. Sá þingmaður sem nú situr í stóli hæstv. forseta, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, hefur, eins og ég hef þegar á þessum morgni sagt einmitt, verið að velta fyrir sér þeim möguleikum að skapa svigrúm með því að hækka fjármagnstekjuskatt til að aflétta fjármagnstekjuskatti af tugum þúsunda einstaklinga sem borga af smáum upphæðum sem viðkomandi eiga í bönkum og fjármálastofnunum. Það er sjálfsagt að skoða þetta.

Ég hjó eftir því að hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs telja hins vegar nauðsynlegt að fá þessar tekjur inn í ríkissjóð til þess að standa straum af ýmsum nýmælum og ýmsum endurbótum á velferðarkerfinu. Ég vil nefna t.d. gjaldfrjálsan leikskóla. Ég vil þá lýsa því yfir fyrir hönd Samfylkingarinnar, frú forseti, að Samfylkingin styður það að allur leikskólinn verði gjaldfrír. Þetta er stefnumið sem jafnaðarmenn á Norðurlöndum hafa barist fyrir árum saman. Það var mér sérstakt gleðiefni að Vinstri hreyfingin – grænt framboð skyldi taka þetta upp á sína stefnuskrá í kjölfar þess að systur okkar og bræður í Svíþjóð undir forustu Görans Perssons höfðu gert þetta að sterku baráttumáli í síðustu kosningum í Svíþjóð. Hér er um að ræða sameiginlegt baráttumál jafnaðarmanna allra flokka á öllum Norðurlöndunum.

Spurningin er þessi: Er staðan þannig að það þurfi sérstaka skattahækkun til að standa straum af þessu nýmæli? Án þess að ég sé að hafna því sem kemur fram í frumvarpinu tel ég þó að staðan í efnahagslífinu sé slík að það sé líklegt að tekjur ríkisins muni vaxa mjög á næstu árum og svigrúm skapist til þess að ráðast senn í nýmæli af þessu tagi en hugsanlega líka að fara í einhvers konar skattalækkanir. Við þurfum ekki annað en að skoða kjörtímabil sem er fjögur ár og velta fyrir okkur hver tekjuaukning ríkisins af hagvexti sé. Ef hagvöxtur er áætlaður 3% sem er viðunandi hagvöxtur þýðir það einfaldlega að landsframleiðslan eykst á kjörtímabili um 11%. Það þýðir miðað við upphaf þessa kjörtímabils að landsframleiðslan er 90 milljörðum meiri í lok kjörtímabilsins á ári en í upphafi. Það þýðir að á síðasta ári kjörtímabilsins verða árlegar tekjur ríkisins af þessari auknu veltu líklega 30 milljörðum meiri en í upphafi þess. Maður skyldi ætla að þarna væri borð fyrir báru þrátt fyrir þá óráðsíu og eyðslu sem því miður sést oft hjá þessari ríkisstjórn.

Það situr ekki bara við þetta. Þessi tekjuaukning miðast við 3% hagvöxt. Við sjáum hins vegar að hagvöxtur er snöggtum meiri en þau 3% sem menn voru að gera skóna hér fyrir kosningar. Kosningaloforð ríkisstjórnarflokkanna voru sett fram síðla vetrar í kjölfar þess að komið hafði fram hagvaxtarspá í desember 2002. Sú hagvaxtarspá gerði ráð fyrir 2,65% í hagvöxt. Munurinn á þeirri spá og hinni sem núna er unnið eftir er hins vegar svo mikill að viðbótartekjur ríkissjóðs umfram fyrri spár munu samanlagt á kjörtímabilinu nema 40–60 milljörðum kr. Þá er ég ekki að tala um á ári heldur samanlagt yfir kjörtímabilið.

Þetta þýðir, frú forseti, að það er borð fyrir báru til að gera þrennt, greiða niður skuldir ríkissjóðs, standa straum af nýmælum eins og gjaldfrjálsum leikskóla og líka lækka skatta.

Ef vel er á málum haldið og ef ekki er fylgt þeirri framúrkeyrslustefnu sem einkennt hefur ríkisfjárlög undir stjórn hæstv. fjármálaráðherra Geirs H. Haardes á að vera hægt að lækka skatta. Þá komum við að meginefni þessarar umræðu sem er skattastefnan.

Hér má segja að á síðustu dögum hafi komið fram viðhorf a.m.k. þriggja flokka í þeim efnum. Ég segi þriggja flokka vegna þess að ég hef tilhneigingu til að líta á Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn nánast sem (Gripið fram í.) einn og sama flokk. Hinn ágæti og prýðilega efnilegi þingmaður Birkir Jónsson mótmælir þessu með frammíkalli. Auðvitað er súrt fyrir svo æskubjartan þingmann að hann skuli vera lentur í þeim hremmingum að vera eins konar botnlangi á Sjálfstæðisflokknum. Ég ætla ekki að ræða þau örlög hans frekar hér í þessari ræðu.

