131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Eyðing minka og refa.

97. mál
[15:17]

Drífa Hjartardóttir (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir að taka upp þetta mál í þingsölum og tek undir með henni þar sem ég á sæti bæði sem formaður landbúnaðarnefndar og í fjárlaganefnd, að sveitarstjórnir landsins hafa miklar áhyggjur af þessum málum og þau þarf að vinna á annan hátt að mínu mati.

Það kom fram t.d. hjá sveitarstjóranum í Mývatnssveit að jafnmikill kostnaður færi í eyðingu refa og minka þar og að reka leikskóla, og það er ansi alvarlegt mál.

Það hefur líka komið fram að árið 2003 voru veiddir tæplega 5.000 refir á landinu og rúmlega 7.300 minkar. En betur má ef duga skal og gera þarf verulegt átak hér á landi til að stemma stigu við fjölgun og útbreiðslu þessara óæskilegu dýrategunda og þá tala ég sérstaklega um minkinn. Refurinn á sína helgi, hann er búinn að vera hér alla tíð. Ég tek undir með hv. þm. og fyrirspyrjanda þegar hún ræðir um innflutning dýra, að þar eigum við að hafa varann á.