133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga.

151. mál
[14:50]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta sem hér er til umræðu, verkaskipting og tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga, er í sjálfu sér stórmál rekstrarlega og gagnvart þeim sem hafa það undir höndum á hverjum tíma. En gagnvart íbúum landsins á það ekki að vera mál því þeir eiga að hafa jafnan rétt til þjónustu, til samfélagslegrar ábyrgðar hvar sem þeir búa og það er það sem skortir á.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hvað líður framkvæmd þess samkomulags sem gert var milli Sambands sveitarfélaga og ríkisins um að ávallt skuli fylgja kostnaðarmat á nýjum lögum, reglugerðum eða stjórnvaldsákvörðunum gagnvart sveitarfélögunum áður en það er samþykkt frá Alþingi eða látið koma til framkvæmda? Þetta er grundvallaratriði, að jöfnuður sé í þeim samskiptum og (Forseti hringir.) ríkisstjórnin á ekki að vera að samþykkja íþyngjandi lög sem sveitarfélögin verða svo að axla kostnað af.