131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Textun.

20. mál
[16:07]

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er í raun til vansa fyrir hið háa Alþingi að svona mál þurfi að koma fyrir þingið í tvígang. Þetta frumvarp ætti að vera löngu lögfest. Það er skammarlegt af þjóð sem telur sig ríka að tryggja ekki öllum þegnum sínum sambærilegt aðgengi að upplýsingasamfélaginu.

Við teljum okkur gjarnan standa mjög framarlega í flestum þáttum er snúa að tækni en þegar við skoðum þessa austurrísku könnun sem vísað er til í frumvarpinu má sjá að við stöndum mjög höllum fæti. Þessi mál hafa of oft komið til umræðu á hinu háa Alþingi án þess að sýnilegur árangur hafi orðið, þrátt fyrir þingsályktunartillögu síðasta vor.

Eins og hv. þm. kom inn á áðan kom fram í áðurnefndri könnun að við stöndum álíka vel og hið fátæka land Albanía. Ég vil eiginlega ekki trúa því að hæstv. menntamálaráðherra vilji hafa málin í þeim farvegi. Ef maður horfir til þess að einungis sé um einn tími á viku af textuðu efni í ríkissjónvarpinu þá er það í raun sorglegt. Við sem heyrum mundum seint sætta okkur við svo lélega þjónustu í upplýsingavæddu samfélagi. Eins og fram hefur komið er þetta hreint og klárt mannréttindamál sem setja þarf í lög.

Hópurinn sem þjónustuna þarf er orðinn stór, um 25 þúsund eins og fram hefur komið. Vert er að hafa í huga að það er annar hópur sem fer ört stækkandi, þ.e. aldraðir, sem gera má ráð fyrir að komi til með að nýta sér textaða þjónustu í auknum mæli.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir fimm ára aðlögunartíma og lagt til að stofnaður verði textasjóður sem styrki aðila til að koma sér upp tækjabúnaði og styðji við innleiðingu nýrrar tækni sem til þarf. Mér þykir mikilvægt að einblína ekki einungis á ríkissjónvarpið heldur skoða málið í víðu samhengi og gera sömu kröfu til allra þeirra sem sjónvarpa innlendu efni. Það er nefnilega ekki okkar sem heyrandi erum að ákveða á hvaða stöð heyrnarskertir og heyrnarlausir skuli horfa. Við viljum öll hafa valkosti en hinn hópurinn, þ.e. heyrnarskertir og heyrnarlausir, eiga að sjálfsögðu að hafa þá líka.

Ég tek undir með hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni að lestrargeta verður betri þegar þeir sem búa við þann vanda að vera heyrnarskertir eða heyrnarlausir hafa, frá því að þeir byrja að horfa á sjónvarp, fyrir framan sig textað íslenskt efni. Það kemur nefnilega fram strax í skóla hjá þeim sem eru heyrnarskertir að þeim gengur hægar í námi ef þeir hafa ekki notið sömu þjónustu og við heyrandi og þeir eru tilbúnari til að sinna sínu námi ef þeir fá þessa þjónustu.

Ég tek að sjálfsögðu undir það með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að allir flokkar sjái sóma sinn í því að styðja slíkt mannréttinda- og jafnréttismál sem þetta er.

Það kom fram á ráðstefnu Öryrkjabandalags Íslands að aðgengi að upplýsingasamfélaginu væri almennt mjög skammt á veg komið, hvort heldur sem er í textuðu efni, útgefnu námsefni eða öðru sem þessi hópur þarf á að halda. Við sem íslensk og rík þjóð stöndum okkur því ekki vel í þessum málum.

Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að fimm ára aðlögunartími verði gefinn til að skila verkinu með sóma og að allt íslenskt efni verði orðið textað. Ekki er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að lögin nái nema til þeirra sem framleiða, útvarpa eða dreifa efni í atvinnuskyni. Það hefur sýnt sig að kostnaðurinn fer minnkandi um leið og samkeppni á sér stað. Því er mikilvægt, eins og áður segir, að gera sömu kröfur til allra sem sýna innlent efni.

Mjög mikilvægt er að það verði skýrt, við umfjöllun og vinnu fjárlaga, að fjárveitingar verði til frambúðar en ekki bara í eitt ár í senn. Það er lágmarkskrafa að heyrnarlausir og heyrnarskertir eigi sömu möguleika til fræðslu og afþreyingar og hinir heyrandi. Ég vona að hæstv. menntamálaráðherra beiti sér fyrir því á þessu þingi að hinum stóra hópi heyrnarlausra og heyrnarskertra verði sinnt með sóma og þetta mikilvæga frumvarp nái fram að ganga.