Það eru uppi þrír valkostir. Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur mælt fyrir einni stefnu sem felst í því að hækka skatta. Hann telur að það þurfi að hækka skatta og fer þá leið að vilja hækka fjármagnstekjuskatt fyrst og fremst á fyrirtæki. Slík skattahækkun, ef skattahækkun er á annað borð nauðsynleg, er sú sem kemur minnst við og er hagkvæmust einstaklingunum, borgurunum í landinu. Ég er ekki viss um að þeirrar skattahækkunar sé þörf til að standa straum af þeim nýmælum sem hv. þm. var að tala um.

Í öðru lagi er það síðan stefna ríkisstjórnarinnar. Í hverju felst hún? Jú, hún felst í því að lækka tekjuskattsprósentuna um 1%. Það felur í sér að þeir sem hafa mest fá mest í sinn vasa. Þeir sem hafa minnst fá minnst í sinn vasa. Það eru dæmi um þá sem hafa svo lítið að þeir verða að lifa af bótum almannatryggingakerfisins og geta þó vart dregið fram lífið. Þeir fá ekki neitt.

Sú stefna sem ríkisstjórnin hefur lagt fram um skattamál í fjárlagafrumvarpinu, sem er sennilega ósanngjarnasta fjárlagafrumvarp sem hér hefur lengi verið lagt fram, felur það í sér að sá sem fær 100 þús. kr. í tekjur á mánuði fær sem svarar tæplega tveimur bíómiðum í skattalækkun á mánuði. Grunnskólakennarinn sem er að berjast í verkfalli fær í skattalækkun á mánuði sem svarar tæplega bleyjupakka. Ofurforstjórinn, maður eins og Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Landssímans, ríkisfyrirtækisins, maður sem er með fast í 2 millj. í tekjur á mánuði, fær sem svarar í skattalækkun frá ríkisstjórninni sólarlandaferð í hverjum mánuði. Þetta er ójöfnuður.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur sýnt fram á það með tölum hér úr þessum ræðustól að sá fjórðungur sem hefur hæstu launin í samfélaginu í dag fær u.þ.b. helming í sinn vasa af öllum þeim upphæðum sem renna til skattalækkunar. Með öðrum orðum er ríkisstjórnin að verðlauna hálaunamenn — fyrir stuðning sinn væntanlega. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur fallist á það í umræðum við þingmenn Samfylkingarinnar að til séu leiðir sem hafa í för með sér miklu meiri jöfnuð.

Svo er leið Samfylkingarinnar, það er þriðja leiðin. Sú leið felst í því að lækka matarskattinn. Sá þingmaður getur vart verið í þessum sölum sem er á móti því að lækka matarskattinn, ekki nema þeir sem eru keyrðir undir vilja flokksforustu sem af einhverjum undarlegum og óskiljanlegum ástæðum er á móti því að lækka matarskattinn. Ég á hér auðvitað við hæstv. forsætisráðherra, formann Framsóknarflokksins, sem er á móti því að lækka matarskattinn. Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn í þessum sölum sem er á móti því að lækka matarskattinn.

Samfylkingin hefur lagt fram þá stefnu í skattamálum að það sé höfuðatriði að lækka virðisaukaskatt úr 14% í 7% á því sem skilgreina má sem brýnar nauðþurftir. Það leiðir til þess að allir fá eitthvað í sinn hlut en þeir hlutfallslega mest sem hafa úr minnstu að spila. Hvernig stendur á því, frú forseti? Jú, það er alveg sama hvaða tekjur við höfum, við þurfum öll að kaupa okkur brýnar nauðþurftir eins og mjólk, kjöt, fisk, brauð, ýmiss konar mjölmat, grænmeti, ávexti. Við getum ekki lifað án þess að kaupa þennan varning, þetta eru brýnar nauðþurftir. Því lægri tekjur sem við höfum til ráðstöfunar, því hærra hlutfall af þeim fer til þess að standa straum af þessum nauðþurftum. Þegar verðið á þeim er lækkað kemur það þess vegna hlutfallslega best við þá sem hafa minnst. Þessi sannindi féllst meira að segja hv. þm. Pétur H. Blöndal á í samtali í sjónvarpi við hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur. Hv. þm. er nú flúinn úr salnum undir þessari ræðu þannig að ég get ekki tekið upp talið við hann núna.

Það sem er auðvitað sárgrætilegast í þessu, frú forseti, er staðreyndin að Sjálfstæðisflokkurinn hefur lýst stuðningi við það að lækka matarskattinn, stjórnarandstaðan er reiðubúin til að taka höndum saman til þess að lækka matarskattinn en það er bara einn flokkur sem stendur gegn því að lækka matarskattinn. Það er Framsóknarflokkurinn, það er flokkur forsætisráðherra og það er flokkur hv. þm. Birkis J. Jónssonar sem væntanlega kemur hingað og reynir með einhverjum hætti að bæta úr yfirsjón og syndum formanns síns. En af því að hann er ungur og vaskur á sá hv. þm. að láta samviskuna og hjartað tala. Hann á að fara gegn flokksforustu sinni vegna þess að hann er ærlegur eins og flestir Siglfirðingar. Hann á að koma hingað og styðja Samfylkinguna í því að lækka matarskattinn.