133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

sameignarfélög.

79. mál
[17:36]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra fyrir ágætis yfirferð yfir frumvarpið og er sammála því að tími hafi verið kominn til að setja heildarlöggjöf um sameignarfélög á Íslandi.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Mun þetta breyta miklu fyrir þau félög sem fyrir eru? Eru einhver nýmæli í þessari heildarlöggjöf? Ég vænti að tínd hafi verið saman ýmis ákvæði sem gilt hafa um sameignarfélög en mun þetta breyta miklu fyrir félög sem nú eru starfandi?

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að það séu 2.447 sameignarfélög starfandi á árinu 2004. Þetta er mikill fjöldi og gott væri ef hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra gæti upplýst okkur um hver eru helstu og stærstu sameignarfélögin í rekstri í dag þannig að við getum nokkuð gert okkur grein fyrir því hverja löggjöfin mun hafa áhrif á.

Mig langar að bera upp nokkrar spurningar varðandi greinar frumvarpsins. Í 24. grein á bls. 6 er kveðið á um samkeppnisbann:

„Félagsmanni er óheimilt að taka þátt í annarri starfsemi sem er í samkeppni við rekstur félagsins nema með skriflegu samþykki allra félagsmanna.“

Spurningin er: Er heimilt að setja svona grein inn í lög, að banna einum manni ef hann er í sameignarfélagi með öðrum, að eiga hlut í öðru félagi, einkahlutafélagi eða félagi sem stundar svipaðan eða sama atvinnurekstur? Er ekki verið að tryggja einokun á einhverjum sviðum?

Í 31. grein segir, með leyfi forseta:

„Félagsaðild erfist ekki við andlát félagsmanns.“

Nú er það yfirleitt þannig að eignarhlutir í félögum, burt séð frá því hvaða nafni þau nefnast, erfist. Ég get ekki tekið undir athugasemdirnar sem ég sé með greininni. Ég hefði talið eðlilegra að félagsaðild erfðist og langar að spyrja hæstv. ráðherra um hver skoðun hans er á því.